Úrskurður yfirskattanefndar
- Bifreiðahlunnindi
- Skattmat
- Verð bifreiðar
- Álag
Úrskurður nr. 6/2000
Gjaldár 1993, 1994, 1995, 1996 og 1997
Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul., 96. gr., 106. gr. 2. mgr., 116. gr. Skattmat fyrir tekjuárin 1992 til 1996
Í máli þessu vegna ákvörðunar bifreiðahlunninda bar kærandi því m.a. við að bifreið launagreiðanda hefði verið óökuhæf um lengri tíma og að öðru leyti hefðu slíkir ágallar verið á bifreiðinni að ekki hefði verið unnt að hafa af henni þau not sem væru forsenda fyrir að hlunnindi yrðu talin fólgin í umráðum bifreiða. Af þessu tilefni gerði yfirskattanefnd grein fyrir upplýsingum úr álestrarskrá ökumæla m.a. um akstur bifreiðarinnar. Var tekið fram að við blasti að enda þótt bifreiðin væri komin nokkuð til ára sinna hefði henni verið talsvert ekið á þeim tíma sem málið varðaði. Hefðu þannig ekki verið færðar að því sönnur að bifreiðin hefði verið svo úr sér gengin að hún hefði ekki mátt nýtast á venjulegan hátt meðan henni var haldið á skrá. Einnig mótmælti kærandi því að við útreikninga á fjárhæð bifreiðahlunninda hefði skattstjóri miðað kostnaðarverð bifreiðarinnar við aðra undirtegund en rétt væri. Um þetta kom fram í úrskurði yfirskattanefndar að munur á verði undirtegunda yrði ekki talinn svo verulegur að ekki fengi staðist að um sambærilegar bifreiðar væri að ræða. Vegna athugasemda kæranda þess efnis að taka yrði tillit til þess að vegna mikils aksturs bifreiðarinnar hefði kaupverð hennar á sinni tíð verið langt undir gangverði, tók yfirskattanefnd fram að samkvæmt skattmatsreglum ríkisskattstjóra, sem leggja skyldi til grundvallar við ákvörðun bifreiðahlunninda, væri ekki tekið tillit til kaupverðs þeirrar einstöku bifreiðar, sem um væri að ræða í hverju tilfelli, heldur væri miðað við almennan mælikvarða sem byggður væri á verði nýrrar bifreiðar af þeirri tegund sem til afnota hefði verið eða á verði bifreiðar af sambærilegri tegund. Var kröfum kæranda hafnað að öðru leyti en því að álag var fellt niður.
I.
Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 23. júní 1997, óskaði skattstjóri eftir að X ehf. gerði grein fyrir grundvelli fjárhæða bifreiðahlunninda sem starfsmönnum félagsins hefðu verið reiknuð gjaldárin 1996 og 1997. Var þess getið að samkvæmt bifreiðahlunnindamiðum hefði kærandi haft takmörkuð afnot af bifreið félagsins, L, og þyrfti að upplýsa hvaða takmörkunum afnot bifreiðarinnar hefðu verið bundin. Svar barst með bréfi umboðsmanns X ehf., dags. 8. júlí 1997, og sagði þar að kærandi hefði haft takmörkuð umráð nefndrar bifreiðar fyrstu 10 mánuði ársins 1995. Hefði hún starfað hjá félaginu fjóra daga í viku og ekið milli heimilis og vinnustaðar, samtals 16 km á dag. Hefðu því bifreiðahlunnindi hennar vegna aksturs 1995 numið 92.192 kr. Árið 1996 hefði kærandi starfað hjá félaginu frá og með mars til og með desember, þ.e. í 10 mánuði, fjóra daga í viku hverri. Hefði kærandi ekið milli heimilis síns og vinnustaðar, samtals 16 km á dag, og því hefðu bifreiðahlunnindi kæranda vegna ársins 1994 numið 93.430 kr. Sagði í bréfinu að afnot kæranda af ofannefndri bifreið hefðu verið takmörkuð og hefði bifreiðin aðeins verið nýtt til aksturs milli heimilis kæranda og vinnustaðar og jafnframt í þágu rekstrar X ehf. Kærandi væri eiginkona framkvæmdastjóra félagsins og þar af leiðandi hefðu henni ekki verið sett nein sérstök fyrirmæli um notkun bifreiðarinnar.
Með fyrirspurnarbréfi skattstjóra, dags. 14. október 1997, var lagt fyrir kæranda að gera ítarlega grein fyrir einkaafnotum sínum af bifreið vinnuveitanda á árunum 1992, 1993, 1994, 1995 og 1996 og að skýra á hverju fjárhæðir bifreiðahlunninda á skattframtölum áranna 1993, 1994, 1995, 1996 og 1997 væru reistar. Hafði kærandi talið fram 76.800 kr. bifreiðahlunnindi gjaldárið 1993, 85.320 kr. gjaldárið 1994, 85.320 kr. gjaldárið 1995, 92.192 kr. gjaldárið 1996 og 93.430 kr. gjaldárið 1997. Einnig var lagt fyrir kæranda að upplýsa hvort afnotum hennar af bifreiðinni hefðu verið einhver takmörk sett, en takmörkuð afnot teldust einungis akstur milli heimilis og vinnustaðar og tilfallandi og einstök afnot. Yrði að gera grein fyrir þeim reglum sem kynnu að hafa verið settar um slík einkaafnot sem og því hversu þeim hefði verið fylgt eftir og jafnframt yrðu að koma fram rökstuddar upplýsingar um þann akstur í eigin þágu sem um kynni að hafa verið að ræða. Einnig var lagt fyrir kæranda að gera grein fyrir auka- og sérbúnaði þeirrar bifreiðar sem stæði henni til afnota. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 6. nóvember 1997, voru endurteknar upplýsingar um útreikning bifreiðahlunninda kæranda vegna aksturs á árunum 1995 og 1996 sem fram höfðu verið settar í bréfi X ehf. frá 8. júlí og að ofan er lýst. Í bréfinu sagði ennfremur að akstur árin 1992, 1993 og 1994 hefði verið álíka, en ekki væru tiltækar nákvæmar upplýsingar um fjölda vinnustunda síðastgreind ár. Á þeim tíma hefði kærandi ekki getað unnið eins reglulegan vinnutíma sakir þess að hún hefði verið bundin við umönnun sonar síns. Hefði kærandi aðeins haft takmörkuð umráð bifreiðarinnar sem einungis hefði verið nýtt til aksturs milli heimilis og vinnustaðar og jafnframt í þágu rekstrar X ehf. Hefðu einstök og tilfallandi not engin verið „að því undanskyldu þegar mikið lá við vegna drengs þeirra hjóna“. Bifreiðin væri af tegundinni Mercedes Benz 300 D, fernra dyra, árgerð 1982, með sjálfskiptingu en í henni væri enginn sérstakur aukabúnaður.
Með bréfi, dags. 4. mars 1998, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda gjaldáin 1993, 1994, 1995, 1996 og 1997. Hefði kærandi talið fram takmörkuð bifreiðahlunnindi þessi gjaldár. Samkvæmt upplýsingum X ehf. hefði bifreið félagsins, L, verið geymd við heimili kæranda utan vinnutíma á árunum 1995 og 1996. Rakti skattstjóri gang málsins og gerði grein fyrir reglum um hlunnindi launamanna vegna afnota af bifreiðum launagreiðenda og um útreikning þeirra. Tók skattstjóri fram að eigi yrði séð af skattmati ríkisskattstjóra vegna bifreiðahlunninda að ráð væri fyrir því gert að taka mætti tillit til sérstakra ástæðna vegna umönnunar barna en vakti jafnframt athygli kæranda á heimild skattstjóra til lækkunar á tekjuskattsstofni samkvæmt 2. tölul. 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri gat þess að bifreiðin L hefði verið skráð eign félagsins 14. desember 1988. Samkvæmt upplýsingum úr ökutækjaskrá hefðu skráningarnúmer hennar verið lögð inn 7. febrúar 1997 og virtist sem bifreiðin hefði verið í eigu félagsins og með skráningarnúmerum allt árið 1992, allt árið 1993, í 10 mánuði og 22 daga á árinu 1994, í 9 mánuði og 9 daga á árinu 1995 og allt árið 1996. Samkvæmt bifreiðahlunnindamiðum, RSK 2.035, hefði kærandi haft bifreiðina til umráða frá janúar til október 1995 og frá mars til desember 1996. Samkvæmt þessu yrði ekki betur séð en að bifreiðin L hefði verið í umráðum kæranda allt árið 1992, allt árið 1993, í 10 mánuði og 22 daga á árinu 1994, í 7 mánuði og 9 daga á árinu 1995 og í 10 mánuði á árinu 1996. Skattstjóri kvað ekki hafa komið fram í bréfi kæranda frá 6. nóvember 1997 hvernig afnot kæranda að bifreið launagreiðanda síns hefðu verið takmörkuð eða hvernig takmörkunum hefði verið fylgt eftir og ekki hefði verið lagður fram samningur um takmörkuð afnot. Því yrði ekki séð að um hefði verið að ræða virka afnotatakmörkun. Samkvæmt skráningu forráðamanna félaga í þjóðskrá væri maki kæranda forráðamaður X ehf. og samkvæmt tilkynningu félagsins um virðisaukaskattsskylda starfsemi væri hann framkvæmdastjóri þess. Á bifreiðahlunnindamiðum, sem fylgt hefðu launaframtali X ehf. gjaldárin 1996 og 1997, kæmi fram að kærandi væri skrifstofustjóri félagsins. Kvað skattstjóri að með hliðsjón af stöðu kæranda og maka hennar hjá félaginu virtist sem kæranda væri í sjálfsvald sett að ákvarða einkaafnot sín af bifreið þess. Því hefði skattstjóri í hyggju að reikna kæranda hlunnindi miðað við að hún hefði haft full og ótakmörkuð endurgjaldslaus afnot bifreiðarinnar L. Skattstjóri kvaðst hafa í hyggju að miða kostnaðarverð bifreiðarinnar á árunum 1992 og 1993 við Mercedes Benz 300 D diesel fólksbifreið. Sú bifreiðategund væri ekki í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra á árunum 1994, 1995 og 1996. Því hygðist skattstjóri miða við sambærilega bifreið, svo sem boðið væri í skattmati ríkisskattstjóra. Sambærileg bifreið virtist vera Mercedes Benz 300 E diesel. Kostnaðarverð bifreiðar sem lagt yrði til grundvallar við skattmat yrði því 3.381.000 kr. tekjuárið 1992, 4.265.000 kr. tekjuárið 1993, 4.625.000 kr. tekjuárið 1994, 4.930.000 kr. tekjuárið 1995 og 4.750.000 kr. tekjuárið 1996. Samkvæmt framansögðu hygðist skattstjóri hækka bifreiðahlunnindi á skattframtali kæranda árið 1993 um 497.850 kr., um 554.430 kr. á skattframtali ársins 1994, um 535.201 kr. á skattframtali ársins 1995, um 357.074 kr. á skattframtali ársins 1996 og um 500.320 kr. á skattframtali ársins 1997. Ennfremur kvaðst skattstjóri fyrirhuga að bæta 25% álagi við vantalda gjaldstofna, sbr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að koma að skriflegum andmælum og frekari gögnum.
Svarbréf kæranda barst skattstjóra 19. mars 1998. Þar kom fram að vegna umönnunar sonar síns hefði kærandi oft þurft að vera heima á venjulegum vinnutíma og hefði þá bifreiðin L staðið við heimili hennar. Kvaðst kærandi hafa séð um sendiferðir, um tíma bókhald, gerð reikninga og fleira fyrir X ehf., „bæði heima og í X“. Hefði umrædd bifreið verið notuð til sendiferðanna. Slíkar ferðir hefðu tíðum borið svo að að eiginmaður kæranda hefði hringt í hana fyrirvaralítið og beðið hana að fara með sendingu, í banka eða þessháttar. Kærandi tók fram að bifreiðin L hefði ekki verið af árgerð 1982 heldur 1978. Bifreiðin hefði verið mikið ekin er kærandi tók við henni og verið óökuhæf frá 22. nóvember 1994 til mars 1995 er skráningarplötur lágu inni. Síðan hefði bifreiðin verið illa ökuhæf og hefði oft reynst ómögulegt að koma henni í gang í kuldum sakir slits í vélinni. Hefði bifreiðin verið af ódýrustu gerð af Mercedes Benz sem eigi væri sambærileg við gerð 300 E.
Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 29. september 1998, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði hrundið boðuðum breytingum í framkvæmd og endurákvarðað opinber gjöld hennar gjaldárin 1993, 1994, 1995, 1996 og 1997 í samræmi við það. Í úrskurði sínum vísaði skattstjóri til ákvæða 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og að fram kæmi í 1. tölul. A-liðar greinarinnar að hlunnindi teldust til skattskyldra tekna. Í 116. gr. laganna væri kveðið á um að ríkisskattstjóri skyldi gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr. Á þeim grundvelli hefði ríkisskattstjóri sett reglur um skattmat hvert hinna umræddu ára og birt þær í Lögbirtingablaði, þ.m.t. mat hlunninda vegna afnota bifreiða. Í skattmati ríkisskattstjóra hefði verið gerður greinarmunur á því hvort starfsmaður hefði full umráð bifreiðar eða takmörkuð afnot hennar. Í máli kæranda væri óumdeilt að kærandi hefði haft bifreið launagreiðanda síns til endurgjaldslausra umráða utan vinnutíma en ágreiningur stæði um hvort um full umráð hafi verið að ræða eða hvort bifreiðin hefði staðið kæranda til takmarkaðra afnota í skilningi matsreglna ríkisskattstjóra. Þær reglur yrði að skilja svo að afnot bifreiða verði ekki metin til tekna samkvæmt reglum um takmörkuð afnot nema eingöngu væri um að ræða akstur milli heimilis og vinnustaðar, enda væri slíkur akstur í þágu launamanns, svo og tilfallandi afnot. Væru afnot bifreiðar ekki bundin við framangreint yrðu þau metin sem full afnot. Kvað skattstjóri að af bréfi kæranda, sem borist hefði skattstjóra 19. mars 1998, mætti ráða að bifreið launagreiðanda kæranda hefði tíðum staðið við heimili hennar á venjulegum vinnutíma vegna þess að kærandi væri að annast um son sinn. Sakir hagræðis, sem með þessu var búið kæranda, yrðu taldar vissar líkur fyrir því að hún hefði haft einkanot af bifreiðinni. Með vísan til framkominna upplýsinga um stöðu þeirra kæranda og eiginmanns hennar hjá X ehf. kvaðst skattstjóri ekki fá séð að kærandi hefði sætt raunverulegum takmörkunum varðandi afnot sín af bifreið félagsins. Hefði þetta raunar verið staðfest í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 8. júlí 1997, þar sem í niðurlagi segði á þá leið að kærandi og framkvæmdastjóri X ehf. væru hjón og því hefðu kæranda ekki verið sett nein sérstök fyrirmæli varðandi bifreiðaafnot. Upplýsingar um takmarkanir afnota kæranda af bifreið launagreiðanda síns hefði hvorki verið að finna í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 6. nóvember 1997 né í bréfi kæranda sem barst skattstjóra 19. mars 1998 og samningur um takmörkuð bifreiðaafnot hefði ekki verið lagður fram. Hefði því verið lagt í vald kæranda að ákvarða afnot sín af bifreið launagreiðanda síns og yrði að telja að í raun hefðu bifreiðaafnot kæranda eigi verið takmörkunum bundin heldur hefði kærandi haft bifreiðina til fullra umráða í skilningi matsreglna ríkisskattstjóra. Var í úrskurði skattstjóra gerð grein fyrir reglum þessum og útreikningi á hækkun bifreiðahlunninda kæranda og voru niðurstöður samkvæmt því sem gerð hafði verið grein fyrir í boðunarbréfi. Skattstjóri tók fram að hann teldi eigi að kærandi hefði sýnt fram á að bifreiðin L væri annarrar árgerðar en tiltekið væri í ökutækjaskrá. Einnig kvað skattstjóri að bifreiðagerðin Mercedes Benz 300 E diesel virtist vera sú gerð sem næst kæmist gerðinni 300 D sem ekki væri í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra á árunum 1994, 1995 og 1996. Gerð 300 E diesel væri og sú gerð sem kæmist næst gerð 300 D í verði og því væri eigi fallist á þá málsástæðu að þessar gerðir væru ósambærilegar. Skattstjóri taldi ljóst að kærandi hefði vantalið tekjur sínar á þeim gjaldárum sem um væri að tefla með því að telja fram bifreiðahlunnindi miðað við takmörkuð afnot í stað fullra. Að því virtu þættu vera forsendur fyrir beitingu 25% álags á vantalda skattstofna, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá hefði gjaldandi ekki sýnt fram á að atvik væru slík að leitt gæti til niðurfellingar álags, sbr. 3. mgr. nefndrar 106. gr.
II.
Kæra til yfirskattanefndar er dagsett 11. janúar 1999 og barst hún yfirskattanefnd hinn 12. janúar. Í upphafi hennar eru settar fram skýringar á síðbúnum skilum kærunnar og segir þar að um jólaleytið 1998 hafi kærandi haft samband við skattstjórann í Reykjavík til að fá tveggja vikna frest til að skila andsvari sínu vegna úrskurðar skattstjóra frá 29. september 1998. Starfsmaður sá sem undirritað hafi hina kærðu endurákvörðun hafi þá verið fjarverandi vegna veikinda, en ónafngreindur starfsmaður hafi orðið fyrir svörum og hafi hann eigi talið koma að sök að umræddur frestur yrði á skilum andsvars kæranda. Hinn 11. janúar 1999 hafi kærandi náð sambandi við starfsmann þann er undirritað hafi hinn kærða úrskurð sem hafi upplýst að beiðni um viðbótarfrest til skila á kæru til yfirskattanefndar skyldi beina til yfirskattanefndar. Þetta hafi kærandi ekki varast né heldur starfsmaður skattstjórans í Reykjavík sem fyrir svörum varð er kærandi óskaði eftir skilafresti við embættið.
Kærandi fer fram á að hinni kærðu endurákvörðun skattstjóra verði breytt. Röksemdir kæranda til stuðnings þessari kröfu varða ástand bifreiðarinnar L, sem hafi m.a. hamlað notkun hennar, og einnig aðstæður kæranda, sem hafi valdið því að hún hafi eigi notað bifreiðina á tilgreindum tímabilum.
Kærandi kveður bifreiðina L vera af árgerð 1979 og vísar til meðfylgjandi staðfestingar frá Ræsi hf., sem hefur umboð fyrir Mercedes Benz bifreiðar, þar sem fram kemur að bifreið sem beri tilgreint verksmiðjunúmer, sem samkvæmt ökutækjaskrá kemur heim við verksmiðjunúmer L, sé af tegundinni Mercedes Benz 300 D, framleidd árið 1979. Kærandi greinir frá því að bifreiðin hafi reynst afar illa, einkum þar sem aflvél hennar hafi verið slitin. Hafi bifreiðin ekki farið í gang á veturna þegar kalt var og þá hafi hún staðið ónotuð. Árið 1993 hafi bifreiðin verið á verkstæði vegna viðgerðar á gólfi frá 17. maí til 11. júlí, en þegar hafi komið fram að númer bifreiðarinnar hafi legið inni frá 22. nóvember 1994 til 23. mars 1995. Bifreiðin hafi síðan endanlega verið tekin úr umferð 7. febrúar 1997. Þó hafi bifreiðin orðið ógangfær þegar um mitt ár 1996, viðgerð hafi verið fyrirhuguð en ráðagerðir um þau efni hafi ekki gengið eftir og að endingu hafi verið ákveðið að farga henni. Ennfremur tekur kærandi fram að kaupverð bifreiðarinnar hafi á sínum tíma verið langt undir gangverði og þar af leiðandi telur kærandi mjög ósanngjarnt að miða við tegundina 300 E.
Kærandi greinir frá því að margt hafi nú rifjast upp fyrir sér um atvik á þeim tíma sem málið varði sem áður hafi verið fallið í gleymsku, t.d. að hún hafi oft verið veik og frá vinnu og hafi hún þá ekki notað bifreiðina L. Þannig hafi hún verið mikið veik í byrjun ársins 1992 og síðan hafi hún dvalið tvo mánuði hjá foreldrum sínum erlendis. Síðan hafi kærandi veikst á ný í byrjun júlí og verið veik út ágúst og frá vinnu. Árið 1993 hafi kærandi verið í sumarleyfi uppi í sveit í júní og júlí og þann tíma hafi bifreiðin L ekki verið notuð. Í október hafi kærandi farið með yngsta barn sitt til Bandaríkjanna til lækninga. Árin 1994 og 1995 hafi kærandi verið uppi í sveit í sumarleyfi í júní og júlí og þann tíma hafi bifreiðin ekki verið í notkun. Í maí 1996 hafi kærandi gengist undir uppskurð og verið rúmliggjandi í einn mánuð og síðan hafi hún verið í leyfi í júní og júlí og hafi hún ekki notað bifreiðina L þessa þrjá mánuði. Samkvæmt framansögðu hafi kærandi ekki notað bifreiðina L í 208 daga árið 1992, í 147 daga árið 1993, í 101 dag árið 1994, í 139 daga árið 1995 og í 247 daga árið 1996.
III.
Með bréfi, dags. 9. apríl 1999, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Að kærunni verði vísað frá yfirskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin, en lögmæltur 3 mánaða frestur skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 96/1998, rann út þann 29. desember 1998. Kærubréf kæranda barst yfirskattanefnd hins vegar ekki fyrr en 12. janúar 1999. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að honum hafi eigi verið unnt að kæra innan þess frests.“
IV.
Um formhlið málsins:
Kæra í máli þessu barst yfirskattanefnd rúmlega tveimur vikum eftir að liðinn var frestur sá sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 96/1998. Með hliðsjón af skýringum kæranda, sem ekki hafa verið vefengdar, þykir ekki vera tilefni til að vísa kærunni frá vegna þess að hún sé of seint fram komin svo sem ríkisskattstjóri hefur krafist. Er kæran því tekin til efnismeðferðar.
Um efnishlið málsins:
Kröfugerð kæranda verður skilin svo að endurákvörðun skattstjóra frá 29. september 1998 á opinberum gjöldum hennar sé kærð til lækkunar. Ríkisskattstjóri hefur hins vegar ekki gert efniskröfur í málinu.
Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og „fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“. Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi sem launamenn njóta í starfi. Undir skattskyld hlunnindi launamanna samkvæmt ákvæði þessu falla endurgjaldslaus afnot launamanns af bifreið í eigu atvinnurekanda, svonefnd bifreiðahlunnindi. Af eðli hlunninda leiðir að meta verður þau til verðs. Er gert ráð fyrir því í 116. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að ríkisskattstjóri hafi slíkt mat með höndum. Þar segir: „Ríkisskattstjóri skal árlega gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr., og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögum þessum.“ Um útgáfu ríkisskattstjóra á matsreglum samkvæmt þessu ákvæði er fjallað m.a. í úrskurði yfirskattanefndar nr. 664/1997, sem birtur er í Skatta- og tollatíðindum ST 1997:115 (2. hefti), og vísast í þann úrskurð um almenn atriði varðandi grundvöll að ákvörðun bifreiðahlunninda.
Óumdeilt er í máli þessu að kærandi hafði afnot bifreiðarinnar L utan vinnutíma á umræddum árum. Ágreiningurinn stendur hins vegar um það hvort heimild kæranda til notkunar umræddrar bifreiðar geti fallið undir takmörkuð afnot eða hvort telja beri þau afnot til fullra umráða, sbr. orðalag í skattmötum ríkisskattstjóra í staðgreiðslu á umræddum árum, sem hér verða lögð til grundvallar, en matsreglur þessar voru birtar í 7. tölubl. Lögbirtingablaðsins 1992, 2. tölubl. Lögbirtingablaðsins 1993, 3. tölubl. Lögbirtingablaðsins 1994 og með auglýsingum nr. 1/1995 og 22/1996 í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. og lið 2.2.1. í almennu skattmati tekjuárið 1994 (framtalsárið 1995), sbr. auglýsingu nr. 2/1995, er birt var í B-deild Stjórnartíðinda og lið 2.2.2. í almennu skattmati tekjuárið 1996 (framtalsárið 1997), sbr. auglýsingu nr. 16/1997, er birt var í B-deild Stjórnartíðinda. Skilja verður skattmatsreglur ríkisskattstjóra þannig að bifreiðaafnot skuli metin til tekna eftir reglum um takmörkuð afnot ef eingöngu er um að ræða akstur milli heimilis og vinnustaðar, svo og önnur tilfallandi og einstök afnot, en til fullra umráða ef afnotin eru ekki bundin við framangreint.
Fram er komið að kærandi gegndi starfi sem skrifstofustjóri X ehf. og að eiginmaður hennar var framkvæmdastjóri félagsins. Við þessar aðstæður þykir verða að gera nokkuð ríkar kröfur til þess að kærandi leiði í ljós með gögnum, t.d. varðandi nýtingu bifreiðar í þágu rekstrar, eða sýni skýrlega fram á með öðrum hætti að hún hafi ekki þau umráð yfir bifreið að þau verði metin henni til skattskyldra tekna eftir reglum um bifreiðahlunnindi miðað við full umráð. Þegar það er virt sem komið er fram af hálfu kæranda um þetta atriði, sem ekki hefur verið skýrt nánar í kæru til yfirskattanefndar, þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að hún hafi verið bundin ákveðnum takmörkunum varðandi afnot af umræddri bifreið utan vinnutíma. Í þessu sambandi athugist að samkvæmt ákvæðum fyrrgreindra skattmatsreglna ríkisskattstjóra skulu gögn um takmörkuð afnot vera greinilega færð og vera aðgengileg skattyfirvöldum hvort sem er í bókhaldi launagreiðanda eða hjá launamanni. Að því er varðar fjarvistir vegna veikinda, orlofs o.þ.h. skal tekið fram að miða verður við að kærandi hafi eftir sem áður haft umráð yfir viðkomandi bifreið. Að þessu virtu verður að telja að kærandi hafi haft bifreið launagreiðanda síns til fullra umráða í skilningi framangreindra skattmatsreglna ríkisskattstjóra þannig að ákveða beri hlunnindin eftir þeim reglum. Niðurstaða í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. júní 1999 í málinu nr. E-3852/1998 (Magnús Hreggviðsson gegn íslenska ríkinu) þykir vera þessari niðurstöðu til styrktar, en í dómi þessum var stefndi, íslenska ríkið, sýknað af kröfu stefnanda m.a. um að bifreiðahlunnindi yrðu ákvörðuð miðað við að um takmörkuð afnot hafi verið að ræða í stað fullra umráða. Í dóminum er m.a. tekið fram að með skattlagningu bifreiðahlunninda launamanns, sem nýtur ótakmarkaðra afnota af bifreið, sé verið að skattleggja umráðin sem slík og skipti ekki máli í því sambandi hversu mikið launþeginn nýtir sér umráðaréttinn.
Röksemdir kæranda sem varða ástand bifreiðarinnar L verður að skilja svo að kærandi telji að sakir ágalla bifreiðarinnar hafi eigi verið unnt að hafa af henni þau not sem eru forsenda fyrir að hlunnindi verði talin fólgin í umráðum bifreiða. Hafði kærandi getið þess í bréfi sínu til skattstjóra, dags. 19. mars 1998, að bifreiðin L hafi ekki verið af árgerð 1982 heldur 1978, hún hafi verið mikið ekin er kærandi tók við henni og verið óökuhæf frá 22. nóvember 1994 til mars 1995 er skráningarplötur lágu inni. Síðan hafi bifreiðin verið illa ökuhæf og oft hafi reynst ómögulegt að koma henni í gang í kuldum sakir slits í vélinni. Staðhæfingar um allt að tveggja mánaða stöðu L á verkstæði á árinu 1993 og um að bifreiðin hafi orðið ógangfær á miðju árinu 1996 komu fyrst fram í kæru til yfirskattanefndar. Hafa þær eigi verið studdar gögnum. Í álestrarskrá ökumæla er hins vegar m.a. eftirfarandi upplýsingar að finna: Disel-bifreiðin L búin ökumæli sem taldi beint ekna kílómetra og var þungaskattur greiddur samkvæmt honum. Hinn 13. febrúar 1992 sýndi ökumælir L stöðuna 33.784. Hinn 10. mars 1993 var staða mælisins 53.536, og 14. september sama ár var staðan 61.967. Hinn 24. janúar 1994 stóð ökumælirinn í 68.051, hann sýndi 80.695 6. september 1995, 84.234 9. febrúar 1996, 87.700 10. júní 1996, 93.009 10. október 1996 og að lokum 97.387 hinn 4. mars 1997. Hinn 22. nóvember 1994 voru númeraplötur klipptar af bifreiðinni L vegna gjalda en 23. mars 1995 voru númeraplöturnar settar á bifreiðina á ný. Hinn 7. febrúar 1997 voru síðan númeraplöturnar lagðar inn af eiganda. Í ljósi þessa verður eigi byggt á framangreindum staðhæfingum kæranda. Blasir við að enda þótt bifreiðin væri af árgerð 1979 og því komin nokkuð til ára sinna hefur henni verið talsvert ekið á þeim tíma sem mál þetta varðar. Hafa þannig ekki verið færðar að því sönnur að L hafi verið svo úr sér gengin að hún hafi eigi mátt nýtast á venjulegan hátt meðan henni var haldið á skrá. Skal þess getið að sakir fyrirliggjandi upplýsinga í ökutækjaskrá var ekki tilefni til að skattstjóri fengist um athugasemdir varðandi ástand L sem kærandi setti fram í bréfi sínu frá 19. mars 1998. Eru samkvæmt ofansögðu eigi forsendur til breytinga á hinum kærða úrskurði á þeim grundvelli að eiginleikar bifreiðarinnar hafi skert hlunnindi af umráðum hennar.
Kærandi hefur mótmælt því að við útreikninga á hlunnindum af afnotum L á árunum 1994, 1995 of 1996 hafi skattstjóri miðað kostnaðarverð bifreiðarinnar við kostnaðarverð Mercedes Benz- bifreiðar af undirtegundinni 300 E disel. Í bréfi sínu til skattstjóra, dags. 19. mars 1998, kveður kærandi L hafa verið af ódýrustu undirtegund Mercedes Benz sem ekki sé sambærileg við undirtegundina 300 E. Síðastgreinda staðhæfingu hefur kærandi þó eigi skýrt frekar. Í forsendum hins kærða úrskurðar er vikið að þessari málsástæðu og henni hafnað með þeim orðum að Mercedes Benz 300 E disel sé sú bifreið sem komist næst Mercedes Bens 300 D í verði og virðist sambærileg. Kemur fram í úrskurðinum að kostnaðarverð bifreiðar af fyrrnefndu tegundinni, sem við var miðað vegna gjaldársins 1995, hafi verið 4.625.000 kr. en kostnaðarverð bifreiðar af hinni síðarnefndu tegund, sem við var miðað vegna gjaldársins 1994, hafi verið 4.265.000 kr. Sá munur sem hér er á verður ekki talinn svo verulegur að eigi fái staðist að um sambærilegar bifreiðar sé að ræða, enda hefur kærandi eigi fært fram rök að máli sínu hér að lútandi. Verður hinn kærði úrskurður því ekki talinn annmörkum haldinn hvað þetta atriði varðar. Í kæru til yfirskattanefndar hefur kærandi mótmælt því að kostnaðarverð L sé miðað við undirtegundina 300 E með vísan til þess að sakir þess hve mikið bifreiðin L var ekin hafi kaupverð hennar á sinni tíð verið langt undir gangverði. Vegna þessa skal tekið fram að samkvæmt skattmatsreglum ríkisskattstjóra, sem leggja skal til grundvallar við ákvörðun bifreiðahlunninda launamanna vegna afnota af bifreiðum launagreiðenda sinna, er ekki tekið tillit til kaupverðs þeirrar einstöku bifreiðar, sem um er að ræða í hverju tilfelli, heldur er miðað við almennan mælikvarða sem byggður er á verði nýrrar bifreiðar af þeirri tegund sem til afnota hefur verið eða á verði bifreiðar af sambærilegri tegund.
Með vísan til þess, sem að framan greinir er kröfum kæranda í máli þessu hafnað. Eftir atvikum þykir rétt að fella álag niður.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað. Álag er fellt niður.