Úrskurður yfirskattanefndar

  • Teknategund
  • Efnabætur

Úrskurður nr. 43/2000

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. tölul.  

Kaupandi fasteignar af kæranda hvarf frá kaupunum en greiddi kæranda tiltekna fjárhæð vegna vanefnda sinna. Samkvæmt skýringum kæranda var greiðslunni ætlað að bæta að nokkru þann mismun sem var á umsömdu söluverði og því verði sem eignin hefði síðar verið seld á. Yfirskattanefnd taldi að ekki væru rök til að telja greiðslu þessa hluta af endanlegu söluverði eignarinnar. Yrði að byggja á því að um hefði verið að ræða skattskylda greiðslu efndabóta samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981.

I.

Málavextir eru þeir að í reit 73 í skattframtali kæranda árið 1997 var færð fjárhæðin 300.000 kr. og tekið fram að um miskabætur vegna riftunar kaupsamnings væri að ræða. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 743/1998 var úrskurður skattstjóra, dags. 13. október 1997, ómerktur á þeim grundvelli að skattstjóri hefði ekki gætt réttrar meðferðar við afgreiðslu málsins, þar sem hann hafði tekjufært framangreinda greiðslu, en ekki gætt ákvæða 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi, dags. 9. nóvember 1998, fór skattstjóri fram á að kærandi veitti upplýsingar um framangreinda greiðslu að fjárhæð 300.000 kr. er virtist jafnframt gefin upp á launamiða frá Magnúsi Traustasyni.

Af hálfu kæranda svaraði umboðsmaður hans bréfi skattstjóra með bréfi, dags. 24. nóvember 1998. Í bréfinu kom m.a. fram að kærandi og fyrrverandi eiginkona hans hefðu selt húseign á árinu 1996 fyrir 12.000.000 kr. samkvæmt samþykktu kauptilboði, dags. 23. mars 1996. Tveimur dögum fyrir afhendingu hefði kaupandi tilkynnt fyrirvaralaust að hann vildi falla frá kaupunum. Eftir mikið þref hefði kaupandi samþykkt að greiða seljendum 600.000 kr. vegna vanefnda sinna. Í september 1996 hefði húseignin síðan verið seld á 11.000.000 kr. Líti kærandi svo á að hin umdeilda greiðsla hefði, þegar litið væri heildstætt á málið, verið hluti af söluverði hússins. Þessu til stuðnings væri bent á að þegar tekist hefði að selja húseignina hefði söluverðið numið 11.000.000 kr., en samþykkt kauptilboð sem áður hefði legið fyrir hefði numið 12.000.000 kr., eins og áður hefði komið fram. Greiðslan hefði því verið órjúfanlegur þáttur í „söluferli“ fasteignarinnar. Hefði greiðslan átt að bæta að nokkru leyti þann mismun sem verið hefði á hinu upphaflega samþykkta kauptilboði og endanlegu söluverði eignarinnar.

Með bréfi, dags. 29. desember 1998, tilkynnti skattstjóri kæranda að fyrirhugað væri að færa kæranda umrædda greiðslu að fjárhæð 300.000 kr. til tekna í skattframtali ársins 1997, enda væri um að ræða skattskyldar skaðabætur vegna fjárhagslegs tjóns samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Var kæranda veittur 15 daga frestur til andmæla.

Með bréfi, dags. 12. janúar 1999, bárust athugasemdir umboðsmanns kæranda. Í bréfinu ítrekaði umboðsmaðurinn þá skoðun sína að hin umþrætta greiðsla hefði verið hluti af „söluferli“ fasteignarinnar og að hún yrði ekki skilin þar frá. Af þeim sökum væri ekki um skaðabætur að ræða sem teldust skattskyldar tekjur.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 1. febrúar 1999, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd. Varðandi rökstuðning vísaði skattstjóri í bréf sitt, dags. 29. desember 1998. Þá taldi skattstjóri að í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 12. janúar 1999, hefðu ekki komið fram upplýsingar eða rökstuðningur, sem ekki hefðu þegar komið fram.

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur úrskurði skattstjóra um endurákvörðun verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 17. apríl 1999. Í kærunni rekur umboðsmaðurinn málavexti og vísar til fyrri rökstuðnings síns. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði. Ennfremur kemur fram sú ósk að kæranda verði gefinn kostur á að gera athugasemdir við kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu.

Með bréfi, dags. 24. september 1999, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda er hér um að ræða skaðabætur vegna fjárhagslegs tjóns en slíkar bætur eru skattskyldar tekjur skv. 2. tölul. A liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 28. september 1999, var skorað á kæranda, í samræmi við ósk umboðsmanns hans, að leggja fram gögn til skýringar og tjá sig um þau atriði í kröfugerð ríkisskattstjóra sem hann teldi ástæðu til. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 15. október 1999, voru fyrri kröfur og röksemdir ítrekaðar. Auk þess benti umboðsmaðurinn á 2. mgr. 10. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, kröfu kæranda til stuðnings.

III.

Samkvæmt upphafsákvæði 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, teljast til skattskyldra tekna, með þeim undantekningum og takmörkunum er greinir í lögunum, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru. Í dæmaskyni um skattskyldar tekjur eru m.a. í 2. tölul. A-liðar sömu lagagreinar tilgreindar tryggingabætur, meðlög og styrkir svo og skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar aðrar skaðabætur og vátryggingabætur, sbr. þó 2. tölul. 28. gr. laganna. Í nefndum 2. tölul. 28. gr. er m.a. kveðið á um að til skattskyldra tekna teljist ekki eignaauki sem verður vegna greiðslu líftryggingarfjár, dánarbóta, miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku, enda séu bætur þessar ákveðnar í einu lagi til greiðslu.

Óumdeilt er að umrædd bótagreiðsla er tilkomin vegna vanefnda upphaflegs kaupanda á húseign kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans á árinu 1996. Samkvæmt skýringum kæranda var greiðslunni ætlað að bæta að nokkru þann mismun sem var á upphaflegu söluverði og endanlegu söluverði skv. síðari gerningi. Verður því að byggja á því að um hafi verið að ræða skattskylda greiðslu efndabóta samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Ekki eru nein rök til að telja greiðslu þessa hluta af endanlegu söluverði eignarinnar. Er kröfu kæranda því hafnað.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breytingu á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir verða að hafna kröfu um málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja