Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 261/1990

Söluskattur 1988

Lög nr. 10/1960 — 12. gr. — 21. gr. 2. mgr. 1. tl. og 6. mgr.  

Söluskattur — Söluskattstímabil — Álag — Álag á söluskatt — Söluskattsálag — Eindagi söluskatts — Söluskattsskil — Söluskattsskyld velta — Ársskil söluskatts — Vítaleysisástæður — Málsmeðferð áfátt — Andmælareglan — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Söluskattsálag, niðurfelling

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði söluskattsskýrslu fyrir árið 1988 þann 15. febrúar 1989. Með tilkynningu, dags. 17. mars 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda, að honum hefði verið ákvarðað álag skv. 1. tl. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum, á söluskattsfjárhæð 319.601 kr. Næmi álagið 20% eða 63.920 kr. Í tilkynningunni var tekið fram, að kærufrestur til skattstjóra væri 10 dagar frá dagsetningu hennar. Af hálfu kæranda var álagsbeitingunni mótmælt í kæru, dags. 25. mars 1989. Kom fram, að kærandi hefði í samráði við skattstjóra haft heimild til söluskattsskila einu sinni á ári, þar sem rekstur hefði verið smávægilegur. Á árinu 1988 hefði orðið talsverð aukning og sölugjald því mun meira en áður. Þetta hefði honum orðið ljóst, þegar greiða hefði átt söluskattinn. Þar sem venjulegur gjalddagi vegna ársskila hefði alltaf verið 15. dagur mánaðar, hefði misskilningur komið upp og hann talið sig eiga að greiða fyrir 15. febrúar 1989 í stað 2. febrúar 1989. Þetta kvaðst kærandi hafa fengið staðfest hjá skattstofunni og jafnframt látið hana vita um þennan misskilning sinn. Fór kærandi fram á niðurfellingu álagsins af þeim ástæðum, að dráttur á skilunum væri algert óviljaverk og af misskilningi sprottinn.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 30. maí 1989, og synjaði kröfu kæranda með svohljóðandi röksemdum:

„Gjaldandi sem er gjaldársgjaldandi, þ.e. með söluskattsskil á desember eindaga sem er nú 2. febrúar 1989, skilar söluskattsskýrslu sem ber greiðslustimpil innheimtumanns með dagsetningunni 15.02.’89 og er heildarvelta kr. 5.792.722 og söluskattsskyld velta kr.1.598.005. Heimild til ársskila hafa þeir einir sem hafa söluskattsskylda veltu minni en kr. 100.000 sbr. 6. gr. laga nr. 1/1988. Við álagningu sölugjalds á gjaldanda vegna ársins 1988 bættist við álag (20%) er tilkynnt var gjaldanda með tilkynningu dags. 17.03.’89, og kærufrestur tilgreindur 10 dagar til skattstjóra frá dagsetningu tilkynningar. Með bréfi dags. 25.03.’89, móttekið hjá skattstjóra þ. 31.03.’89, fer gjaldandi fram á að álag kr. 63.920 verði fellt niður á þeirri forsendu, að vegna breytingar á eindaga sölugjalds hafi komið upp misskilningur er olli því að hann skilaði söluskattsskýrslu þrettán dögum eftir eindaga.

Beiðni gjaldanda ber að synja á þeirri forsendu, að söluskattsskyld velta gjaldanda kr. 1.598.005 er langt yfir þeim mörkum (kr. 100.000) að gjaldanda sé heimilt að gera skil á sölugjaldi sem ársmaður.“

Þessum kæruúrskurði skattstjóra andæfði kærandi í bréfi til skattstjóra, dags. 4. júní 1989, er móttekið var 12. s.m. Bréf þetta framsendi skattstjóri ríkisskattanefnd með bréfi, dags. 29. september 1989, sem kæru til nefndarinnar. Kærandi ítrekar kröfu sína um niðurfellingu álags 63.920 kr. á sölugjald ársins 1988 og ber fyrir sig misskilning þann varðandi eindaga, er fram kom í kæru hans til skattstjóra. Þá gerir hann grein fyrir erfiðum veikindum í fjölskyldu hans, er valdið hafi því að ýmislegt hafi farið úrskeiðis svo sem skattamál. Leggur hann fram læknisvottorð til staðfestingar á þessu. Kærandi gerir grein fyrir auknum umsvifum, en byggir á því að honum nægðu ein söluskattsskil á ári og að hann hefði af misskilningi miðað við rangan eindaga.

Með bréfi, dags. 12. mars 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda: „Að virtum öllum atvikum og með hliðsjón af framkomnum skýringum er fallist á kröfu kæranda.“

Skattstjóri virðist hafa byggt álagsbeitingu sína á þeirri forsendu, að kærandi hafi eigi uppfyllt lagaskilyrði til söluskattsskila einu sinni á ári vegna stóraukinnar söluskattsskyldrar veltu. Eigi krafði hann þó kæranda um söluskattsskýrslu fyrir mánaðarleg söluskattsstímabil. Kærandi telur hins vegar að álagsbeitingin skv. 1. tl. 2. mgr. 21. gr. söluskattslaga hafi verið vegna dráttar á ársskilum fram yfir eindaga. Eigi þykir ástæða til þess að taka sérstaka afstöðu til þessara atriða í máli þessu, þar sem sá annmarki er á ákvörðun skattstjóra, dags. 17. mars 1989, að hún var eigi boðuð kæranda og honum því eigi veitt færi á að koma að athugasemdum sínum og eftir atvikum gögnum, áður en álagsbeitingin var ákveðin. Þegar af þeim sökum og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra er álagið niður fellt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja