Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðagjald
  • Sektarákvörðun ríkisskattstjóra
  • Refsiábyrgð lögaðila

Úrskurður nr. 292/2000

Bifreiðagjald 1998

Lög nr. 3/1987, 18. gr. (brl. nr. 68/1996, 15. gr.)   Lög nr. 19/1940, 19. gr. a, 19. gr. b, 19. gr. c (brl. nr. 140/1998, 1. gr.)   Lög nr. 37/1993, 10. gr., 22. gr.  

Ágreiningsefni máls þessa var sú ákvörðun ríkisskattstjóra að gera kæranda, sem var sameignarfélag, sekt eftir ákvæðum laga um fjáröflun til vegagerðar fyrir það að heildarþyngd ökutækis kæranda reyndist meiri en gjaldþyngd þess. Af hálfu kæranda var því einkum borið við að ekki væru skilyrði til sektarbeitingar þar sem saknæmisskilyrði væru ekki uppfyllt í tilviki félagsins, enda hefði leyfileg heildarþyngd ökutækisins verið meiri en skráð leyfileg gjaldþyngd vegna mistaka opinberra skoðunarmanna. Í úrskurði yfirskattanefndar var bent á að samkvæmt fyrrgreindum lögum gæti lögaðili borið refsiábyrgð án tillits til þess hvort sök yrði sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans. Samkvæmt þessu hefði viðbára kæranda varðandi saknæmisskilyrði ekki þýðingu í málinu. Hins vegar yrði að sýna fram á að refsinæmur og ólögmætur verknaður hefði verið framinn hlutrænt séð. Þá væri sektargerð ríkisskattstjóra stjórnvaldsákvörðun og því gildu reglur stjórnsýslulaga um ákvörðun hans. Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu varðandi saknæmisskilyrði yrði að telja að það gæti haft þýðingu við mat á refsiskilyrðum að öðru leyti hvaða orsakir hefðu verið fyrir umræddu misræmi varðandi þyngd ökutækisins. Ríkisskattstjóri hefði ekki leitað neinna skýringa á þessu. Samkvæmt þessu hefði ríkisskattstjóri ekki séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst að þessu leyti, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af þessu leiddi jafnframt að rökstuðningur fyrir sektarákvörðuninni væri ekki svo traustur sem skyldi, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Var hin kærða sektarákvörðun felld úr gildi vegna ágalla á málsmeðferð ríkisskattstjóra.

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 1. febrúar 1999, er mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 28. desember 1998, að gera kæranda sekt að fjárhæð 20.000 kr. samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, á þeim grundvelli að heildarþyngd ökutækis kæranda, X, sem er af tegundinni Link Belt, árgerð 1988, og í ökutækisflokknum vörubifreið II, hefði reynst meiri en gjaldþyngd þess.

II.

Málavextir eru þeir að samkvæmt skýrslu frá eftirlitsmönnum þungaskatts, dags. 9. september 1998, sbr. fylgiskjal með skýrslunni yfir gjaldþyngd, kom fram að ofangreint ökutæki kæranda, X, er væri að gjaldþyngd 29.892 kg, hefði við vigtun reynst 35.600 kg, þannig að umfram gjaldþyngd hefðu verið 5.708 kg.

Í framhaldi af ofangreindri skýrslu sendi ríkisskattstjóri kæranda bréf, dags. 19. nóvember 1998, með yfirskriftinni „Boðun v/skýrslu um brot á reglum um þungaskatt“. Í bréfinu var vísað til fyrrgreindrar skýrslu eftirlitsmanna þar sem fram kæmi að heildarþyngd ökutækisins hefði verið meiri en skráð leyfileg gjaldþyngd þess í ökutækjaskrá. Skráð leyfileg gjaldþyngd ökutækisins væri 29.892 kg en við vigtun hefði ökutækið mælst 35.600 kg. Kvaðst ríkisskattstjóri í ljósi þessa áforma að beita kæranda sektum samkvæmt heimild í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með áorðnum breytingum. Gerði ríkisskattstjóri nánari grein fyrir sektarheimild þessari og tók jafnframt fram að á grundvelli ákvæðisins hefði embættið sett sér verklagsreglur um beitingu sekta í þeim tilvikum þegar heildarþyngd ökutækis með farmi væri meiri en gjaldþyngd þess. Væru verklagsreglur þessar svohljóðandi:

„Ef ökutæki er stöðvað með heildarþyngd yfir gjaldþyngd skal ekki beita sektum ef heildarþyngd ökutækis er innan gjaldþyngdar sem greitt er fyrir, en hækkar um kr. 10.000 fyrir hvern „gjaldþyngdarflokk“ sem er umfram skráða gjaldþyngd. Við ítrekað brot hækkar sektarfjárhæðin um kr. 5.000 (þó að hámarki kr. 50.000)“.

Með bréfinu boðaði ríkisskattstjóri kæranda beitingu sektar að fjárhæð 50.000 kr. og veitti fyrirtækinu jafnframt 15 daga frest frá dagsetningu bréfsins til að koma að athugasemdum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi, dags. 26. nóvember 1998, voru af hálfu kæranda gerðar athugasemdir við hina boðuðu sektarákvörðun ríkisskattstjóra og farið fram á að málið yrði fellt niður. Í bréfinu voru ákvæði 18. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með áorðnum breytingum, tekin óbreytt upp. Tekið var fram að augljóst væri, þegar ákvæði greinarinnar væru skoðuð í heild, að þeim væri stefnt gegn brotum á ákvæðum laga um þungaskatt. Í tilviki kæranda væri ekki um neitt slíkt brot að ræða. Þungaskattur fyrir afnot kranans X væri í hæsta gjaldflokki eða 32,06 kr. á hvern kílómetra. Kærandi hefði því greitt þungaskatt fyrir ökutæki yfir 31 tonn að þyngd en ekki fyrir ökutæki er væri 29.892 kg. Nauðsynlegt væri að benda á að skráning eigin þyngdar í skoðunarvottorði Bifreiðaskoðunar væri rétt. Eigin þyngd kranans væri 29.892 kg. Samkvæmt þeim reglum, sem bifreiðaskoðun færi eftir, væri eigin þyngd nýrra ökutækja ávallt vegin án þess að búið væri að setja olíur, eldsneyti o.fl. á þau. Lögum samkvæmt væru bifreiðar því ekki í ökuhæfu ástandi þegar eigin þyngd þeirra væri vegin. Svo virtist sem við ákvörðun þungaskatts væri tekið mið af leyfðri heildarþyngd en ekki leyfilegri eigin þyngd. Eins og sjá mætti á skoðunarvottorði hefðu skoðunarmenn hins vegar gert þau mistök að skrá leyfilega heildarþyngd kranans 29.892 kg. Á sama skoðunarvottorði kæmi það fram að leyfilegur heildarþungi á öxul kranans væri u.þ.b. 10 tonn á öxul eða samanlagt yfir 40 tonn. Ekki væri hægt að fallast á að kærandi bæri ábyrgð á skráningu starfsmanna Bifreiðaskoðunar hf. á skoðunarvottorði ökutækis, sér í lagi þegar réttilega væri staðið að öllum skattskilum.

Í bréfi kæranda var tekið fram að eins og fram kæmi í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987 væri það óundanþægt skilyrði fyrir beitingu viðurlaga samkvæmt greininni að eigandi eða umráðamaður ökutækis bryti af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gegn ákvæðum laganna svo sem með því að heildarþyngd ökutækis með farmi hafi verið meiri en gjaldþyngd þess. Mistök starfsmanna Bifreiðaskoðunar hf. við skráningu í skoðunarvottorð hefði engin áhrif á skattgreiðslur. Ekki væri um neinn skattundandrátt að ræða. Þá væri einnig ljóst að skilyrði skorti fyrir sektarákvörðun samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987 þar sem ekki væri unnt að fallast á það að kærandi bæri vegna ásetnings eða stórkostlegs gáleysis ábyrgð á því að heildarþyngd ökutækis hefði verið meiri en gjaldþyngd þess. Þar væri eingöngu um að ræða mistök starfsmanna Bifreiðaskoðunar Íslands hf.

Með bréfi, dags. 28. desember 1998, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda að honum hefði verið gerð sekt að fjárhæð 20.000 kr. samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, þar sem ökutækið X hefði mælst með meiri heildarþyngd en skráð leyfileg gjaldþyngd þess væri í ökutækjaskrá. Í ákvörðun sinni gerði ríkisskattstjóri grein fyrir verklagsreglum embættisins um beitingu sekta í þeim tilvikum þegar heildarþyngd ökutækis með farmi er meiri en gjaldþyngd þess, sbr. það sem að framan greinir um það efni. Þá rakti ríkisskattstjóri skýrslu eftirlitsmanna vegagerðarinnar og gang málsins í framhaldi af henni. Í tilefni af athugasemdum kæranda varðandi það að ekki hefði verið um þungaskattsbrot að ræða þar sem greitt hefði verið í hæsta gjaldflokki eða 32,06 kr. á kílómetra tók ríkisskattstjóri fram að vegna ökutækisins væri að sönnu greiddar 32,06 kr. fyrir gjaldþyngd 29 til 29,9 tonn. Næsti flokkur fyrir ofan væri 33,32 fyrir næsta tonn og að lokum 34,58 kr. fyrir 31 tonn og yfir. Því vantaði tvo gjaldflokka á að greitt væri fyrir þyngd ökutækisins. Í tilefni af staðhæfingum kæranda um reglur bifreiðaskoðunar varðandi eigin þyngd tók ríkisskattstjóri fram eftirfarandi:

„Samkvæmt upplýsingum fyrrum yfirmanna Bifreiðaskoðunar nú Skráningarstofunnar hf., hefur skráning eigin þyngdar bifreiða aldrei verið hagað á þann hátt sem þér lýsið hér að framan enda segir svo fyrir í lögum nr. 50/1987 með síðari breytingum, í 2. gr. „Skilgreiningum“, um eigin þyngd: „Þyngd ökutækis, sem er tilbúið til notkunar, að meðtöldum búnaði, sem því fylgir að jafnaði, eldsneyti, smurolíu, kælivatni, varahjóli, verkfærum o.þ.h.“

Í ákvörðun sinni tók ríkisskattstjóri fram að í athugasemdum kæranda væri ekki að finna skýringar eða gögn sem gæfu tilefni til að falla frá sektarbeitingu. Hins vegar hefði boðuð sektarfjárhæð verið ofreiknuð í boðunarbréfi vegna hugbúnaðarvillu, þar sem ekki hefði verið tekið tillit til hámarks.

III.

Af hálfu kæranda hefur úrskurði ríkisskattstjóra um sektarákvörðun, dags. 28. desember 1998, verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 1. febrúar 1999. Er þess krafist að sektarákvörðun ríkisskattstjóra verði felld niður, enda skorti skilyrði fyrir beitingu sektar með því að kærandi beri ekki vegna ásetnings eða stórkostlegs gáleysis ábyrgð á því að heildarþyngd umrædds ökutækis hafi verið meiri en skráð gjaldþyngd þess.

Í kærunni eru tildrög og gangur málsins rakinn. Bent er á það að í bréfi kæranda, dags. 26. nóvember 1998, hafi því verið borið við að huglæg refsiskilyrði hefði skort fyrir sektarbeitingu. Í úrskurði sínum víki ríkisskattstjóri hins vegar ekki einu orði að þessum andmælum. Þvert á móti virðist ríkisskattstjóri ganga út frá því sem vísu að um hlutlæga ábyrgð sé að ræða eða öfuga sönnunarbyrði. Vísað er til orðalags 1. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, og greinargerðar með g-lið 15. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 68/1996, er breyttu lögum nr. 3/1987, en stafliður þessi varð 18. gr. laganna. Í greinargerðinni segi svo: „Í g-lið (sem verður 18. gr. laganna) er að finna heimildir til að beita refsingum vegna brota gegn ákvæðum frumvarpsins. Fram kemur að skilyrði refsiábyrðar er að eigandi eða umráðamaður hafi gerst brotlegur við ákvæði frumvarpsins af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Um skilgreiningu á hugtökunum ásetningur og gáleysi vísast til refsiréttar.“ Eins og fram komi í 1. mgr. 18. gr. sé það óundanþægt skilyrði viðurlaga að eigandi eða umráðamaður ökutækis brjóti af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gegn ákvæðum laganna svo sem með því að heildarþyngd ökutækis með farmi hafi verið meiri en gjaldþyngd þess. Athyglisvert sé hins vegar að í úrskurði sínum leggi ríkisskattstjóri hvorki fram gögn né rökstuðning sem leiði hinar minnstu líkur að ásetningi eða stórfelldu gáleysi forsvarsmanns kæranda. Þessi vinnubrögð séu tíðkuð, enda þótt skýrt komi fram í lögskýringargögnum að uppfylla þurfi strangar sönnunarkröfur refsiréttar sem eðli málsins hvíli á skattyfirvöldum. Þá segir svo í kærunni:

„Það eina sem undirritaður hefur gert í máli þessu er að treysta skráningu manna sem hafa sérstakt starfsleyfi ríkisins til þess að skoða ökutæki og veita þeim skráningu. Eins og fram kemur á vottorðinu hafa starfsmenn skoðunarstöðvarinnar fært í reiti leyfðrar heildarþyngdar og eiginþyngdar sömu töluna, 29.892 kg. Að mati starfsmanns ríkisskattstjóra er þessi skráning skoðunarvottorðs hjá Bifreiðaskoðun Íslands hf. röng. Á hinn bóginn ber á það að líta að á sama vottorði kemur það skýrt fram að leyfð ásþyngd 1., 2., 3., 4. og 5. áss er samtals 50.000 kg. Ekki hefur neinu verið aukið við búnað kranans svo hann hefur ekki þyngst eftir nýskráningu hans. Þá ber einnig á það að líta að undirritaður lét vigta kranann hjá vegaeftirlitinu þar sem þyngd hans var u.þ.b. 35.500 kg. en eins og undirrituðum var alla tíð ljóst hafa skattyfirvöld þær upplýsingar undir höndum. Þessu öllu til viðbótar má geta þess að krananum hafði aðeins verið ekið 30840 km síðastliðin 11 ár samkvæmt ökurita. Þungaskattur er því óverulegur þáttur í rekstri vinnuvélarinnar.

Undirritaður hefur greitt þungaskatt í hæsta gjaldflokki og því ekki haft nokkra hagsmuni af rangri skráningu Bifreiðaskráningar Íslands hf. Það er því ljóst að skilyrði sektarákvörðunar skortir samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga um fjáröflun til vegagerðar þar sem ekki er hægt að fallast á það að undirritaður beri vegna ásetnings eða stórkostlegs gáleysis ábyrgð á því að heildarþyngd ökutækis hafi verið meiri en skráð gjaldþyngd þess.“

IV.

Með bréfi, dags. 17. desember 1999, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að sektarúrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans og þess sem fram kemur í umsögn þessari.

A. Í fyrsta lagi mótmælir kærandi álagningu sektarinnar á þeim forsendum að huglæg skilyrði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. síðari breytingar, til sektarálagningar skorti.

1) Að kraninn hafi verið í hæsta gjaldflokki þungaskatts því ekki um brot gegn lögum nr. 3/1987 um fjáröflun til vegagerðar, sbr. síðari breytingar að ræða.

Í þessu sambandi vill ríkisskattstjóri ítreka að þungaskattur var greiddur af ökutækinu fyrir gjaldþyngd 29.000 kg til 29.999 kg en þar fyrir ofan eru tveir gjaldflokkar, sbr. 2. mgr. B. liðar 4. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, skv. breytingum sem gerðar voru með a. lið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 68/1996. Er því ljóst að fullyrðing kæranda varðandi skort á ásetningi eða stórkostlegu gáleysi til brota á þungaskattslögum varðandi þetta atriði stenst ekki.

2) Í annan stað segir kærandi að leyfileg heildarþyngd ökutækisins X hafi verið meiri en skráð leyfileg gjaldþyngd (heildarþyngd) vegna mistaka opinberra skoðunarmanna en ekki kæranda.

Rétt er að upphafleg skráning heildarþyngdar var röng vegna mistaka Bifreiðaskoðunar (nú Skráningarstofu hf.). Hins vegar verður að telja eiganda ökutækisins hafi verið kunnugt um að heildarþyngd ökutækisins var meiri en skráning í skráningarskírteini gaf til kynna. Þetta má t.d. sjá af umsóknum kæranda um undanþágur frá leyfðri heildarþyngd en í þeim kemur fram að heildarþyngd ökutækisins hafi verið 35,5 tonn.

Í þessu sambandi vill ríkisskattstjóri einnig benda á 13. gr. reglugerðar nr. 528/1998 um stærð og gerð ökutækja, sem sett er með heimild í 75. og 76. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en þar segir: „Ökutæki má aldrei hlaða þannig að heildarþyngd þess eða ásþungi verði meiri en heimilað er í skráningarskírteini þess.“ Samhljóða ákvæði var í 12. gr. reglugerðar nr. 425/1995 um stærð og gerð ökutækja, sem féll úr gildi við gildistöku reglugerðar nr. 528/1998.

Í úrskurðum yfirskattanefndar nr. 942/1998, 943/1998, 944/1998, 945/1998 og 946/1998, þar sem fjallað er um bilaða ökumæla segir að það að ökumælir gefi rétta mynd af akstri ökutækis sé á ábyrgð eiganda og umráðamanns ökutækis. Ríkisskattstjóri telur að slíkt hið sama gildi um skráningu gjaldþyngdar ökutækis í ökutækjaskrá, þ.e. að eigandi ökutækis beri ábyrgð á að leiðrétta ranga skráningu í ökutækjaskrá. Í þessu sambandi má benda á 2. mgr. 59. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 þar sem segir að eigandi eða umráðamaður beri ábyrgð á að ökutæki sé í lögmæltu ástandi og 3. gr. reglugerðar nr. 78/1997 um skráningu ökutækja en þar segir. „Eigandi ökutækis eða sá sem á vegum eigandans hefur umráð þess, t.d. innflytjandi eða framleiðandi, ber ábyrgð á því að ökutæki sé skráð.“

B. Kærandi heldur því fram að huglæg skilyrði fyrir broti gegn 1. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987 um fjáröflun til vegagerðar, sbr. síðari breytingar, séu ekki fyrir hendi.

Ríkisskattstjóri bendir á að í sektarákvörðuninni er beitt 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987 um fjáröflun til vegagerðar, sbr. síðari breytingar, en ekki 1. mgr. 18. gr. laganna. Ríkisskattstjóri vill taka fram að innan embættisins hefur verið litið svo á að með tilvísun 3. mgr. 18. gr. laganna til 1. mgr. 18. gr. sé átt við upptalningu á brotaflokkum svo sem hún er tilgreind í öðrum til níunda setningarlið málsgreinarinnar. Ásetningur eða stórkostlegt gáleysi séu því ekki skilyrði fyrir beitingu 3. mgr. 18. gr. enda eiga brot af því tagi undir skattrannsóknarstjóra ríkisins, en ekki ríkisskattstjóra, sbr. 2. mgr. 18. gr. laganna.

C. Um þá málsástæðu kæranda að leyfð ásþyngd ökutækisins sé samtals 50.000 kg vill ríkisskattstjóri benda á að samanlögð ásþyngd ökutækis og leyfð heildarþyngd eru tveir ólíkir hlutir. Á hinn bóginn hefði hinn mikli munur þessara þyngda, svo og það að eigin þyngd ökutækisins og heildarþyngd (gjaldþyngd) þess er sú sama, átt að gefa kæranda til kynna að ökutæki hans væri ekki rétt skráð.

Ríkisskattstjóri fer fram á að sektarúrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans og þeirra röksemda sem fram hafa komið í kröfugerð þessari, þar sem framkomin gögn og málsástæður varðandi kæruefnið gefa ekki tilefni til breytinga á niðurstöðu hans.

Ríkisskattstjóri vill biðjast velvirðingar á þeirri óheyrilegu töf sem orðið hefur á að senda inn umsögn þessa en megin ástæðan er mikið annríki og uppsetning nýs tölvukerfis.“

V.

Ágreiningsefni máls þessa er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði, dags. 28. desember 1998, að gera kæranda sekt að fjárhæð 20.000 kr. eftir ákvæðum 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. g-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, um breyting á þeim lögum, fyrir það að heildarþyngd ökutækis kæranda, skráningarnúmer X, reyndist meiri en gjaldþyngd þess við athugun hinn 9. september 1998, sbr. skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar um athugun þessa, sem dagsett er þann sama dag. Af hálfu kæranda er því út af fyrir sig ekki andmælt að heildarþyngd ökutækis hans hafi við umrætt eftirlit reynst vera umfram skráða gjaldþyngd sem kílómetragjald þungaskatts miðast við, sbr. ákvæði B-liðar 4. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með áorðnum breytingum. Kærandi ber því hins vegar einkum við að ekki séu skilyrði til sektarbeitingar þar sem saknæmisskilyrði séu ekki uppfyllt í hans tilviki, enda hafi leyfileg heildarþyngd ökutækisins X verið meiri en skráð leyfileg gjaldþyngd vegna mistaka opinberra skoðunarmanna. Eins og fram komi í ökutækjaskrá hafi skoðunarmenn fært í reiti leyfðrar heildarþyngdar og eiginþyngdar sömu töluna 29.982 kg. Eigin þyngd hafi verið skráð 29.892 kg þegar við nýskráningu og síðari skoðanir í samræmi við upplýsingar framleiðanda. Við vigtun hafi ökutækið hins vegar reynst vera 35.600 kg án þess að nokkru hefði verið aukið við búnað þess.Varðandi saknæmisskilyrði vísar kærandi til þess að samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, sbr. g-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, sé áskilið að brot gegn lögunum hafi verið framin af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Telur hann að sömu saknæmisskilyrði gildi vegna brota samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt B-lið 4. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með áorðnum breytingum, skal þungaskattur af bifreiðum, sem nota annan orkugjafa en bensín og eru 4000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd, greiðast í formi gjalds fyrir hvern ekinn kílómetra samkvæmt ökumæli og koma í stað árlegs þungaskatts samkvæmt A-lið þegar bifreiðar eiga í hlut. Í B-lið greinarinnar eru síðan tilgreindar fjárhæðir kílómetragjalds eftir leyfðri heildarþyngd ökutækis í kg þannig að eftir því sem leyfð heildarþyngd er meiri hækkar fjárhæð kílómetragjaldsins samkvæmt þeim viðmiðunum og fjárhæðum sem tilteknar eru í greininni. Rétt er að geta þess að samkvæmt 4. mgr. B-liðar 4. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með áorðnum breytingum, getur eigandi eða umráðamaður ökutækis, sem eingöngu er notað vegna flutninga þar sem leyfð heildarþyngd nýtist ekki til fulls, fengið gjaldþyngd ökutækis skráða lægri en leyfð heildarþyngd þess er, þó ekki lægri en eigin þyngd ökutækis.

Samkvæmt framansögðu hefur hugtakið leyfð heildarþyngd grundvallarþýðingu varðandi ákvörðun þungaskatts (kílómetragjalds), enda ræðst fjárhæð þess af þeirri þyngd samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði. Gagnstætt því sem kærandi heldur fram höfðu þau atvik, sem í máli þessu greinir, áhrif á fjárhæð þungaskatts hans eins og lýst er í kröfugerð ríkisskattstjóra, dags. 17. desember 1999.

Í 2. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 eru skilgreiningar á eigin þyngd og heildarþyngd ökutækis. Skilgreining á eigin þyngd er svohljóðandi: „Þyngd ökutækis, sem tilbúið er til notkunar, að meðtöldum búnaði, sem því fylgir að jafnaði, eldsneyti, smurolíu, kælivatni, varahjóli, verkfærum o.þ.h.“ Skilgreining á heildarþyngd er svohljóðandi: „Þyngd ökutækis með ökumanni, farþegum, farmi og viðfestum vinnutækjum. Leyfð heildarþyngd ökutækis er sú heildarþyngd, sem leyfð er við skráningu þess.“ Þá er rétt að geta þess í tilefni af málatilbúnaði kæranda að í 2. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er og skilgreining á ásþunga svohljóðandi: „Þungi sem flyst á veg af hjólum á einum ás ökutækis.“ Á grundvelli 75. og 76. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hafa verið settar reglugerðir um stærð og þyngd ökutækja, sbr. reglugerð nr. 425/1995, um stærð og þyngd ökutækja, nú reglugerð nr. 528/1998, um sama efni, er tók gildi 10. september 1998, og leysti hina fyrri reglugerð af hólmi Í 2. gr. reglugerða þessara er m.a. að finna skilgreiningar á leyfðum ásþunga og mestri leyfilegri heildarþyngd. Síðastgreinda hugtakið er skilgreint svo: „Mesta þyngd ökutækis, eða samtengdra ökutækja, með ökumanni, farþegum, farmi og viðfestum vinnutækjum sem leyfð eru í akstri.“ Í III. kafla reglugerðanna eru nánari ákvæði um heildarþyngd og ásþunga ökutækja, þ. á m. er kveðið á um hámark mestu leyfilegrar heildarþyngdar og leyfðs ásþunga, sbr. 12. gr. reglugerðanna og viðauka I og II við þær. Svo er fyrir mælt (13. gr.) að ökutæki megi aldrei hlaða þannig að heildarþyngd þess eða ásþungi verði meiri en heimilað er í skráningarskírteini þess.

Eins og að framan greinir miðast fjárhæð þungaskatts (kílómetragjalds) samkvæmt B-lið 4. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með áorðnum breytingum, við leyfða heildarþyngd ökutækis, og fer kílómetragjaldið stighækkandi eftir því sem leyfð heildarþyngd er hærri allt að 31.000 kg en eftir það mark er kílómetragjaldið hið sama. Framangreind hugtök umferðarlaga og reglugerða um stærð og þyngd ökutækja þjóna markmiðum umferðarlöggjafar, sbr. X. kafla umferðarlaga nr. 50/1987. Þrátt fyrir það þykir bera að byggja á skilgreiningu þessara laga og stjórnvaldsfyrirmæla við túlkun hugtaksins leyfð heildarþyngd í lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með áorðnum breytingum. Tekið skal fram að samkvæmt þeim ákvæðum umferðarlaga, sem hér hafa verið rakin, eiga skilgreiningar kæranda á eigin þyngd ökutækja ekki við rök að styðjast, sbr. hugmyndir kæranda um þetta í bréfi hans til skattstjóra, dags. 26. nóvember 1998.

Í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 19. nóvember 1998, þar sem kæranda var boðuð hin umdeilda sektarbeiting, var einvörðungu vísað til og byggt á umræddri skýrslu eftirlitsmanns Vegagerðarinnar, dags. 9. september 1998, þar sem fram kom að umrætt ökutæki X hefði reynst við vigtun vera 35.600 kg og þannig 5.708 kg umfram gjaldþyngd 29.892 kg. Frekar var ekki um atvik þessi fjallað og ekki kemur fram að ríkisskattstjóri hafi leitað neinna skýringa á þessu misræmi sem þarna kom fram. Kærandi andæfði sektarbeitingunni með bréfi, dags. 26. nóvember 1998, og bar því einkum við að í tilviki hans væru saknæmisskilyrði ekki uppfyllt, enda hefði skráning á leyfðri heildarþyngd ökutækisins verið of lág vegna mistaka skoðunarmanna er hann bæri ekki ábyrgð á. Í þessu sambandi hélt kærandi því fram að saknæmisskilyrði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, sbr. g-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, þ.e. ásetningur eða stórkostlegt gáleysi, giltu um brot samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar. Með úrskurði sínum, dags. 28. desember 1998, hratt ríkisskattstjóri sektarákvörðuninni, sem byggð var á 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, sbr. g-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, í framkvæmd. Ekki eru í úrskurðinum frekar en í boðunarbréfinu nein frekari umfjöllun eða skýringar á því misræmi á þyngd ökutækisins sem í málinu greinir. Eingöngu er svarað athugasemdum kæranda hvað varðar skilgreiningu á eigin þyngd ökutækja. Þá er málsástæðum kæranda varðandi saknæmisskilyrði ekki veitt nein úrlausn í úrskurðinum. Umfjöllun um framlagða vörn kæranda er svofelld: „Í bréfi yðar er eigi að finna skýringar eða gögn sem til þess eru fallin að falla beri alfarið frá beitingu áðurnefndrar sektar.“

Í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, sbr. g-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, er boðið að brjóti eigandi eða umráðamaður ökutækis af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gegn ákvæðum laganna, svo sem með því að ökutæki hafi heimildarlaust verið í umferð án þess að vera búið ökumæli, skráning þess í ökutækjaskrá hafi verið röng, ökumælir hafi verið óvirkur, innsigli verið rofið, mælir talið of lítið, ekki hafi verið komið með ökutæki til álestrar innan þrjátíu daga frá lokum álestrartímabils, akstur verið ranglega færður eða ekki færður í akstursbók eða heildarþyngd ökutækis með farmi hafi verið meiri en gjaldþyngd þess, skuli hann greiða sekt allt að tífaldri þeirri fjárhæð sem ætla má að hann hafi dregið undan eða ofendurgreidd hafi verið. Sekt samkvæmt greininni skuli að lágmarki nema tvöfaldri þeirri fjárhæð sem ætla má að dregin hafi verið undan eða hafi verið ofendurgreidd. Séu brot stórfelld eða ítrekuð gegn lögunum má auk sektar beita fangelsi allt að 2 árum. Tekið er fram að tilraun og hlutdeild í brotum samkvæmt lögunum sé refsiverð samkvæmt III. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 3/1987, sbr. h-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, úrskurðar yfirskattanefnd sektir samkvæmt 1. mgr. 18. gr., nema máli sé vísað til opinberrar rannsóknar og dómsmeðferðar samkvæmt 2. mgr. 19. gr. Í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, sbr. g-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, segir svo: „Hafi eigandi eða umráðamaður ökutækis brotið gegn 1. mgr. án þess að talið verði að akstur hafi verið vantalinn skal ríkisskattstjóri ákvarða honum sekt að lágmarki 5.000 kr. en að hámarki 50.000 kr. Sektarákvörðun ríkisskattstjóra er kæranleg til yfirskattanefndar innan þrjátíu daga frá póstlagningu ákvörðunar. Sektarfjárhæð, sem ríkisskattstjóri ákvarðar, dregst frá sektarfjárhæð skv. 1. og 2. mgr.“ Þá segir svo í 4. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, sbr. g-lið 15. gr. laga nr. 68/1996: „Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans.“

Með lögum nr. 68/1996 voru margvíslegar breytingar gerðar á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 68/1996, er gerð grein fyrir breytingum þessum. Þar kemur fram að skort hafi ákvæði um það hvaða viðurlögum skuli beitt séu ákvæði laganna brotin. Nánar er fjallað um viðurlög vegna brota á lögunum og ákvörðun þeirra, þ. á m. um sektargerðir stjórnvaldshafa. Í athugasemdum með g- og h-lið 15. gr. frumvarpsins, en stafliðir þessir urðu 18. og 19. gr. laga nr. 3/1987, er svo fjallað frekar um viðurlög samkvæmt frumvarpinu og ákvörðun þeirra. Í frumvarpinu er ekki sérstaklega vikið að lokamálsgrein g-liðar 15. gr., er varð 4. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, sbr. hér að framan þar sem það ákvæði er tekið upp orðrétt. Eins og þar kemur fram má gera lögaðila sekt fyrir brot á lögunum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans.

Lögaðilar geta borið refsiábyrgð og sætt venjulegum fésektum ef slík tilhögun ábyrgðar er skýlaust heimiluð í lögum. Er þá ýmist að sök fyrirsvarsmanns (starfsmanns) sé skilyrði refsiábyrgðar eða gera má lögaðila fésekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans. Af síðastgreindum toga er 4. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, sbr. g-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, eins og skýrt kemur fram samkvæmt orðan ákvæðisins.

Þess ber að geta að með lögum nr. 140/1998, um breyting á almennum hegningarlögum nr. 19/1940, voru tekin upp í síðarnefndu lögin ákvæði um refsiábyrgð lögaðila, sbr. 1. gr. laga nr. 140/1998, þar sem þremur nýjum greinum (19. gr. a-19. gr. c) í nýjum kafla, II. kafla A, var bætt í lög nr. 19/1940. Lög nr. 140/1998 tóku gildi 30. desember 1998. Í 19. gr. a laga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 140/1998, er tekið fram að lögaðila verði gerð fésekt þegar lög mæla svo fyrir. Í 19. gr. b laga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 140/1998, er mælt svo fyrir að ákvæði í lögum um refsiábyrgð lögaðila gildi, nema annað sé þar tekið fram, um sérhvern ópersónulegan aðila sem getur átt réttindi og borið skyldur að íslenskum rétti, þar með talin hlutafélög, einkahlutafélög, samlagshlutafélög, evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög, sameignarfélög, samvinnufélög, almenn félög, sjálfseignarstofnanir, stjórnvöld, stofnanir og sveitarfélög. Í 1. og 2. málsl. 19. gr. c laga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 140/1998, segir: „Refsiábyrgð lögaðila er bundin því skilyrði, nema annað sé tekið fram í lögum, að fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum hafi með saknæmum hætti unnið refsinæman og ólögmætan verknað í starfsemi lögaðilans. Verður lögaðila gerð refsing þó að ekki verði staðreynt hver þessara aðila hafi átt í hlut.“ Þá er tekið fram í greininni að refsiábyrgð stjórnvalda sé bundin því skilyrði að unnin hafi verið refsinæmur og ólögmætur verknaður í starfsemi sem telst vera sambærileg starfsemi einkaaðila. Fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 140/1998, að frumvarpinu var ætlað að setja almenn ákvæði í hegningarlögin um refsiábyrgð lögaðila. Þá segir svo m.a. í athugasemdum við c-lið (19. gr. c): „Hér er lagt til að í hegningarlögin verði tekin almenn regla um að refsiábyrgð lögaðila sé bundin því skilyrði að staðreynt hafi verið að fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður lögaðilans eða annar á hans vegum hafi með saknæmum hætti unnið refsinæman og ólögmætan verknað í starfsemi lögaðilans. Jafnframt er lagt til að í sérrefsilögum megi kveða á um frávik frá þessu skilyrði, ýmist þannig að refsiábyrgð lögaðila sé ekki háð skilyrðinu eða að sett séu önnur skilyrði að þessu leyti. Ákvæði um slík frávik verða þó að vera skýr. Þannig er t.d. ekki gert ráð fyrir því að ákvæðið felli úr gildi sérrefsilagaákvæði um að gera megi lögaðila fésekt án tillits til þess hvort sök verði sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans.“

Hin umdeilda fésekt var gerð kæranda, Krana sf., sem er sameignarfélag. Ekki er hugtakið lögaðili sérstaklega skilgreint í 4. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, sbr. g-lið 15. gr. laga nr. 68/1996. Með vísan til 19. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 140/1998, er ótvírætt að sameignarfélag fellur undir hugtakið lögaðili í skilningi 4. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, sbr. g-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, sbr. og 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda verður ekki talið að sameignarfélag hafi áður fallið utan hugtaksins lögaðili í skilningi 4. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með áorðnum breytingum. Þá er ljóst samkvæmt orðalagi 19. gr. c almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 140/1998, að það ákvæði hróflar ekki við því ákvæði 4. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, sbr. g-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, að refsiábyrgð lögaðila er óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Samkvæmt þessu hafa málsástæður kæranda varðandi saknæmisskilyrði ekki þýðingu í málinu. Hins vegar verður að sýna fram á að refsinæmur og ólögmætur verknaður hafi verið framinn hlutrænt séð, að gættum almennum reglum um sönnunarkröfur, sbr. VII. kafla laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Þá er sú sektargerð, sem í málinu greinir, stjórnvaldsákvörðun, þ.e. sektargerð stjórnvaldshafa, og gilda því reglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk ákvæða laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.

Samkvæmt því, sem fram hefur komið, var kæranda gefið að sök að að heildarþyngd ökutækisins X hefði við vigtun eftirlitsmanns hinn 9. september 1998 reynst meiri en skráð leyfileg gjaldþyngd þess samkvæmt ökutækjaskrá, sbr. boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 19. nóvember 1998, og þá verknaðarlýsingu sem greinir í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. g-lið 15. gr. laga nr. 68/1996. Í boðunarbréfi sínu, dags. 19. nóvember 1998, og úrskurði, dags. 28. desember 1998, vísaði ríkisskattstjóri einvörðungu til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. g-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, og verklagsreglna sinna. Eins og fram hefur komið vísar lagaákvæði þetta, sem er grundvöllur sektarheimildar ríkisskattstjóra, til þeirrar verknaðarlýsingar, sem er að finna í 1. mgr. 18. gr. „án þess að talið verði að akstur hafi verið vantalinn...“, eins og þar segir. Eins og fram hefur komið beindi ríkisskattstjóri málinu að kæranda sem er lögaðili. Hvorki í boðunarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 19. nóvember 1998, né úrskurði hans, dags. 28. desember 1998, var þó skírskotað til 4. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. g-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, auk viðkomandi refsiheimildar lagagreinarinnar. Vegna þeirrar meginmálsástæðu kæranda, er fram kom í bréfi fyrirtækisins, dags. 26. nóvember 1998, að saknæmisskilyrði væru ekki uppfyllt, var sérstakt tilefni til að ríkisskattstjóri gerði grein fyrir refsiskilyrðum að þessu leyti. Eins og fram hefur komið er hér um að ræða sektargerð stjórnvaldshafa. Við boðun slíkrar sektar þykir almennt rétt að í meginatriðum sé tekið mið af því sem koma skal fram í ákæruskjali samkvæmt 116. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, verður ekki talið að ríkisskattstjóri hafi rökstutt hina umdeildu sektargerð sína með fullnægjandi hætti hvorki í boðunarbréfi sínu frá 19. nóvember 1998 né úrskurði, dags. 28. desember 1998, þar sem hvorki var vísað með viðhlítandi hætti til þeirra réttarreglna, sem ákvörðunin var byggð á, né voru framkomnar málsástæður kæranda teknar til rökstuddrar úrlausnar, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hér að framan er gerð grein fyrir eigin þyngd og leyfðri heildarþyngd umrædds ökutækis samkvæmt ökutækjaskrá, sem er sú sama eða 29.892 kg, þannig að burðargeta er tilgreind 0 kg. Þá hefur verið gerð grein fyrir viðeigandi ákvæðum umferðarlaga og stjórnvaldsfyrirmæla, settra á grundvelli þeirra laga. Af hálfu kæranda hefur komið fram það viðhorf að vegna mistaka hafi skráð leyfileg heildarþyngd verið of lág, sbr. bréf, dags. 26. nóvember 1998, og kæru, dags. 1. febrúar 1999, enda fái ekki staðist að þessi þyngd og eigin þyngd sé hin sama. Ekki eru gerðar sérstakar athugasemdir af hálfu kæranda við þá vigtun sem fram fór hinn 9. september 1998. Er þess getið í kæru að vigtun hafi farið fram, að tilhlutan kæranda, er sýnt hafi svipaða þyngd. Þá er tekið er fram að ekki hafi verið aukið neinu við búnað ökutækisins þannig að það hafi þyngst eftir nýskráningu. Ríkisskattstjóri hefur tekið undir það, sbr. kröfugerð, dags. 17. desember 1999, að upphafleg skráning heildarþyngdar hafi verið röng vegna mistaka Bifreiðarskoðunar (nú Skráningarstofu hf.). Hins vegar verði að telja að eiganda hafi verið kunnugt um að heildarþyngd hafi verið meiri en skráning gaf til kynna.

Umrætt ökutæki er af gerðinni Link Belt, árgerð 1988, flokkað sem vörubifreið II, sbr. reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Með tilliti til gerðar ökutækisins, sbr. og upplýsingar í ökutækjaskrá um hliðstæð ökutæki, verður ekki annað séð en hugsanlegt sé að eigin þyngd og leyfð heildarþyngd geti verið sú sama, þannig að það atriði þykir ekki gefa ótvírætt til kynna að tilgreining þyngda við skráningu hafi verið röng. Hins vegar liggur fyrir að verulegur munur kom fram við umrædda vigtun á þyngd ökutækisins frá því sem skráð var. Virðist niðurstaða þessarar vigtunar óumdeild. Allt að einu er óupplýst með öllu af hverju munur þessi stafaði. Miðað við að umrædd vigtun væri rétt, gat þessi munur stafað af því að skráð þyngd væri ranglega of lág eða þá að aukið hefði verið við þyngd ökutækisins, en því hefur kærandi neitað. Ríkisskattstjóri hefur ekki leitað neinna skýringa á þessu. Telja verður, þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu varðandi saknæmisskilyrði, að það geti haft þýðingu við mat á refsiskilyrðum að öðru leyti hvaða orsakir voru fyrir umræddu misræmi varðandi þyngd ökutækisins. Samkvæmt þessu verður að telja að ríkisskattstjóri hafi ekki séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst að þessu leyti, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af þessu leiddi jafnframt að rökstuðningur fyrir sektarákvörðuninni var ekki svo traustur sem skyldi, sbr. 22. gr. síðastgreindra laga.

Með vísan til framangreindra ágalla á málsmeðferð ríkisskattstjóra er hin kærða sektarákvörðun felld úr gildi.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Sektarákvörðun ríkisskattstjóra er felld úr gildi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja