Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar
  • Framleiðslukostnaður

Úrskurður nr. 154/2017

Lög nr. 43/1999, 2. gr.   Lög nr. 90/2003, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 49. gr., 50. gr. 3. tölul.  

Í máli þessu vegna kæru einkahlutafélags á ákvörðun nefndar um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar á Íslandi var deilt um hvort kostnaður vegna vaxtagjalda og kostnaður sem féll til erlendis gæti talist til framleiðslukostnaðar sjónvarpsþáttaraðar í skilningi laga nr. 43/1999 sem myndaði stofn til endurgreiðslu samkvæmt þeim lögum. Fram kom í úrskurði yfirskattanefndar að það væri skilyrði fyrir endurgreiðslu kostnaðar að hann félli til á Evrópska efnahagssvæðinu. Varðandi hin umþrættu vaxtagjöld kom fram að um væri að ræða reiknaða vexti af lánveitingu frá framleiðslufyrirtækinu X ehf., móðurfélagi kæranda, til Y ehf., dótturfélags kæranda. Þóttu ekki efni til að líta öðruvísi á hið umdeilda lán en sem fjárframlag X ehf. til framleiðslu sjónvarpsþáttaraðarinnar eða sem stofnfé til Y ehf. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2017, miðvikudaginn 11. október, er tekið fyrir mál nr. 99/2017; kæra A ehf., dags. 13. júní 2017, vegna ákvörðunar um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 13. júní 2017, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 20. júní 2017, varðar ákvörðun nefndar um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar, dags. 15. maí 2017, um að hafna umsókn kæranda um endurgreiðslu hluta framleiðslukostnaðar vegna kvikmyndagerðar á Íslandi að því er snertir annars vegar vaxtagjöld að fjárhæð 10.623.441 kr. og hins vegar erlendan kostnað að fjárhæð 5.309.297 kr.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að viðurkennt verði að vaxtagjöld að fjárhæð 10.623.441 kr. og erlendur kostnaður að fjárhæð 5.309.297 kr. teljist frádráttarbær kostnaður samkvæmt lögum nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, sbr. lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, og myndi þannig stofn til endurgreiðslu á grundvelli hinna fyrrnefndu laga. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um endurgreiðslu á framleiðslukostnaði vegna framleiðslu á sjónvarpsþáttaröð til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sbr. 3. gr. laga nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, eins og ákvæði þetta hljóðaði á þeim tíma sem um ræðir, og 2. gr. reglugerðar nr. 622/2012, um sama efni. Með tölvupósti formanns nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, dags. 19. desember 2016, var kæranda greint frá því að skoðun á uppgjöri vegna þáttaraðar sem um ræðir væri lokið og að gerð væri tillaga um endurgreiðslu að fjárhæð 223.561.434 kr. Kom fram í tölvupóstinum að nefndin teldi að tiltekinn kostnaður gæti ekki myndað stofn til endurgreiðslu, en þar væri m.a. um að ræða vexti af viðskiptastöðu X ehf. að fjárhæð 10.623.441 kr. og erlendan kostnað sem fallið hefði til utan Evrópska efnahagssvæðisins að fjárhæð 5.309.297 kr. Ef gerðar væru athugasemdir vegna þessarar niðurstöðu óskaði nefndin eftir rökstuðningi frá framleiðanda. Samkvæmt því sem fram er komið í málinu byggði umrædd afstaða á bráðabirgðaniðurstöðu úttektar Ernst & Young ehf. á framleiðslukostnaði þáttaraðarinnar sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun hafa óskað eftir hinn 17. nóvember 2016, sbr. lokaskýrslu Ernst & Young ehf. frá 25. janúar 2017 sem er meðal gagna málsins. Rétt þykir að rekja stuttlega efni þessarar skýrslu hvað ágreiningsefni málsins varðar.

Í fyrrgreindri skýrslu Ernst & Young ehf., dags. 25. janúar 2017, kom fram að stofnað hefði verið sérstakt félag, Y ehf., til að halda utan um stærsta hluta af framleiðslu sjónvarpsþáttaraðarinnar og hefði mestur hluti framleiðslukostnaðar verið færður í bókhaldi þess félags. Hluti framleiðslukostnaðar hefði verið færður í bókhaldi kæranda og hluti í bókhald X ehf., en þessi tvö félög hefðu sent reikninga til Y ehf. vegna kostnaðarins. Endurgreiðslubeiðni vegna þáttaraðarinnar hefði byggt á ársreikningum Y ehf. fyrir árin 2014 og 2015, auk árshlutareiknings fyrir tímabilið 1. janúar til 31. júlí 2016. Tekið var fram að einu skuldir Y ehf. 31. júlí 2016 væru við X ehf. Var rakið að þann 31. júlí 2016 hefðu verið færðir til gjalda vextir vegna skuldar félagsins við X ehf. að fjárhæð 10.623.441 kr. Reiknaðir hefðu verið 9% vextir vegna skuldastöðu en samkvæmt bókhaldi Y ehf. hefði félagið verið í skuld við X ehf. frá því í apríl 2014. Ekki lægi fyrir fjármögnunar- eða lánasamningur við X ehf. og hefði útreikningur vaxta byggt á mánaðarlegri skuldastöðu félagsins við X ehf. á tímabilinu apríl 2014 til loka júlí 2016. Engir aðrir viðskiptamanna- eða lánardrottnareikningar hefðu verið vaxtareiknaðir. Þá hefðu vextir ekki verið reiknaðir og greiddir/færðir mánaðarlega eins og vaninn væri heldur hefðu þeir verið reiknaðir og færðir í heild sinni þann 31. júlí 2016, eða þegar verkefninu hefði lokið. Var tekið fram að almennt væri vaxtakostnaður frádráttarbær samkvæmt tekjuskattslögum, en í því tilviki sem um ræddi yrði að horfa til þess sambands sem væri á milli félaganna. X ehf. væri framleiðandi þáttanna og legði því verkefninu eðlilega til fjármagn. Yrði að setja spurningamerki við að litið væri á framlag framleiðanda sem lánafyrirgreiðslu í stað þess að líta á það sem styrk eða eigið fé. Teldu skýrsluhöfundar að líta bæri á framleiðanda og framleiðslufélag sem einn og sama aðila þótt lög nr. 43/1999 kvæðu á um að haldið væri utan um verkefni í sérstöku félagi. Að því er varðaði erlendan framleiðslukostnað utan Evrópska efnahagssvæðisins var rakið að yfirferð hreyfingalista Y ehf. hefði leitt í ljós reikninga að fjárhæð samtals 5.309.297 kr. vegna þjónustu- og vörukaupa af erlendum aðilum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Sá kostnaður gæti ekki myndað stofn til endurgreiðslu samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 43/1999.

Með bréfi kæranda, dags. 28. febrúar 2017, var fyrirhugaðri synjun um endurgreiðslu á hluta framleiðslukostnaðar mótmælt. Var rakið í bréfinu að vaxtakostnaður teldist frádráttarbær kostnaður samkvæmt tekjuskattslögum og að lán frá X ehf. væri lán til framleiðslunnar sem hægt hefði verið að fjármagna með öðrum hætti og væri þá frádráttarbært. Hvað snerti tilgreindan erlendan framleiðslukostnað var tekið fram að framleiðslan hefði átt sér stað að öllu leyti á Íslandi. Hinn erlendi kostnaður hefði fallið til vegna framleiðslu hér á landi og væri kostnaðurinn því frádráttarbær.

Með bréfi nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar samkvæmt 3. gr. laga nr. 43/1999, dags. 15. maí 2017, tók nefndin formlega afstöðu til erindis kæranda, en í bréfinu kom fram að nefndin tæki nú formlega ákvarðanir um endurgreiðslu í stað þess að vera ráðgefandi fyrir ráðherra samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 43/1999, eins og ákvæðinu hefði verið breytt með lögum nr. 58/2016 frá 1. janúar 2017. Í bréfinu kom fram að nefndin teldi skorta gögn í málinu sem sýndu með óyggjandi hætti að lánasamningur hefði verið gerður milli Y ehf. eða fyrirrennara þess og X ehf. um lán frá því síðarnefnda til hins fyrrnefnda sem bæri vexti. Yrði því ekki fallist á að vaxtakostnaður sem reiknaður hefði verið vegna þessa væri frádráttarbær kostnaður samkvæmt lögum um tekjuskatt. Að því er varðaði hitt álitaefnið var tekið fram í bréfinu að samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 622/2012 teldist framleiðslukostnaður allur sá kostnaður sem heimilt væri að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og félli til hér á landi og eftir atvikum í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 43/1999. Þá sagði svo í bréfi nefndarinnar: „Það að kostnaður falli til í þeim löndum verður ekki túlkað með þannig rýmkandi skýringu að sá kostnaður sem tengist framleiðslu í þeim löndum sé allur greiddur.“ Væri því ekki unnt að fallast á þennan lið í erindi kæranda.

III.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 13. júní 2017, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 20. júní 2017. Í kærunni eru málsatvik rakin. Að því er varðar umþrætt vaxtagjöld er rakið að framleiðsla sjónvarpsþáttaraðarinnar hafi m.a. verið fjármögnuð með láni frá X ehf., framleiðanda þáttanna, og hafi skuldin borið 9% vexti sem hafi verið reiknaðir árlega og færðir í bækur félaganna. Þann 31. júlí 2016 hafi Y ehf. gjaldfært vexti vegna skuldarinnar að fjárhæð 10.623.411 kr. Í 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003 komi fram að vextir af skuldum séu frádráttarbærir, en ekki sé að finna áskilnað í lögum um að skriflegur lánasamningur þurfi að liggja fyrir. Sé ítrekað að vextir hafi verið reiknaðir árlega og færðir í bókhaldi beggja félaga, þ.e. sem vaxtatekjur hjá X ehf. og sem vaxtagjöld hjá Y ehf. Um erlendan kostnað segir í kærunni að kærandi hafni túlkun nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á lögum nr. 43/1999. Framleiðsla sjónvarpsþáttaraðarinnar hafi að öllu leyti farið fram á Íslandi og að mati kæranda verði að líta svo á að allur kostnaður við framleiðsluna hafi fallið til hér á landi og myndi þannig heildarframleiðslukostnað sem endurgreiðsla skuli reiknuð af. Það að framleiðslukostnaður eigi uppruna sinn erlendis verði ekki túlkað þannig að hann falli til erlendis þegar framleiðslan fari að öllu leyti fram hér á landi. Í því sambandi megi benda á að ekki sé gerður skattalegur greinarmunur á framleiðslukostnaði vegna leigu tækja eftir því hvort tækin væru leigð af innlendum aðila eða erlendum. Þá sé ekki rétt að gera greinarmun á því hvort ferðakostnaður sem tengist framleiðslunni sé greiddur innlendri ferðaskrifstofu eða greiddur á flugvelli eða hóteli erlendis. Eina undantekningin sem lögin geri sé að samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 43/1999 teljist laun og verktakagreiðslur aðeins til framleiðslukostnaðar séu þau sannanlega skattlögð hér á landi. Sú undantekning eigi ekki við í þessu tilviki.

Kærandi sendi gögn vegna málskostnaðarkröfu til yfirskattanefndar með tölvupósti hinn 10. júlí 2017 þar sem fram kom að kostnaður kæranda vegna vinnu umboðsmanns við málið næmi 369.463 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti, sbr. meðfylgjandi afrit af reikningi frá umboðsmanni kæranda.

IV.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 11. ágúst 2017, hefur nefnd um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni er tekið fram að ekki sé í sjálfu sér ágreiningur um gildissvið laga um tekjuskatt hvað varði hugtakið rekstrarkostnað. Hins vegar telji nefndin að gögn skorti varðandi hvernig samið hafi verið milli félaganna um greiðslu vaxta af þeirri skuld sem færð hafi verið í bókhaldi beggja félaga. Það að gera kröfu um afrit af slíkum samningi geri nefndin fyrst og fremst vegna þess að um tengd félög sé að ræða en ekki vaxtagjöld sem séu tilkomin vegna t.d. lánasamnings við fjármálafyrirtæki þar sem hægt sé að nálgast upplýsingar um almenn vaxtakjör, t.a.m. á heimasíðum fjármálafyrirtækjanna. Í lánasamningum milli tengdra félaga sé ekki hægt að fullyrða um hvort samið hafi verið um greiðslu vaxta af skuld eða ekki, og ef svo væri, hvernig vaxtakjör væru. Í málinu sé því ágreiningur um sönnun, en ekki um gildissvið laga, og hvíli sönnunarbyrði um þetta á kæranda. Að því er varði erlendan kostnað sé ítrekað að ekki sé hægt að skýra ákvæði laga nr. 43/1999 og þágildandi reglugerðar öðruvísi en svo að kostnaður falli til í því landi sem hann sé greiddur. Umræddur kostnaður að fjárhæð 5.309.297 kr. hafi fallið til í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins og myndi því ekki stofn til endurgreiðslu.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 14. ágúst 2017, var kæranda sent ljósrit af umsögn endurgreiðslunefndar í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 28. ágúst 2017, hefur kærandi ítrekað þær kröfur sem settar voru fram í kæru til yfirskattanefndar.

V.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, dags. 15. maí 2017, um að hafna endurgreiðslu á hluta framleiðslukostnaðar vegna framleiðslu kæranda á sjónvarpsþáttaröð, þ.e. nánar tiltekið kostnaðar vegna vaxtagjalda að fjárhæð 10.623.441 kr. og erlends kostnaðar að fjárhæð 5.309.297 kr. Af hálfu kæranda er þess krafist að viðurkennt verði að umræddur kostnaður sé frádráttarbær kostnaður samkvæmt lögum nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, sbr. lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, og myndi þannig stofn til endurgreiðslu á grundvelli hinna fyrrnefndu laga. Þá er krafist málskostnaðar til greiðslu úr ríkissjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, eins og ákvæðinu var breytt með 2. gr. laga nr. 177/2000, um breyting á hinum fyrrnefndu lögum, er heimilt að endurgreiða úr ríkissjóði hlutfall af framleiðslukostnaði sem til fellur við framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi. Fram kemur að við útreikning á endurgreiðslu skuli tekið mið af heildarframleiðslukostnaði kvikmyndar eða sjónvarpsefnis án tillits til þess hvaða þáttur í framleiðslunni skapi þann kostnað. Í 2. mgr. 2. gr. kemur fram að falli meira en 80% af heildarframleiðslukostnaði kvikmyndar eða sjónvarpsefnis til á Íslandi skuli endurgreiðsla reiknast af þeim heildarframleiðslukostnaði sem falli til á Evrópska efnahagssvæðinu. Í 3. mgr. sama lagaákvæðis er framleiðslukostnaður skilgreindur sem allur kostnaður sem fellur til hér á landi og heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Laun og verktakagreiðslur teljist eingöngu til framleiðslukostnaðar séu þau sannanlega skattlögð hér á landi.

Fyrra álitaefnið í máli þessu lýtur að því að endurgreiðslunefnd hafnaði að telja með í stofni til endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar fjármagnskostnað að fjárhæð 10.623.441 kr. sem kærandi tilgreindi sem vexti Y ehf. af láni frá framleiðslufyrirtækinu X ehf., móðurfélagi kæranda. Byggði nefndin niðurstöðu sína á því að ekki lægi fyrir lánssamningur milli Y ehf. og X ehf. um vaxtaberandi lán milli félaganna. Í úttektarskýrslu Ernst & Young ehf. á framleiðslukostnaði vegna framleiðslu sjónvarpsþáttaraðarinnar, sem hin umdeilda ákvörðun endurgreiðslunefndar byggði á, kom fram að líta yrði til þess sambands sem væri á milli félaganna, en fyrir liggur að X ehf. var eigandi alls hlutafjár í kæranda sem aftur á móti var eigandi alls hlutafjár í Y ehf. Í skýrslunni var rakið að X ehf. væri framleiðandi þáttanna og legði því verkefninu eðlilega til fjármagn til framleiðslunnar. Bæri að líta á framleiðanda og framleiðslufélag sem einn og sama aðila þótt lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar kvæðu á um að haldið væri utan um verkefnið í sérstöku félagi. Þá hefðu vextir vegna hins meinta láns ekki verið reiknaðir mánaðarlega eins og venja stæði til heldur reiknaðir og færðir í einu lagi þann 31. júlí 2016 eða þegar verkefninu lauk.

Sem fyrr segir er framleiðslukostnaður skilgreindur í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 43/1999 sem allur kostnaður sem fellur til hér á landi við framleiðsluna og heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er heimilt að draga rekstrarkostnað frá tekjum af atvinnurekstri, þ.e. þann kostnað sem á árinu gengur til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við, þar á meðal vexti af skuldum, afföll, gengistöp, niðurfærslu og fyrningu eigna, eftir því sem nánar er ákveðið í lögunum, og það sem varið er til tryggingar og viðhalds á eignum þeim sem arð bera í rekstrinum. Um vaxtagjöld, afföll og gengistöp eru frekari ákvæði í 49. gr. laga nr. 90/2003, en samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. ákvæðisins teljast vextir af skuldum, föstum og lausum, þ.m.t. dráttarvextir, til vaxtagjalda. Þá megi telja lántökukostnað, árlegan eða tímabundinn fastakostnað, þóknanir, stimpilgjöld og þinglýsingarkostnað af lánum til vaxtagjalda. Ennfremur teljist áfallnar verðbætur á höfuðstól og vexti til vaxtagjalda í þessu sambandi. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að gjöld samkvæmt þessari lagagrein séu aðeins frádráttarbær að fullu séu þau tengd atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.

Samkvæmt þágildandi ákvæði c-liðar 1. mgr. 4. gr. laga nr. 43/1999 var eitt af skilyrðum endurgreiðslu á grundvelli laganna að stofna skyldi sérstakt félag um framleiðsluna á Íslandi, en íslenskt útibú eða umboðsskrifstofa félags sem skráð væri í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið teldist sérstakt félag í þessum skilningi. Fyrir liggur að kærandi stofnaði félagið Y ehf. í þessum tilgangi, en samkvæmt gögnum frá fyrirtækjaskrá var Y ehf. stofnað með lágmarkshlutafé, þ.e. 500.000 kr. Sem fyrr segir var kærandi að fullu í eigu X ehf., en í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að X ehf. hafi verið framleiðandi sjónvarpsþáttaraðarinnar. Fyrir liggur í málinu að ekki var gerður lánssamningur milli X ehf. og Y ehf. um lán milli félaganna. Þá var vaxtareikningur óhefðbundinn, þ.e. vextir voru reiknaðir og færðir í heilu lagi við lok verkefnisins. Þegar litið er til þeirra tengsla sem eru milli umræddra félaga og rakin eru hér að ofan, sem og tilgangs með stofnun Y ehf., er naumast hægt að líta öðruvísi á hið umdeilda lán X ehf. til Y ehf. en sem fjárframlag X ehf. til framleiðslunnar sem framleiðanda verkefnisins eða sem stofnfé til Y ehf. Í þessu sambandi skal tekið fram til hliðsjónar að samkvæmt 3. tölul. 50. gr. laga nr. 90/2003 telst ekki til rekstrarkostnaðar samkvæmt 31. gr. sömu laga arður eða vextir af framlögðu fé manns til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi, hvort heldur reksturinn er á eigin ábyrgð eiganda eða með ótakmarkaðri ábyrgð í sameign með öðrum, sbr. og 2. mgr. 2. gr. laganna. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður því að taka undir með endurgreiðslunefnd í því að gjaldfærður vaxtakostnaður að fjárhæð 10.623.441 kr. vegna tilfærðs láns X ehf. til Y ehf. myndi ekki stofn til endurgreiðslu á grundvelli laga nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

Samkvæmt því sem fram er komið í málinu hafnaði nefnd um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar ennfremur að telja með í stofni til endurgreiðslu kostnað að fjárhæð 5.309.297 kr. með því að kostnaðurinn hefði fallið til utan Evrópska efnahagssvæðisins. Af hálfu kæranda er um þetta kæruatriði byggt á því að öll framleiðsla sjónvarpsþáttaraðarinnar hafi farið fram hér á landi og verði því að líta svo á að allur kostnaður við framleiðsluna hafi fallið til hér á landi í skilningi laga nr. 43/1999. Það að framleiðslukostnaður eigi uppruna sinn erlendis verði ekki túlkað þannig að hann falli til erlendis þegar framleiðslan sjálf fari að öllu leyti fram hér á landi.

Svo sem rakið er hér að framan er kveðið á um það í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 43/1999, eins og ákvæðinu var breytt með 2. gr. laga nr. 177/2000, að falli meira en 80% af heildarframleiðslukostnaði kvikmyndar eða sjónvarpsefnis til á Íslandi skuli endurgreiðsla reiknast af þeim heildarframleiðslukostnaði sem falli til á Evrópska efnahagssvæðinu. Tekið skal fram að fyrir lagabreytingu þessa var eingöngu heimilt að endurgreiða hlutfall þess framleiðslukostnaðar sem féll til á Íslandi. Í athugasemdum við 2. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 177/2000 kom fram að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefði gert athugasemdir við þá framkvæmd að miða aðeins við framleiðslukostnað sem félli til á Íslandi og að með því væri brotið gegn ákvæðum EES-samningsins um þjónustufrelsi. Byggðist sú skoðun á fordæmum og viðmiðum sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði sett fram í sambærilegum málum. Því væri lagt til að ákvæðinu yrði breytt til samræmis við þær tillögur og viðmið og ákvæðið gert sambærilegt því sem gerðist annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Voru því næst rakin nokkur skýringardæmi í athugasemdum við frumvarpið þar sem skýrt kemur fram að kostnaður sem fellur til í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins er ekki í neinum tilvikum reiknaður inn í stofn til endurgreiðslu. Með hliðsjón af framangreindu standa engin rök til þess að fallast á málatilbúnað kæranda um að líta verði svo á að hinn umdeildi kostnaður hafi fallið til hér á landi í skilningi laga nr. 43/1999 og myndi þannig stofn til endurgreiðslu. Verður ákvörðun endurgreiðslunefndar því látin standa óhögguð um þetta kæruefni.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki fyrir hendi lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja