Úrskurður yfirskattanefndar

  • Stimpilgjald
  • Fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 166/2017

Lög nr. 138/2013, 5. gr. 3. og 8. mgr., 10. gr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr., 13. gr., 20. gr., 28. gr.  

Endurákvörðun sýslumanns á stimpilgjaldi vegna kaupa A á íbúðarhúsnæði á árinu 2014, sem byggðist á því að skilyrði fyrir helmingsafslætti af stimpilgjaldi vegna fyrstu kaupa íbúðarhúsnæðis væru ekki uppfyllt í tilviki A þar sem umrætt íbúðarhúsnæði væri ekki til eigin nota í skilningi þágildandi reglna um stimpilgjald, var felld úr gildi með úrskurði yfirskattanefndar. Var talið að málsmeðferð sýslumanns hefði verið verulegum annmörkum háð þar sem sýslumaður hefði ekki séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst og gefið A kost á að neyta andmælaréttar síns vegna ákvörðunarinnar.

Ár 2017, miðvikudaginn 25. október, er tekið fyrir mál nr. 103/2017; kæra A, dags. 14. júlí 2017, vegna ákvörðunar stimpilgjalds. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 14. júlí 2017, varðar ákvörðun sýslumanns um stimpilgjald af kaupsamningi um fasteignina H í Reykjavík. Með bréfi, dags. 18. apríl 2017, synjaði sýslumaður kæranda um endurgreiðslu á helmingi þess stimpilgjalds sem kærandi greiddi við kaup á fasteign þessari, en um var að ræða fyrstu kaup kæranda á íbúðarhúsnæði. Byggði ákvörðun sýslumanns á því að fasteignin hefði ekki verið keypt til eigin nota.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og er ákvörðun um álagningu stimpilgjalds með fullri fjárhæð mótmælt. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi til sýslumanns, dags. 23. september 2016, fór kærandi fram á endurgreiðslu stimpilgjalds að fjárhæð 72.200 kr. vegna kaupa hans á fasteign að H í Reykjavík. Vísaði kærandi til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, í þessum efnum. Fram kom í bréfinu að þann 18. júlí 2014 hefði kærandi undirritað kaupsamning vegna fasteignarinnar að H í Reykjavík. Við þinglýsingu kaupsamnings hefði verið veittur afsláttur af stimpilgjaldi á grundvelli 5. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, þar sem um fyrstu kaup kæranda á íbúðarhúsnæði hefði verið að ræða. Þann 25. ágúst 2014 hefði húsaleigusamningi vegna fasteignarinnar verið þinglýst. Afsal vegna fasteignarinnar hefði síðan verið undirritað 1. september 2014 og það lagt inn til þinglýsingar. Hefði þinglýsingu afsalsins verið hafnað að svo stöddu á þeim grundvelli að skilyrði væru ekki til staðar til að gefa afslátt af stimpilgjöldum á grundvelli 5. gr. laga nr. 138/2013, en samkvæmt 8. mgr. þeirrar lagagreinar væri skilyrði afsláttar af stimpilgjöldum að um eigin not íbúðarhúsnæðisins væri að ræða. Af hálfu kæranda var rakið í bréfinu að fasteignin hefði verið keypt í þeim tilgangi að vera framtíðarheimili kæranda og því ætluð til eigin nota. Hefði fasteignin ekki verið keypt í atvinnuskyni eða til útleigu til frambúðar. Kærandi hefði verið í námi á umræddum tíma og því hefði hann afráðið að leigja fasteignina út tímabundið. Var því næst rakið í bréfinu að með lögum nr. 125/2015 hefði ákvæði 8. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013 verið fellt brott úr lögunum. Væri því ljóst að það væri hvorki í samræmi við vilja né ætlun löggjafans að neita kæranda um umræddan afslátt vegna fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði, svo sem nánar var rökstutt.

Með bréfi, dags. 18. apríl 2017, hafnaði sýslumaður kröfu kæranda. Fram kom í bréfi sýslumanns að á því tímamarki sem varðaði kaupsamning kæranda hefði sagt í 8. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013 að „með íbúðarhúsnæði í 3-7. mgr. [væri] eingöngu átt við íbúðarhúsnæði til eigin nota“. Hefði nefnt ákvæði verið fellt brott með 39. gr. laga nr. 125/2015, um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016, en það breytti þó engu fyrir mál kæranda þar sem þessi lagabreyting hefði ekki tekið gildi fyrr en 1. janúar 2016. Rakti sýslumaður að í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um frumvarp til laga um stimpilgjald, sbr. nú lög nr. 138/2013, kæmi fram að afsláttur vegna fyrstu kaupa íbúðarhúsnæðis yrði háður tilteknum skilyrðum eins og í tíð eldri laga. Í athugasemdum við lagafrumvarp það sem orðið hefði að lögum nr. 59/2008, um breytingar á eldri lögum um stimpilgjald nr. 36/1978, kæmi fram að heimild til niðurfellingar stimpilgjalds samkvæmt frumvarpinu næði eingöngu til lántöku vegna kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota en ekki til atvinnuhúsnæðis, húsnæðis til útleigu eða lausafjármuna, og væri það skilyrði í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að auðvelda einstaklingum fyrstu kaup á eigin íbúðarhúsnæði. Þá kom fram að sýslumaður liti svo á að ákvörðunardagur stimpilgjalds hefði verið í síðasta lagi 11. september 2014. Væri fyrri ákvörðun sýslumanns um fulla gjaldskyldu stimpilgjalds látin standa óhögguð.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 14. júlí 2017, er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og er ákvörðun um álagningu fullra stimpilgjalda mótmælt. Þá er gerð krafa um að kæranda verði ákvarðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt mati yfirskattanefndar, sbr. 8. gr. laga nr. 30/1992, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 96/1998.

Í kærunni eru málavextir raktir. Þá kemur fram að krafa kæranda byggi á þeim rökum sem lögð hafi verið til grundvallar beiðni kæranda um endurgreiðslu stimpilgjalds, enda séu forsendur að baki beiðninni óbreyttar, þ.e. að fasteignin að H hafi verið keypt í þeim tilgangi að vera framtíðarheimili kæranda en ekki í atvinnuskyni eða til útleigu til frambúðar. Kærandi hafi nánar tiltekið verið í námi á umræddum tíma og til að auðvelda afborganir af íbúðinni hafi hann ákveðið að leigja fasteignina út tímabundið. Er því næst rakið í kærunni að af lögskýringargögnum með lögum nr. 138/2013 megi ráða að vilji löggjafans hafi staðið til að veita þeim sem væru að kaupa íbúðarhúsnæði í fyrsta sinn ívilnun vegna erfiðrar stöðu þeirra á fasteignamarkaði. Þá er í kærunni vitnað til frumvarps þess sem varð að lögum nr. 125/2015 þar sem umrædd 8. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013 var felld úr gildi og rakið að þar komi fram að þetta skilyrði hafi reynst erfitt í framkvæmd og geti leitt til ósanngjarnrar og óheppilegrar niðurstöðu, t.d. í þeim tilvikum þegar eigandinn flytur tímabundið erlendis vegna náms eða starfa eða leigir húsnæðið út tímabundið til að fjármagna kaupin á því. Sé það því andstætt vilja löggjafans að neita kæranda um afslátt af stimpilgjöldum vegna kaupa hans á fasteigninni að H. Þá eru í kærunni færð rök fyrir því að þrátt fyrir tímabundna útleigu hafi skilyrðið um eigin not verið uppfyllt. Af hálfu kæranda er um þetta vísað til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 158/2007 um túlkun á ákvæði B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 4. gr. reglugerðar nr. 990/2001, um greiðslu vaxtabóta, en atvik í máli kæranda falli að greindum úrskurði þar sem fram komi að þrátt fyrir tímabundna útleigu geti fasteign talist til eigin nota í skilningi laganna.

IV.

Með bréfi, dags. 26. ágúst 2017, hefur sýslumaður lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni hafnar sýslumaður kröfu kæranda og ítrekar fram komnar röksemdir sínar fyrir því að hafna beiðni kæranda um endurgreiðslu stimpilgjalds.

Með bréfi yfirskattanefndar, 30. ágúst 2017, var kæranda sent ljósrit af umsögn sýslumanns og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 14. september 2017, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu er áréttað að hið umdeilda íbúðarhúsnæði hafi verið keypt til eigin nota. Túlkun sýslumanns á hugtakinu „til eigin nota“ standist ekki, enda beri að líta til túlkunar skattyfirvalda á hugtakinu í skattframkvæmd, m.a. varðandi vaxtabætur, svo sem rakið hafi verið í kæru. Eru kröfur og sjónarmið kæranda í málinu áréttuð.

V.

Kæruefni í máli þessu er ákvörðun sýslumanns um stimpilgjald kæranda af kaupsamningi um fasteign að H í Reykjavík. Af hálfu kæranda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og er ákvörðun um álagningu stimpilgjalda með fullri fjárhæð mótmælt. Skilja verður kæru kæranda þannig að þess sé krafist að helmingur álagðs stimpilgjalds vegna kaupa hans á fasteigninni verði felldur niður, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald. Er byggt á því af hálfu kæranda að um hafi verið að ræða fyrstu kaup hans á íbúðarhúsnæði og að hann hafi fest kaup á fasteigninni til eigin nota.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, skal m.a. greiða stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu fasteigna hér á landi. Um gjaldstofn stimpilgjalds í þessum tilvikum fer samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 5. gr. laganna skal greiða 0,8% stimpilgjald af gjaldskyldum skjölum ef rétthafi er einstaklingur. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar greiðist hálft stimpilgjald af gjaldskyldu skjali þegar um er að ræða fyrstu kaup einstaklings á íbúðarhúsnæði. Frekari skilyrði fyrir afslætti þessum og nánari ákvæði þar að lútandi er að finna í 4.–7. mgr. lagagreinarinnar. Í 8. mgr. lagagreinarinnar, sem í gildi var á þeim tíma er gjaldskylda stimpilgjalds stofnaðist í tilviki kæranda, sagði að með íbúðarhúsnæði í 3.–7. mgr. væri „eingöngu átt við íbúðarhúsnæði til eigin nota“. Í 9. gr. laga nr. 138/2013 er kveðið á um að sýslumaður skuli endurgreiða stimpilgjald þegar gjaldskylt skjal er ógilt með öllu að lögum eða ekki verður af því að það réttarástand skapist sem hið gjaldskylda skjal ráðgerði.

Kæra í máli þessu er þannig fram sett að hún varði synjun sýslumanns, sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dags. 18. apríl 2017, vegna erindis kæranda frá 23. september 2016 þess efnis að helmingur áður ákvarðaðs stimpilgjalds af kaupsamningi kæranda um fasteignina að H í Reykjavík yrði felldur niður. Samkvæmt því sem fram kemur í kæru var kaupsamningurinn gerður 18. júlí 2014 og mun hann hafa verið afhentur sýslumanni til þinglýsingar 21. júlí 2014. Meðal gagna málsins er greiðslukvittun, dags. 21. júlí 2014, vegna ákvörðunar stimpilgjalds 72.200 kr. af kaupsamningnum. Miðað við tilgreindan gjaldstofn 18.050.000 kr. er því ljóst að á því var byggt við þessa ákvörðun að kærandi nyti afsláttar frá stimpilgjaldi á grundvelli 3. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013. Samkvæmt greiðslukvittuninni var kæranda leiðbeint um kæruheimild til fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna ákvörðunar stimpilgjalds, sbr. þágildandi 11. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald. Í bréfi sýslumanns til kæranda, dags. 18. apríl 2017, kemur fram að leigusamningur um íbúðarhúsnæði kæranda að H hafi verið lagður inn til þinglýsingar 24. ágúst 2014. Þessar upplýsingar um útleigu húsnæðis kæranda hafi orðið til þess að sýslumaður hefði ákveðið að endurákvarða stimpilgjald af kaupsamningnum frá 18. júlí 2014 á þeim grundvelli að íbúðarhúsnæði kæranda væri ekki til eigin nota í skilningi laga um stimpilgjald og því ekki uppfyllt skilyrði fyrir afslætti samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laganna. Kemur fram að kæranda hafi verið tilkynnt ákvörðun sýslumanns símleiðis og hafi kærandi greitt umkrafið stimpilgjald að fjárhæð 72.200 kr. þann 11. september 2014. Í umsögn sýslumanns vegna kæru til yfirskattanefndar er áréttað að um hafi verið að ræða endurákvörðun stimpilgjalds vegna kaupsamnings kæranda. Jafnframt er þess getið að engin skrifleg gögn liggi fyrir um að kæranda hafi verið kynnt ákvæði stjórnsýslulaga um heimild hans til að óska eftir rökstuðningi vegna endurákvörðunar stimpilgjalds. Kæranda hafi hins vegar verið kynntar kæruleiðir þágildandi laga um stimpilgjald sem fram komi á greiðslukvittun vegna skjala sem lögð séu inn til þinglýsingar, svo sem venjulegt sé. Tekið skal fram að hvorki afrit greiðslukvittunar fyrir hinu endurákvarðaða stimpilgjaldi né önnur gögn varðandi endurákvörðun sýslumanns liggja fyrir yfirskattanefnd. Í kæru til yfirskattanefndar er greiðsla viðbótarstimpilgjalds sett í samhengi við það að afsal vegna íbúðarkaupa kæranda hafi verið afhent sýslumanni til þinglýsingar 2. september 2014. Hvað sem því líður þykir bera að byggja á því að fram hafi farið endurákvörðun stimpilgjalds samkvæmt 10. gr. laga nr. 138/2013, svo sem sýslumaður hefur greint frá.

Samkvæmt framanrituðu verður að líta svo á að kæra til yfirskattanefndar varði í raun endurákvörðun sýslumanns sem fram fór 11. september 2014. Tekið skal fram að ekki verður talið að erindi kæranda til sýslumanns, dags. 23. september 2016, hafi lotið að endurgreiðslu stimpilgjalds á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis 9. gr. laga nr. 138/2013, enda hefur kærandi ekki reifað nein atvik sem þykja geta fallið undir það ákvæði og raunar ekkert til þess vísað. Miðað við þriggja mánaða kærufrest samkvæmt 11. gr. laga nr. 138/2013 vegna ákvörðunar sýslumanns frá 11. september 2014, sem sýslumaður heldur fram að kæranda hafi verið leiðbeint um, er ljóst að kæra í máli þessu er fram komin að þeim fresti löngu liðnum. Á hitt er að líta að upplýst er að ákvörðun sýslumanns fylgdi ekki rökstuðningur og að kæranda var ekki leiðbeint um rétt sinn til að fá ákvörðunina rökstudda, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var rökstuðningur fyrst látinn kæranda í té með bréfi sýslumanns, dags. 18. apríl 2017. Að þessu athuguðu þykir rétt að taka kæruna til efnismeðferðar.

Krafa kæranda um að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt er byggð á því að fasteignin að H, sem hafi verið fyrstu kaup kæranda á íbúðarhúsnæði, hafi verið keypt til eigin nota kæranda og því hafi verið uppfyllt skilyrði 3. mgr. 5. mgr. laga nr. 138/2013, sbr. 8. mgr. sömu lagagreinar, fyrir þargreindum helmingsafslætti af stimpilgjaldi af kaupsamningi um eignina.

Eins og fyrr segir var það ákvæði í 8. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013 á þeim tíma er gjaldskylda stimpilgjalds stofnaðist í tilviki kæranda að með íbúðarhúsnæði í 3.–7. mgr. væri „eingöngu átt við íbúðarhúsnæði til eigin nota“. Í kæru til yfirskattanefndar eru ekki bornar brigður á að skilyrði þetta um eigin not íbúðarhúsnæðis hafi þýðingu um ákvörðun stimpilgjalds í tilviki kæranda. Á hinn bóginn heldur kærandi því fram að umrætt skilyrði hafi verið uppfyllt við þau fasteignakaup sem í málinu greinir, enda þótt kærandi hafi leigt fasteignina út tímabundið. Er um þetta einkum vísað til þess skilnings sem lagður sé í orðasambandið „eigin not íbúðarhúsnæðis“ að því er snertir rétt manna til vaxtabóta, sbr. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 4. gr. reglugerðar nr. 990/2001, um greiðslu vaxtabóta, og úrskurð yfirskattanefndar nr. 158/2007 um túlkun á fyrrnefndum ákvæðum, sem kærandi telur að sé fordæmisgefandi fyrir mál hans.

Í lögskýringargögnum með lögum nr. 138/2013 er ekki skilgreint nánar hvað felist í „eigin notum“ íbúðarhúsnæðis í 8. mgr. 5. gr. laganna. Í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar, sbr. þskj. 308 á 143. löggjafarþingi, kemur það eitt fram að með því afsláttarviðmiði að gera þeim sem kaupa íbúðarhúsnæði í fyrsta sinn að greiða aðeins helming stimpilgjalda sé stefnt að því að gera stöðu þessa fólks sem næst þeirri sömu og hún sé samkvæmt gildandi lögum, en afslátturinn verði þó háður tilteknum skilyrðum eins og verið hafi. Sams konar skilyrði um eigin not íbúðarhúsnæðis fyrir niðurfellingu á stimpilgjaldi var í eldri lögum um stimpilgjald, sbr. 3. mgr. 35. gr. a laga nr. 36/1978, eins og þeim var breytt með 1. gr. laga nr. 59/2008. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 59/2008 kom fram að heimild til niðurfellingar stimpilgjalds samkvæmt frumvarpinu næði einvörðungu til lántöku vegna kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota, en ekki til atvinnuhúsnæðis, húsnæðis til útleigu eða lausafjármuna. Væri það skilyrði í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að auðvelda einstaklingum fyrstu kaup á eigin íbúðarhúsnæði. Auk þess væri með sama rökstuðningi lagt til það skilyrði að kaupandi fasteignarinnar, og skuldari viðkomandi skuldabréfa eða tryggingarbréfa, væri einstaklingur (eða einstaklingar) en ekki lögaðili.

Umrætt ákvæði 8. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013 var fellt brott úr lögunum með 39. gr. laga nr. 125/2015, um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016. Í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 125/2015 kom fram að skilyrði stimpilgjaldslaga varðandi eigin not íbúðarhúsnæðis hefði reynst erfitt í framkvæmd, enda gæti verið örðugt að sýna fram á það að íbúðarhúsnæði væri eingöngu keypt til eigin nota. Þá gæti þetta einnig leitt til fremur ósanngjarnrar og óheppilegrar niðurstöðu, t.d. í þeim tilvikum þegar eigandinn flytti tímabundið erlendis vegna náms eða starfa eða leigði húsnæðið út tímabundið til að fjármagna kaupin á því. Hafa yrði í huga að einstaklingur ætti einungis rétt á umræddum afslætti á stimpilgjaldi í eitt skipti vegna kaupa á íbúðarhúsnæði og væru því ekki taldar ástæður til að setja frekari skorður fyrir afslættinum. Samkvæmt 59. gr. laga nr. 125/2015 öðluðust breytingar þessar gildi og komu til framkvæmda 1. janúar 2016.

Eins og á er bent í kæru til yfirskattanefndar er skilyrði varðandi eigin not íbúðarhúsnæðis, með hliðstæðu orðalagi og fram kemur í 8. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013, að finna í B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að því er tekur til greiðslu vaxtabóta. Er þetta skilyrði um eigin not íbúðarhúsnæðis skilgreint í 4. gr. reglugerðar nr. 990/2001, um greiðslu vaxtabóta. Þar kemur fram að með eigin notum sé átt við að húsnæðið sé nýtt til íbúðar af eiganda þess sjálfum. Jafnframt er kveðið á um það að sérstakar tímabundnar aðstæður, svo sem nám, veikindi eða atvinnuþarfir sem valdi því að eigandi íbúðarhúsnæðis geti ekki sjálfur nýtt það til íbúðar, leiði þó ekki til þess að viðkomandi missi rétt til vaxtabóta.

Vegna skírskotunar kæranda til greindra ákvæða um rétt til vaxtabóta og úrskurða yfirskattanefndar hvað þau ákvæði snertir, er rétt að geta þess að í úrskurðaframkvæmd hefur verið litið svo á að kjósi eigandi að leigja íbúðarhúsnæði sitt út til lengri eða skemmri tíma í stað þess að nýta húsnæðið sjálfur, t.d. þar sem slík ráðstöfun er hagkvæm í fjárhagslegu tilliti, teljist skilyrði vaxtabóta samkvæmt fyrrnefndum reglum almennt ekki vera fyrir hendi, enda sé þá ekki um það að ræða að eigandi geti ekki sjálfur nýtt húsnæðið til íbúðar. Má m.a. vísa um þetta til úrskurða yfirskattanefndar nr. 22/2013 og 29/2015 sem birtir eru á vef nefndarinnar. Vegna tilvísunar umboðsmanns kæranda til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 158/2007 skal tekið fram að atvik í því máli voru með öðrum hætti en að framan greinir og þannig ekki um það að ræða að fjárhagsleg atriði hafi leitt til þess að skattaðilar nýttu ekki sjálfir húsnæði sitt til íbúðar.

Engar sambærilegar reglur og hér hafa verið raktar var að finna í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum að því er varðar skilyrðið um eigin not íbúðarhúsnæðis í 8. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013 vegna afsláttar stimpilgjalds af fyrstu íbúðarkaupum. Til þess er að líta að gjaldskylda til stimpilgjalds stofnast þegar gjaldskylt skjal er undirritað, sbr. upphafsákvæði 2. gr. laganna. Í því ljósi verður að skilja margnefnt skilyrði þannig að vísað sé til notkunar kaupanda á viðkomandi eign þegar í framhaldi af því að hann fær umráð hins keypta eða í eðlilegum tengslum við það. Allt að einu verður að telja að ekki sé loku fyrir það skotið að umrætt skilyrði geti talist uppfyllt við sérstakar aðstæður þó svo að viðkomandi húsnæði sé ekki nýtt til íbúðar af kaupanda þess í beinu framhaldi af kaupum, t.d. þegar nám, veikindi eða aðrar sambærilegar aðstæður leiða til þess að kaupanda er ómögulegt að nýta viðkomandi húsnæði sjálfur til íbúðar um ákveðinn tíma. Á hinn bóginn verður að telja að bæði orðalag ákvæðisins í 8. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013 svo og forsaga þess og ástæður sem fram voru færðar fyrir niðurfellingu ákvæðis þessa úr lögum mæli eindregið gegn því að hér megi fella það undir þegar viðkomandi aðili ráðstafar húsnæði til útleigu fyrst og fremst af fjárhagsástæðum. Væri það og andstætt fyrrgreindum ákvæðum um vaxtabótarétt, sem kærandi vísar til, miðað við skýringu þeirra í úrskurðaframkvæmd.

Kærandi undirritaði kaupsamning um umrædda fasteign að H í Reykjavík þann 18. júlí 2014 og fékk afslátt af stimpilgjaldi á grundvelli 5. gr. laga nr. 138/2013 við þinglýsingu samningsins. Fram er komið að sýslumaður hófst handa með endurákvörðun stimpilgjalds af kaupsamningnum í ljósi húsaleigusamnings um fasteignina sem var lagður inn til þinglýsingar hjá sýslumanni 25. ágúst 2014, enda taldi sýslumaður að ekki væru til staðar skilyrði til að veita kæranda afslátt af stimpilgjaldi þar sem íbúðin hefði ekki verið keypt til eigin nota.

Út af fyrir sig má fallast á það með sýslumanni að upplýsingar samkvæmt fyrirliggjandi leigusamningi hafi veitt vísbendingu um að áhöld væru um það hvort skilyrði 8. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2014 fyrir helmingsafslætti stimpilgjalds væri uppfyllt í tilviki kæranda. Eins og lagareglu þessari er farið og í ljósi þess hvernig skýra verður hana samkvæmt framansögðu verður þó ekki talið að sýslumanni hafi á grundvelli þessara upplýsinga einna verið unnt af slá því föstu að kærandi hefði ekki keypt íbúðarhúsnæðið til eigin nota í skilningi ákvæðisins. Meðal annars var hugsanlegt að útleiga á húsnæðinu stafaði af námi kæranda, veikindum eða einhverjum öðrum þeim ástæðum sem leitt hefðu til þess að kaupanda væri ekki mögulegt að nýta viðkomandi húsnæði sjálfur til íbúðar um ákveðinn tíma. Samkvæmt framansögðu er einsýnt að sýslumaður varð að sjá til þess að málið væri nægjanlega upplýst hvað snerti umrædda útleigu og þá einkum með öflun upplýsinga frá kæranda sjálfum áður en hann tók hina umdeildu ákvörðun sína, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og jafnframt að gefa kæranda kost á að neyta andmælaréttar síns, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en ákvörðun var tekin um endurákvörðun stimpilgjalds. Þessa var ekki gætt af hálfu sýslumanns. Að þessu athuguðu og þar sem telja verður að um verulegan annmarka á málsmeðferð sýslumanns hafi verið að ræða þykir bera að ómerkja hina kærðu endurákvörðun. Með úrskurði þessum er þá engin efnisafstaða tekin til ágreiningsefnisins.

Af hálfu kæranda er gerð krafa um að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Í ákvæði þessu kemur fram að falli úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, geti yfirskattanefnd úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi skattaðili haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur. Af hálfu kæranda hafa engin gögn verið lögð fram um útlagðan kostnað hans vegna meðferðar málsins þrátt fyrir ábendingu þar að lútandi í bréfi yfirskattanefndar, dags. 17. júlí 2017, þar sem móttaka kærunnar var staðfest. Með vísan til framanritaðs, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014, sem birtar eru á vef nefndarinnar, er málskostnaðarkröfu kæranda hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða endurákvörðun stimpilgjalds af kaupsamningi um eignina H, Reykjavík, er felld úr gildi. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja