Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sameignarfélag
  • Sjálfstæð skattskylda

Úrskurður nr. 698/1994

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 2. gr. 1. mgr. 3. tölul.  

Samkvæmt félagssamningi sameignarfélags gat hvor eigenda félagsins krafist slita félagsins, en hvorugur gat í því tilfelli selt hlut sinn í félaginu með öðrum hætti en að selja hinum og skyldu eigendur skipa sinn matsmanninn hvor ef ekki næðist samkomulag um verð og greiðsluskilmála innan sex mánaða og hlíta mati matsmannanna um þessi atriði. Með úrskurði yfirskattanefndar var hnekkt því mati skattstjóra að framangreind ákvæði félagssamnings fullnægðu ekki því lagaskilyrði fyrir sjálfstæðri skattskyldu sameignarfélaga að í félagssamningi væri getið hvernig félagsslitum skyldi háttað.

I.

Málavextir eru þeir að sameignarfélagið X var skráð í firmaskrá 29. desember 1989. Tekið var fram að félagið skyldi vera sjálfstæður skattaðili. Skattframtal fyrir félagið gjaldárið 1990 barst skattstjóra hinn 14. júní 1990 eða að liðnum framtalsfresti. Hvorki liggur fyrir að félaginu hafi verið áætlaðir gjaldstofnar við álagningu gjalda 1990 né að skattframtalið hafi verið lagt til grundvallar álagningu. Þá var skattframtalið ekki tekið til afgreiðslu sem skattkæra. Gjaldstofnar voru engir samkvæmt skattframtalinu, en yfirfæranlegt rekstrartap var talið 6.150 kr.

Með bréfi, dags. 19. apríl 1991, boðaði skattstjóri kæranda að fyrirhugað væri að „endurákvarða“ opinber gjöld hans 1990. Boðaði hann að tekjum og eignum yrði skipt til skattlagningar hjá eigendum, en aðstöðugjald og kirkjugarðsgjald yrðu lögð á kæranda. Voru forsendur hans að ákvæði í 5. gr. félagssamnings gerðu ekki þá grein fyrir hvernig með skyldi farið, ef til slita félagsins kæmi, að fullnægjandi gæti talist. Vísaði hann í því sambandi til ákvæða 3. tl. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Umrædd ákvæði félagssamningsins voru svohljóðandi:

„Hvor okkar um sig getur krafist slita á félaginu með 6 mánaða fyrirvara. Á þá hinn okkar rétt á að kaupa hlut hins í félaginu innan þess tíma. Náist ekki samkomulag um verð og greiðsluskilmála skal mat fara fram á þann hátt, að aðilar nefna sinn matsmanninn hver. Hvorugur eigandi getur selt hlut sinn í félaginu með öðrum hætti en að framan greinir.“

Umboðsmaður kæranda mótmælti boðaðri breytingu með bréfi til skattstjóra, dags. 26. apríl 1991. Benti hann á að félagið væri í firmaskrá skráð án athugasemda sem sjálfstæður skattaðili. Þá taldi hann félagssamning uppfylla öll skilyrði 3. tl. 2. gr. laga nr. 75/1981 og vísaði til ákvæða 2. gr. félagssamningsins um eignarhlutdeild og ákvæða 5. gr. um slit.

Með bréfi, dags. 4. mars 1992, kvaðst skattstjóri hrinda boðaðri breytingu í framkvæmd. Gjaldstofnar voru engir og álögð gjöld engin bæði fyrir „breytingu“ og eftir. Umboðsmaður kæranda andmælti gerðum breytingum með kæru til skattstjóra, dags. 20. mars 1992. Skattstjóri staðfesti ákvörðun sína með kæruúrskurði, dags. 24. mars 1993.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 5. apríl 1993. Í kærunni segir:

„Félagið er skráð í firmaskrá sem sjálfstæður skattaðili. Í 3. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð segir eftirfarandi: „Ef tilkynning er ekki lögum samkvæm, eða ef í henni stendur eitthvað, sem eigi er lagaheimild fyrir að setja á skrá, skal þeirri tilkynning vísað frá og skal skrásetningarvaldsmaður senda tilkynnanda sem allra fyrst skeyti um frávísun þessa og ástæður fyrir henni.“ Firmaskrárritari gerði ekki athugasemd við tilkynninguna og þar með sjálfstæða skattaðild félagins.

Í 2. gr. félagssamnings kemur eignarhlutdeild eigenda skýrt fram og í 5. gr. hvernig slitum skuli háttað. Við fáum ekki annað séð en að slitákvæði þetta sé alveg fullnægjandi með tilliti til 3. tl. 2. gr. laga nr. 75/1981. Einnig er rétt að vitna í hefð í þessu sambandi, en engin lög um þetta hafa breyst nýlega.“

Með bréfi, dags. 19. nóvember 1993, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

Ágreiningsefni það sem hér er til úrlausnar lýtur að því hvort kærandi skuli bera sjálfstæða skattskyldu, sbr. 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eða hvort tekjum og eignum skuli skipt milli aðila, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981 hvílir skattskylda eftir lögunum á „sameignarfélögum með ótakmarkaðri ábyrgð félagsaðila, enda sé félagið skráð í firmaskrá hér á landi, þess óskað við skráningu að félagið sé sjálfstæður skattaðili og við skráningu afhentur félagssamningur þar sem getið sé eignarhlutfalla eigenda, innborgaðs stofnfjár svo og hvernig félagsslitum skuli háttað. Senda skal skattstjóra vottorð um skráningu og staðfest eftirrit af félagssamningi með fyrsta skattframtali þessara félaga. Hjón ein sér eða með ófjárráða börnum sínum geta ekki myndað sameignarfélag er sé sjálfstæður skattaðili.“

Í 5. gr. félagssamningsins, sem dagsettur er 27. desember 1989, eru ákvæði um félagsslit, er skattstjóri telur eigi uppfylla fyrrgreind skilyrði 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Efni þessara ákvæða hefur komið fram hér að framan. Þess er getið í félagssamningnum að sameignarfélagið skuli vera sjálfstæður skattaðili og var það athugasemdalaust tilkynnt og skráð í firmaskrá Reykjavíkur hinn 29. desember 1989. Að þessu athuguðu og að virtum umræddum ákvæðum félagssamningsins í ljósi nefnds ákvæðis laga um tekjuskatt og eignarskatt og almennra reglna félagaréttar verður eigi á það fallist með skattstjóra að hafna beri sjálfstæðri skattskyldu sameignarfélagsins af þessum sökum. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfur kæranda. Tap til næsta árs verður 6.150 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja