Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 320/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 53. gr. — 61. gr. 1. ml.  

Þjónusta — Vinnuþáttur — Innborganir vegna seldrar þjónustu — Tekjuuppgjör — Tekjuuppgjörsaðferð — Tekjutímabil — Tekjuuppgjör rekstrar — Verðbreytingarfærsla — Stofn til verðbreytingarfærslu — Verðbreytingarfærslustofn — Eignir við útreikning verðbreytingarfærslu — Álagningarmeðferð skattstjóra

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 27. júlí 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda, að tekjur á rekstrarreikningi hefðu verið hækkaðar um 804.383 kr., er væri vegna leiðréttingar verðbreytingarfærslu skv. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Í stað gjaldfærslu vegna verðbreytinga 791.285 kr. kæmi tekjufærsla að fjárhæð 13.098 kr. með því að viðskiptakröfur að fjárhæð 4.352.722 kr. sem taldar væru til eignar þann 31. desember 1987 mynduðu ekki stofn til verðbreytingarfærslu, þ.e. tekjufærslu hefði verið frestað samkvæmt 61. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Við þetta hækkuðu hreinar tekjur til skatts úr 0 kr. í 804.383 kr. Samkvæmt skattskilum kæranda var hagnaður af rekstri 1.786.066 kr. án tekju- og eignarskatts ársins færður í 0 kr. með frestun tekjufærslu skv. 61. gr. skattalaga um sömu fjárhæð. Í skýringum með ársreikningi var fjárhæð frestunar talin 6.138.788 kr. og tekjufærð frestun fyrra árs á móti eða 4.352.722 kr. eða mismunur 1.786.066 kr.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var álagningunni mótmælt í kæru, dags. 22. ágúst 1989. Fór hann fram á, að kæranda yrði heimiluð frestun tekjufærslu skv. 61. gr. laga nr. 75/1981 á móti leiðréttingu á verðbreytingarfærslu og stofn til tekjuskatts yrði því 0 kr. en frestun tekjufærslu 6.943.171 kr.

Með kæruúrskurði, dags. 7. desember 1989, vísaði skattstjóri kærunni frá, þar sem ekki yrði talið, að kæranda hefði tekist að sýna fram á réttmæti kröfu sinnar. Forsendur skattstjóra eru svofelldar:

„Samkvæmt 61. gr. laga nr. 75/1981 getur skattstjóri heimilað þeim sem atvinnurekstur stunda og selja þjónustu að miða tekjuuppgjör rekstrarins við innborganir vegna seldrar þjónustu í stað þess að miða við unna og bókfærða þjónustu, í þeim tilvikum sem vinnuþáttur hinnar seldu þjónustu er almennt yfir 70%. Af kröfugerð kæranda verður sú ályktun dregin að frestun tekjufærslu skv. framtali sé ekki í samræmi við ákvæði 61. gr. laga nr. 75/1981, þ.e. frestun tekjufærslu virðist taka mið af rekstrarniðurstöðu en ekki raunverulegri stöðu innborganna.“

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 2. janúar 1990. Kröfugerðin er svohljóðandi:

„Ég fer fram á að breyting sú, sem boðuð var þann 27. júlí 1989 af skattstjóranum í Reykjavík, á framtali umbjóðanda míns fyrir árið 1989 verði afturkölluð. Ákvæði 53. gr. laga 75/1981 tilgreina í upptalningu hvaða eignir skuli telja til eigna við útreikning stofns til verðbreytingarfærslu, og í þeirri upptalningu er ekki undantekin sú viðskiptaeign sem myndast við þá tekjuskráningu sem heimilt er að fresta skv. ákvæðum 61. gr. sömu laga. Þannig verður ekki séð að verðbreytingarfærsla ársins eigi að breytast. Skattstjóri staðfestir eignarskattsskyldu sömu eigna þar sem eignarskattur er lagður á þessar umræddu eignir bæði 1988 og 1989. 61. gr. laga 75/1981 tekur á tekjuuppgjöri rekstrarins en ekki eignauppgjöri, þannig að sú grein kveður ekki á um að þessar eignir séu undanskildar við útreikning stofns til verðbreytingarfærslu. Í ýmsum tilfellum er meðhöndlun eigna og tekna mismunandi t.d. heimildarákvæði um frestun tekna í tiltekinn tíma eða jöfnun tekna á ákveðin tímabil. Í báðum tilfellum er eignaaukningin eignarskattsskyld og verður stofn til verðbreytingarfærslu. Til vara fer ég fram á að umbjóðanda mínum verði heimilað að miða tekjuuppgjör sitt við innborganir vegna seldrar þjónustu skv. 61. gr. og honum heimilað að fresta tekjum 1988 á framtali 1989 um kr. 9.767.131.- í stað kr. 6.138.788.- og millifæranlegt tap til næsta árs verði því kr. 2.823.960.-.“

Með bréfi, dags. 12. mars 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Þrátt fyrir ályktun sína í hinum kærða úrskurði og það sem málsgögn bera með sér um tilhögun á nefndri tekjufærslu kæranda hefur skattstjóri eigi gert gangskör að því að taka hana til sérstakrar meðferðar heldur byggt á henni. Með vísan til þess og eins og mál þetta liggur fyrir þykja eigi efni til þess að hagga hinni kærðu álagningu. Kærunni er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja