Úrskurður yfirskattanefndar
- Endurupptaka máls
- Málskostnaður
Úrskurður nr. 176/2017
Lög nr. 37/1993, 24. gr. Lög nr. 30/1992, 8. gr. 2. mgr. (brl. nr. 96/1998, 4. gr.)
Beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 119/2017, sem byggði á því að kæranda hefði láðst að leggja fyrir nefndina gögn til stuðnings málskostnaðarkröfu, var hafnað. Voru skýringar kæranda á ástæðu þess að gögnin voru ekki lögð fram undir meðferð málsins, þ.e. að kærandi hefði búist við því að fá ábendingu frá yfirskattanefnd um að málið væri tilbúið til meðferðar, ekki taldar gefa neitt tilefni til að taka málið til nýrrar meðferðar hvað varðaði ákvörðun málskostnaðar.
Ár 2017, miðvikudaginn 22. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 119/2017; beiðni A, dags. 5. september 2017, um endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 119/2017. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með bréfi, dags. 5. september 2017, hefur umboðsmaður kæranda farið fram á að úrskurður yfirskattanefndar nr. 119/2017, sem kveðinn var upp hinn 30. ágúst 2017 í máli kæranda vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts árið 2016, verði endurupptekinn að því er tekur til ákvörðunar málskostnaðar til handa kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
Með greindum úrskurði nr. 119/2017 felldi yfirskattanefnd úr gildi ákvörðun ríkisskattstjóra um að synja kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem fram hafði verið borin við embættið á grundvelli 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja. Jafnframt var endurgreiðslubeiðni kæranda vísað til meðferðar hjá ríkisskattstjóra að nýju, en talið var að ekki væru forsendur til þess að taka nýja ákvörðun um efnisatriði málsins með úrskurði yfirskattanefndar. Í úrskurðinum var tekið fram að því væri ekki tekin efnisafstaða til ágreiningsefnisins. Í málinu var þess jafnframt krafist af hálfu kæranda að félaginu yrði ákveðinn málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Var þeirri kröfu kæranda hafnað á þeim grundvelli að félagið hefði ekki lagt fram nein gögn um útlagðan kostnað vegna meðferðar málsins þrátt fyrir ábendingu þar að lútandi í bréfi yfirskattanefndar, dags. 20. mars 2017, þar sem móttaka kærunnar var staðfest, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014, sem birtar eru á vef nefndarinnar.
Í endurupptökubeiðni kæranda kemur fram að ástæða þess að engin gögn hafi verið lögð fyrir yfirskattanefnd til stuðnings málskostnaðarkröfu kæranda sé sú að umboðsmaður kæranda hafi talið að hann fengi um það upplýsingar frá yfirskattanefnd þegar málið yrði tilbúið til efnismeðferðar. Hafi umboðsmaðurinn haft í hyggju að senda gögn til stuðnings málskostnaðarkröfu á þeim tímapunkti. Vegna sumarleyfis hafi umboðsmaður kæranda ekki getað fylgst með því af sjálfsdáðum hvort nefndin teldi málið tilbúið til meðferðar. Sé verulega ósanngjarnt að kærandi verði sjálfur að bera kostnað af málinu þegar litið sé til úrskurðar yfirskattanefndar sem hafi fallist á það með kæranda að verulegir annmarkar hafi verið á málsmeðferð ríkisskattstjóra. Með tölvubréfi 9. september 2017 hefur umboðsmaður kæranda lagt fram sölureikning, dags. 9. september 2017, að fjárhæð 210.000 kr. án virðisaukaskatts, ásamt tímaskýrslu, svo og greiðslustaðfestingu. Með vísan til þessa sé farið fram á endurupptöku málsins og þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.
II.
Með 2. mgr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er breytti 2. mgr. 8. gr. þeirra laga, var lögfest að yfirskattanefnd gæti úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði. Ákvæði þetta er svohljóðandi:
„Nú fellur úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, og getur yfirskattanefnd þá úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi hann haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur.“
Um ákvörðun málskostnaðar samkvæmt þessu lagaákvæði styðst yfirskattanefnd við starfsreglur frá 21. nóvember 2014 sem nefndin hefur sett sér og birtar eru á vef nefndarinnar.
Það leiðir af niðurstöðu í úrskurði yfirskattanefndar nr. 119/2017, sem gekk kæranda í hag með því að hin kærða synjun ríkisskattstjóra á endurgreiðslu virðisaukaskatts árið 2016 var felld úr gildi, að kæranda bar réttur til greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. skilyrði fyrir ákvörðun málskostnaðar í framangreindu lagaákvæði, en krafa um greiðslu málskostnaðar lá fyrir í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 17. mars 2017. Eins og fram kemur í úrskurðinum var kröfu kæranda um ákvörðun málskostnaðar hafnað á þeim forsendum að engin gögn hefðu verið lögð fram um útlagðan kostnað kæranda vegna meðferðar málsins þrátt fyrir ábendingu þar að lútandi í bréfi yfirskattanefndar, dags. 20. mars 2017, þar sem móttaka kærunnar var staðfest og vísað í fyrrgreindar starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar.
Ekki verður talið að fram komnar skýringar kæranda á ástæðu þess að gögn voru ekki lögð fram til stuðnings málskostnaðarkröfu félagsins undir meðferð málsins, þ.e. að umboðsmaður kæranda hefði búist við því að fá ábendingu frá yfirskattanefnd um að málið væri tilbúið til meðferðar, gefi neitt tilefni til að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar hvað varðar ákvörðun málskostnaðar vegna kæru til yfirskattanefndar, dags. 17. mars 2017. Skal áréttað að í fyrrgreindu bréfi yfirskattanefndar, dags. 20. mars 2017, var m.a. bent á að krafa um málskostnað skyldi vera studd gögnum, m.a. reikningum fyrir útlögðum kostnaði, þar sem kæmi fram kvittun eða önnur sönnun fyrir greiðslu. Tekið skal fram í þessu sambandi að í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, með áorðnum breytingum, er kveðið á um að kæra til yfirskattanefndar skuli vera skrifleg. Þá segir að kærunni skuli fylgja frumrit eða endurrit ákvörðunar stjórnvalds sem kæran tekur til. Í kærunni skuli koma fram hvaða atriði í ákvörðuninni sæta kæru og rökstuðningur fyrir kröfum. Loks kemur fram í ákvæðinu að gögn, sem ætluð eru til stuðnings kærunni, skulu fylgja í frumriti eða endurriti.
Samkvæmt framansögðu og þar sem hvorki ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né aðrar réttarreglur leiða til þess að endurupptaka beri mál kæranda er endurupptökubeiðni kæranda hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Beiðni kæranda um endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar nr. 119/2017 er hafnað.