Úrskurður yfirskattanefndar

  • Framreiðslumaður
  • Teknategund
  • Beinn kostnaður

Úrskurður nr. 939/1994

Gjaldár 1993

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul., 31. gr., 95. gr.  

Kærandi var framleiðslumaður sem hafði milligöngu um launagreiðslur til aðstoðarmanna sinna og nema. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að líta bæri á tekjur kæranda sem launatekjur. Var kæranda talið heimilt að draga frá tekjum sínum beinan útlagðan kostnað vegna aðstoðarmanna og nema, þar á meðal laun þeirra, sjúkra- og orlofssjóð, skólakostnað vegna nema, lífeyrisgjöld og kostnað vegna vottorða og æfinga. Hins vegar var synjað um frádrátt annars kostnaðar sem kærandi tilgreindi í rekstraryfirliti sínu.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi, sem er þjónn, skilaði með skattframtali sínu árið 1993 rekstraryfirliti vegna starfsemi á árinu 1992. Kom fram að tekjur hefðu numið 1.988.905 kr. en gjöld 545.806 kr. sem sundurliðuðust í vinnulaun: 478.105 kr., lífeyrissjóðsgjöld: 27.915 kr., skólakostnað vegna nema: 12.857 kr., sjúkra- og orlofssjóð: 4.465 kr., ritföng: 1.393 kr., vottorð og æfingakostnað: 3.071 kr. og reikningslega aðstoð 18.000 kr. Með bréfi, dags. 27. júlí 1993, tilkynnti skattstjóri kæranda, með vísan til 95. gr. laga nr. 75/1981, tekjuskatt og eignarskatt, að aðrir gjaldaliðir en vinnulaun hefðu verið felldir niður og launatekjur kæranda hækkaðar um sömu fjárhæð. Samkvæmt skilgreiningu ríkisskattstjóra væru þjónar launþegar. Frá heildartekjum mættu þjónar aðeins draga greidd laun til aðstoðarfólks.

Umboðsmaður kæranda mótmælti álagningu þessari með kæru, dags. 19. ágúst 1993. Sagði að þeir sem hefðu launþega í vinnu bæru að sjálfsögðu ýmsan annan kostnað en eingöngu vinnulaun. Ýmiss samningsbundin réttindi yrði að virða og greiða kostnað því samfara. Væru hinir brottfelldu gjaldaliðir að því tagi. Vísaði umboðsmaður kæranda til 31. gr. laga nr. 75/1981 í þessu sambandi. Skattstjóri hafnaði kröfum kæranda með kæruúrskurði, dags. 19. október 1993. Ítrekaði hann fyrri rök sín í málinu.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 11. nóvember 1993, ítrekar umboðsmaður kæranda fyrri rök sín og kröfur.

Með bréfi, dags. 7. janúar 1994, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda, lagt fram svofellda kröfugerð:

„Fallist er á að gjaldaliðirnir sjúkra- og orlofssjóður, skólakostnaður v/nema og lífeyrisgjöld samtals að fjárhæð kr. 45.237 komi til frádráttar tekjum, enda er það í fullu samræmi við bréf ríkisskattstjóra frá 24. nóvember 1980.“

II.

Kærandi er framreiðslumaður og hefur milligöngu um launagreiðslur til aðstoðarmanna sinna og nema. Sem slíkur á hann rétt á að draga frá tekjum sínum beinan útlagðan kostnað vegna aðstoðarmanna og nema. Þar undir falla greidd vinnulaun til umræddra aðila, en um þau er ekki ágreiningur í máli þessu. Einnig falla þar undir gjaldaliðir þeir að fjárhæð 45.237 kr., sem ríkisskattstjóri hefur fallist á að komi til frádráttar. Ennfremur þykir mega fella þar undir kostnað vegna vottorða og æfinga 3.071 kr. Vísast í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar í dómabindi 1980, bls. 1948, sbr. bréf ríkisskattstjóra til allra skattstjóra, dags. 24. nóvember 1980 og 11. desember 1991. Þar sem litið er á tekjur framreiðslumanna sem launatekjur í skilningi 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er frádráttur annars kostnaður óheimill.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Tekjuskattsstofn lækkar um 48.308 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja