Úrskurður yfirskattanefndar
- Rekstrarkostnaður
- Sakarkostnaður
- Málsmeðferð
Úrskurður nr. 943/1994
Gjaldár 1993
Lög nr. 75/1981, 52. gr. 2. tölul., 95. gr.
Skattstjóri felldi niður gjaldfærðan sakarkostnað í skattskilum kæranda og mótmælti kærandi breytingunni á þeim grundvelli að um væri að ræða málskostnað sem félagið hefði verið dæmt til að greiða vegna skattamála sinna. Yfirskattanefnd staðfesti ákvörðun skattstjóra á þeim grundvelli að lagaheimild skorti til að heimila hinn umdeilda kostnað til frádráttar, sbr. 2. málsl. 2. tölul. 52. gr. laga nr. 75/1981.
I.
Málavextir eru þeir að í ársreikningi 1992 sem fylgdi skattframtali kæranda 1993 var „sakarkostnaður“ 3.488.750 kr. færður til gjalda. Með bréfi, dags. 27. júlí 1993, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að gjöld á skattframtali hefðu verið lækkuð um nefnda fjárhæð sakarkostnaðar en samkvæmt 2. tl. 52. gr. laga nr. 75/1981 teldust fjársektir og önnur viðurlög ekki til rekstrarkostnaðar í skilningi skattalaga.
Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 25. ágúst 1993, á þeirri forsendu að nefndur gjaldaliður væri málskostnaður í dómsmáli gegn kæranda en ekki fjársekt eða viðurlög eins og skattstjóri virtist ætla. Sekt, sem kæranda hefði verið gert að greiða, hefði hins vegar verið færð á óráðstafað eigið fé svo sem fram komi í ársreikningi. Með kæruúrskurði, dags. 12. janúar 1994, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Væri ekki lagaheimild fyrir hendi til að heimila hinn umdeilda kostnað til frádráttar. Kostnaðurinn tengdist ekki rekstri kæranda á þann veg að hann teldist til rekstrarkostnaðar skv. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 10. febrúar 1994, sbr. kröfugerð í bréfi, dags. 17. mars 1994. Er þess krafist að breytingu skattstjóra verði hnekkt á þeirri forsendu að skattstjóri fór með breytinguna eftir 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, í stað 96. gr. sömu laga. Sé breyting skattstjóra á misskilningi byggð þar sem hann hefði talið að hér væri um sekt að ræða, sbr. 2. tl. 52. gr. laga nr. 75/1981 sem ekki ætti við rök að styðjast, enda ekki vísað til þeirrar greinar í kæruúrskurði. Efnislega gerir umboðsmaður kæranda þá kröfu að fallist verði á kostnaðinn til frádráttar tekjum. Um hafi verið að ræða málskostnað sem kæranda hafi verið gert að greiða vegna málaferla sem hann stóð í við ríkið vegna skattamála. Hljóti kostnaður við að tryggja hagsmuni félagsins í dómsmálum og þar með eignir þess og hæfi til öflunar tekna að teljast rekstrarkostnaður í skilningi 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Að öðrum kosti myndi það skerða verulega möguleika fyrirtækja til að gæta hagsmuna sinna í skattamálum, enda hafi skattyfirvöld fram að þessu ekki vefengt frádráttarbærni kostnaðar hjá fyrirtækjum við að gæta hagsmuna sinna gagnvart skattyfirvöldum.
II.
Ekki þykja efni til athugasemda um málsmeðferð skattstjóra.
Lagaheimild skortir til að heimila hinn umdeilda kostnað til frádráttar, sbr. 2. ml. 2. tl. 52. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og er úrskurður skattstjóra því staðfestur.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Úrskurður skattstjóra er staðfestur.