Úrskurður yfirskattanefndar

  • Staðarleg valdmörk skattstjóra
  • Deild ríkisstofnunar

Úrskurður nr. 957/1994

Virðisaukaskattur 1990-1993

Lög nr. 75/1981, 85. gr.   Lög nr. 50/1988, 3. gr. 1. mgr. 4. tölul., 5. gr., 24. gr. 5. og 6. mgr.   Lög nr. 3/1955, 1. gr., 5. gr. a.  

Kærandi var ríkisstofnun sem hafði aðsetur og aðalskrifstofu í umdæmi skattstjórans í Austurlandsumdæmi. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að telja yrði starfsemi einstakra deilda kæranda vera órofa þátt í lögboðinni starfsemi stofnunarinnar. Því væru einstakar deildir kæranda ekki sérstakir skattaðilar samkvæmt virðisaukaskattslögum. Var skattstjórinn í Reykjanesumdæmi ekki talinn bær til ákvörðunar um virðisaukaskatt vegna starfsemi gróðrarstöðvar kæranda í því umdæmi. Voru þær ákvarðanir því felldar úr gildi og málið sent skattstjóranum í Austurlandsumdæmi til meðferðar.

I.

Með kæru, dags. 7. janúar 1994, hefur kærandi, Skógrækt ríkisins, skotið til yfirskattanefndar ákvörðun skattstjórans í Reykjanesumdæmi um að lækka innskatt á virðisaukaskattsskýrslum kæranda vegna allra uppgjörstímabila áranna 1990 og 1992 og janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní og júlí-ágúst 1993. Af hálfu kæranda er þess krafist að innskattur standi óhaggaður frá því sem hann var færður á virðisaukaskattsskýrslur. Efnislegur rökstuðningur fyrir kröfunni er með sama hætti og um ræðir í úrskurði yfirskattanefndar nr. 933/1994, sem upp var kveðinn hinn 9. þessa mánaðar, vegna virðisaukaskattsskila kæranda v/aðalskrifstofu.

Með bréfi, dags. 9. ágúst 1994, hefur ríkisskattstjóri lagt fram þá kröfugerð í málinu fyrir hönd gjaldkrefjanda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Kærandi í máli þessu, Skógrækt ríkisins, er ríkisstofnun sem starfar á grundvelli laga nr. 3/1955, um skógrækt. Óumdeilt er í málinu að kærandi sé skráningarskyldur samkvæmt 5. gr., sbr. 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. nánari umfjöllun í úrskurði yfirskattanefndar nr. 933/1994. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1988 skal hver sá, sem skattskyldur er samkvæmt 3. gr. laganna, sbr. 4. gr. þeirra, ótilkvaddur og eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá skattstjóra þar sem hann er heimilisfastur. Um staðarleg valdmörk skattstjóra fer eftir 85. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. lokamálsgrein 49. gr. laga nr. 50/1988. Leiða má þá meginreglu af ákvæðum 5. og 6. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988 að hver skráður aðili samkvæmt lögunum skuli standa skil á einni virðisaukaskattsskýrslu. Samkvæmt 6. mgr. 24. gr. er skattstjóra heimilt að fallast á umsókn aðila, sem hefur með höndum margþættan atvinnurekstur, um að skila sérstakri skýrslu fyrir hverja sjálfstæða rekstrareiningu. Er tvímælalaust að slíku erindi skal beint að skattstjóra sem um ræðir í 5. gr. laganna.

Samkvæmt 5. gr. a laga nr. 3/1955 skulu aðalstöðvar kæranda vera á Fljótsdalshéraði. Samkvæmt skráningu fyrirtækjaskrár Hagstofu Íslands flutti kærandi aðsetur sitt frá Reykjavík til Egilsstaða hinn 20. desember 1989. Fyrir liggur í málinu að kærandi starfar í tíu deildum (rekstrareiningum) og er þá þar með talin aðalskrifstofa kæranda á Egilsstöðum. Deildir þessar hafa flestar tilkynnt um virðisaukaskattsskylda starfsemi sína til skattstjóra í því umdæmi þar sem þær hafa aðstöðu og hafa þær verið skráðar samkvæmt því. Sú deild kæranda sem mál þetta varðar, gróðrarstöð hans á Grundarhóli í Kjalarneshreppi, hefur þannig tilkynnt um starfsemi sína til skattstjórans í Reykjanesumdæmi. Samkvæmt því sem fyrir liggur um starfsemi kæranda í framlögðum gögnum kæranda, sbr. einnig ákvæði laga nr. 3/1955, verður að telja starfsemi einstakra deilda kæranda vera órofa þátt í lögboðinni starfsemi hans, sbr. 1. gr. laga nr. 3/1955. Verður því ekki talið að einstakar deildir kæranda geti talist sérstakir skattaðilar samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, enda ekki sjálfstæðar persónur að lögum, þótt þær kunni að vera sjálfstæðar rekstrareiningar í skilningi 24. gr. laganna.

Virðisaukaskattur, sem um er deilt í máli þessu, er ákvarðaður af skattstjóranum í Reykjanesumdæmi. Samkvæmt því sem að framan er rakið verður ekki talið að hann hafi verið bær til þeirra skattákvarðana. Þær eru því með öllu felldar úr gildi. Skattstjóranum í Austurlandsumdæmi er rétt að annast um nýja ákvörðun virðisaukaskatts á kæranda vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi gróðrarstöðvar að Grundarhóli.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Virðisaukaskattur vegna gróðrarstöðvar að Grundarhóli er felldur niður að svo stöddu. Málið er sent skattstjóranum í Austurlandsumdæmi til meðferðar

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja