Úrskurður yfirskattanefndar

  • Gjaldfærður arður, skuldfærsla
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 982/1994

Gjaldár 1993

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 8. tölul., 76. gr., 95. gr. 1. mgr.   Lög nr. 32/1978, 99. gr. 2. mgr.  

Deilt var um þá ákvörðun skattstjóra að heimila ekki frádrátt frá eignarskattsstofni hlutafélags sem nam fjárhæð arðs sem heimilt var að draga frá tekjum þess árs sem arðurinn var reiknaður af. Yfirskattanefnd féllst á það með kæranda að ekki væru efni til annars en að telja að gjaldfærður arður skyldi jafnframt talinn til skuldar. Ekki var tekið undir sjónarmið kæranda um annmarka á málsmeðferð skattstjóra með því að hann hefði breytt skattframtali kæranda án fyrirspurnar til félagsins.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 27. júlí 1993, tilkynnti skattstjóri kæranda, sem er hlutafélag, að með vísan til ákvæða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hefði sú breyting verið gerð á skattframtali hans 1993 að eignarskattsstofn hefði verið hækkaður um 52.500.000 kr., sem væri reiknaður arður. Voru forsendur skattstjóra þær að lagaheimild fyrir umræddri skuldfærslu skorti.

Umboðsmaður kæranda mótmælti breytingu skattstjóra með kæru til hans, dags. 25. ágúst 1993. Gerði hann kröfu um að breytingin yrði felld úr gildi. Aðallega byggði hann á því að skattstjóra hefði borið að gæta ákvæða 96. gr. laga nr. 75/1981 og gæta andmælaréttar kæranda. Hér væri ekki um að ræða augljósa skekkju og yrði breytingin því ekki gerð á grundvelli 95. gr. laganna. Til vara byggði hann á því að samkvæmt 8. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 væri arður frádráttarbær frá tekjum þess árs sem hann væri reiknaður af. Bókhaldsskyldir aðilar hefðu lengi haft þá reglu í heiðri bæði bókhaldslega og skattalega að færslur væru tvíhliða, þannig að færslur sem heimilt væri að færa í debet væru einnig færðar í kredit. Einnig benti hann á að í lögum um tekjuskatt og eignarskatt hefðu áður verið ákvæði um niðurfærslu vörubirgða. Þau ákvæði hefðu verið í kafla um eignir en ekki í kafla um frádrátt frá tekjum, en engum hefði þá komið til hugar að niðurfærsluna ætti aðeins að færa til lækkunar á eignum en ekki tekjum.

Skattstjóri hafnaði bæði aðal- og varakröfu kæranda með kæruúrskurði, dags. 27. október 1993. Voru forsendur hans þær að samkvæmt 76. gr. laga nr. 75/1981 skyldi draga skuldir skattþegna frá eignum, sbr. 73. gr. laganna, og miða álagningu eignarskatts við eigur í árslok að frádregnum fjárhæðum er um ræddi í 76., 77. og 78. gr. laganna. Þar væri ekki tekið fram að frá eignum mætti draga arð viðkomandi árs, sem ákvarðaður væri og úthlutað eftir lok ársins. Í 8. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981 væri fjallað um skattalega ráðstöfun, þ.e. frávik frá meginreglu laga, en ekki væri um að ræða rekstrargjöld. Af ákvæðum töluliðsins leiddi að kæranda væri heimilt að draga frá tekjum rekstrarársins útgjöld sem ekki væri stofnað til fyrr en eftir lok reikningsárs, þ.e. með ákvörðun hluthafafundar. Ekki væri fyrir hendi í lögum nr. 75/1981 sérstök heimild til að draga umræddan arð frá eignarskattsstofni og yrði því að líta svo á að það væri óheimilt.

Með kæru, dags. 22. nóvember 1993, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar og ítrekað fyrri kröfugerð.

Með bréfi, dags. 25. febrúar 1994, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

Telja verður að skattstjóri hafi mátt fara með hina kærðu breytingu eftir ákvæðum 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er því aðalkröfu kæranda hafnað. Víkur þá að efniskröfu málsins. Eins og kærandi hefur bent á er samkvæmt 8. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, heimilt að draga fjárhæð, sem hlutafélög og önnur félög með takmarkaðri ábyrgð félagsaðila greiða eða úthluta í arð, frá tekjum þess árs sem arðurinn er reiknaður af. Fallast verður á það með kæranda að ekki séu efni til annars en telja að gjaldfærður arður skuli jafnframt talinn til skuldar. Þetta hefur einnig stoð í B-lið 1.7 í 2. mgr. 99. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, en þar er ógreiddur arður talinn meðal þeirra skuldaliða sem sérgreindir skulu í efnahagsreikningi hlutafélags. Er að þessu virtu fallist á kröfu kæranda og eignarskattsstofn á skattframtali 1993 lækkaður um 52.500.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á efniskröfu kæranda

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja