Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður

Úrskurður nr. 1147/1994

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. mgr. 1. tölul.  

Talið var að kostnaður vegna fatnaðar kærenda, sem voru tónlistarmenn, væri persónulegur kostnaður þeirra og því ekki frádráttarbær sem rekstrarkostnaður. Hins vegar var fallist á frádráttarbærni útgjalda vegna þátttöku í tónlistarkeppni, enda þótti mega jafna þeim kostnaði til endurmenntunar- og auglýsingakostnaðar.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 31. janúar 1992, óskaði skattstjóri eftir því að kærandi, A, gerði grein fyrir kostnaðarliðunum fatnaður 31.699 kr., þátttaka í tónlistarkeppni í Finnlandi 56.221 kr. og þátttaka í tónlistarráðstefnu í Frakklandi 37.587 kr. og hvernig þeir tengdust öflun tekna, að tryggja þær eða halda þeim við, sbr. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með bréfi, dags. 20. febrúar 1992, óskaði skattstjóri sams konar upplýsinga frá kæranda, B, vegna fatnaðar 50.611 kr. og námskeiða- og ráðstefnukostnaðar 58.958 kr. Með bréfi,, dags. 10. febrúar 1992, kvaðst kærandi, A, hafa þurft að endurnýja skyrtu, buxur, skó, linda og slaufu við kjólföt. Þá kvaðst hann hafa tekið þátt í keppni í Finnlandi og því hefði fylgt töluverður kostnaður, fargjöld 43.018 kr., gisting og fæði 13.203 kr., en á móti hafi komið von um verðlaun. Kvaðst kærandi líta á slíka þátttöku sem auglýsingu og yrði að meta langtímagildi hennar. Þá gerði hann grein fyrir þátttöku í ráðstefnu í Frakklandi. Með bréfi, dags. 29. febrúar 1992, gerði kærandi, B, grein fyrir því að einleikshljóðfæraleikarar og kammermúsíkantar bæru töluverðan kostnað vegna fatnaðar og útlits. Væri þá oft um að ræða flíkur sem ekki kæmi til greina að kaupa nema starfið krefðist þess. Þá gerði hún grein fyrir ráðstefnu- og námskeiðakostnaði.

Með bréfi, dags. 28. desember 1992, boðaði skattstjóri kærendum niðurfellingu framangreindra kostnaðarliða af rekstrarreikningum með skattframtali 1991. Kærendur mótmæltu boðuðum breytingum með bréfi til skattstjóra, dags. 14. janúar 1993. Þar kom fram að einleikarar þyrftu að eiga ýmsar flíkur vegna starfa sinna sem nýttust þeim ekki að öðru leyti, svo sem kjólföt eða síða skrautkjóla. Þetta væri vinnufatnaður. Þátttöku sinni í keppnum líktu þau við slíka þátttöku arkitekta. Ekki væri aðeins keppt að 1. sæti, heldur styrktu auglýsingar og rannsóknir nýrra verka stöðu þeirra sem einleikara. Þá gerðu þau grein fyrir þátttöku í námskeiðum og ráðstefnum og þróun hljóðfæraleikara.

Með tilkynningu, dags. 5. apríl 1993, hratt skattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd. Felldi hann niður gjaldfærðan kostnað vegna fatnaðar hjá kærendum og kostnað kæranda, A, vegna þátttöku á alþjóðlegri tónlistarkeppni í Finnlandi.

Kærendur mótmæltu gerðum breytingum með kæru til skattstjóra, dags. 3. maí 1993. Kváðu þau viðeigandi klæðnað og fallega framkomu nauðsynlega til þess að þau væru frambærileg sem einleikarar. Þá töldu kærendur keppnisþátttöku vera einn af endurmenntunarliðum fagsins. Lærdómur fenginn í keppni gæti verið á við margra ára skólagöngu. Þar fengju hljóðfæraleikarar óvægna gagnrýni fjölmargra ólíkra dómara, verðlaun og viðurkenningar gætu orðið mikilvæg fyrir frekari atvinnumennsku. Aðeins væri gjaldfærður beinn útlagður kostnaður og þátttaka í keppni væri miklu meira álag en námskeiðsþátttaka og líklegri til beinna áhrifa á atvinnumöguleika hljóðfæraleikarans. Með kæruúrskurði, dags. 12. ágúst 1993, staðfesti skattstjóri gerðar breytingar.

Með kæru, dags. 9. september 1993, hefur umboðsmaður kærenda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar og ítrekað áður fram kominn rökstuðning.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 21. janúar 1994, krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið að þau gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

II.

Telja verður kostnað við fatnað, er í málinu greinir, persónulegan kostnað sem ekki er heimilt að færa til frádráttar skattskyldum tekjum og er úrskurður skattstjóra staðfestur hvað þann kostnað varðar. Þegar litið er til þeirra skýringa sem kærandi, A, hefur fært fram varðandi tengsl þátttöku í tónlistarkeppni við tekjuöflun hans þykir mega jafna þátttöku í slíkri keppni til endurmenntunar- og auglýsingakostnaðar, og færa kostnað þennan til frádráttar tekjum af sjálfstæðri starfsemi hans, sbr. 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, enda þykir fjárhæð hins umkrafða frádráttarliðar hófleg.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Úrskurður skattstjóra er staðfestur hvað varðar gjaldfærðan vinnufatnað en fallist á gjaldfærslu kostnaðar við þátttöku kæranda, A, í [tónlistar]keppni.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja