Úrskurður yfirskattanefndar

  • Nám erlendis

Úrskurður nr. 1153/1994

Gjaldár 1993

Lög nr. 75/1981, 1. gr.   Reglugerð nr. 532/1990, 1. gr. 2. mgr.  

Skattstjóri synjaði kæranda um skattalega heimilisfesti á Íslandi á þeirri forsendu að hann uppfyllti ekki skilyrði reglugerðar nr. 532/1990 um að hafa verið búsettur hér á landi síðustu fimm árin áður en nám hófst, en kærandi hefði verið búsettur í Danmörku áður en hann fluttist til Þýskalands í nám. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að kærandi hefði verið við nám í Danmörku sem uppfyllti skilyrði greindrar reglugerðar. Í ljósi tilgangs reglna um skattalega heimilisfesti námsmanna væri óeðlilegt að líta svo á að námsdvöl erlendis sem uppfyllti skilyrði reglugerðarinnar gæti rofið umræddan tímafrest. Var því fallist á kröfu kæranda um að hann héldi skattalegri heimilisfesti hér á landi.

I.

Málavextir eru þeir að við álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1993 miðaði skattstjóri við að kærandi bæri takmarkaða skattskyldu á Íslandi. Af hálfu umboðsmanns kæranda var álagningin kærð til skattstjóra með kæru, dags. 30. ágúst 1993, með ósk um skattalega heimilisfesti til handa kæranda á Íslandi. Fylgdu kærunni gögn um nám kæranda í Þýskalandi, ásamt launamiða, þar sem fram komu tekjur kæranda í Þýskalandi tekjuárið 1992. Með kæruúrskurði, dags. 5. janúar 1994, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með svofelldum rökstuðningi:

„Gjaldandi uppfyllir ekki skilyrði sem tilgreind eru í reglugerð nr. 532/1990 um réttindi og skyldur námsmanna erlendis, en þar segir m.a. að þeir sem dveljist erlendis við nám geti haldið öllum réttindum sem heimilisfesti hér á landi veitir, hafi þeir verið búsettir hér á landi síðustu 5 árin áður en nám hófst.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voruð þér ekki skráðir með lögheimili á Íslandi áður en nám yðar hófst í Þýskalandi árið 1985. Þrátt fyrir að lögheimili yðar hafi verið skráð hér á landi frá 1985 til 1990, þykir sýnt að heimild yðar til að halda lögheimili hér landi hafi verið felld niður 2. september 1990, sbr. skráningu Hagstofu Íslands dags. 4. feb. 1992. Samkvæmt framansögðu verður ekki séð að skilyrði séu fyrir hendi til að hægt verði að veita yður skattalega heimilisfesti fyrir gjaldárið 1993.“

Kærandi hefur með kæru, dags. 27. janúar 1994, skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar, þar sem ítrekuð er beiðni um skattalega heimilisfesti á Íslandi. Með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 22. mars 1994, hefur borist frekari staðfesting á skólavist kæranda og yfirlit frá LÍN, dags. 16. febrúar 1994, um greiðslur vegna námslána til kæranda.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 16. september 1994, lagt fram svofellda kröfugerð í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Skattstjóri byggir úrskurð sinn á því að kærandi hafi ekki verið búsettur hér á landi síðustu 5 árin áður en nám hófst. Því séu ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 532/1990, um réttindi og skyldur manna, sem dveljast erlendis við nám, skv. ákvæðum laga um opinber gjöld.

Í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið í kæru til yfirskattanefndar og með viðbótargögnum sem umboðsmaður kæranda kom á framfæri við ríkisskattstjóra 7. september s.l. telur ríkisskattstjóri að þessi niðurstaða skattstjóra sé ekki rétt, en hafa ber í huga að svo virðist vera að skattstjóra muni ekki hafa verið kunnugt um ástæðu dvalar kæranda í Danmörku á árinu 1984.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands var kærandi skrásettur með heimili að S-götu, Reykjavík, frá árinu 1977 til 1984 er hann flyst til Danmerkur. Hann er síðan aftur skráður með lögheimili á Íslandi árið 1985 en það ár mun hann hafa hafið nám í Þýskalandi, sbr. meðfylgjandi gögn.

Nám það sem kærandi stundaði í Danmörku árið 1984 uppfyllir þau skilyrði sem reglugerð nr. 532/1990 gengur út frá og eru í samræmi við það sem byggt var á í framkvæmd fram að gildistöku þeirrar reglugerðar.

Ljóst er að með umræddri reglugerð er leitast við að tryggja að námsmenn sem tímabundið dvelja erlendis við nám og fella niður heimilisfesti sína, geti í skattalegu tilliti og þrátt fyrir 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, haldið öllum þeim réttindum sem heimilisfesti hér á landi veitir samkvæmt lögum nr. 75/1981 og öðrum lögum um opinber gjöld.

Það væri því óeðlilegt að líta svo á að námsdvöl erlendis sem uppfyllir skilyrði reglugerðarinnar geti rofið þann tímafrest sem tiltekinn er í 2. mgr. 1. gr. Að öllu virtu verður að telja að sama eigi við um námsdvöl fyrir gildistöku reglugerðarinnar. Ríkisskattstjóri telur því rétt að fallast á kröfu kæranda.“

II.

Með vísan til þess sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra er fallist á kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja