Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Innskattur
  • Gerðarbreyting bifreiðar

Úrskurður nr. 1220/1994

Virðisaukaskattur 1992

Lög nr. 50/1988, 16. gr. 3. mgr. 6. tölul., 22. gr. 3. mgr., 25. gr.   Reglugerð nr. 81/1991, 2. gr. 6. tölul., 9. gr. 1. tölul., 11. gr. 2. mgr.  

Kærandi keypti bifreið sem á þeim tíma var útbúin og skráð sem fólksbifreið. Eftir kaupin breytti kærandi bifreiðinni og fékk hana skráða sem sendibifreið. Síðar seldi kærandi bifreiðina og greiddi virðisaukaskatt af söluverði. Yfirskattanefnd taldi að kærandi hefði ekki sýnt fram á að bifreiðin hefði við kaup uppfyllt skilyrði um útbúnað sendibifreiða. Var kröfu kæranda um frádrátt innskatts af kaupverði bifreiðarinnar því hafnað. Þá var talið að þar sem ekki hefði mátt telja virðisaukaskatt vegna kaupa bifreiðarinnar til innskatts, hefði ekki verið grundvöllur til að innheimta virðisaukaskatt (útskatt) við sölu hennar. Þar sem ekki lægi fyrir að kærandi hefði leiðrétt viðskiptin að þessu leyti gagnvart kaupanda bifreiðarinnar væri varakröfu kæranda um lækkun útskatts hafnað að svo stöddu.

I.

Kæruefnið í máli þessu sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 24. apríl 1993, er sú ákvörðun skattstjóra að lækka innskatt kæranda uppgjörstímabilið nóvember-desember 1992 um 76.195 kr., en innskatt þennan hafði kærandi fært á virðisaukaskattsskýrslu fyrir nefnt uppgjörstímabil vegna virðisaukaskatts er féll til við kaup á bifreiðinni X, af gerðinni Mitsubishi L300 Minibus, hinn 17. nóvember 1992.

Málavextir eru þeir að í kjölfar athugunar skattstjóra á bókhaldsgögnum kæranda vegna virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 1992, var kæranda til­kynnt með bréfi, dags. 22. febrúar 1992, að breyting hefði verið gerð á nefndri skýrslu með vísan til 25. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Hafnaði skattstjóri m.a. innskatti vegna öflunar bifreiðarinnar X á þeim forsendum að innskattsfrádráttur vegna öflunar fólksbifreiða væri óheimill, sbr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Með kæru til skattstjóra, dags. 24. febrúar 1992, fór kærandi fram á að innskattsfrádráttur yrði heimilaður, en til stuðnings kröfunni segir svo m.a. í kærunni:

„Þegar X var keypt af ... var strax ráðist í að fjarlægja sætabekki svo að bifreiðin hentaði starfseminni, sem hún hefur eingöngu verið notuð til. Í gær hinn 23.2. var skráningu bifreiðarinnar breytt skv. ábendingu fulltrúa skattstjóra.“

Með kæruúrskurði, dags. 24. mars 1993, staðfesti skattstjóri ákvörðun sína, en í forsendum úrskurðarins segir m.a. svo:

„Bifreiðin X var fólksbíll þegar [kærandi] keypti hann þann 17. nóv. 1992 og þar af leiðandi var innskattur óheimill vegna öflunar og reksturs bílsins, skv. 6. tl. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, 6. tl. 2. gr. og 1. tölul. 9. gr. reglug. nr. 81/1991 um innskatt.

Bíllinn var svo seldur þann 19. nóv. 1992 til Z hf. en virðist miðað við framlögð gögn eftir sem áður vera í umráðum [kæranda]. Gerðarbreytingin þannig að bíllinn verði sendibíll er fyrst gerð þann 23. febrúar 1992. Þá fyrst er heimilt að færa innskatt vegna reksturs bílsins.

Athygli er vakin á því að hafi ekki mátt telja virðisaukaskatt vegna kaupa á ökutæki til innskatts þá er ekki skylt að leggja á virðisaukaskatt þegar ökutækið er selt skv. 2. mgr. 11. gr. reglug. nr. 81/1991 um innskatt. Hafi það verið gert er skylda að skila honum í ríkissjóð. Gerðarbreytingin á bifreiðinni X veldur því hins vegar að kaupanda eftir gerðarbreytinguna, ef um er að ræða virðisaukaskattsskyldan aðila, er skylt að selja ökutækið með virðisaukaskatti.“

Umboðsmaður kæranda hefur með kæru, dags. 24. apríl 1993, sbr. rökstuðning, dags. 26. ágúst 1993, skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Er þess aðallega krafist að innskattsfrádráttur vegna öflunar bifreiðarinnar X að fjárhæð 86.731 kr. (sic) verði heimilaður, en til vara að útskattur verði lækkaður um sömu fjárhæð, þar sem kærandi hafi þegar skilað þeirri fjárhæð til ríkissjóðs sem virðisaukaskatti vegna sölu bifreiðarinnar.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 23. desember 1993, lagt fram svofellda kröfugerð fyrir hönd gjaldkrefjanda:

„Að kærunni verði vísað frá yfirskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin, en lögmæltur 30 daga kærufrestur skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992 rann út þann 23. apríl 1993.

Telji yfirskattanefnd hins vegar að taka beri kæruna til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir ofangreindan formgalla er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

II.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er kærufrestur skattaðila til yfirskattanefndar 30 dagar frá póstlagningu úrskurðar skattstjóra. Hinn kærði úrskurður skattstjóra er dagsettur 24. mars 1993 og póstlagður þann sama dag, sbr. fyrirliggjandi staðfestingu þess efnis. Var síðasti dagur kærufrests til yfirskattanefndar því föstudagurinn 23. apríl 1993. Kæra til yfirskattanefndar, dags. 24. apríl 1993, en mótt. 26. sama mánaðar, er því fram komin að kærufresti liðnum. Eftir atvikum þykir þó mega að taka hana til efnismeðferðar.

Samkvæmt 6. tl. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 6. tl. 2. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt, sem í gildi var á þeim tíma sem kaup bifreiðarinnar X áttu sér stað, var óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af öflun, rekstri og leigu fólksbifreiða fyrir níu menn eða færri, enda hefði aðili ekki með höndum sölu eða leigu slíkra bifreiða. Með fólksbifreið var átt við bifreið með leyfðri heildarþyngd 3.500 kg eða minna sem ekki teldist vöruflutninga- eða sendibifreið, sbr. skilgreiningu 9. gr. reglugerðar nr. 81/1991.

Kærandi keypti bifreiðina X hinn 17. nóvember 1992. Af hálfu kæranda er fram komið að hann hafi strax eftir kaup bifreiðarinnar ráðist í að fjarlægja sætabekki úr bifreiðinni svo hún myndi henta betur þeirri starfsemi sem hann fékkst við. Samkvæmt upplýsingum frá Bifreiðaskoðun Íslands hf. var bifreiðin skráð sem 8 farþega fólksbifreið til almennrar notkunar á kaupdegi. Hinn 23. febrúar 1993 var sú breyting gerð á skráningu bifreiðarinnar í ökutækjaskrá Bifreiðaskoðunar Íslands hf. að fjölda farþega var breytt úr 8 í 1 og bifreiðin skráð sem sendibifreið. Fram til þess tíma og raunar lengur var bifreiðin tryggð ábyrgðartryggingu ökutækja fyrir 8 farþega. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti verður að telja það bera undir kæranda að sýna fram á að bifreiðin hafi við kaup uppfyllt skilyrði 9. gr. reglugerðar nr. 81/1991 um útbúnað sendibifreiða. Það hefur kærandi ekki gert. Aðalkröfu kæranda er því hafnað.

Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt, er sú regla orðuð að hafi ekki mátt telja virðisaukaskatt vegna kaupa ökutækis til innskatts, sbr. 6. tl. 2. gr. og 9. gr. reglugerðarinnar, teljist sala ökutækis ekki til skattskyldrar veltu. Með vísan til þess sem að framan greinir verður að telja að eigi hafi verið grundvöllur til að innheimta virðisaukaskatt (útskatt) við sölu bifreiðar kæranda. Samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, ber þeim aðila sem tilgreinir á reikningum sínum virðisaukaskatt af viðskiptum sem ekki eru skattskyld að skila skattinum í ríkissjóð, en verði leiðréttingu komið við gagnvart kaupanda fellur skilaskyldan niður. Ber seljanda við slíka leiðréttingu að gefa út kreditreikning vegna leiðréttingarinnar með tilvísun til fyrri reiknings, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Af gögnum málsins verður eigi séð að slík leiðrétting hafi átt sér stað af hálfu kæranda gagnvart kaupanda bifreiðarinnar og verður varakröfu kæranda því hafnað að svo stöddu.

Það athugist að kröfufjárhæðir kæranda eru of háar í máli þessu. Sú fjárhæð virðisaukaskatts, sem kærandi teflir fram, er til komin vegna kaupa annarrar bifreiðar ... Rétt fjárhæð er 76.195 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Aðalkröfu kæranda er hafnað. Varakröfu kæranda er hafnað að svo stöddu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja