Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður

Úrskurður nr. 1270/1994

Gjaldár 1992

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul.  

Talið var að kærandi, sem var hlutafélag um veitingahúsarekstur, hefði ekki sýnt fram á að kostnaður við nám starfsmanns í Skrifstofu- og ritaraskólanum og kostnaður við enskunám sama starfsmanns væri frádráttarbær rekstrarkostnaður.

I.

Kærð er endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1992, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 14. júní 1993, og kæruúrskurð, dags. 26. október 1993. Kærandi er hlutafélag og hefur með höndum veitingahúsarekstur. Breytingar á skattframtali kæranda sem sæta kæru til yfirskattanefndar eru þessar: 1) Skattstjóri féllst ekki á að námskeiðskostnaður hjá Skrifstofu- og ritaraskólanum vegna B, starfsmanns kæranda, 159.030 kr. væri kostnaður til öflunar, viðhalds eða tryggingar tekna kæranda, sbr. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þekking og hæfileikar sem af námskeiðinu leiddi nýttust eingöngu þeim aðila sem færi á námskeiðið og yrði ekki eftir hjá kæranda ef starfsmaðurinn hætti störfum. B sinnti veitingastörfum hjá kæranda en ekki stjórnunarstörfum. 2) Skattstjóri lækkaði gjaldfærðan ferðakostnað, kostnað vegna enskunáms B í Englandi, 207.282 kr., og ferðar eiginmanns hennar, framkvæmdastjóra kæranda, til Englands, í framhaldi af enskunáminu. Voru rök skattstjóra sambærileg því er varðaði kostnað vegna Skrifstofu- og ritaraskólans. Ekki er ágreiningur um aðrar breytingar skattstjóra.

Með kæru til skattstjóra, dags. 12. júlí 1993, mótmælti umboðsmaður kæranda því að námskeiðskostnaður og kostnaður vegna enskuskóla væri ekki talinn réttmætur rekstrarkostnaður skv. 31. gr. laga nr. 75/1981. Benti hann á að B væri einn af eigendum kæranda en ekki óbreyttur starfsmaður sem gæti hætt fyrirvaralaust og sótt um starf annars staðar. B og eiginmaður hennar hefðu byggt rekstur kæranda upp á síðustu 10 árum og hefðu af því sitt lífsviðurværi. Ekki stæði til að selja félagið og nýttist menntun B áfram í félaginu. Einnig þess vegna hefði B farið í umrætt nám og sérstaklega vegna hvatningar frá eiginmanni sínum.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 10. nóvember 1993, kemur fram að umboðsmanni kæranda virðist að skattstjóri hafi með kæruúrskurði sínum óbeint fallist á rök kæranda fyrir gjaldfærslu námskeiðskostnaðar við ritaraskólann. Kæranda þykir afar ósanngjarnt að heimila ekki til frádráttar kostnað eins og enskunámskeið o.þ.h. til handa starfsfólki sem gerir starfsfólkið betur hæft til tekjuöflunar fyrir kæranda. Fyrirtæki sendi starfsmenn á sölunámskeið, tölvunámskeið og ýmsa fundi þar sem fræðsla sé höfð í frammi. Viðkomandi fyrirtæki beri kostnaðinn en fróðleikurinn fylgir starfsmönnunum. Telur umboðsmaðurinn kæranda líða fyrir að þar starfi hjón saman en ekki óskyldir aðilar.

Með bréfi, dags. 14. janúar 1994, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið að þau gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

II.

Ekkert tilefni er til að líta svo á að skattstjóri hafi í kæruúrskurði fallist á að útgjöld vegna náms starfsmanns kæranda hjá Skrifstofu- og ritaraskólanum teldust til rekstrarútgjalda kæranda.

Bæði umrætt nám við Skrifstofu- og ritaraskólann og enskunám í Englandi eru almennt nám án sérstakra tengsla við störf nemandans hjá kæranda. Þegar til þessa er litið og atvika málsins að öðru leyti verður eigi talið að kærandi hafi sýnt fram á að um sé að ræða kostnað hans til öflunar tekna, viðhalds þeirra eða tryggingar, sbr. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kröfum kæranda er hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja