Úrskurður yfirskattanefndar
- Rekstrarkostnaður
- Dagpeningar
Úrskurður nr. 1271/1994
Gjaldár 1992
Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul., 31. gr. 1. tölul.
Kæranda, sem hafði með höndum atvinnurekstur í eigin nafni, var ekki talið heimilt að færa reiknaða dagpeninga vegna ferða sinna og eiginkonu sinnar í þágu rekstrarins til gjalda í rekstrarreikningi. Breyting skattstjóra á gjaldfærðum ferðakostnaði stóð því óbreytt, enda var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á hann hefði borið hærri frádráttarbæran ferðakostnað en skattstjóri hefði áætlað til gjalda.
I.
Með kæru, dags. 23. apríl 1993, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar endurákvörðun skattstjóra á áður álögðum opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1992, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 16. ágúst 1993, og kæruúrskurð, dags. 26. október 1992. Breytingar þær, er ágreiningur er um, varða gjaldfærðan ferðakostnað. Kærandi hafði á rekstrarreikningi 1991 með skattframtali sínu 1992 gjaldfært ferðakostnað erlendis með 692.274 kr. og ferðakostnað innanlands með 176.337 kr. Upplýst er að hér er um að ræða reiknaða dagpeninga til kæranda og eiginkonu hans. Skattstjóri hefur hafnað gjaldfærslu þessari með vísan til þess að ekki sé um raunverulega kostnaðarliði að ræða og frádráttur því ekki heimill skv. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ekki sé í þeirri grein heimild til handa rekstraraðila til að áætla sér gjöld eins og t.d. dagpeninga, svo sem heimilað sé í A-lið 1. mgr. 30. gr. sömu laga, en sú lagagrein eigi ekki við í tilviki kæranda. Hins vegar hefur skattstjóri fallist á að um ferðakostnað hafi verið að ræða og áætlað þann kostnað 475.000 kr. vegna utanlandsferða og 90.000 kr. vegna innanlandsferða.
Í kæru til yfirskattanefndar kveðst umboðsmaður kæranda líta svo á að 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, heimili umræddan frádrátt dagpeninga á rekstarreikningi, sbr. orðalag ákvæðisins og með vísan til F-liðar 27. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, enda sé fjárhæð dagpeninganna ákvörðuð í samræmi við 6. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu. Telur hann að ella sé um mismunun að ræða milli rekstrarforma, enda sé óumdeilt að hefði rekstur kæranda verið t.d. í hlutafélagsformi hefðu dagpeningarnir verið frádráttarbærir.
Með bréfi, dags. 11. mars 1994, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.
II.
Fjárhæðir, er í málinu greinir og kærandi hefur fært til gjalda sem ferðakostnað, styðjast ekki við frumgögn fyrir raunverulega útlögðum kostnaði. Umræddar greiðslur eru vegna kæranda sjálfs og eiginkonu hans. Ákvæði laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um frádrátt vegna dagpeninga, sbr. 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laganna, taka til ferða launþega á vegum vinnuveitanda, en um frádrátt frá tekjum í atvinnurekstri fer eftir ákvæðum 31. gr. tilvitnaðra laga. Með þessum athugasemdum er kröfu kæranda hafnað, enda hefur hann ekki sýnt fram á að hann hafi borið hærri frádráttarbæran ferðakostnað en skattstjóri hefur áætlað til gjalda.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda er hafnað.