Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tekjuviðbót
  • Meðalálagning
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 1274/1994

Gjaldár 1991-1992

Virðisaukaskattur 1990-1991

Lög nr. 75/1981, 96. gr.   Lög nr. 50/1988, 27. gr.  

Skattstjóri áætlaði kæranda viðbótartekjur og viðbótarveltu til virðisaukaskatts á þeim grundvelli að meðalálagning í rekstri kæranda væri tortryggilega lág. Yfirskattanefnd taldi að skattstjóri hefði ekki skotið nægum stoðum undir ákvörðun sína. Hefði verið nauðsynlegt að kanna tekjuskráningu kæranda og bókhaldsgögn, þ.m.t. varðandi vöruinnkaup, í því skyni að sannreyna meintan tekjuundandrátt. Voru hinar kærðu ákvarðanir skattstjóra því felldar úr gildi.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 14. desember 1992, óskaði skattstjóri eftir því við kæranda að skýrð yrði m.a. aukning eigin fjár kæranda milli áranna 1989 og 1990, sbr. efnahagsreikning með skattframtali 1991 og áranna 1990 og 1991, sbr. efnahagsreikning með skattframtali 1992, en tap hefði verið á rekstri kæranda árin 1990 og 1991. Í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 7. janúar 1993, kom fram að laun, sem kærandi hefði átt að greiða eigendum sínum, hefðu ekki verið greidd út heldur staðið eftir í rekstri kæranda. Tók umboðsmaður kæranda fram að allir skattar hefðu verið greiddir af þessum launum hjá eigendum. Þá fylgdu bréfinu ýmis gögn varðandi rekstur kæranda.

Með bréfi, dags. 19. febrúar 1993, óskaði skattstjóri eftir því, með vísan til 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 38. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að kærandi skýrði álagningarhlutfall sitt, 31,47% árið 1990 og 31,71% árið 1991, en meðaltalsálagning í atvinnugrein kæranda væri yfir 50%. Benti skattstjóri á að samkvæmt vörutalningarbókum hefði kostnaðarverð vörubirgða hjá kæranda verið ákvarðað miðað við að álagningarhlutfall væri tæp 45%. Bærust ekki viðhlítandi skýringar yrði að áætla viðbótarveltu í rekstri kæranda, auk álags, sbr. 96. gr. laga nr. 75/1981 og 27. gr. laga nr. 50/1988. Í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 12. mars 1993, er tekið fram að álagning hjá kæranda hafi verið 31,47% árið 1990 og 31,71% árið 1991. Um skýringu á meiri vörunotkun hjá kæranda en tíðkaðist í atvinnugreininni vísaði umboðsmaður kæranda til þess að vörurýrnun væri nokkur, en einnig að útsölur væru haldnar reglulega. Með bréfi, dags. 15. mars 1993, hrinti skattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd. Áætlaði hann kæranda viðbótartekjur á skattframtölum 1991 og 1992 300.000 kr., hvort árið og hækkaði virðisaukaskattsskylda veltu árin 1990 og 1991 um sömu fjárhæðir.

Umboðsmaður kæranda mótmælti ákvörðun skattstjóra með kæru, dags. 15. apríl 1993. Vísaði hann til þess að í atvinnugrein kæranda væru bæði vefnaðarvöruverslanir og fataverslanir en kærandi ræki einungis vefnaðarvöruverslun. Álagning væri töluvert hærri í fataverslunum en vefnaðarvöruverslunum og því gæfi meðaltalsálagning ranga mynd af álagningu í vefnaðarvöruverslunum. Einnig benti umboðsmaður kæranda á að hér væri um meðaltalsálagningu að ræða en af því leiddi að margar verslanir væru með lægri álagningu. Vegna útreiknings á kostnaðarverði vörubirgða þá hefði fyrirsvarsmönnum kæranda verið kennd sú vinnuregla að reikna út kostnaðarverð vörubirgða með því að deila í söluverðið með stuðlinum 1,8. Sú regla hefði verið notuð síðan þrátt fyrir að á síðustu árum hefði álagning lækkað. Þessi stuðull stæði fyrir virðisaukaskatt og álagningarhlutfallið sem reiknaðist þá 44,58%. Ljóst væri að þetta hlutfall væri of hátt en það ætti að mati fyrirsvarsmanna kæranda að vera um 35%. Í kærunni er gerð grein fyrir útreikningi álagningar samkvæmt rekstrarreikningi með leiðréttu birgðamati. Skattstjóri hafnaði kröfum kæranda með kæruúrskurði, dags. 21. apríl 1993. Byggði hann á því að ekki þættu komin fram nein rök sem skýrðu mikið frávik frá meðalálagningu í atvinnugrein kæranda. Auk þess næði álagning ekki 40% þrátt fyrir áætlaðar viðbótartekjur en við ákvörðun kostnaðarverðs vörubirgða í árslok frá upphafi hefði álagningarhlutfall verið talið 45%. Jafnframt þættu haldbærar skýringar ekki hafa komið fram varðandi óskýrða eignaaukningu og ósamræmis í ársreikningum tilgreindra ára þar sem höfuðstóll stórhækkaði þrátt fyrir árlegt tap á rekstri.

II.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 18. maí 1993, er gerð krafa um að velta verði látin standa óbreytt í ársreikningum áranna 1990 og 1991. Einnig er þess krafist að hækkun á aðstöðugjaldi og kirkjugarðsgjaldi komi ekki til framkvæmda. Í kærunni segir m.a. svo:

„Stefna félagsins hefur frá upphafi verið sú að bjóða vörur til sölu á sambærilegu verði og verið hefur hjá svipuðum verslunum í Reykjavík, vitaskuld hefur þetta ekki alltaf tekist en þessi stefna hefur orðið þess valdandi að álagning félagsins hefur ekki orðið mjög há þar sem vörurnar eru keyptar frá verslunum í Reykjavík. Einnig hefur félagið haft útsölur tvisvar á ári, annars vegar í janúar og febrúar og hins vegar í ágúst og september. Á þessum útsölum er verðlækkunin frá 20% í 70% á einstökum vörum. Í bréfi sem skrifað var skattstjóra þann 15. apríl s.l. kom einnig fram að til einföldunar höfðu forráðamenn félagsins notað stuðulinn 1,8 til að reikna út kostnaðarverð en við nánari athugun á meðalálagningu hefur komið í ljós að réttara hefði verið að draga fyrst virðisaukaskattinn frá söluverðinu og síðan að lækka söluverðið um álagningarprósentuna eins og gert var í framangreindu bréfi.

Einnig er rétt að geta þess að fyrirspurnum skattstjóra hefur ávallt verið svarað og að skattstjóri hefur engar aðrar athuganir gert á bókhaldi félagsins varðandi ársreikninga áranna 1990 og 1991. Engar athuganir hafa farið fram á tekjuskráningu félagsins og því finnst forráðamönnum félagsins það nokkuð hart að efast sé um tekjuskráninguna með því að hækka veltu félagsins. Við athugun okkar á bókhaldi félagsins hefur komið í ljós að það er mjög samviskulega unnið og í alla staði hefur verið reynt að gera glögga grein fyrir öllum þeim atriðum sem skipta máli varðandi rekstur félagsins. Vörutalningarbækur félagsins eru einnig mjög ítarlegar og allar vörur eru þar verðlagðar á söluverði. Við vörutalningar hafa allar vörur verið taldar og við mat vörubirgða hefur ekki verið tekið tillit til aldurs birgða eða sölumöguleika þeirra og hafa því gallaðar og úreltar vörur verið metnar sem seljanlegar vörur. Þau atriði sem nefnd hafa verið hér að framan styðja öll þau rök félagsins að tekjuskráning þess sé rétt og því hafi skattstjóri enga ástæðu til þess að áætla aukna veltu á félagið. Hins vegar má deila um það hvort mat vörubirgða sé rétt í ársreikningum félagsins.“

Með bréfi, dags. 30. september 1993, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda gert þá kröfu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

III.

Skattstjóri byggði hina kærðu ákvörðun um að áætla kæranda viðbótartekjur á skattframtölum 1991 og 1992, svo og viðbótarveltu til virðisaukaskatts rekstrarárin 1990 og 1991, á því að meðaltalsálagning í rekstri kæranda þætti tortryggilega lág miðað við meðaltal í atvinnugrein kæranda, svo og að eignaaukning í rekstri væri tortryggileg vegna hækkunar höfuðstóls þrátt fyrir rekstrartap. Að síðarnefndu atriði hafði skattstjóri vikið í fyrirspurnarbréfi sínu, dags. 14. desember 1992, en ekki vék hann neitt að framkomnum skýringum kæranda varðandi misræmi þetta í bréfi sínu, dags. 19. febrúar 1993, eða tilkynningu, dags. 15. mars 1993. Ekki liggur fyrir af hálfu skattstjóra á hvaða upplýsingum hann byggir varðandi meðaltalshlutfall álagningar í viðkomandi atvinnugrein. Að virtum skýringum kæranda verður eigi talið að skattstjóri hafi skotið nægum stoðum undir ákvörðun sína um tekjuviðbót kæranda og hækkun virðisaukaskattsskyldrar veltu. Hefði verið nauðsynlegt að kanna tekjuskráningu kæranda og bókhaldsgögn, þ.m.t. varðandi vöruinnkaup, í því skyni að sannreyna meintan tekjuundandrátt. Eru hinar kærðu ákvarðanir skattstjóra því felldar úr gildi.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hinar kærðu ákvarðanir skattstjóra eru felldar úr gildi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja