Úrskurður yfirskattanefndar
- Skattlagning sambýlisfólks
- Vaxtabætur
- Sönnun
Úrskurður nr. 1276/1994
Gjaldár 1991-1992
Lög nr. 75/1981, 69. gr. C-liður, 63. gr. 3. mgr.
Skattstjóri ákvarðaði vaxtabætur kæranda miðað við að hann væri í óvígðri sambúð með B. Þessu til stuðnings vísaði skattstjóri til skýringa kæranda um að hann byggi endurgjaldslaust hjá vinkonu sinni, B, auk þess sem þau væru skráð með sama lögheimili. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að gera yrði þá kröfu, þegar svo stæði á sem í málinu, að ótvírætt lægi fyrir að skattaðilar væru í óvígðri sambúð. Var talið að gegn andmælum kæranda og B hefði skattstjóra ekki verið unnt að haga ákvörðun vaxtabóta kæranda á hinn umdeilda hátt.
I.
Kæruefnið í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 2. júlí 1993, er ákvörðun skattstjóra að miða ákvörðun vaxtabóta gjaldárin 1991 og 1992 við samanlagðan tekjuskattsstofn kæranda og B. Kæra B vegna sama máls er til úrskurðar í sérstöku kærumáli.
Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 7. apríl 1992, innti skattstjóri kæranda eftir greiðslumiða ef hann greiddi húsaleigu. Ef kærandi nyti húsnæðishlunninda bæri að gera grein fyrir þeim. Í svarbréfi kæranda, dags. 8. apríl 1992, fullyrti kærandi að hann greiddi ekki húsaleigu né nyti húsnæðishlunninda. Með bréfi, dags. 16. júlí 1992, tilkynnti skattstjóri kæranda að honum yrðu áætluð húsnæðishlunnindi við álagningu opinberra gjalda 1992 þar sem hann ætti ekki íbúð og greiddi ekki húsaleigu. Kærandi mótmælti ákvörðun skattstjóra með kæru, dags. 24. ágúst 1992. Kom m.a. fram í kæru hans að hann byggi endurgjaldslaust hjá vinkonu sinni, B. Með kæruúrskurði, dags. 3. desember 1992, féllst skattstjóri á að fella niður áður ákvörðuð húsnæðishlunnindi.
Með bréfi, dags. 29. mars 1993, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði endurákvarðað áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárin 1991 og 1992 vegna þeirrar breytingar á skattframtali kæranda að fjölskyldumerking yrði 7+0 í stað 1+0. Kvað skattstjóri ástæðu breytingarinnar vera sambúð kæranda með B. Nyti kærandi því vaxtabóta, sbr. 7. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Umboðsmaður kæranda mótmælti ákvörðun þessari með kæru, dags. 28. apríl 1993. Í kærunni sagði m.a. svo:
„Skilyrði 7. mgr. c. liðar 69. gr. sbr. 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 er að um sambúðarfólk sé að ræða. Umbjóðandi minn bendir á að þessu skilyrði sé ekki fullnægt í því tilviki sem hér um ræðir. Það eitt að hann eigi og hafi átt sama lögheimili og B, þ.e. að X-götu, segir ekkert til um það hvort um sambúð sé að ræða eða ekki. Ekkert í þeim gögnum er umbjóðandi minn hefur sent skattstofu ..., þ.m.t. skattframtöl, gefa tilefni til að ætla að um sambúð sé að ræða. Umbjóðandi minn fær því ekki séð á hvaða gögnum endurákvörðun yðar er byggð.“
Skattstjóri synjaði kröfum kæranda með kæruúrskurði, dags. 14. júní 1993. Í forsendum úrskurðarins sagði m.a.:
„Samkvæmt 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, eiga karl og kona, sem búa saman í óvígðri sambúð og eiga sameiginlegt lögheimili, rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón, sem samvistum eru, ef tiltekin skilyrði eru uppfyllt, svo sem að sambúðin hafi varað samfleytt í tvö ár, enda óski þau þess bæði skriflega við skattyfirvöld.
Vaxtabótum skal skipt á milli sambýlisfólks, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein, sbr. 7. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981.
Hér þarf að kanna hvort tilvitnuð lagaákvæði eigi við í máli þessu.
Varðandi skil kæranda á skattframtölum skal tekið fram að skattlagning sambúðarfólks er með tvenns konar hætti; annars vegar sérskattað sambýlisfólk (7 merking á framtali) og hins vegar samskattað sambýlisfólk (6 merking á framtali). Þegar um er að ræða sérskattað sambýlisfólk skilar það skattframtölum í sitt hvoru lagi. Hér þykir það því ekki vera meginatriði málsins.
Tekið skal fram að fram hefur komið í málinu að kærandi er ekki leigjandi hjá B.
Yfirlýsing kæranda um að hann „búi“ hjá B og yfirlýsing B um „búsetu“ kæranda á heimili hennar að X-götu, svo og opinber skráning í þjóðskrá um lögheimili, frá árinu 1988, þykir nægjanlegur grundvöllur, í máli þessu, til að álykta að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, í skattalegu tilliti.
Hér hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli skilyrði 3. mgr. 63. gr. sömu laga, sbr. endurákvörðun skattstjóra dags. 29. mars 1993.“
II.
Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 2. júlí 1993, er bent á að skilyrði fyrir endurákvörðun skattstjóra séu ekki fyrir hendi þar sem kærandi sé ekki í óvígðri sambúð. Það eitt að kærandi eigi og hafi átt sama lögheimili og B segi ekkert til um það hvort um sambúð sé að ræða. Sambúð ráðist af öðru en því hvort um sameiginlegt lögheimili sé að ræða eða ekki. Ekkert í gögnum skattstjóra gæfi tilefni til að ætla að um sambúð sé að ræða. Gera yrði þá kröfu til skattyfirvalda að þau færðu fram gild og ótvíræð rök fyrir því að fólk væri í sambúð, þegar viðkomandi aðilar hefðu báðir lýst því yfir að þau væru ekki í sambúð.
Með bréfi, dags. 29. október 1993, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda, lagt fram svofellda kröfugerð:
„Í 2. ml. 2. mgr. c- liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 tekjuskatt og eignarskatt segir, að hlutfall vaxtabóta skuli reiknast af samanlögðum tekjuskattsstofni sambýlisfólks sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. Í 7. mgr. sömu lagagreinar segir, að vaxtabótum skuli skipt til helminga á milli sambýlisfólks sem 3. mgr. 63. gr. laganna (sic) „enda þótt að það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein“.
Telja verður að umboðsmaður kæranda hafi ekki lagt fram nein þau rök eða málsástæður sem sýni fram á að kærandi falli ekki undir skilyrði 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981.
Með vísan til ofanritaðs gerir ríkisskattstjóri þá kröfu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“
III.
Samkvæmt 1. og 2. ml. 2. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, skal við ákvörðun vaxtabóta hjóna og sambýlisfólks, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. laganna, draga frá vaxtagjöldum, sbr. 3. mgr. töluliðarins, fjárhæð er svarar til 6% af samanlögðum tekjuskattsstofni þeirra beggja. Gilda samsvarandi ákvæði um skerðingu vaxtabóta vegna eigna, sbr. 3. og 4. ml. 2. mgr. Þá kemur fram í 7. mgr. C-liðs 69. gr. að vaxtabótum hjóna skuli skipt til helminga á milli þeirra. Sama gildir um sambýlisfólk, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr., þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein.
Þegar litið er til framangreindra ákvæða í heild þykir bera að skýra 2. mgr. C-liðs 69. gr. svo að við ákvörðun vaxtabóta samkvæmt 1. og 2. ml. málsgreinarinnar skuli miða við samanlagðan tekjuskattsstofn sambýlisfólks, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. laganna, enda þótt það óski ekki skattlagningar sem hjón. Samsvarandi gildi um skerðingu vaxtabóta vegna eigna.
Gera verður þá kröfu þegar svo stendur á sem í máli þessu að ótvírætt liggi fyrir að skattaðilar séu í óvígðri sambúð. Gegn andmælum kæranda og B verður ekki talið að skattstjóra hafi verið unnt að haga ákvörðun vaxtabóta með þeim hætti sem hann gerði. Er því fallist á kröfu kæranda.
Þá athugasemd verður að gera við tilkynningu skattstjóra, dags. 29. mars 1993, að á skortir að skýrlega komi fram hverjar breytingar hann hefði gert á skattframtali kæranda.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Fallist er á kröfu kæranda.