Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðagjald
  • Undanþága frá gjaldskyldu

Úrskurður nr. 8/2018

Lög nr. 39/1988, 4. gr. a-liður (brl. nr. 37/2000, 4. gr.).  

Talið var að ekki væri nægilegt að gengið hefði úrskurður Tryggingastofnunar ríkisins um örorku manns til að komið gæti til niðurfellingar bifreiðagjalds samkvæmt lögum um það gjald, heldur væri áskilnaður um greiðslu örorkustyrks eða örorkulífeyris eða annarra tilgreindra greiðslna frá stofnuninni. Með því að ekki var um slíkt að ræða í tilviki kæranda var kröfum hans um niðurfellingu bifreiðagjalds hafnað.

Ár 2018, miðvikudaginn 24. janúar, er tekið fyrir mál nr. 117/2017; kæra A, Reykjavík, mótt. 1. september 2017, vegna ákvörðunar bifreiðagjalds. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik með þeim hætti að ríkisskattstjóra barst þann 5. júlí 2017 erindi frá fulltrúa Tryggingastofnunar ríkisins þar sem óskað var eftir niðurfellingu bifreiðagjalds af ökutæki kæranda fyrir 2. gjaldtímabil 2017 á grundvelli örorku kæranda. Í erindinu kom fram að kæranda hefði verið úrskurðuð örorka þann 13. september 2013 tímabilið 1. júní 2013 til 30. september 2018 og fengi greiddan barnalífeyri.

Með úrskurði, dags. 11. júlí 2017, synjaði ríkisskattstjóri erindinu. Fram kom í úrskurðinum að samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ætti kærandi ekki rétt á niðurfellingu bifreiðagjalda þar sem hann fengi ekki greiðslur frá Tryggingastofnun „vegna tekna“, svo sem þar sagði. Í 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum, væri kveðið á um að réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds nái til þeirra sem fengju greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri, bensínstyrk eða umönnunargreiðslur vegna örorku barna frá Tryggingastofnun. Þar sem kærandi uppfyllti ekki framangreind skilyrði væri erindi um niðurfellingu bifreiðagjalds kæranda synjað.

Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 3. ágúst 2017, fór kærandi fram á niðurfellingu bifreiðagjalds. Fram kom í bréfinu kærandi hefði síðustu misseri fengið það niðurfellt vegna sjúkdóms, en ætti nú að fara að borga það aftur. Gerði kærandi athugasemd við það, þar sem viðkomandi bifreið væri hjálpartæki sem hann gæti ekki verið án.

II.

Með kæru, mótt. 1. september 2017, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 11. júlí 2017, til yfirskattanefndar. Fram kemur í kærunni að bifreið kæranda sé hjálpartæki. Hann geti ekki notast við hvaða bifreið sem er, heldur þurfi hann bifreið sem skilgreinist sem jeppi. Hann glími við vöðvarýrnunarsjúkdóm sem skerði göngugetu og getu til að bera þunga hluti. Hann sé því tilneyddur til að hafa bíl til umráða til að komast til og frá vinnu og sinna daglegum athöfnun utan heimilis. Bifreið kæranda sé hjálpartæki og hann hafi ekki val um að eiga ekki bíl. Því telji kærandi að hann eigi ekki að greiða bifreiðagjald. Kærandi vísar til þess að meðfylgjandi kærunni sé læknisvottorð sem staðfesti sjúkdóm hans.

III.

Með bréfi, dags. 2. október 2017, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn vegna kærunnar. Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri tekur fram að umsókn kæranda um niðurfellingu bifreiðagjalds hafi ekki borið með sér áritun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu bóta samkvæmt ákvæðum a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðargjald. Samkvæmt upplýsingum sem ríkisskattstjóri hafi aflað sér frá Tryggingastofnun ríkisins hafi kærandi ekki fengið greiðslur frá stofnuninni sem veiti rétt til niðurfellingar bifreiðargjalda. Slík yfirlýsing fylgi ekki heldur með kæru til yfirskattanefndar.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. október 2017, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Samkvæmt kæru til yfirskattanefndar er kærður úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 11. júlí 2017. Lýtur krafa kæranda að niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni K fyrir gjaldtímabilið 1. júlí – 31. desember 2017. Til stuðnings kröfu sinni vísar kærandi einkum til þess að sökum sjúkdóms síns sé honum nauðsynlegt að eiga jeppabifreið sem hjálpartæki.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, skal greiða til ríkissjóðs bifreiðagjald af bifreiðum sem skráðar eru hér á landi eins og nánar er ákveðið í lögum þessum. Fjárhæð gjalds er miðuð við eigin þyngd bifreiðar, sbr. 2. gr. laganna. Gjalddagar bifreiðagjalds eru 1. janúar ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. janúar til 30. júní og 1. júlí ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. júlí til 31. desember, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Í 4. gr. laga nr. 39/1988, sbr. 4. gr. laga nr. 37/2000, eru taldar bifreiðar sem undanþegnar skulu bifreiðagjaldi. Samkvæmt 1. málsl. a-liðar 4. gr. eru bifreiðir í eigu þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri, bensínstyrk eða umönnunargreiðslur vegna örorku barna frá Tryggingastofnun ríkisins undanþegnar bifreiðagjaldi. Í 4. málsl. stafliðarins segir að réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds vegna þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri eða bensínstyrk sé bundinn því skilyrði að bóta- eða styrkhafi sé í ökutækjaskrá annaðhvort skráður eigandi bifreiðar eða umráðamaður bifreiðar samkvæmt eignarleigusamningi. Í lokamálslið umrædds stafliðar kemur fram að fyrir álagningu bifreiðagjalds skuli Tryggingastofnun ríkisins senda ríkisskattstjóra upplýsingar um bifreiðaeign þeirra sem fái slíkar greiðslur frá stofnuninni sem að framan greinir.

Eins og fram er komið synjaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum að kærandi væri ekki móttakandi neinna þeirra greiðslna sem kveðið er á um í 1. málsl. a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988. Ekki verður séð að ágreiningur sé um það að kærandi hafi, þrátt fyrir örorku sína sem vottuð er af Tryggingastofnun ríkisins, ekki fengið á þeim tíma sem hér skiptir máli greiddan örorkustyrk eða örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Tekið skal fram að miðað við athugasemd um tekjur kæranda, sem fram kemur í úrskurði ríkisskattstjóra frá 11. júlí 2017, verður að ætla að reglur almannatryggingalaga um skerðingu bóta vegna tekna rétthafa hafi leitt til þess að kærandi fékk ekki greiðslur af fyrrgreindu tagi, sbr. 5. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, með áorðnum breytingum. Þess er að geta að fyrir liggur greiðsluáætlun kæranda fyrir árið 2017 frá Tryggingastofnun þar sem fram kemur að kærandi fái greiddan barnalífeyri (örorkulífeyri) á öllum tímabilum ársins 2017. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 er barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi. Samkvæmt niðurlagsákvæði málsgreinarinnar, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2016, hafa ákvæði laganna um lækkun bóta vegna tekna ekki áhrif á rétt til greiðslu barnalífeyris.

Eftir orðalagi 1. málsl. a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988 verður að skilja ákvæðið þannig að ekki sé nægilegt að úrskurður Tryggingastofnunar ríkisins hafi gengið um örorku manns til að komið geti til niðurfellingar bifreiðagjalds, heldur sé áskilnaður um greiðslu örorkustyrks eða örorkulífeyris eða annarra tilgreindra greiðslna frá stofnuninni. Með því að ekki er um slíkt að ræða í tilviki kæranda, eftir því sem fram er komið, getur ekki komið til niðurfellingar bifreiðagjalds á grundvelli umrædds lagaákvæðis.

Eins og fyrr segir byggir krafa kæranda um niðurfellingu bifreiðagjalds einkum á því að kæranda sé nauðsyn að eiga bifreið sem hjálpartæki sökum sjúkdóms síns. Í lögum nr. 39/1998 er ekki að finna heimild fyrir niðurfellingu bifreiðagjalds á þessum grundvelli. Verður því að hafna kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja