Úrskurður yfirskattanefndar

  • Húsaleigutekjur
  • Álag

Úrskurður nr. 9/2018

Gjaldár 2014

Lög nr. 90/2003, 7. gr. B-liður, 57. gr. 1. mgr., 108. gr. 2. mgr.  

Kærandi í máli þessu var ekki talin hafa sýnt fram á að leigutekjur vegna sölu á gistingu til ferðamanna á árinu 2013 tilheyrðu X ehf. en ekki henni sjálfri, en um var að ræða greiðslur frá airbnb.com vegna útleigu tveggja íbúða kæranda sem lagðar höfðu verið inn á paypal reikning hennar. Var m.a. bent á í úrskurði yfirskattanefndar að ekki hefði verið farið með greiðslurnar sem tekjur í skattskilum og ársreikningi X ehf. Þá þóttu skýringar kæranda á fyrirkomulagi starfseminnar og aðkomu X ehf. að henni með nokkrum ólíkindum, svo sem nánar var rökstutt. Var kröfum kæranda hafnað, þar með talið kröfu hennar um niðurfellingu 25% álags.

Ár 2018, miðvikudaginn 24. janúar, er tekið fyrir mál nr. 91/2017; kæra A, dags. 26. maí 2017, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2014. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 26. maí 2017, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 27. febrúar 2017, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2014. Með úrskurði þessum tók ríkisskattstjóri til meðferðar að nýju mál kæranda í tilefni af úrskurði yfirskattanefndar nr. 253/2016. Með þeim úrskurði var kæru kæranda, dags. 6. október 2016, á úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 6. júlí 2016, vísað til ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar. Kæruefni málsins er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að færa kæranda til tekna í skattframtali árið 2014 hreinar tekjur af atvinnurekstri að fjárhæð 1.949.538 kr., sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, vegna sölu á gistingu í gegnum vefsíðuna airbnb.com. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi við hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda sem leiddi af þessari breytingu.

II.

Helstu málavextir eru þeir að í kjölfar bréfaskipta, sbr. fyrirspurnarbréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 29. febrúar og 29. mars 2016, og svarbréf kæranda, dags. 16. mars og 19. apríl 2016, boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 3. júní 2016, og andmælabréf kæranda, dags. 20. júní 2016, endurákvarðaði ríkisskattstjóri opinber gjöld kæranda gjaldárið 2014 með úrskurði um endurákvörðun, dags. 6. júlí 2016.

Í úrskurði ríkisskattstjóra voru málavextir og bréfaskipti embættisins og kæranda rakin. Þar kom fram að upplýsinga- og gagnaöflun ríkisskattstjóra hefði lotið að erlendum greiðslum að fjárhæð 1.949.538 kr. sem kærandi hefði fengið inn á innlent greiðslukort sitt, en ekki gert grein fyrir í skattskilum sínum. Við framangreind bréfskipti hefði komið fram af hálfu kæranda að kærandi hefði fært umrædda fjármuni á greiðslukort sitt af eigin Paypal reikningi á árinu 2013. Hefði félag í hennar eigu (sic), X ehf., innheimt leigutekjur vegna sölu á gistingu til erlendra ferðamanna í gegnum vefsíðuna airbnb.com, en samkvæmt reglum vefsíðunnar hefði ekki verið hægt að skrá lögaðila fyrir greiðslum og hefðu tekjurnar því verið lagðar inn á Paypal reikning kæranda. Hefði kærandi lánað einkahlutafélaginu umtalsverða fjármuni á árunum 2010 og 2011 og væru umræddar millifærslur endurgreiðsla félagsins á þeirri skuld. Í þessu sambandi hefði verið gerður lánssamningur á árinu 2011 upp á 4.000.000 kr. þar sem kæranda hefði verið veitt heimild til að taka við leigugreiðslum fyrir hönd félagsins og samið hefði verið um að þær skyldu ganga upp í höfuðstól lánsins. Vegna fyrirspurna ríkisskattstjóra um greiðslur frá B kom fram af hálfu kæranda að greiðslur B vörðuðu leigu hans á íbúð kæranda að G. Leigusamningur hefði verið gerður við B um íbúðina sem tengdist hvorki greiðslukorti eða Paypal reikningi kæranda.

Í úrskurðinum rakti ríkisskattstjóri að ekki yrði annað séð varðandi útleigu kæranda á íbúðarhúsnæði sínu en að um sjálfstæða starfsemi hennar hefði verið að ræða. Rakti ríkisskattstjóri í þessu sambandi að samkvæmt skattframtali ársins 2014 hefði kærandi verið eigandi fasteignanna að G og H. Í framlögðum lánssamningi milli kæranda og X ehf. hefði komið fram að kærandi lánaði félaginu fasteignirnar vegna sölu á heimagistingu og að kærandi myndi reka gistiþjónustu í gegnum félagið og gegna stjórnarformennsku í félaginu. Tók ríkisskattstjóri fram að skýringar um að greiðslur til kæranda hefðu í raun verið endurgreiðsla á láni til X ehf., og að útleiga íbúðanna hefði farið fram í gegnum nefnt félag, samræmdust hvorki skattframtölum kæranda né skattframtölum og ársreikningum félagsins. Ekki yrði séð að X ehf. gæti leigt út húsnæði sem félagið væri hvorki eigandi að né hefði á leigu frá eiganda fasteignanna. Þá væri ekki að sjá að skuldir félagsins hefðu lækkað í skattframtölum þess í takt við greiðslur til kæranda eins og haldið hefði verið fram. Auk þessa væri ósamræmi í svörum umboðsmanns kæranda þar sem fram hefði komið að kærandi hefði sjálf starfað við útleiguna, svo sem við móttöku, þrif og annað utanumhald, en það væri ekki í samræmi við skýringar kæranda um endurgreiðslur á lánum, auk þess sem kærandi hefði ekki talið fram neinar tekjur vegna starfa hennar við útleiguna. Var það mat ríkisskattstjóra að greiðslur til kæranda vegna útleigu á íbúðarhúsnæði hennar að fjárhæð 1.949.538 kr. árið 2013 hefðu verið tekjur af sjálfstæðri starfsemi hennar sem skattskyldar væru samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003.

Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi við þá hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda gjaldárið 2014 sem leiddi af framangreindri breytingu, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, og nam fjárhæð álags 487.385 kr. Á hækkun gjalda reiknaðist að auki 2,5% verðbótaálag, sbr. 122. gr. laga nr. 90/2003.

Með kæru, dags. 3. október 2016, skaut kærandi úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Var þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra yrði felldur úr gildi. Fram kom í kærunni að umræddar tekjur hefðu átt uppruna sinn í bókhaldi X ehf. Félagið hefði leigt út G á árinu 2013, en X ehf. hefði leigt G af kæranda frá og með 1. september 2011. Þá hefði kærandi lánað X ehf. 4.000.000 kr. Meðfylgjandi kærunni var lánssamningur milli kæranda og X ehf., dags. 30. maí 2011, leigusamningur milli kæranda og B vegna G, dags. 1. september 2011, ódagsettur leigusamningur milli kæranda og X ehf. vegna leigu félagsins á G af kæranda frá 1. september 2011 og veðbandayfirlit vegna G, dags. 3. október 2015.

Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 253/2016, sem kveðinn var upp 14. desember 2016, var kæru kæranda ásamt meðfylgjandi gögnum vísað til ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar. Í forsendum úrskurðarins var rakið að með kæru til yfirskattanefndar hefðu fylgt gögn sem ekki hefðu legið fyrir ríkisskattstjóra og hefði ríkisskattstjóri ekki tekið afstöðu til þeirra. Með vísan til þess og með hliðsjón af þeim lagarökum sem byggju að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, var kæran ásamt meðfylgjandi gögnum send ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar.

Áður en ríkisskattstjóri kvað upp úrskurð í máli kæranda fór hann fram á frekari skýringar með bréfi, dags. 16. janúar 2016. Í fyrsta lagi óskaði ríkisskattstjóri skýringa á því hverju sætti að gerðir hefðu verið tveir ótímabundnir leigusamningar frá 1. september 2011 við tvo mismunandi aðila vegna sömu fasteignar kæranda að G. Í öðru lagi óskaði ríkisskattstjóri eftir skýringum á því að í leigusamningi kæranda við X ehf. kæmi fram að leigutaki greiði enga leigu fyrstu 5 árin. Kærandi teldi hins vegar fram leigutekjur frá B að fjárhæð 216.000 kr. í skattframtali árið 2013, 345.500 kr. í skattframtali árið 2014, 402.000 kr. í skattframtali árið 2015 og 167.500 kr. í skattframtali árið 2016. Taldi ríkisskattstjóri að tiltekið ákvæði í leigusamningi um að kærandi afsalaði sér rétti til endurgjalds vegna útleigu á G vera frábrugðið því sem almennt gerðist í slíkum viðskiptum, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Í þriðja lagi óskaði ríkisskattstjóri eftir skýringum á því að ekki væru taldar fram leigugreiðslur í skattframtali kæranda árið 2012 þrátt fyrir að upphaf leigutíma í leigusamningi kæranda og B væri 1. september 2011. Í fjórða lagi óskaði ríkisskattstjóri eftir upplýsingum um hvort kærandi hefði fengið greiðslur samkvæmt leigusamningi við B á árinu 2013, en samkvæmt leigusamningnum hefði átt að nota tilgreindan bankareikning við skil á greiðslum vegna útleigunnar. Í fimmta lagi óskaði ríkisskattstjóri eftir gögnum sem staðfestu að kærandi hefði fengið leigutekjur að fjárhæð 345.500 kr. á árinu 2013. Þá ítrekaði ríkisskattstjóri fyrri fyrirspurnir embættisins um gögn sem staðfestu fyrirkomulag kæranda um útleigu á G, t.a.m. gögn sem staðfestu að kærandi hefði lánað X ehf. 4.000.000 kr. vegna innkaupa og rekstrar heimagistingu að G.

Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 10. febrúar 2017, kom fram að á árinu 2011 hefði verið ákveðið að selja ferðamönnum gistingu í nafni X ehf., sbr. fyrirliggjandi leigu- og lánasamning við X ehf. Kærandi hefði einnig gert leigusamning við B sem búsettur væri í íbúðinni. Samið hefði verið um að X ehf. greiddi enga leigu fyrstu fimm árin, en hefði heimild til að nýta íbúðina fyrir heimagistingu. Kærandi hefði ákveðið að framkvæma þetta með þessum hætti á meðan verið væri að byggja upp gistiþjónustu og leggja frekar áherslu á að fá lánssamninginn greiddan. Síðan yrði staðan tekin að fimm árum liðnum. Þá hefði B greitt leigu í samræmi við notkun og vísaði kærandi til meðfylgjandi greiðslukvittana í þessum efnum. Var tekið fram að engar frekari greiðslur hefðu borist umfram það sem gefið hefði verið upp. Þá vísaði umboðsmaður kæranda til meðfylgjandi kvittunar fyrir umspurðum leigutekjum. Bréfinu fylgdi útprentaður listi frá umboðsmanni kæranda, sem jafnframt er tilgreindur fyrirsvarsmaður X ehf., um peningagreiðslur kæranda til félagsins og kaup kæranda á heimilisvörum vegna fyrrgreinds lánasamnings. Þá fylgdu bréfinu fjórar ódagsettar greiðslukvittanir frá B til kæranda að fjárhæð 216.000 kr., 345.000 kr., 402.000 kr., og 167.500 kr.

Með úrskurði, dags. 27. febrúar 2017, tók ríkisskattstjóri mál kæranda til meðferðar að nýju. Í úrskurðinum gerði ríkisskattstjóri grein fyrir gangi málsins og tók fram að það væri ágreiningslaust að kærandi hefði fengið greiðslur inn á greiðslukort sitt á árinu 2013 vegna útleigu á íbúðarhúsnæði sínu. Af fyrirliggjandi skýringum þætti ljóst að umræddar innborganir hefðu ekki verið færðar í bókhald X ehf. í samræmi við lög. Ekki hefði verið farið með umræddar greiðslur sem tekjur félagsins, en hvorki kærandi né X ehf. hefðu gert grein fyrir tekjunum í skattframtölum sínum. Þá fjallaði ríkisskattstjóri um nýframkomin gögn en tveir samningar lægju nú fyrir um leigu á fasteigninni að G, annar milli kæranda og B, og hinn milli kæranda og X ehf., en báðir samningarnir miðuðu við að leigutaka hæfist 1. september 2011. Rakti ríkisskattstjóri að fyrri samningnum hefði verið þinglýst hjá sýslumanni, en um væri að ræða ótímabundinn leigusamning að fyrirmynd félagsmálaráðuneytisins þar sem leiga væri tilgreind 120.000 kr. á mánuði, er greidd skyldi inn á tilgreindan bankareikning. Bæri leigutaka að greiða leigusala þrjá mánuði fyrirfram í upphafi leigutímans. Hinn síðari samningur virtist vottaður af aðilum tengdum B, en einnig væri um að ræða ótímabundinn leigusamning. Tók ríkisskattstjóri fram að samningurinn virtist sérsniðinn að þörfum samningsaðila og hefðbundinn að öðru leyti en því að kveðið væri á um að leigutaki greiddi enga leigu fyrstu fimm árin og skyldi endurskoða samninginn að þeim tíma liðnum. Taldi ríkisskattstjóri ljóst að ekki hefði verið farið eftir ákvæðum fyrri samningsins að fullu, t.a.m. varðandi leigugreiðslur o.fl. Þá þætti ríkisskattstjóra ákvæði síðari samningsins, um að X ehf. fengi fasteignina til afnota í fimm ár endurgjaldslaust, ótrúverðugt, en með því hefði kærandi afsalað sér tekjum af eigin fasteign til félags sem hún ætti ekki hlut í. Þessu til viðbótar hefði komið fram af hálfu kæranda að hún hefði sjálf haft umsjón með útleigunni, þ.e. starfað við móttöku, þrif og annað utanumhald, og yrði ekki annað séð en að hún hefði sjálf unnið að uppbyggingu gistirekstursins sem hefði átt að vera á vegum X ehf. samkvæmt því sem vísað hefði verið til. Ennfremur þættu skýringar kæranda um að hún hefði lánað X ehf. allt að 4.000.000 kr. vaxtalaust vegna „innkaupa og rekstrar“ ótrúverðugar. Var það niðurstaða ríkisskattstjóra að þegar litið væri á málið í heild sinni yrði ekki dregin önnur ályktun en að fyrirkomulagið væri ótrúverðugt. Þá yrði að horfa til þess sem lægi fyrir, þ.e. að kærandi hefði haft tekjur af útleigunni. Þættu fram komin gögn ekki gefa tilefni til að hnika frá fyrri úrskurði ríkisskattstjóra í málinu. Því stæði úrskurður ríkisskattstjóra frá 6. júlí 2016 óhaggaður.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 26. maí 2017, er vísað til fyrri rökstuðnings. Telji kærandi sig hafa lagt fram gögn sem skýri málið og fer fram á að það verði viðurkennt „að félag sem hún rekur heimagistingu sína, sem hefur talið allt fram, verði viðurkennt og sé fullnægjandi og eða með lagfæringu ef þar (sic)“. Hafi ríkisskattstjóri ruglað kæranda og rekstrarfélaginu saman. Þá er ákvörðuðu álagi mótmælt í kærunni.

IV.

Með bréfi, dags. 6. júlí 2017, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 18. júlí 2017, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 7. ágúst 2017, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum og ítrekað fyrri röksemdir kæranda. Er málavöxtum lýst svo að kærandi hafi á árinu 2011 hafið undirbúning að rekstri heimagistingar. Hafi kærandi leitað til löggilts endurskoðanda og ríkisskattstjóra eftir leiðbeiningum og ráðgjöf varðandi starfsemina og hafi viðkomandi aðilar ráðlagt kæranda að nota rekstrarfélag fyrir starfsemi þessa. Kærandi hafi í kjölfarið hafið rekstur um heimagistingu undir nafni X ehf. Þá hafi hún ákveðið að lána sparifé sitt í reksturinn. Víkur umboðsmaður kæranda að því að aflað hafi verið leyfa fyrir heimagistingu í nafni X ehf. og hafi félagið talið fram til skatts og skilað ársskýrslum um heimagistingu, eins og lög geri ráð fyrir. Er tekið fram að kærandi hafi haft umboð frá X ehf. til að „reka gistiþjónustu undir rekstrarfélaginu X“ svo sem segi í lánssamningi kæranda og félagsins. Þá hafi kæranda verið heimilt að taka við greiðslum frá ferðamönnum sem átt hafi að ganga upp í lán hennar til X ehf. Þessi aðferð sé vel þekkt í viðskiptum. Hafi þetta ennfremur verið gert með þessum hætti til að „leysa vandamál með sértækar reglur miðlunarvefsins airbnb[.com]“. Séu skattframtöl félagsins skoðuð sjáist vel að umrætt lán lækki á hverju ári nema þegar viðbætur eru gerðar 2013-2014 vegna annarrar íbúðar í Reykjavík. Þá sjáist vel að tekjum sé fyrst ráðstafað upp í rekstrarkostnað en þegar afgangur sé lækki lánið við kæranda, að undanskyldu árinu 2015. Áréttar umboðsmaður kæranda að kærandi hafi ekki vantalið tekjur sínar heldur X ehf., en félagið hafi talið fram tekjur að fjárhæð 743.661 kr. vegna ársins 2013 sem mögulega hafi átt að vera 1.949.538 kr. og því 1.205.877 kr. vantaldar hjá félaginu. Þurfi því ekki að leiðrétta skattskil kæranda heldur félagsins greint ár. Í niðurlagi bréfsins gerir umboðsmaður kæranda athugasemdir við vinnubrögð ríkisskattstjóra og meðferð embættisins á máli kæranda. Þá er þess krafist af hálfu kæranda að litið verði svo á að um viðurkenndan rekstur heimagistingar í gegnum einkahlutafélagið X ehf. hafi verið að ræða, sem hafi haft til þess tilskilin leyfi eins og lög geri ráð fyrir.

V.

Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun ríkisskattstjóra, sbr. úrskurð embættisins um endurákvörðun, dags. 6. júlí 2016, og hinn kærða úrskurð, dags. 27. febrúar 2017, að færa kæranda til tekna í skattframtali árið 2014 sem tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi í merkingu B-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, greiðslur að fjárhæð 1.949.538 kr. vegna sölu á gistingu til erlendra ferðamanna á árinu 2013. Hækkaði stofn kæranda til tekjuskatts og útsvars úr 2.887.304 kr. í 4.836.842 kr. af þessum sökum. Þá ákvarðaði ríkisskattstjóri kæranda 25% álag á vanframtalinn stofn til tekjuskatts og útsvars, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Nam fjárhæð álagsins 487.385 kr. Af hálfu kæranda er byggt á því að umræddar tekjur tilheyri X ehf. og hafi því ekki verið vantaldar í skattskilum kæranda. Þá er álagsbeitingu mótmælt. Skilja verður kæruna á þann veg að þess sé krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi á þeim grundvelli að tekjurnar hafi ekki tilheyrt kæranda. Hefur kærandi lagt fram ýmis gögn til stuðnings því sjónarmiði sínu að tekjurnar tilheyri X ehf., en félag þetta var samkvæmt ársreikningum þess að fullu í eigu B á greindum tíma. Meðal þeirra gagna sem kærandi hefur lagt fram eru leigusamningar milli kæranda og X ehf. vegna íbúða kæranda að G og H, leigusamningur milli kæranda og B vegna G og lánssamningur milli kæranda og X ehf.

Að því er síðastgreinda samninginn varðar liggja ekki fyrir nein haldbær gögn í málinu um að kærandi hafi innt af hendi peningagreiðslur til félagsins á grundvelli samningsins, en umboðsmaður kæranda lagði fram útprentaðan lista yfir greiðslur við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra. Tekið skal fram að samningur þessi er alls ekki skýr um hvaða fyrirkomulag skuli vera á útgreiðslu lánsins eða hvort hann feli yfir höfuð í sér að lánveitandi inni af hendi peningagreiðslu til lántaka. Raunar má álykta um þá fyrirætlun samningsaðila að samningurinn feli í sér að lánveitandi (kærandi) standi straum af öllum kostnaði vegna sölu á gistingu í tilgreindum íbúðum kæranda við G og H, og að sá kostnaður myndi höfuðstól skuldar lántaka (X ehf.) við kæranda, allt að fjórum milljónum króna, vaxta- og verðbótalaust. Fyrir liggur að kærandi tilgreindi enga kröfu á hendur X ehf. í skattframtölum sínum árin 2012, 2013 og 2014. Að því er varðar endurgreiðslu lánsins kveður samningurinn á um að kærandi taki við leigugreiðslum sem eigi að ganga upp í skuld félagsins við kæranda. Þá kemur fram að kærandi fái „hlutafjárloforð í félaginu allt að 50% eða meira í sinn hlut sem nánar verð[i] ákveðið síðar eftir framvindu og gang mála“. Í framlögðum leigusamningum kæranda og X ehf. um íbúðir kæranda við G og H, sem eru ótímabundnir, er kveðið á um að X ehf. greiði enga leigu fyrstu fimm árin og að samningana skuli endurskoða að þeim tíma liðnum. Þá er fram komið í málinu að kærandi hafði með höndum alla umsýslu vegna sölu á gistingu til ferðamanna í íbúðum sínum, svo sem móttöku, þrif og annað utanumhald. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að kærandi gerði ekki grein fyrir neinum launum eða þóknunum vegna þessarar umsýslu í skattskilum sínum. Að þessu virtu og með hliðsjón af þeim samningum sem raktir hafa verið er naumast hægt að sjá hvaða hag kærandi á að hafa haft af framangreindu fyrirkomulagi, annað en órætt loforð um hlutafé í einkahlutafélaginu X ehf. eftir einhvern ótilgreindan tíma, en eins og málið liggur fyrir virðist gengið út frá því af hálfu kæranda að hún hafi unnið við starfsemina launalaust, lánað fasteignir sínar til útleigu til ferðamanna endurgjaldslaust í fimm ár og lánað fjármuni til að standa straum af kostnaði við starfsemina vaxta- og verðbótalaust. Verður að fallast á með ríkisskattstjóra að málatilbúnaður kæranda sé um þetta með nokkrum ólíkindum. Að framangreindu virtu og þegar litið er til þess að ekki var farið með umræddar greiðslur sem tekjur í skattskilum og ársreikningum X ehf. þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að tekjurnar tilheyri X ehf. Verður því að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Víkur þá að kröfu kæranda um niðurfellingu álags. Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 skal fella niður álag samkvæmt lagagrein þessari ef skattaðili færir rök að því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess. Þegar litið er til þeirra annmarka sem voru á skattskilum kæranda umrætt ár, sem fólust í því að skattstofnar voru vantaldir vegna vanframtalinna tekna, þykja ekki efni til að falla frá beitingu álags í tilviki kæranda, enda þykir hvorki hafa verið sýnt fram á af hálfu kæranda að atvikum sé svo farið að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 eigi við þannig að fella beri álagið niður né að tilefni sé til að falla frá álagsbeitingu að öðru leyti. Er kröfu kæranda um niðurfellingu álags því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja