Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurupptaka máls
  • Endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar
  • Framleiðslukostnaður

Úrskurður nr. 11/2018

Lög nr. 43/1999, 2. gr.   Lög nr. 90/2003, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 49. gr., 50. gr. 3. tölul.   Lög nr. 37/1993, 24. gr.  

Kærandi óskaði eftir endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 154/2017 í máli er laut að endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar. Var beiðnin byggð á því að láðst hefði að taka tillit til lánssamnings milli X ehf. og Y ehf. við úrlausn þess, hvort vaxtagjöld af umræddu láni gætu talist til framleiðslukostnaðar sjónvarpsþáttaraðar í skilningi laga nr. 43/1999 sem myndaði stofn til endurgreiðslu samkvæmt lögunum. Yfirskattanefnd taldi eftir sem áður að líta yrði á hið umdeilda rekstrarlán innan félagasamstæðu kæranda, X ehf. og Y ehf. sem fjárframlag X ehf. til framleiðslu sjónarvarpsþáttaraðarinnar eða sem stofnfé til Y ehf. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2018, miðvikudaginn 24. janúar, er tekið fyrir mál nr. 143/2017; beiðni A ehf., dags. 24. október 2017, um endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar nr. 154/2017. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 24. október 2017, hefur kærandi farið fram á það við yfirskattanefnd að nefndin endurupptaki úrskurð sinn nr. 154/2017, sem kveðinn var upp 11. október 2017, í máli kæranda vegna ákvörðunar nefndar um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar, dags. 15. maí 2017. Með umræddri ákvörðun hafnaði nefndin umsókn kæranda um endurgreiðslu hluta framleiðslukostnaðar vegna kvikmyndagerðar á Íslandi að því er snerti annars vegar vaxtagjöld að fjárhæð 10.623.441 kr. og hins vegar erlendan kostnað að fjárhæð 5.309.297 kr. Krafðist kærandi þess í málinu að fallist yrði á að umrædd útgjöld teldust frádráttarbær kostnaður samkvæmt lögum nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, sbr. lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, og mynduðu þannig stofn til endurgreiðslu á grundvelli hinna fyrrnefndu laga. Með úrskurði yfirskattanefndar 154/2017 var kröfum kæranda hafnað. Að því er snertir þann þátt málsins, er laut að vaxtagjöldum að fjárhæð 10.623.441 kr., kom m.a. fram í úrskurði yfirskattanefndar að um væri að ræða fjármagnskostnað sem tilgreindur hefði verið sem vextir Y ehf., dótturfélags kæranda, af láni frá framleiðslufyrirtækinu X ehf., móðurfélagi kæranda. Í úrskurði yfirskattanefndar voru í þessu sambandi rakin ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 43/1999 um skilgreiningu framleiðslukostnaðar og 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. og 49. gr. laga nr. 90/2003 varðandi frádráttarbæran rekstrarkostnað. Þá sagði svo í úrskurði yfirskattanefndar:

„Samkvæmt þágildandi ákvæði c-liðar 1. mgr. 4. gr. laga nr. 43/1999 var eitt af skilyrðum endurgreiðslu á grundvelli laganna að stofna skyldi sérstakt félag um framleiðsluna á Íslandi, en íslenskt útibú eða umboðsskrifstofa félags sem skráð væri í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið teldist sérstakt félag í þessum skilningi. Fyrir liggur að kærandi stofnaði félagið Y ehf. í þessum tilgangi, en samkvæmt gögnum frá fyrirtækjaskrá var Y ehf. stofnað með lágmarkshlutafé, þ.e. 500.000 kr. Sem fyrr segir var kærandi að fullu í eigu X ehf., en í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að X ehf. hafi verið framleiðandi sjónvarpsþáttaraðarinnar. Fyrir liggur í málinu að ekki var gerður lánssamningur milli X ehf. og Y ehf. um lán milli félaganna. Þá var vaxtareikningur óhefðbundinn, þ.e. vextir voru reiknaðir og færðir í heilu lagi við lok verkefnisins. Þegar litið er til þeirra tengsla sem eru milli umræddra félaga og rakin eru hér að ofan, sem og tilgangs með stofnun Y ehf., er naumast hægt að líta öðruvísi á hið umdeilda lán X ehf. til Y ehf. en sem fjárframlag X ehf. til framleiðslunnar sem framleiðanda verkefnisins eða sem stofnfé til Y ehf. Í þessu sambandi skal tekið fram til hliðsjónar að samkvæmt 3. tölul. 50. gr. laga nr. 90/2003 telst ekki til rekstrarkostnaðar samkvæmt 31. gr. sömu laga arður eða vextir af framlögðu fé manns til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi, hvort heldur reksturinn er á eigin ábyrgð eiganda eða með ótakmarkaðri ábyrgð í sameign með öðrum, sbr. og 2. mgr. 2. gr. laganna. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður því að taka undir með endurgreiðslunefnd í því að gjaldfærður vaxtakostnaður að fjárhæð 10.623.441 kr. vegna tilfærðs láns X ehf. til Y ehf. myndi ekki stofn til endurgreiðslu á grundvelli laga nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.“

Í beiðni kæranda til yfirskattanefndar um endurupptöku málsins kemur fram að kærandi telji að úrskurður yfirskattanefndar í málinu hafi verið byggður á ófullnægjandi upplýsingum að því er snertir vaxtagjöld að fjárhæð 10.623.441 kr., sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Niðurstaða yfirskattanefndar hafi verið byggð á því að ekki lægi fyrir lánssamningur milli Y ehf. og X ehf. Bréfi kæranda til nefndarinnar, dags. 28. ágúst 2017, hafi hins vegar fylgt ljósrit af lánssamningi milli félaganna, dags. 1. janúar 2014. Vegna mistaka hafi hins vegar verið tekið fram í bréfinu að lánssamningur lægi ekki fyrir. Með vísan til framangreinds sé farið fram á endurupptöku málsins að því er snertir þann þátt þess sem varðar umrædd vaxtagjöld af láni X ehf. til Y ehf. Sé þess óskað að málið verði afgreitt hið fyrsta.

II.

Fallist er á endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar nr. 156/2017.

Fram kemur í framlögðum lánssamningi milli X ehf. og Y ehf., dags. 1. janúar 2014, að lántaki, þ.e. Y ehf., lofi að taka að láni og lánveitandi, þ.e. X ehf., að lána 250.000.000 kr. „eftir þörfum lántaka á lánstímanum“, eins og segir í 1. gr. þessa samnings. Kemur fram að lántaka sé heimilt að óska eftir útborgun lánsins eftir því sem hann telji sig þurfa á lánstímanum. Halda skuli sérstakan bókhaldsreikning í bókhaldi beggja aðila yfir hreyfingar og stöðu samningsins á hverjum tíma. Er tekið fram að endanleg upphæð láns skuli ráðast „af eigin fjármögnunarþörfum vegna verkefnisins“. Þá kemur fram í 2. gr. samningsins að lántaki sé skuldbundinn til að endurgreiða lánið eins og það standi samkvæmt 1. gr. með áföllnum vöxtum í einu lagi við uppgjör verkefnis eftir endurgreiðslu eða síðar seinki fjármögnunargreiðslum. Áætlaður tími sé 30. nóvember 2016. Samkvæmt 3. gr. samningsins skyldi lánið bera 9% fasta ársvexti og vextir reiknast miðað við ádregna stöðu lánssamningsins hverju sinni.

Samkvæmt framansögðu var hið umdeilda lán veitt Y ehf. til að standa straum af fjármögnun kvikmyndaverkefnis sem um ræðir eftir þörfum félagsins á lánstíma. Eins og rakið er í úrskurði yfirskattanefndar nr. 154/2017 er kærandi dótturfélag X ehf. og eigandi alls hlutafjár í Y ehf. Mun stofnun síðastnefnds félags á árinu 2013 vera til komin vegna áskilnaðar þágildandi ákvæðis c-liðar 1. mgr. 4. gr. laga nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, þess efnis að stofnað væri sérstakt félag um framleiðslu kvikmyndar hér á landi. Þegar litið er til þessara tengsla umræddra félaga og tilgangs með stofnun Y ehf., sbr. og umfjöllun í úrskurði yfirskattanefndar nr. 154/2017, verður að líta á hið umdeilda rekstrarlán innan félagasamstæðu kæranda, X ehf. og Y ehf., sbr. lánssamning, dags. 1. janúar 2014, sem fjárframlag X ehf. til framleiðslu sjónarvarpsþáttaraðarinnar eða eftir atvikum stofnfé til Y ehf., sbr. og ákvæði 3. tölul. 50. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Verður því ekki talið að gjaldfærður vaxtakostnaður vegna lánsins að fjárhæð 10.623.441 kr. geti myndað stofn til endurgreiðslu á grundvelli laga nr. 43/1999. Er kröfu kæranda þar að lútandi því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar nr. 154/2017. Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja