Úrskurður yfirskattanefndar
- Álag
- Arðstekjur
Úrskurður nr. 19/2018
Gjaldár 2013-2016
Lög nr. 90/2003, 7. gr. C-liður 4. tölul., 108. gr. 2. mgr.
Kröfu kæranda um niðurfellingu 25% álags vegna vanframtalinnar arðgreiðslu frá X ehf. var hafnað.
Ár 2018, miðvikudaginn 7. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 118/2017; kæra A, dags. 30. ágúst 2017, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2013, 2014, 2015 og 2016. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, mótt. 1. september 2017, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 3. júlí 2017, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2013, 2014, 2015 og 2016. Með úrskurðinum hækkaði ríkisskattstjóri stofn kæranda til fjármagnstekjuskatts í skattframtali árið 2015 um 25.000.000 kr. vegna arðgreiðslu frá X ehf. og færði til samræmis afdregna staðgreiðslu arðsins að fjárhæð 5.000.000 kr. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, við greinda hækkun á stofni til fjármagnstekjuskatts. Þá hækkaði ríkisskattstjóri framtalda nafnverðseign kæranda í X ehf. úr 300.000 kr. í 500.000 kr. í skattframtölum áranna 2013, 2014, 2015 og 2016, og felldi samhliða niður tilgreindan söluhagnað eiginkonu kæranda vegna sölu hlutabréfa í félaginu að fjárhæð 300.000 kr. í skattframtali árið 2013.
Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að álag á hækkun stofns til fjármagnstekjuskatts verði fellt niður, enda hafi kærandi réttilega staðið skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskattsins.
II.
Málavextir eru þeir að með bréfi til kæranda, dags. 25. janúar 2017, fór ríkisskattstjóri fram á skýringar varðandi skattframtöl hans árin 2013 og 2015, sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Fram kom að samkvæmt skattframtali árið 2013 hefði 40% hlutafjár í X ehf. að nafnverði 200.000 kr. verið selt á 500.000 kr. til B og C. Óskað var eftir að gerð yrði grein fyrir því með hvaða hætti söluverð umræddra hlutabréfa hefði verið ákvarðað að teknu tilliti til eigin fjár félagsins á söludegi. Þá hefði X ehf. greitt út arð að fjárhæð 25.000.000 kr. á árinu 2014. Hlutur kæranda í félaginu væri 60% eða 15.000.000 kr., en ekki yrði séð að umræddur arður hefði verið færður til tekna í skattframtali árið 2015.
Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 8. febrúar 2017, kom fram að í tengslum við veikindi og andlát eiginkonu kæranda hefði vaknað sú hugmynd að börn þeirra fengju sem móðurarf hlutabréf í X ehf. Áætlað hefði verið að ganga frá fyrirframgreiddum arfi til þeirra systkina, en það hefði ekki gengið eftir. Við arðsúthlutun vegna rekstrar X ehf. hefði allur arður verið greiddur til kæranda og staðin hefðu verið skil á staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Hins vegar hefði hlutabréfaeign hans verið ranglega tilgreind sem 300.000 kr. en ekki 500.000 kr. Þá hefði umboðsmanninum láðst að ganga frá hlutafjármiðum með réttum upplýsingum, sem hefði tryggt að upplýsingar um arðgreiðsluna hefðu komið forskráðar á skattframtal kæranda.
Með bréfi, dags. 22. maí 2017, boðaði ríkisskattstjóri kæranda að embættið hefði í hyggju að endurákvarða opinber gjöld kæranda gjaldárin 2013, 2014, 2015 og 2016 á grundvelli 96. gr. laga nr. 90/2003. Fram kom að ríkisskattstjóri hefði í hyggju að hækka framtalda hlutafjáreign kæranda í X ehf. úr 300.000 kr. í 500.000 kr. í skattframtölum áranna 2013, 2014, 2015 og 2016. Þá væri fyrirhugað að færa kæranda til tekna í skattframtali árið 2015 fenginn arð af hlutabréfum í X ehf. að fjárhæð 25.000.000 kr. og færa afdregna staðgreiðslu af arði að fjárhæð 5.000.000 kr. Þá hefði ríkisskattstjóri í hyggju að bæta 25% álagi við fjárhæð vantalins skattstofns samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Vanframtaldar tekjur væru slíkur annmarki á framtalsgerð að ekki þættu efni til annars en að beita nefndri álagsheimild.
Kærandi lét boðunarbréfi ríkisskattstjóra ósvarað og með úrskurði, dags. 3. júlí 2017, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda til samræmis. Samkvæmt skattbreytingarseðlum með úrskurðinum lækkaði álagður fjármagnstekjuskattur gjaldárið 2013 úr 60.000 kr. í 0 kr. og nam lækkun samtals 61.500 kr. Gjaldárið 2015 hækkaði fjármagnstekjuskattur kæranda úr 73.426 kr. í 6.323.426 kr. eða um 6.250.000 kr., en til frádráttar kom staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts, sem hækkaði úr 98.423 kr. í 5.098.423 kr. Samtals nam gjaldabreyting til hækkunar 1.048.752 kr.
III.
Með kæru, dags. 30. ágúst 2017, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 3. júlí 2017, til yfirskattanefndar. Þess er krafist að álagsbeitingu vegna greiðslu arðs á árinu 2014 verði felld úr gildi. Fram kemur að kærandi hafi staðið skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskattsins á réttum tíma. Þrátt fyrir að láðst hafi að tilgreina greiddan arð og afdregna staðgreiðslu í skattframtali ársins 2015 sé ekki um vanskil að ræða. Með hliðsjón af fyrri skilvísum skattskilum kæranda er þess óskað að fallið verði frá álagsbeitingu. Ekki eru gerðar athugasemdir við aðrar breytingar á skattframtölum kæranda.
IV.
Með bréfi, dags. 2. október 2017, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. október 2017, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur.
Með bréfi, mótt. 13. október 2017, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu er ítrekuð fyrri kröfugerð um að fallið verði frá álagsbeitingu að þessu sinni með hliðsjón af fyrri skattskilum kæranda. Vísað er til þess að gengið hafi verið frá greiðslu arðsins með réttum hætti.
V.
Ágreiningur í máli þessu lýtur að álagsbeitingu ríkisskattstjóra, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, vegna vanframtalinnar arðgreiðslu frá X ehf. tekjuárið 2014. Fyrir liggur að félagið stóð skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arðgreiðslunni, en kærandi taldi greiðsluna ekki fram í skattframtali sínu árið 2015.
Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 skal fella niður álag samkvæmt lagagrein þessari ef skattaðili færir rök að því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.
Þegar litið er til þeirra annmarka sem voru á skattskilum kæranda umrætt ár, þar sem engin grein var gerð fyrir arðgreiðslu frá X ehf. að fjárhæð 25.000.000 kr., þykja ekki efni til að falla frá beitingu álags í tilviki kæranda, enda þykir hvorki hafa verið sýnt fram á af hálfu kæranda að atvikum sé svo farið að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 eigi við þannig að fella beri álagið niður né að tilefni sé til að falla frá álagsbeitingu að öðru leyti. Tekið skal fram vegna sjónarmiða kæranda að afdráttur staðgreiðslu af greindum arði samkvæmt lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, getur ekki haft þýðingu varðandi hina umdeildu álagsbeitingu. Kröfu kæranda um niðurfellingu álags er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.