Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattsekt
  • Skattrannsókn
  • Sektarlágmark

Úrskurður nr. 143/2001

Lög nr. 50/1988, 40. gr. 1. mgr. (brl. nr. 42/1995, 3. gr.)   Lög nr. 19/1940, 74. gr. 1. mgr. 8. tölul.  

A var með úrskurði yfirskattanefndar gerð sekt fyrir að hafa á saknæman hátt vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti. Við ákvörðun sektar A var tekið tillit til verulegra greiðslna hans á skattskuldum til innheimtumanns ríkissjóðs og var sekt færð niður úr lögbundu lágmarki.

I.

Með bréfi, dags. 8. febrúar 2000, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuáranna 1996, 1997 og 1998. Í bréfi skattrannsóknarstjóra segir:

„A er gefið að sök að hafa ekki staðið að fullu skil á innheimtum virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum til innheimtu-manns ríkissjóðs vegna uppgjörstímabilanna maí-júní, júlí-ágúst og nóvember-desember vegna tekjuársins 1996, allra uppgjörstímabila vegna tekjuársins 1997, uppgjörstímabilanna janúar-febrúar, mars-apríl og maí-júní vegna tekjuársins 1998, samtals að fjárhæð kr. 3.091.629, sem sundurliðast á milli uppgjörstímabila svo sem hér greinir:

Tekjuár

Uppgjörstímabil

Vangoldinn virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs kr.

1996

maí – júní

119.480

1996

júlí – ágúst

193.427

1996

nóvember – desember

357.363

Samtals 1996

670.270

1997

janúar – febrúar

43.060

1997

mars – apríl

220.337

1997

maí – júní

355.477

1997

júlí – ágúst

245.612

1997

september – október

293.301

1997

nóvember – desember

76.600

Samtals 1997

1.234.387

1998

janúar – febrúar

137.672

1998

mars – apríl

595.716

1998

maí – júní

453.584

Samtals 1998

1.186.972

Samtals öll árin

3.091.629

Er það mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að þessi vanræksla A hafi átt sér stað á saknæman hátt, að því er frekast verður séð af ásetningi, eða í það minnsta af stórkostlegu gáleysi.

Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 1. og 2. mgr. 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A hann sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Við ákvörðun á fjárhæð vangoldins virðisaukaskatts sem grundvelli að sektarákvörðun komi til frádráttar framangreindum kr. 3.091.629, greiðslur á kr. 522.528, sem innheimtumaður ríkissjóðs hefur ráðstafað til greiðslu álags, dráttarvaxta og kostnaðar vegna virðisaukaskatts, sem og til greiðslu höfuðstóls, álags, dráttarvaxta og kostnaðar vegna opinberra gjalda og tryggingagjalds Arnars Vals frá því umrædd vanskil byrjuðu að myndast þann 6. ágúst 1996. Mismunurinn, eða kr. 2.569.101, er því sú fjárhæð sem skattrannsóknarstjóri ríkisins krefst að A verði gerð sekt fyrir að hafa ekki staðið skil á.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 8. febrúar 2000, sem fylgdi kröfugerð hans.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. febrúar 2000, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um það hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 2. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Engar athugasemdir hafa borist nefndinni frá gjaldanda.

III.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 8. febrúar 2000, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, fyrir að hafa vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti vegna þeirra uppgjörstímabila virðisaukaskatts árin 1996, 1997 og 1998 sem greinir í bréfinu.

Skattrannsóknarstjóri hóf í ágúst 1999 rannsókn á virðisaukaskattsskilum gjaldanda vegna tekjuáranna 1996, 1997 og 1998. Rannsókninni lauk með skýrslu, dags. 20. október 1999. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra 24. ágúst 1999. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins kemur fram að gjaldandi, sem hafði með höndum sjálfstæða starfsemi við múrbrot, hafi ekki staðið skil á virðisaukaskatti að fjárhæð 3.091.629 kr. vegna tilgreindra uppgjörstímabila virðisaukaskatts árin 1996, 1997 og 1998. Rannsókn málsins var m.a. byggð á virðisaukaskattsskýrslum gjaldanda, samanburðar- og leiðréttingarskýrslum virðisaukaskatts svo og upplýsingum um greiðslustöðu hjá innheimtumanni ríkissjóðs. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að neinir annmarkar á grundvelli skýrslnanna hafi verið leiddir í ljós við rannsóknina. Í skýrslunni kemur fram að bú gjaldanda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta í desember 1998.

Gjaldandi bar við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins að ekki hefðu verið til peningar til að greiða innheimtan virðisaukaskatt á tilskildum tíma, en fjármunirnir hefðu farið í lögfræðikostnað og til greiðslu skulda. Aðspurður um það hver hefði tekið ákvörðun um og borið ábyrgð á því að ekki hefði verið staðin skil á virðisaukaskatti svaraði gjaldandi að hann bæri ábyrgð á því. Gjaldandi staðfesti að virðisaukaskattsskýrslur sem fyrir lágu í málinu sem og samanburðar- og leiðréttingarskýrslur virðisaukaskatts væru vegna rekstrar hans og kannaðist við undirskriftir sínar á þeim. Kvaðst hann telja að skýrslurnar væru réttar, en vildi ekki tjá sig um fjárhæð vangreidds virðisaukaskatts. Í lok skýrslutökunnar tók gjaldandi fram að bú hans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta og íbúðarhús selt nauðungarsölu. Hlyti eitthvað að koma út úr þeirri sölu og ætti það þá að ganga upp í skattskuldir.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert ef skattskyldur maður afhendir eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Samkvæmt fortakslausum ákvæðum nefndra laga og með stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 1997 (H 1997:789), 25. september 1997 (H 1997:2446), 14. janúar 1999 (H 1999:79), 18. febrúar 1999 (H 1999:544 og 550), 10. júní 1999 (H 1999:2645) og 30. mars 2000 í málinu nr. 36/2000, geta menn unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt.

Í kröfubréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins er krafist sektar á hendur gjaldanda vegna vangoldins virðisaukaskatts að fjárhæð 2.569.101 kr. Er sú fjárhæð þannig fengin að til frádráttar vangreiddum virðisaukaskatti 3.091.629 kr. samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra, eru færðar greiðslur að fjárhæð 522.528 kr., en þar er annars vegar um að ræða greiðslur að fjárhæð 374.231 kr. sem innheimtumaður ríkissjóðs hefur á tímabilinu 6. ágúst 1996 til 19. janúar 2000 ráðstafað til greiðslu, álags, dráttarvaxta og kostnaðar vegna virðisaukaskatts, og hins vegar greiðslur að fjárhæð 148.297 kr. vegna höfuðstóls, álags, dráttarvaxta og kostnaðar vegna opinberra gjalda og tryggingagjalds gjaldanda frá því vanskil byrjuðu að myndast. Fjallað er um greiðslur þessar í skýrslu skattrannsóknarstjóra svo og í kröfubréfi og greinargerð hans til yfirskattanefndar og fylgdu greinargerðinni yfirlit um greiðslur vegna opinberra gjalda. Að tilhlutan yfirskattanefndar hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins hinn 6. mars 2001 lagt fram ný yfirlit um greiðslur þessar. Samkvæmt þeim hafa greiðslur vegna opinberra gjalda á tímabilinu 6. ágúst 1996 til 5. mars 2001 numið 5.897.607 kr. og þar af hafa verulegar fjárhæðir verið inntar af hendi á árinu 2000 vegna skatta frá árunum 1997 og 1998.

Nægilega þykir fram komið með stoð í gögnum málsins og framburði gjaldanda í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 24. ágúst 1999 að gjaldandi hafi vanrækt skyldur sínar, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, til að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti á tilskildum tíma, og hefur gjaldandi borið við fjárhagserfiðleikum. Samkvæmt þessu verður talið að fullnægt sé þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Greiðslur gjaldanda eftir 19. janúar 2000 vegna skattskulda sinna til innheimtumanns ríkissjóðs, sem að framan er gerð grein fyrir, geta ekki haft áhrif á sakarmat, en taka má tillit til þeirra við ákvörðun refsingar, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 22. júní 2000 í málinu nr. 49/2000.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið ber að ákvarða gjaldanda sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, vegna þeirra vanskila á virðisaukaskatti sem í máli þessu greinir. Eins og lög nr. 50/1988 hljóða eftir breytingar, sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var greiðsla á, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektar ber að taka tillit til þess sem fyrr er rakið um greiðslur gjaldanda vegna skattskulda sinna til innheimtumanns ríkissjóðs. Að þessu gættu, málsatvikum að öðru leyti og með vísan til 8. tölul. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo og að teknu tilliti til álags samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988, þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 800.000 kr. til ríkissjóðs.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

A greiði sekt að fjárhæð 800.000 kr. til ríkissjóðs.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja