Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrartap, frádráttarbærni
  • Kæranleg skattákvörðun

Úrskurður nr. 226/2001

Lög nr. 30/1992, 3. gr. 1. mgr.   Lög nr. 75/1981, 95. gr. 1. mgr.  

Skattstjóri gerði þá breytingu á skattframtali kæranda árið 1999 að fella niður tilfært ónotað rekstrartap frá fyrri árum. Umrætt rekstrartap var til komið vegna gjaldfærslu tapaðrar kröfu í skattskilum kæranda árið 1996, en með úrskurði yfirskattanefndar nr. 1014/1997 hafði þeirri gjaldfærslu verið hafnað. Þar sem breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1999 laut þannig einungis að því að fylgja fyrri ákvörðun eftir taldi yfirskattanefnd að engin efnisleg og kæranleg ákvörðun lægi fyrir um gjaldfærslu kröfunnar. Var kröfum kæranda um gjaldfærslu því vísað frá yfirskattanefnd og málið sent ríkisskattstjóra til afgreiðslu.

I.

Málavextir eru þeir að með skattframtali kæranda árið 1999 fylgdi samræmingarblað RSK 4.05 ásamt öðrum gögnum vegna sjálfstæðrar starfsemi kæranda við vöruflutninga og sendibílaakstur árið 1998. Samkvæmt samræmingarblaðinu var ónotað rekstrartap frá fyrri árum 509.263 kr. dregið frá rekstrarhagnaði ársins 983.777 kr. og mismunurinn 474.514 kr. færður til tekna sem hreinar tekjur af atvinnurekstri í reit 62 í skattframtalinu.

Með bréfi, dags. 27. júlí 1999, tilkynnti skattstjóri kæranda, með vísan til 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að þær breytingar hefðu verið gerðar á skattframtali hans gjaldárið 1999 að ónotað tap frá 1995, 509.263 kr., hefði verið fellt niður. Var vísað til bréfs skattstjóra, dags. 25. júlí 1996, og til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 1014/1997. Hreinar tekjur í reit 62 yrðu því 983.777 kr.

Umboðsmaður kæranda kærði framangreinda ákvörðun skattstjóra með kæru, dags. 28. ágúst 1999. Mótmælti umboðsmaðurinn niðurfellingu tapaðrar kröfu, sem frádráttarbærs rekstrarkostnaðar vegna rekstrarársins 1998, sbr. bréf skattstjóra, dags. 27. júlí 1999. Vísaði umboðsmaðurinn til úrskurðar yfirskattanefndar í desember 1997, en með þeim úrskurði hefði yfirskattanefnd staðfest að um frádráttarbæran rekstrarkostnað væri að ræða samkvæmt 13. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Gerði umboðsmaðurinn síðan grein fyrir málavöxtum og kvað kæranda hafa selt atvinnurekstrarbifreið sína, sem væri af gerðinni Mercedes Benz, hinn 3. mars 1992, á 803.213 kr. Hluti af söluverði bifreiðarinnar hefði verið greiddur með Range Rover bifreið sem hefði verið metin á 735.000 kr. Bifreið þessi hefði verið færð sem eign í efnahagsreikningi kæranda hinn 31. desember 1992 en ekki afskrifuð. Hinn 5. febrúar 1993 hefði Range Rover bifreiðin verið seld á 735.000 kr. Hluti af söluverði þeirrar bifreiðar, þ.e. 550.000 kr., hefði verið greiddur með fólksbifreið af gerðinni Chrysler New Yorker árgerð 1985. Bifreið þessi hefði síðan verið seld aftur á árinu 1993 á sama verði til B, sem hefði greitt bifreiðina með skuldabréfi að fjárhæð 550.000 kr. Skuldabréfið hefði verið framselt Sparisjóði Keflavíkur og hefði þar af leiðandi ekki verið eignfært í efnahagsreikningi. B hefði ekki greitt af bréfinu og hefði sparisjóðurinn gengið að kæranda. Hefðu eftirstöðvar bréfins með dráttarvöxtum þá numið 626.374 kr. Kvað umboðsmaðurinn nefnda bifreið hafa verið tekna upp í söluandvirði bifreiðar sem notuð hefði verið í þágu atvinnurekstrar kæranda.

Með kæruúrskurði, dags. 1. febrúar 2000, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Í úrskurðinum var meðal annars vísað til fyrrnefnds úrskurðar yfirskattanefndar nr. 1014/1997, í máli kæranda varðandi þennan sama rekstrarkostnað, og til heimilda til gjaldfærslu taps samkvæmt 3. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 13. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstærðri starfsemi. Var jafnframt vísað til 14. gr. sömu reglugerðar er fjallaði um hvenær gjaldfærsla væri heimil samkvæmt 13. gr., en hún væri heimil á því tekjuári sem viðskiptakrafa, lánveiting og skuldaábyrgð væri sannanlega töpuð.

II.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 1. febrúar 2000, til yfirskattanefndar með kæru, dags. 28. apríl 2000. Umboðsmaðurinn gerir grein fyrir málavöxtum og ítrekar fyrri kröfugerð með vísan til 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994. Umboðsmaðurinn kveður kæranda hafa þurft að leysa til sín skuldabréf í vanskilum vegna framangreindra viðskipta, alls að fjárhæð 626.334,10 kr., hinn 6. apríl 1995. Kærandi hafi undirritað skuldabréf fyrir sömu fjárhæð til 5 ára og lokið við greiðslu síðustu afborgunar þess bréfs hinn 1. apríl 2000. Hafi kærandi sýnt fram á árangurslausar innheimtuaðgerðir með bréfi frá Juris ehf., innheimtu- og lögfræðistofu, dags. 9. desember 1997. Kærandi telji að í úrskurði yfirskattanefndar nr. 1014/1997 hafi umrædd töpuð krafa verið viðurkennd sem frádráttarbær rekstrarkostnaður, en ekki hafi verið talið heimilt að gjaldfæra hana sem tapaða á árinu 1995 heldur síðar. Áður en krafan var send í innheimtu hjá Juris ehf. hafi kærandi reynt ítrekað að innheimta kröfuna sjálfur en án árangurs. Kærandi krefjist þess, verði ekki fallist á að krafan hafi verið töpuð á árinu 1995, að krafan verði viðurkennd sem töpuð á árinu 1996 og til vara á árinu 1997 þegar niðurstaða innheimtu hjá Juris ehf. hafi legið fyrir.

III.

Með bréfi, dags. 17. nóvember 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Kærandi hefur kært þá ákvörðun skattstjóra að fella niður ónotað tap í skattframtali kæranda gjaldárið 1999 og gerir þá kröfu að umþrætt viðskiptakrafa verði viðurkennd sem töpuð árið 1995, til vara að krafan verði viðurkennd sem töpuð á árinu 1996 og til þrautavara að krafan verði viðurkennd sem töpuð árið 1997.

Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 1014/1997, sem fjallaði um gjaldfærslu sömu kröfu kæranda, kemur fram að ekki þyki hafa verið sýnt fram á að krafan hafi verið töpuð á árinu 1995. Með hliðsjón af þessu hafnar ríkisskattstjóri aðalkröfu kæranda.

Samkvæmt ákvæðum 3. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 13. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, er gjaldfærsla heimil á því tekjuári sem viðskiptakrafa, lánveiting og skuldaábyrgð er sannanlega töpuð. Í 14. gr. reglugerðarinnar er kveðið nánar á um það hvenær krafa telst sannanlega töpuð. Kærandi hefur lagt fram bréf frá Juris ehf., innheimtu- og lögfræðistofu, dags. 16. október 1997, þar sem fram kemur, að innheimtuaðgerðum hafi verið hætt vegna þess að áskorunum var ekki sinnt, lögsókn var ekki talin arðbær, árangurslauss fjárnáms og skuldari væri eignalaus.

Með hliðsjón af málsgögnum fellst ríkisskattstjóri á þrautakröfu kæranda, þ.e. að viðskiptakrafan verði viðurkennd sem töpuð árið 1997.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 27. nóvember 2000, var kæranda send kröfugerð ríkisskattstjóra og gefinn kostur á að leggja fram skýringar og gögn. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Eins og fram er komið laut breyting skattstjóra, sbr. tilkynningu, dags. 27. júlí 1999, að niðurfellingu ónotaðs rekstrartaps frá 1995, er kærandi hafði tilfært til frádráttar tekjum í skattskilum sínum vegna rekstrarársins 1998. Vísaði skattstjóri til bréfs síns, dags. 25. júlí 1996, og úrskurðar yfirskattanefndar nr. 1014/1997 vegna álagningar opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 1996. Eins og fram er komið var með úrskurði þessum hafnað kröfu kæranda um gjaldfærslu á greindri kröfu á árinu 1995 þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að krafan hefði verið töpuð á því ári, sbr. 3. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, og 13. og 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Leiddi þessi breyting til lækkunar á tapi af rekstri kæranda gjaldárið 1996, sbr. það sem fram kemur í greindum úrskurði.

Í kæru til skattstjóra, dags. 28. ágúst 1999, mótmælti umboðsmaður kæranda „niðurfellingu tapaðrar kröfu sem gjaldhæfs rekstrarkostnaðar“ vegna rekstrarársins 1998 svo sem nánar var rökstutt. Með kæruúrskurði, dags. 1. febrúar 2000, hafnaði skattstjóri kröfunni. Kröfugerð kæranda fyrir yfirskattanefnd lýtur að því að fá gjaldfærslu á umræddri kröfu tekna til greina og er þess aðallega krafist að hún verði leyfð til gjalda á árinu 1995, til vara á árinu 1996 og til þrautavara á árinu 1997.

Eins og að framan geinir felldi skattstjóri niður ónotað rekstrartap frá 1995 með ákvörðun sinni frá 27. júlí 1999 og verður ekki annað séð en þar hafi verið um að ræða tap sem leiddi af umræddri gjaldfærslu á þeirri kröfu, sem í málinu greinir, og gjaldfærð var gjaldárið 1996, en gjaldfærslunni síðan hafnað, sbr. ákvörðun skattstjóra og úrskurð yfirskattanefndar nr. 1014/1997. Verður því ekki annað séð en breyting skattstjóra, dags. 27. júlí 1999, hafi einungis lotið að því að fylgja síðastgreindum ákvörðunum eftir og verður að skýra kæruúrskurð skattstjóra, dags. 1. febrúar 2000, í því ljósi.

Af hálfu kæranda er mál þetta hins vegar rekið um gjaldfærslu á hinni töpuðu kröfu og virðist ríkisskattstjóri hafa gengist inn á slíkan málatilbúnað í kröfugerð sinni, dags. 17. nóvember 2000. Til þess ber hins vegar að líta að engin efnisleg ákvörðun hefur verið tekin um gjaldfærslu umræddrar kröfu að undanskildu fyrrgreindu máli sem lauk með úrskurði yfirskattanefndar nr. 1014/1997. Liggur því engin kæranleg ákvörðun fyrir um það efni.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður að vísa kærunni frá yfirskattanefnd. Rétt þykir að senda ríkisskattstjóra mál þetta til afgreiðslu, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd. Málið er sent ríkisskattstjóra til afgreiðslu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja