Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 340/1990

Skattsekt

Lög nr. 75/1981 — 102. gr. — 106. gr. 2. mgr. — 107. gr.  

Skattsektir — Skattsektir, ákvörðun fjárhæðar — Skattrannsókn — Skattrannsóknarstjóri — Vantaldar tekjur — Álag — Álag vegna vantalins skattstofns — Afsláttur — Afsláttargreiðsla, vanframtalin

Með bréfi, dags. 23. nóvember 1989, hefur skattrannsóknarstjóri sent ríkisskattanefnd til sektarmeðferðar mál A. Er í því bréfi svofelld greinargerð:

„Málavextir eru þeir að samkvæmt upplýsingum rannsóknardeildar ríkisskattstjóra fékk gjaldandi greiddan afslátt frá X hf. vegna viðskipta við það félag. Árið 1983 nam afslátturinn kr. 40.884 og árið 1984 kr. 32.269. Við athugun starfsmanna rannsóknardeildarinnar á bókhaldi gjaldanda áðurnefnd ár kom í ljós að umræddar greiðslur voru ekki tekjufærðar hjá gjaldanda, sem einnig er staðfest af Y, framkvæmdarstjóra gjaldanda, í bréfi til skattrannsóknarstjóra, dags. 5. febrúar 1987. Í bréfi ríkisskattstjóra til gjaldanda, dags. 2. desember 1987, boðaði ríkisskattstjóri endurákvörðun skattstofna hans vegna framangreindra greiðslna og hækkun opinberra gjalda gjaldárin 1984 og 1985 til samræmis við þá breytingu, sbr. 101. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, að teknu tilliti til 25% álags á vantalda skattstofna sbr. 106. gr. sömu laga, bærist eigi svar eða svar væri ófullnægjandi.

Gjaldandi svaraði ekki bréfi þessu og var málið þá tekið til úrskurðar af hálfu ríkisskattstjóra, dags. 25. október 1988, mál merkt 2-1-1339. Í úrskurðinum var gjaldanda gert að sæta hækkun á tekjuskatti, eignarskatti og eignarskattsauka vegna gjaldáranna 1984 og 1985. Gjaldandi kærði ekki úrskurð þennan.

Hækkun ríkisskattstjóra skv. framangreindum úrskurði var sem hér segir:

...

Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að gjaldandi taldi ekki fram allar tekjur sínar árin 1983 og 1984 á skattframtölum fyrir gjaldárin 1984 og 1985.

Telja verður að framangreind brot gjaldanda varði hann sektum skv. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.“

Með bréfi ríkisskattanefndar, dags. 10. janúar 1990, var félaginu veitt færi á að skila vörn af sinni hálfu í tilefni að framangreindu bréfi skattrannsóknarstjóra. Var það gert með bréfi, dags. 12. febrúar 1990.

Að því virtu sem fram kemur í gögnum málsins, þykir gjaldandi hafa vanframtalið tekjur til skatts með þeim hætti að varði hann sektum svo sem fram kemur í greinargerð skattrannsóknarstjóra. Teljast þær hæfilega ákveðnar 40.000 kr. í ríkissjóð. Hefur þá verið litið til þess að ríkisskattstjóri bætti 25% álagi við hækkun gjaldstofna.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja