Úrskurður yfirskattanefndar

  • Ívilnun í sköttum
  • Menntun barns

Úrskurður nr. 29/2018

Gjaldár 2017

Lög nr. 90/2003, 65. gr. 1. mgr. 4. tölul.   Reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996.  

Talið var fortakslaust skilyrði ívilnunar vegna menntunar barns að um væri að ræða útgjöld manns vegna menntunar barna sinna 16 ára og eldri. Var kröfu kæranda um ívilnun vegna framhaldsskólanáms dóttur kæranda, sem var fædd árið 2001, því hafnað.

Ár 2018, miðvikudaginn 21. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 169/2017; kæra A, mótt. 4. desember 2017, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2017. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir að með erindi til ríkisskattstjóra, dags. 28. apríl 2017, óskaði kærandi eftir lækkun tekjuskattsstofns gjaldárið 2017 vegna menntunar barns, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í erindinu kom fram að dóttir kæranda, sem væri fædd árið 2001, stundaði nám í fyrsta bekk í framhaldsskóla og hefði þar af leiðandi hafið námið ári fyrr en jafnaldrar hennar. Í lið 3.1 í skattframtali kæmi fram að hægt væri að sækja um lækkun tekjuskattsstofns vegna framfærslu ungmenna og að einkum væri átt við ungmenni á aldrinum 16-21 árs, en það væri þó ekki ófrávíkjanlegt. Væri þess óskað að tekið yrði tillit til þess að stúlkan væri ári á undan í skóla og skattstofn lækkaður.

Með bréfi, dags. 22. júní 2017, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003 að beiðni hennar um ívilnun væri synjað. Í bréfinu vísaði ríkisskattstjóri til ákvæðis 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 og tók fram að samkvæmt því bæri að taka til greina umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns hefði maður veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna 16 ára og eldri. Þá kæmi fram í reglum ríkisskattstjóra nr. 212/1996 um skilyrði fyrir ívilnunum að hér væri fyrst og fremst átt við börn á aldrinum 16-21 árs, fæddum 1995-2000, sem stunduðu nám að loknu grunnskólanámi, þ.e. nám í mennta- og fjölbrautaskólum, iðnnám og þess háttar. Í tilviki kæranda væri um að ræða ungmennið B sem væri fædd árið 2001 (misritað 2000) og hefði því orðið fimmtán ára á árinu 2016. Af þeirri ástæðu yrði að synja umsókn kæranda.

Með ódagsettri kæru til ríkisskattstjóra, sem barst 17. júlí 2017, mótmælti kærandi synjun ríkisskattstjóra. Í kærunni var bent á að í reglum um ívilnun kæmi fram að heimild 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 tæki fyrst og fremst til ungmenna á aldrinum 16-21 árs, en ekki væri þó um ófrávíkjanlegt skilyrði að ræða. Væri ósanngjarnt og brot á jafnræði skattgreiðenda að foreldri ungmennis, sem væri ári á undan í skóla, nyti ekki sama hagræðis og aðrir, enda væru útgjöld þau sömu. Ákvæðið virtist auk þess gera ráð fyrir sveigjanleika í þessum efnum, enda ekki fortakslaust. Væri ákvörðun ríkisskattstjóra naumast rökstudd. Krafa kæranda væri því ítrekuð.

Með kæruúrskurði, dags. 15. september 2017, synjaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um ívilnun. Í úrskurðinum vísaði ríkisskattstjóri til ákvæðis 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 og ítrekaði að þar sem tilgreint ungmenni hefði ekki náð 16 ára aldri á tekjuárinu 2016 væru ekki skilyrði fyrir lækkun tekjuskattsstofns kæranda gjaldárið 2017 vegna náms og framfærslu ungmennis. Yrði því að staðfesta fyrri synjun.

II.

Með ódagsettri kæru, sem barst yfirskattanefnd 4. desember 2017, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni er synjun ríkisskattstjóra á beiðni kæranda um ívilnun vegna menntunar ungmennis mótmælt. Eru áður fram komin sjónarmið kæranda varðandi jafnræði og sanngirni við skattlagningu ítrekuð og tekið fram að ófullnægjandi rökstuðningur hafi verið færður fyrir hinni kærðu synjun. Sé þess farið á leit að tekið verði tillit til þess að B sé ári á undan í skóla og kæranda veitt ívilnun vegna framfærslu B.

III.

Með bréfi, dags. 8. janúar 2018, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 10. janúar 2018, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og athugasemdum af því tilefni. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal ríkisskattstjóri taka til afgreiðslu umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns ef hann hefur veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna 16 ára og eldri. Lögin hafa ekki að geyma nánari ákvæði um ákvörðun ívilnunar við þessar aðstæður. Í reglum ríkisskattstjóra nr. 212/1996, um skilyrði fyrir ívilnun samkvæmt 66. og 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið sé að barnið sé orðið 16 ára og stundi nám a.m.k. þrjá mánuði á árinu. Kemur fram að hér sé fyrst og fremst átt við börn á aldrinum 16-21 árs sem stundi nám að loknu grunnskólanámi, þ.e. nám í mennta- eða fjölbrautaskólum, iðnnám o.þ.h. Er tekið fram að veiti námið rétt til námslána komi ívilnun ekki til álita. Þá er í reglum þessum mælt fyrir um takmarkanir á fjárhæð ívilnunar vegna menntunar barna og skerðingu ívilnunarfjárhæðar vegna tekna námsmanns, svo sem nánar greinir.

Samkvæmt framansögðu verður að telja fortakslaust skilyrði ívilnunar samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 að um sé að ræða útgjöld manns vegna menntunar barna sinna 16 ára og eldri, sbr. orðalag ákvæðisins og reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996 þar sem segir að skilyrði fyrir lækkun sé að barnið sé orðið 16 ára. Að þessu gættu verður að hafna kröfu kæranda um lækkun tekjuskattsstofns gjaldárið 2017.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda um ívilnun í sköttum gjaldárið 2017 er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja