Úrskurður yfirskattanefndar

  • Nám erlendis

Úrskurður nr. 5/1995

Gjaldár 1994

Lög nr. 75/1981, 70. gr. 3. mgr.   Reglugerð nr. 532/1990, 1. gr.  

Kærandi, sem stundaði á árinu 1993 nám við lýðháskóla í Svíþjóð, gerði þá kröfu að hún fengi að halda öllum réttindum sem heimilisfesti veitir hér á landi umrætt ár, en skattstjóri hafði miðað álagningu við að kærandi hefði einungis verið heimilisföst hér á landi hluta ársins 1993. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að nám kæranda við lýðháskóla uppfyllti ekki skilyrði í reglugerð nr. 532/1990. Var kröfu kæranda hafnað.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1994 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum við álagningu opinberra gjalda það ár. Álagningin var kærð til skattstjóra með framlagningu skattframtals hinn 23. ágúst 1994. Með kæruúrskurði, dags. 13. september 1994, féllst skattstjóri á að leggja framtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1994 í stað áætlunar. Vísaði skattstjóri um álagningareglur til 70. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og miðaði við að dvalartími kæranda hér á landi hefði verið 135 dagar.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 10. október 1994. Gerir kærandi kröfu um að vera skattlögð í samræmi við reglugerð nr. 532/1990, um réttindi og skyldur manna sem dveljast erlendis við nám, skv. ákvæðum laga um opinber gjöld. Fylgja kærunni gögn til staðfestingar á skólagöngu kæranda erlendis.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 18. nóvember 1994, lagt fram í málinu svofellda kröfugerð fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að kærunni verði synjað. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. reglug. nr. 532/1990 er nám sem veitir rétt samkvæmt reglugerðinni einskorðað við reglulegt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna skólakerfis á framhalds- og háskólastigi. Kæru fylgir vottorð frá skóla þeim er kærandi stundaði nám í á árinu 1992. Af vottorðinu má sjá að um er að ræða Folkehögskola. Þetta mun því vera menntaskólanám. Í 4. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar er tekið fram að til náms skv. 1. gr. teljist ekki nám í grunnskólum, menntaskólum og sambærilegum menntastofnunum.“

II.

Svo sem fyrirliggjandi gögn máls þessa bera með sér stundaði kærandi á árinu 1993 nám við sænskan lýðháskóla, en telja verður að þar sé um að ræða slíka menntastofnun sem lýst er í 4. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 532/1990, um réttindi og skyldur manna sem dveljast erlendis við nám, skv. ákvæðum laga um opinber gjöld. Nám kæranda fullnægir því ekki skilyrðum sem reglugerð þessi setur til að kærandi geti haldið öllum réttindum sem heimilisfesti hér á landi veitir samkvæmt skattalögum. Verður því að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja