Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður lausafjár
  • Bifreiðaviðskipti

Úrskurður nr. 28/1995

Gjaldár 1993

Lög nr. 75/1981, 15. gr. 1. og 2. mgr.  

Talið var að kærandi hefði ekki gert líklegt að bifreiðaviðskipti hans á árinu 1992 ættu undir skattfrelsisákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Vísaði yfirskattanefnd í því sambandi til verðmætisaukningar sem orðið hefði á tveimur bifreiðanna í hendi kæranda, en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefðu bifreiðarnar þurft endurbóta við, og þess að kærandi hefði með höndum sjálfstæða starfsemi við bifreiðaviðgerðir. Var ákvörðun skattstjóra um að fara með söluhagnað kærenda af viðskiptunum eftir 1. mgr. 15. gr. sömu laga því látin standa óhögguð, en kærunni vísað frá yfirskattanefnd sökum vanreifunar kæranda varðandi fjárhæð söluhagnaðar.

I.

Kæruefnið í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 14. desember 1993, er sú ákvörðun skattstjóra að færa kæranda til tekna á skattframtali 1993 1.022.774 kr. söluhagnað vegna bifreiðaviðskipta á árinu 1992, sbr. tilkynningu um endurákvörðun, dags. 23. júlí 1993 og kæruúrskurð, dags. 22. nóvember 1993. Gerir umboðsmaður kæranda þá kröfu að ákvörðun skattstjóra verði hnekkt.

Framangreindar breytingar gerði skattstjóri á grundvelli 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Byggði skattstjóri á því kærandi hefði á árinu 1992 haft 1.022.774 kr. hagnað af sölu bifreiða. Um hefði verið að ræða sölu þriggja bifreiða: X-1, af gerðinni Toyota Tercel, sem keypt hafi verið árið 1992 á 280.000 kr., en seld sama ár á 170.000 kr., X-2, af gerðinni Toyota Hilux, sem keypt hafi verið árið 1991 á 865.000 eða á 875.121 kr. miðað við framreiknað kaupverð árið 1992, en seld það ár á 1.580.000 kr. og X-3, af gerðinni MMC Lancer, sem keypt hafi verið árið 1991 á 180.000 kr. eða á 182.106 kr. miðað við framreiknað kaupverð árið 1992, en seld það ár á 610.000 kr. Ef litið væri til þess hve hagnaðurinn hefði verið mikill af viðskiptum þessum og atvinnu kæranda yrði eigi annað séð en að bifreiðanna hefði verið aflað í þeim tilgangi að selja þær aftur með hagnaði, enda kærandi eigi gert annað líklegt. Söluhagnaðurinn væri þannig skattskyldur samkvæmt 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu umboðsmanns kæranda er fram komið að kærandi hafi keypt bifreiðina X-3 á árinu 1991 og hafi hún verið seld hinn 13. mars 1992 og bifreiðin X-1 tekin upp í sem hluti greiðslu, sem síðan hafi verið seld hinn 10. apríl 1992. Jafnframt hafi bifreiðin X-2 verið seld hinn 17. september 1992, en hana hafi kærandi keypt árið 1991. Um ástæður þessara bifreiðaviðskipta er komið fram að bifreiðin X-3 hafi verið keypt sem aukabifreið á heimilið og bifreiðin X-2 sem ferðabíll fjölskyldunnar. Bifreiðakaupin hafi verið fjölskyldunni fjárhagslega erfið, þar sem kaupa hafi þurft varahluti í bifreiðarnar til að koma þeim í skoðunarhæft ástand. Þetta, ásamt fjárhagsbyrði vegna fasteignakaupa, hafi síðan leitt til þess að bifreiðarnar hafi verið seldar á árinu 1992 og keypt ein bifreið í þeirra stað. Á því ári hafi Toyota jeppabifreiðar notið mikilla vinsælda, en eigi hafi það verið fyrirsjáanlegt er kærandi keypti bifreiðina X-2. Bendir umboðsmaður kæranda á að kaup og sala á heimilisbifreiðum hafi hingað til ekki sætt athugasemdum af hálfu skattstjóra hvort sem söluverð bifreiða hafi verið hærra eða lægra en kaupverð þeirra. Umfang og eðli bifreiðaviðskiptanna, ásamt eignarhaldstíma hafi verið þess eðlis að kærandi geti vart hafa talist keypt bifreiðarnar með það fyrir augum að hagnast á sölu þeirra.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 10. júní 1994, gert þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Eigi verður talið að kærandi hafi gert líklegt að umræddra bifreiða, er hann seldi á árinu 1992, hafi ekki verið aflað í þeim tilgangi að selja þær aftur með hagnaði. Er hér bæði litið til verðmætisaukningar sem varð á tveimur þeirra í hendi kæranda, en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum máls þessa þurftu bifreiðarnar endurbóta við, og þess að kærandi hefur með höndum sjálfstæða starfsemi við bifreiðaviðgerðir. Verður því ekki talið að kærandi geti borið skattfrelsisákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, fyrir sig varðandi söluhagnað. Af hálfu kæranda hefur ekkert uppgjör söluhagnaðar verið lagt fram, hvorki með framtölum né við meðferð máls þessa og enga varakröfu hefur hann gert um fjárhæð söluhagnaðar þrátt fyrir það að af hans hálfu hafi komið fram að hann hafi lagt í kostnað vegna endurbóta á seldum bifreiðum. Að svo vöxnu og með vísan til þess sem fyrr greinir verður eigi hjá því komist að láta fjárhæð söluhagnaðar standa óhaggaða. Rétt þykir að vísa kærunni frá yfirskattanefnd.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja