Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður

Úrskurður nr. 33/1995

Gjaldár 1993

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.  

Ekki var fallist á það með kæranda, sem var lögmaður, að tvær fasteignir í hans eigu væru eingöngu notaðar við sjálfstæða starfsemi hans. Skírskotaði yfirskattanefnd til þess að kærandi hefði búsetu sína og lögheimili í annarri fasteigninni og nýtti hina eignina jafnframt til íbúðar. Einnig var því hafnað að allur kostnaður við rekstur bifreiða kæranda gæti verið frádráttarbær sem rekstrarkostnaður. Var áætlun skattstjóra á gjaldfærðum húsnæðiskostnaði og bifreiðakostnaði látin standa óhögguð.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 14. maí 1993, óskaði skattstjóri eftir því við kæranda að hann gerði grein fyrir tilfærðri gjaldfærslu viðhalds á H-götu í V-bæ, að fjárhæð 2.212.474 kr., og rekstrarkostnaði bifreiðar 698.830 kr. á rekstrarreikningi fyrir árið 1992, sem fylgdi skattframtali árið 1993, vegna lögfræðiþjónustu og fasteignasölu. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um hvernig nýtingu á ofangreindri fasteign væri háttað með tilliti til íbúðar kæranda og reksturs hans og hvort allur viðhaldskostnaður hefði verið gjaldfærður í rekstrarreikningi. Þá var óskað eftir samsvarandi upplýsingum um rekstur og nýtingu bifreiðar. Í bréfi kæranda, dags. 14. maí 1993, kom fram að húseign að H-götu væri að öllu leyti nýtt af kæranda, íbúð neðstu hæðar væri notuð undir skrifstofu með tilheyrandi bílaplani. Uppi væri skrifstofuherbergi með síma og myndsendi fyrir skrifstofuna. Að sjálfsögðu væri allur viðhaldskostnaður eignarinnar tilfærður á framtali. Varðandi notkun bifreiða sinna tók kærandi fram að þær væru eingöngu notaðar af honum sjálfum og eiginkonu hans sem jafnframt starfaði eingöngu við reksturinn. Ekki yrði skilið milli einkanota og afnota fyrir starfsemi kæranda þar sem ekki væri um að ræða einkanot nema í hálfs mánaðar tíma á árinu 1992 í sumarfríi en þá hefði kærandi jafnframt sinnt erindum fyrir lögmannsstofuna. Allur kostnaður varðandi bifreiðar kæranda væri tilfærður á skattframtali.

Með bréfi, dags. 14. júlí 1993, tilkynnti skattstjóri kæranda um eftirfarandi breytingar á skattframtali kæranda: skattstjóri áætlaði að 60% húseignarinnar H-gata væri nýtt vegna atvinnurekstrar kæranda. Viðhaldskostnaður hefði því verið lækkaður um 40% og yrði 1.327.784 kr. Þá hefðu fasteignagjöld H-götu verið lækkuð í sama hlutfalli og yrðu 45.584 kr. í stað 75.973 kr. Jafnframt hefðu tilfærð fasteignagjöld vegna K-götu, Reykjavík, að fjárhæð 43.823 kr. verið felld niður þar sem skrifstofur kæranda væru að H-götu og G-götu, Reykjavík. Ekki yrði séð að K-gata væri notuð við starfsemi kæranda. Rekstrarkostnaður bifreiða hefði verið færður á rekstraryfirlit fólksbifreiða (RSK 4.03). Fyrning að fjárhæð 35.000 kr. hefði verið felld niður en árleg afskrift bifreiðar, 107.709 kr., færð á hvora bifreið. Einkaafnot kæranda af bifreiðum teldist hæfilega áætluð 25% af heildarnotum bifreiðanna og skýrðist hátt hlutfall nota í þágu rekstrar með eðli starfsemi kæranda. Með þessu lækkaði tilfærður bifreiðakostnaður á rekstrarreikningi úr 698.930 kr. í 659.436 kr.

Kærandi kærði breytingar skattstjóra með kæru, dags. 25. ágúst 1993. Mótmælti kærandi því að skilið yrði milli svokallaðra einkanota og nota vegna atvinnurekstrar kæranda og eiginkonu hans þannig að kæranda bæri ekki fullur frádráttur fyrir hluta eigna sem þau hjónin noti allar sjálf til að afla tekna, sbr. 31. gr. laga nr. 75/1981. Báðar fasteignir kæranda í Reykjavík væru eingöngu notaðar í þágu reksturs kæranda; skrifstofan í G-götu og gististaður að K-götu, en þar dveldust ýmist annað þeirra hjóna eða bæði. Raunar væri ekki unnt að reka skrifstofu bæði í V-bæ og í Reykjavík ef ekki væri til staðar eigin gistiaðstaða, þegar gætt væri þess kostnaðar sem annars færi í hótel. Skattstjóri hafnaði kröfum kæranda með kæruúrskurði, dags. 11. janúar 1994. Af gögnum málsins mætti ráða að kærandi notaði fasteign að K-götu til íbúðar, G-götu sem skrifstofu og H-götu til íbúðar og skrifstofu. Jafnframt hefði komið fram að bifreiðar kæranda væru báðar notaðar af kæranda og eiginkonu hans við lögfræðistörf kæranda og til annarra þarfa, svo sem til orlofsferða. Væri kæru því hafnað.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 2. febrúar 1994, er áréttað að kærandi afli allra tekna sinna m.a. fyrir tilstuðlan fasteigna kæranda og bifreiða sem einnig væru eingöngu til og í notkun fyrir reksturinn. Það sé rangt sem komi fram hjá skattstjóra að íbúð að K-götu sé aðeins notuð til íbúðar. Þar sinni kærandi bókhaldi og vinni að málflutningi eftir aðstæðum um helgar.

Með bréfi, dags. 22. apríl 1994, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda gert þá kröfu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Skattstjóri hefur enga athugasemd gert við gjaldfærðan kostnað vegna fasteigna annan en þann að kærandi nýti viðkomandi fasteignir að hluta til persónulegra þarfa. Kærandi byggir kröfugerð sína hins vegar á því að umræddar fasteignir að H-götu í V-bæ, og K-götu í Reykjavík, séu eingöngu notaðar við hina sjálfstæðu starfsemi hans. Sú málsástæða þykir eigi fá staðist, enda hefur kærandi búsetu sína og lögheimili að H-götu og nýtir eignina við K-götu jafnframt til íbúðar. Kröfum kæranda er því hafnað varðandi þetta kæruatriði.

Þegar litið er til þeirrar starfsemi sem kærandi hefur með höndum og þarfar slíks rekstrar almennt fyrir slíkar bifreiðar, sem hér er um að ræða, verður að ætla að þær séu að talsverðu leyti notaðar til einkaþarfa kæranda. Kærandi hefur ekki gert fullnægjandi grein fyrir skiptingu aksturs milli atvinnu og einkaþarfa. Skattstjóri hefur áætlað kostnað þennan til frádráttar með lækkun sinni og virðist mat skattstjóra kæranda eigi óhagstætt. Verður við mat þetta látið sitja.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja