Úrskurður yfirskattanefndar

  • Lágskattaríki
  • Teknategund
  • Endurupptaka máls

Úrskurður nr. 30/2018

Gjaldár 2007, 2008 og 2009

Lög nr. 90/2003, 7. gr. C-liður 4. og 9. tölul., 11. gr. 1. mgr.   Lög nr. 37/1993, 24. gr.  

Kærandi óskaði eftir endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 200/2017 vegna þess þáttar málsins er laut að skattalegri meðferð greiðslna frá X Ltd., sem skráð var á Bresku Jómfrúreyjum, til kæranda, en kærandi hafði tilfært greiðslurnar sem arð í skattframtölum sínum. Ekki var talið að framlagðar fundargerðir vegna hluthafafunda í X Ltd., sem fylgdu endurupptökubeiðni kæranda, gæfu tilefni til endurupptöku málsins þar sem hvorki varð séð að sú tilhögun ákvarðanatöku um arðgreiðslu, sem þar var lýst, fengi samrýmst löggjöf Bresku Jómfrúreyja né samþykktum X Ltd. Var beiðni kæranda um endurupptöku málsins hafnað.

Ár 2018, miðvikudaginn 28. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 7/2018; beiðni A, dags. 5. janúar 2018, um endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar nr. 200/2017. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 5. janúar 2018, hefur kærandi farið fram á það við yfirskattanefnd að nefndin endurupptaki úrskurð sinn nr. 200/2017 sem kveðinn var upp 20. desember 2017 í máli kæranda vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2007, 2008 og 2009. Í málinu var í fyrsta lagi deilt um þá ákvörðun ríkisskattstjóra að fella niður í skattframtölum kæranda árin 2007, 2008 og 2009 tilfærðar arðstekjur frá X Ltd. að fjárhæð 500.000.000 kr. fyrsta árið, 300.000.000 kr. annað árið og 350.000.000 kr. þriðja árið og færa sömu fjárhæðir til skattskyldra tekna í skattframtölunum sem tekjur samkvæmt A-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 9. tölul. C-liðar sömu lagagreinar. Í öðru lagi var ágreiningur um ákvörðun ríkisskattstjóra að færa kæranda til skattskyldra tekna í skattframtali hans árið 2008 vaxtatekjur að fjárhæð 327.812.466 kr. vegna meintrar lánveitingar til Y ehf., sbr. 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Í þriðja lagi var loks deilt um þá ákvörðun ríkisskattstjóra að færa til skattskyldra tekna í skattframtali kæranda árið 2007 söluhagnað að fjárhæð 739.086.497 kr. vegna sölu hlutabréfa í E hf. og G hf. á árinu 2006 sem farið hefði fram í nafni Z Ltd., erlends félags í eigu kæranda.

Samkvæmt greindum úrskurði yfirskattanefndar voru ákvarðanir ríkisskattstjóra vegna greiðslna frá X Ltd. og vaxtatekna látnar standa óhaggaðar. Á hinn bóginn var tekjufærsla ríkisskattstjóra á söluhagnaði hlutabréfa í E hf. og G hf. á árinu 2006 felld niður. Í endurupptökubeiðni kæranda er eingöngu fjallað um þann þátt málsins er varðar skattalega meðferð greiðslna til kæranda frá X Ltd.

Í forsendum úrskurðar yfirskattanefndar nr. 200/2017 sagði m.a. svo um skattalega meðferð greiðslna frá X Ltd.:

„Eins og fyrr segir gerði kærandi við meðferð málsins hjá skattrannsóknar­stjóra ríkisins takmarkaða grein fyrir starfsemi X Ltd. og þeim greiðslum félagsins sem málið tekur til, að öðru leyti en því að kærandi staðhæfði að um arðgreiðslur væri að ræða. Kærandi hefur ekki lagt fram nein samtímagögn, svo sem afrit stjórnarsamþykkta X Ltd. eða önnur gögn, til stuðnings því að um arðgreiðslur frá hinu erlenda félagi hafi verið að ræða. Þá verður ekki ráðið um arðgreiðslur til kæranda af framlögðum reikningsyfirlitum frá Landsbanka Luxembourg S.A. og raunar hefur ekkert komið fram í málinu af hálfu kæranda um fyrirkomulag á greiðslu meints arðs. Fram er komið að samkvæmt lögum sem giltu á Bresku Jómfrúreyjum á því tímabili sem málið varðar var atbeini félagsstjórnar nauðsynlegur til þess að skuldbinda félag með takmarkaðri ábyrgð til greiðslu arðs, sbr. umfjöllun um þetta í kafla 4.3 í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Að framangreindu virtu og í ljósi þess sem fyrir liggur um starfsemi X Ltd. á því tímabili sem málið varðar verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á að virða beri hinar umdeildu greiðslur félagsins til hans í heild eða að hluta sem tekjur af hlutareign hans í félaginu, þ.e. arð í skilningi 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. mgr. 11. gr. sömu laga. Eins og málið liggur fyrir verður að fallast á með ríkisskattstjóra að um sé að ræða skattskyldar tekjur kæranda samkvæmt upphafsákvæði 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 9. tölul. C-liðar sömu lagagreinar.“

Í endurupptökubeiðni kæranda kemur fram að samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu skilyrði fyrir endurupptöku ákvörðunar uppfyllt ef hún hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Skattrannsóknarstjóri ríkisins og ríkisskattstjóri hafi lagt það til grundvallar niðurstöðu sinni varðandi meðferð greiðslna frá X Ltd. að ekki hafi verið fyrir hendi rekstrarlegar forsendur til greiðslu arðs úr félaginu. Kæranda hafi ekki gefist tækifæri til að útvega ákvarðanir um arðgreiðslur fyrr en það formsatriði hafi ráðið niðurstöðu í úrskurði yfirskattanefndar. Séu ákvarðanir um arðsúthlutanir úr félaginu meðfylgjandi. Um fyrirkomulag arðgreiðslna að öðru leyti kemur fram að þær hafi verið færðar á viðskiptareikning kæranda í mörgum færslum. Fram kemur að legið hafi fyrir frá upphafi að kærandi hafi sjálfur haft heimild til þess að taka ákvörðun um úthlutun arðs. Er í því sambandi vísað til umboðs stjórnar X Ltd. til kæranda og samþykkta félagsins. Fram kemur að öll samtímagögn um grundvöll umræddra arðgreiðslna og framkvæmd þeirra liggi fyrir, þ.e. samþykktir félagsins, umboð til kæranda, færslur á bankareikningum X Ltd., ákvarðanir um arðgreiðslur og skattframtöl kæranda. Það eina sem hafi leitt til þess að kröfum kæranda vegna arðgreiðslna hafi verið hafnað með úrskurði yfirskattanefndar sé að meðfylgjandi ákvarðanir hefðu ekki legið fyrir. Því verði ekki komist hjá endurupptöku málsins.

II.

Með bréfi, dags. 23. janúar 2018, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni er bent á að kærandi hafi margoft fengið tækifæri til þess að leggja fram gögn og upplýsingar sem sýni fram á að hvernig ákvörðunartöku um greiðslu arðs hafi verið háttað. Fyrst nú eftir að úrskurður yfirskattanefndar liggi fyrir þá telji kærandi það þjóna hagsmunum sínum að leggja fram gögn sem hann telji varpa ljósi á þennan tiltekna þátt málsins. Öll gögn sem skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi birt í skýrslu sinni hafi legið fyrir þegar yfirskattanefnd fjallaði um málið. Það eina sem sé nýtt í málinu nú séu þrjár fundargerðir sem kærandi leggi fram með endurupptökubeiðni. Hvað varðar framlögð afrit af ákvörðun um arðsúthlutun telji ríkisskattstjóri að þau séu sama marki brennd og þeir ársreikningar X Ltd. sem kærandi hafi lagt fram á fyrri stigum málsins, þ.e. gögnin séu ekki trúverðug og beri þess merki að hafa verið útbúin sérstaklega vegna málsins. Þá verði ekki litið framhjá því að kærandi hafi ekki frekar sýnt fram á fyrirkomulag á greiðslu meints arðs. Það sé mat ríkisskattstjóra að framlögð gögn breyti engu um niðurstöðu úrskurðar síns, dags. 10. mars 2017, og úrskurðar yfirskattanefndar nr. 200/2017. Gerð sé krafa um að endurupptöku nefnds úrskurðar yfirskattanefndar verði hafnað.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 24. janúar 2018, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 24. janúar 2018, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Fram kemur að í málinu hafi ávallt verið deilt um fjárhagslegar forsendur arðgreiðslu. Rekstrarupplýsingar hafi verið teknar saman fyrir embættið og það liggi fyrir að þær hafi verið í samræmi við framlagða færslulista af bankareikningum. Nú varði gagnaöflun fundargerðir, en um sé að ræða fundargerðir um arðgreiðslur sem hafi verið taldar fram strax í kjölfar þess að ákvarðanir hafi verið teknar. Þetta hafi legið fyrir frá upphafi og sé í samræmi við önnur fyrirliggjandi gögn. Lögð sé áhersla á að stjórnvaldi beri að nálgast málið málefnalega og af meðalhófi og hlutlægni. Varðandi þennan þátt málsins hafi hver og ein króna verið talin fram frá upphafi og á réttum tíma. Ekki verði séð að það geti verið hlutlæg og sanngjörn nálgun á málið að telja vafasamt að arðsákvarðanir hafi verið teknar. Varðandi fyrirkomulag greiðslna þá sé það nýtt sjónarmið í málinu að ríkisskattstjóri telji vafa undirorpið hvort kærandi hafi yfir höfuð fengið þær greiðslur sem um ræðir. Sé það tilfellið sé órökrétt að færa kæranda til tekna arðgreiðslur sem meintar aðrar tekjur. Verði ekki annað séð en að þetta sjónarmið ríkisskattstjóra geti verið sjálfstæð ástæða fyrir endurupptöku. Að öðru leyti er vísað til endurupptökubeiðni kæranda og öllum sjónarmiðum ríkisskattstjóra mótmælt sem röngum, enda byggi þau ekki á gögnum máls og séu í ósamræmi við þau.

III.

Mál þetta varðar beiðni kæranda samkvæmt bréfi, dags. 5. janúar 2018, um endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 200/2017 sem kveðinn var upp þann 20. desember 2017 í máli kæranda. Er ljóst af beiðninni að hún lýtur einungis að afmörkuðum þætti þess máls sem lauk með greindum úrskurði yfirskattanefndar, nánar tiltekið þeim þætti málsins sem laut að skattalegri meðferð greiðslna frá X Ltd. til kæranda í skattskilum hans vegna tekjuáranna 2006, 2007 og 2008. Með úrskurði yfirskattanefndar var hafnað kröfu kæranda þess efnis að ákvörðun ríkisskattstjóra um að skattleggja bæri greiðslur frá X Ltd. sem tekjur samkvæmt 9. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þ.e. í almennu skattþrepi tekjuskatts, yrði felld niður. Eins og hér að framan er rakið var sú niðurstaða byggð á því að kærandi hefði ekki sýnt fram á að virða bæri greiðslurnar í heild eða að hluta sem tekjur af hlutareign kæranda í X Ltd., þ.e. arð í skilningi 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. mgr. 11. gr. sömu laga.

Í beiðni kæranda um endurupptöku málsins kemur fram að beiðninni fylgi gögn um hinar umdeildu greiðslur til kæranda frá X Ltd. Þar er í fyrsta lagi um að ræða afrit umboðs („Power of Attorney“) frá 14. ágúst 2002, útgefið í nafni félaganna W Ltd. og Q Ltd. sem stjórnarmanna X Ltd. til handa kæranda. Í öðru lagi er um að ræða samþykktir X Ltd. („Articles of Association“) frá 14. ágúst 2002. Tekið skal fram að þessi gögn eru meðal fylgiskjala með skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 18. ágúst 2014, og lágu þannig fyrir við uppkvaðningu úrskurðar yfirskattanefndar í málinu. Í þriðja lagi fylgja beiðni kæranda afrit fundargerða hluthafafunda í X Ltd. („Minutes of a meeting of the shareholders of X ltd.“). Er um að ræða þrjár fundargerðir sem samkvæmt efni sínu lýsa ákvörðun félagsins um úthlutun arðs til hluthafa. Sú fyrsta varðar arðsúthlutun að fjárhæð 500.000.000 kr. á hluthafafundi 4. maí 2006, önnur arðsúthlutun að fjárhæð 300.000.000 kr. á hluthafafundi 31. maí 2007 og sú þriðja arðsúthlutun að fjárhæð 350.000.000 kr. á hluthafafundi 14. maí 2008. Fundargerðir þessar, sem að öðru leyti en að framan greinir eru samhljóða, eru undirritaðar af kæranda sem annars vegar fundarstjóra („Chairman of the Meeting“) og hins vegar sem fundarritara („Secretary of the Meeting“).

Eins og að framan greinir var niðurstaða úrskurðar yfirskattanefndar nr. 200/2017 m.a. byggð á því að kærandi hefði ekki lagt fram nein samtímagögn, svo sem afrit stjórnarsamþykkta X Ltd. eða önnur gögn, til stuðnings því að um arðgreiðslur frá hinu erlenda félagi hefði verið að ræða. Þá kom fram að samkvæmt lögum sem giltu á Bresku Jómfrúreyjum á því tímabili sem málið varðaði hefði atbeini félagsstjórnar verið nauðsynlegur til þess að skuldbinda félag með takmarkaðri ábyrgð til greiðslu arðs, sbr. umfjöllun í kafla 4.3 í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Ekki verður talið að framlagðar fundargerðir hluthafafunda X Ltd., sem fylgja endurupptökubeiðni kæranda, varpi neinu ljósi á málið að þessu leyti, enda verður hvorki séð að sú tilhögun ákvarðanatöku um arðgreiðslu, sem þar er lýst, fái samrýmst félagalöggjöf Bresku Jómfrúreyja, sem áður hefur verið vísað til, né samþykktum X Ltd. þar sem gert er ráð fyrir aðkomu félagsstjórnar að ákvörðunum um arðsúthlutanir. Skal tekið fram í því sambandi að ekki verður talið að fyrrgreint umboð („Power of Attorney“) feli í sér neina heimild til handa umboðsmanni til að taka ákvörðun um úthlutun arðs úr félaginu, enda kemur ekkert fram í umboðinu þar að lútandi. Verður raunar ekki séð að félagsstjórn sé yfirleitt heimilt að framselja hluthöfum vald sitt til arðsúthlutunar samkvæmt fyrrgreindri löggjöf Bresku Jómfrúreyja. Þá verður að telja að lýsing í endurupptökubeiðni kæranda á fyrirkomulagi greiðslu meints arðs, þ.e. að um sé að ræða fjölmargar færslur á viðskiptareikningi kæranda hjá X Ltd., mæli frekast gegn sjónarmiðum hans. Í beiðni kæranda um endurupptöku málsins kemur að öðru leyti ekkert fram sem ekki lá fyrir yfirskattanefnd við uppkvaðningu úrskurðar nefndarinnar nr. 200/2017.

Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, og þar sem hvorki ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né aðrar réttarreglur leiða til þess að endurupptaka beri mál kæranda og ekki er að öðru leyti fram komið tilefni til endurupptöku er beiðni kæranda synjað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Beiðni kæranda um endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar nr. 200/2017 er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja