Úrskurður yfirskattanefndar
- Söluhagnaður fyrnanlegra eigna
- Frestun skattlagningar
Úrskurður nr. 50/2018
Gjaldár 2016
Lög nr. 90/2003, 13. gr., 14. gr., 33. gr.
Ríkisskattstjóri synjaði beiðni kæranda, sem var einkahlutafélag, um frestun á skattlagningu söluhagnaðar vegna sölu fasteignar um tvenn áramót þar sem ríkisskattstjóri taldi að greind fasteign gæti ekki talist fyrnanleg eign, enda hefði kærandi aflað fasteignarinnar með sölu í huga en ekki til nota í rekstri sínum. Þótt yfirskattanefnd féllist á með ríkisskattstjóra að tilgreiningar í ársreikningum kæranda bæru frekast með sér að fasteignin hefði verið byggð til endursölu þótti þó varhugavert að láta það atriði ráða úrslitum í málinu, m.a. þar sem skattskil kæranda báru ekki með sér að félagið hefði haft með höndum byggingu og sölu fasteigna. Þar sem ekki þótti ástæða til að vefengja að bygging fasteignarinnar hefði verið gerð með það fyrir augum að nýta fasteignina til öflunar tekna í rekstri kæranda, þ.e. með útleigu, var krafa kæranda tekin til greina.
Ár 2018, miðvikudaginn 11. apríl, er tekið fyrir mál nr. 110/2017; kæra A ehf., dags. 15. ágúst 2017, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2016. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 15. ágúst 2017, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 28. febrúar 2017, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2016. Kæruefnið er synjun ríkisskattstjóra að heimila kæranda að fresta skattlagningu söluhagnaðar af fasteigninni L-götu um tvenn áramót, sbr. ákvæði 14. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
II.
Af hálfu kæranda, sem er einkahlutafélag, var í eignaskrá (RSK 4.01) með skattframtali félagsins árið 2016 gerð grein fyrir sölu fasteignar að L-götu fyrir 56.900.000 kr. Fram kom að kaupverð/stofnverð eignarinnar hefði verið 39.672.347 kr. Næmi söluhagnaður því 17.227.653 kr. Með merkingu í þar til ætlaðan reit í eignaskránni, þar sem frestunarflokkur var tilgreindur „2“, var farið fram á að kæranda yrði færður söluhagnaðurinn til tekna á fimm árum, sbr. 22. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Var skattframtalið lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2016.
Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 25. nóvember 2016, fór kærandi fram á að flokkur frestunar söluhagnaðar í eignaskrá meðfylgjandi skattframtali félagsins árið 2016 yrði leiðréttur. Um væri að ræða hagnað félagsins af sölu fasteignarinnar L-götu. Að frádregnu yfirfæranlegu tapi frá fyrri árum að fjárhæð 9.310.886 kr. næmi fjárhæð til frestunar því 9.416.211 kr. Óskað væri eftir frestun á skattlagningu söluhagnaðar um tvenn áramót samkvæmt skattalögum og ætti frestunarflokkur því að vera númer 1.
Með bréfi, dags. 2. febrúar 2017, lagði ríkisskattstjóri fyrir kæranda að gera grein fyrir því hvers vegna og á hvaða lagagrundvelli félagið teldi sér heimilt að fresta skattlagningu söluhagnaðar sem myndast hefði við sölu fasteignarinnar að L-götu á árinu 2015. Tók ríkisskattstjóri fram að ekki yrði séð að fasteignin gæti talist fyrnanleg eign í rekstri kæranda samkvæmt 33. gr. laga nr. 90/2003, svo sem hann rökstuddi nánar. Ætti fasteignin því ekki heima í eignaskrá um fyrnanlegar eignir. Fasteignarinnar hefði augljóslega ekki verið aflað með langtímaeignarhald í huga og þá hefði hún ekki verið notuð til öflunar tekna í atvinnurekstri félagsins, t.d. með útleigu eða undir aðra starfsemi félagsins. Yrði ekki séð að félaginu væri heimilt að fresta skattlagningu söluhagnaðar af eigninni á grundvelli 14. gr. laga nr. 90/2003. Væri um að ræða almennar rekstrartekjur af byggingarstarfsemi en ekki hagnað af sölu fyrnanlegra eigna. Ríkisskattstjóri tilgreindi tíu daga svarfrest í bréfi sínu.
Með tölvupósti til ríkisskattstjóra 17. febrúar 2017 var brugðist við fyrirspurnarbréfi embættisins af hálfu kæranda. Kom fram að eigandi kæranda hefði talið sig í fullum rétti og væri ekki sáttur við afstöðu ríkisskattstjóra. Yrði bréf embættisins því sent endurskoðanda eða eftir atvikum skattalögfræðingi til athugunar. Ekki verður séð að kærandi hafi látið ríkisskattstjóra frekari skýringar í té.
Með kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 28. febrúar 2017, var kröfu kæranda, sbr. kæru félagsins, dags. 25. nóvember 2016, hafnað. Rakti ríkisskattstjóri að í ársreikningi kæranda fyrir rekstrarárið 2015, sem fylgt hefði skattframtali kæranda árið 2016, væri gerð grein fyrir sölu fasteignarinnar að L-götu. Í ársreikningnum kæmi fram að söluverð fullunninna verka næmi 56.900.000 kr. og kostnaðarverð fullunninna verka 40.172.347 kr. Söluhagnaður fasteignarinnar væri því 16.727.653 kr. Í eignaskrá (RSK 4.01) með skattframtalinu væri einnig gerð grein fyrir sölu fasteignarinnar á árinu 2015. Kæmi þar fram að smíði eignarinnar hefði hafist á árinu 2015 og að kaupverð/stofnverð eignarinnar næmi 39.672.347 kr. Söluverð eignarinnar hefði verið 56.900.000 kr. og söluhagnaður því 17.227.653 kr. og hefði verið fram á frestun skattlagningar söluhagnaðarins. Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignaskrá Íslands hefði kærandi keypt fasteignina, sem væri einbýlishús, hinn 21. ágúst 2013. Væri þetta í samræmi við upplýsingar í ársreikningi félagsins fyrir rekstrarárið 2013, en þar væri gerð grein fyrir kaupum kæranda á lóð fyrir 15.500.000 kr. Í sama ársreikningi væri eignfærður byggingakostnaður að fjárhæð 11.455.131 kr. Verk í vinnslu í árslok 2013 hefði því numið 26.955.131 kr. Í ársreikningi kæranda fyrir rekstrarárið 2014 kæmi fram að bæst hefði við byggingakostnaður að fjárhæð 9.475.216 kr. Verk í vinnslu stæði í 36.430.347 kr. í árslok 2014. Á árinu 2015 hefði bæst við byggingakostnaður að fjárhæð 3.742.000 kr. þannig að kostnaðarverð fullunninna verka, sem seld hefðu verið á árinu 2015, næmi 40.172.347 kr. Af ársreikningum kæranda fyrir rekstrarárin 2013, 2014 og 2015 yrði ekki ráðið að umrædd fasteign eða bygging hennar hefði skilað kæranda öðrum tekjum en söluverði fasteignarinnar á árinu 2015. Væri þannig hvorki getið um leigutekjur né aðrar tekjur á þessum árum.
Í ársreikningum kæranda fyrir rekstrarárin 2013 og 2014 væri samkvæmt framansögðu gerð grein fyrir fasteigninni að L-götu sem verki í vinnslu. Í ársreikningi félagsins fyrir rekstrarárið 2015 væri síðan gerð grein fyrir sölu fasteignarinnar sem sölu á fullunnu verki. Greind verklokaaðferð, sem kærandi hefði beitt í reikningsskilum sínum, þ.e. að færa til eignar í árslok sem verk í vinnslu byggingarkostnað eða framleiðslukostnað hvers árs þar til verki væri lokið og eign seld, væri almennt notuð af aðilum í byggingarstarfsemi. Af þessu yrði ekki annað ráðið en að fasteignin L-gata hefði verið smíðuð eða byggð með sölu í huga en ekki til eigin nota. Í skattframtali kæranda árið 2015, sbr. einnig ársreikning kæranda fyrir rekstrarárið 2014, dags. 29. september 2015, væri fasteignin L-gata enn talin fram sem verk í vinnslu. Við framtalsskil árið 2016 hefði því legið fyrir að búið væri að selja fasteignina, en samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá hefði fasteignin verið seld 25. ágúst 2015. Einnig lægi fyrir að eignin hefði verið auglýst til sölu hjá fasteignasölu í júní 2015. Eignin hefði ekki verið færð í eignaskrá og talin fram sem fyrnanleg eign fyrr en við gerð skattframtals árið 2016 vegna rekstrarársins 2015. Það væri augljóslega gert í þeim tilgangi að geta farið fram á frestun á skattlagningu hagnaðar vegna sölunnar.
Samkvæmt framansögðu yrði ekki séð að fasteignin L-gata gæti talist fyrnanleg eign í rekstri kæranda samkvæmt 33. gr. laga nr. 90/2003, enda hefði fasteignarinnar augljóslega ekki verið aflað með langtímaeignarhald í huga og þá hefði hún ekki verið notuð til öflunar tekna í atvinnurekstri kæranda, t.d. með útleigu eða undir aðra starfsemi kæranda. Kæranda væri því ekki heimilt að fresta skattlagningu hagnaðar af sölu eignarinnar á grundvelli 14. gr. laga nr. 90/2003. Söluhagnaðurinn væri almennar rekstrartekjur kæranda af byggingarstarfsemi en ekki söluhagnaður af sölu fyrnanlegra eigna. Eignin ætti því ekki heima í eignaskrá um fyrnanlegar eignir. Með vísan til framanritaðs og þess að kærandi hefði ekki svarað fyrirspurnarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 2. febrúar 2017, hefði ríkisskattstjóri ákveðið að hafna beiðni kæranda um að flokkur frestunar söluhagnaðar í eignaskrá kæranda yrði leiðréttur og að kæranda yrði heimiluð frestun skattlagningar söluhagnaðar um tvenn áramót vegna sölu fasteignarinnar. Væri fasteignin L-gata felld af eignaskrá (RSK 4.01) meðfylgjandi skattframtali kæranda árið 2016. Skattaleg leiðrétting söluhagnaðar að fjárhæð 17.227.653 kr. í reit 4020 í skattframtali kæranda félli jafnframt niður, sem og frestun annars söluhagnaðar, að sömu fjárhæð, í reit 4030 í skattframtalinu.
Með bréfi umboðsmanns kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 26. apríl 2017, óskaði kærandi eftir endurupptöku á kæruúrskurði embættisins, dags. 28. febrúar 2017. Í bréfinu var greint frá því að tilgangur kæranda væri að reka fasteignir með útleigu. Um þær mundir sem L-gata hefði verið seld hefðu lánastofnanir sótt að eiganda kæranda vegna einbýlishúss eigandans að M-götu og sú aðför hefði haft áhrif á L-götu og kæranda. Hefði helsti lánardrottinn kæranda hótað að gjaldfella lán sem tekið hefði verið til að reisa umrædda eign og kærandi brugðið á það ráð að selja eignina fyrr en ætlað hefði verið til þess að forða fyrirliggjandi tapi sem hefði orðið verulegt. Salan hefði því ekki endurspeglað öflun tekna í atvinnurekstri, heldur verið eins konar neyðaraðgerð. Í kjölfarið hefði kærandi keypt K-götu og lægi ekki annað fyrir en að sú eign yrði leigð út. Með hliðsjón af framtíðaráformum varðandi K-götu og ástæðum sem legið hefðu að baki sölu L-götu væri ályktunum í kæruúrskurði ríkisskattstjóra mótmælt. Bréfinu fylgdi m.a. endurrit úr nauðungarsölubók … vegna nauðungarsölu M-götu … júlí 2015.
Með úrskurði, dags. 14. júlí 2017, féllst ríkisskattstjóri á endurupptöku úrskurðar embættisins, dags. 28. febrúar 2017. Með úrskurðinum hafnaði ríkisskattstjóri á nýjan leik kröfu kæranda, sbr. kæru til embættisins, dags. 25. nóvember 2016, um frestun á skattlagningu söluhagnaðar um tvenn áramót og að frestun söluhagnaðar yrði flokkaður í flokk 1. Ríkisskattstjóri tók fram að hann legði þann skilning í rökstuðning kæranda að ætlunin hefði verið að félagið myndi nýta L-götu til tekjuöflunar í rekstri félagsins í framtíðinni en að atvik hefðu valdið því að kærandi hefði orðið að selja eignina áður en notkun hennar hefði hafist í rekstrinum. Að mati kæranda hefði fasteignin verið fyrnanleg eign samkvæmt 33. gr. laga nr. 90/2003, en fyrning hefði ekki hafist þar sem ekki hefði verið byrjað að nýta eignina til tekjuöflunar í rekstrinum, sbr. 34. gr. laganna. Lánardrottinn eiganda kæranda, sem hefði verið að ganga að persónulegri eign eigandans, hefði hótað að gjaldfella lán félagsins og hefði fasteignin því verið seld til að forða frekara fjártjóni.
Ríkisskattstjóri tók af þessu tilefni fram að tilgangur rekstrar kæranda væri kaup, sala og eignarhald á verðbréfum, kaup og sala og rekstur fasteigna auk jarðeigna og lausafjár ásamt lánastarfsemi tengd rekstrinum, alhliða rekstrar- og markaðsráðgjöf og annar skyldur rekstur. Ísat flokkun félagsins væri 64.20.0, starfsemi eignarhaldsfélags. Í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 28. febrúar 2017, væri rakið að kærandi hefði í bókhaldi sínu, sbr. ársreikninga fyrir rekstrarárin 2013, 2014 og 2015, farið með L-götu eins og um væri að ræða verk í vinnslu. Þá væri óumdeilt að kærandi hefði ekki haft tekjur af eigninni. Í endurupptökubeiðni kæranda væri ekki að finna andmæli eða athugasemdir við þessar meginforsendur í úrskurði embættisins frá 28. febrúar 2017 fyrir því að telja L-götu ekki fyrnanlega eign. Taldi ríkisskattstjóri fram komnar skýringar kæranda ekki til þess fallnar að breyta niðurstöðu sinni. Bæri því að fara með hagnað kæranda af sölu fasteignarinnar eftir 21. gr. laga nr. 90/2003.
III.
Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 15. ágúst 2017, er krafist ómerkingar hins kærða úrskurðar þannig að heimiluð verði frestun á skattlagningu hagnaðar af sölu L-götu eins og um fyrnanlega eign sé að ræða og færa hann til lækkunar á kaupverði annarrar fyrnanlegrar eignar sem kærandi kunni að eignast innan tveggja áramóta frá sölu hinnar fyrri. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður samkvæmt meðfylgjandi kostnaðaryfirliti eða að mati yfirskattanefndar falli úrskurðurinn kæranda í vil.
Í kærunni eru málavextir raktir og vísað til gagna sem fylgdu endurupptökubeiðni kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 26. apríl 2017. Kemur fram að þegar álagning hafi legið fyrir gjaldárið 2016 hafi komið í ljós að fyrningarflokkun L-götu væri röng. Því hafi kærandi leitað eftir leiðréttingu með kæru til ríkisskattstjóra. Tilgangur kæranda sé að reka fasteignir með útleigu í huga. Í kjölfar uppboðs á M-götu hafi kærandi keypt aðra eign, þ.e. fasteign að K-götu, og liggi ekki annað fyrir en að sú eign hafi verið leigð út og aflað reglulegra tekna eins og fyrnanleg eign. Engin ástæða sé til að ætla að L-gata hefði verið nýtt á annan hátt. Að mati kæranda sé því hafið yfir allan vafa að L-gata hafi verið fyrnanleg eign. Þau rök ríkisskattstjóra gegn frestun á skattlagningu söluhagnaðarins að eignin hafi ekki aflað reglulegra tekna með útleigu, heldur hafi verið reist til endursölu, orki tvímælis. Miðað við byggingu L-götu, sölu hennar og síðar byggingu K-götu og hugmyndir kæranda um framtíðarnýtingu fyrri eignarinnar, sem síðar hafi raungerst í K-götu, sé að minnsta kosti jafn líklegt að umrædd eign hafi verið reist til að afla reglulegra tekna með útleigu. Kærandi eigi ekki að gjalda fyrir það að hafa þurft til að selja húsnæðið vegna óuppgerðra skuldamála.
IV.
Með bréfi, dags. 28. ágúst 2017, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi, mótt. hjá yfirskattanefnd 14. september 2017, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Kemur fram að kærandi telji að öflun tekna skipti ekki máli við mat á því hvort umrædd eign teljist til varanlegra rekstrarfjármuna. Í skattframkvæmd hafi verið talið heimilt að færa niður eignir í smíðum um fjárhæð frestaðs söluhagnaðar og sé það jafnan rökstutt með vísan til þess að 13. gr. laga nr. 90/2003, sem heimili niðurfærslu stofnverðs undir þessum kringumstæðum, vísi eingöngu til 33. gr. laganna. Ekki sé því nauðsynlegt að fullnægja kröfu 34. gr. laganna þess efnis að fyrning eignarinnar með öflun tekna þurfi að vera hafin. Við mat á eðli hinnar seldu eignar í tilviki kæranda beri því að beina sjónum að þeim viðskiptalegu ástæðum sem legið hafi til grundvallar sölu eignarinnar og meðferð á eignum þeim sem aflað hafi verið í stað hinnar seldu eignar í skattskilum félagsins, en enginn ágreiningur sé um að þær teljist fyrnanlegar eignir.
V.
Kæruefni máls þessa er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt hinum kærða úrskurði, dags. 14. júlí 2017, sbr. einnig kæruúrskurð ríkisskattstjóra, dags. 28. febrúar 2017, að synja kæranda um frestun á skattlagningu söluhagnaðar að fjárhæð 17.227.653 kr. vegna sölu fasteignar við L-götu í skattskilum kæranda gjaldárið 2016, sbr. ákvæði 14. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem krafan var reist á. Ákvörðun ríkisskattstjóra var byggð á því að umrædd fasteign gæti ekki talist fyrnanleg eign í skilningi 33. gr. laga nr. 90/2003, enda yrði ráðið af gögnum málsins að kærandi hefði aflað eignarinnar með sölu í huga en ekki til nota í rekstri sínum, og tæki heimild samkvæmt 14. gr. laganna því ekki til meðferðar söluhagnaðar eignarinnar. Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði ómerkt og að frestun söluhagnaðar verði heimiluð.
Kærandi í máli þessu er einkahlutafélag. Samkvæmt fyrirliggjandi vottorði úr fyrirtækjaskrá er tilgangur félagsins kaup, sala og eignarhald á verðbréfum, kaup, sala og rekstur fasteigna auk jarðeigna og lausafjár ásamt lánastarfsemi tengd rekstrinum, alhliða rekstrar- og markaðsráðgjöf og annar skyldur rekstur. Samkvæmt skattskilum kæranda hafði félagið í smíðum einbýlishús að L-götu árin 2013 og 2014 og færði félagið 26.955.131 kr. sem verk í vinnslu í ársreikningi sínum fyrir fyrra árið og 36.430.347 kr. í ársreikningi fyrir síðara árið. Samkvæmt eignaskrá (RSK 4.01) með skattframtali árið 2016 seldi félagið L-götu á árinu 2015 fyrir 56.900.000 kr. Kemur fram að stofnverð hafi verið 39.672.347 kr. og söluhagnaður því 17.227.653 kr.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, telst hagnaður af sölu eigna, sem heimilt er að fyrna samkvæmt 33. gr. laganna, og af sölu réttinda, sem tengd eru þessum eignum, að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hina seldu eign. Á því ári sem skattskyldur söluhagnaður eigna samkvæmt 13. gr. laga nr. 90/2003 færist til tekna er skattaðila heimilt samkvæmt 14. gr. laganna að fyrna eignir, sem fyrnanlegar eru samkvæmt 33. gr. sömu laga, um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Eigi skattaðili ekki eignir, sem hann getur fyrnt á þennan hátt á því ári þegar sala fer fram, getur hann farið fram á frestun skattlagningar á söluhagnaði um tvenn áramót, enda afli hann sér eigna sem fyrna má samkvæmt 33. gr. innan þess tíma og fyrni þær um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Ef eignanna er ekki aflað innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist að viðbættu 10% álagi. Fyrning eða frestun tekjufærslu á þessum grundvelli kemur því aðeins til greina að yfirfæranleg rekstrartöp hafi verið jöfnuð, sbr. niðurlag greinarinnar. Samkvæmt 33. gr. laga nr. 90/2003 eru fyrnanlegar eignir varanlegir rekstrarfjármunir sem notaðir eru til öflunar tekna í atvinnurekstri eða í sjálfstæðri starfsemi og rýrna að verðmæti við eðlilega notkun eða aldur, sbr. nánari upptalningu á helstu flokkum fyrnanlegra eigna í lagagreininni.
Krafa kæranda í máli þessu lýtur að því að félaginu verði talið heimilt að fresta skattlagningu söluhagnaðar vegna L-götu um tvenn áramót samkvæmt heimild í 14. gr. laga nr. 90/2003. Kröfu kæranda þessa efnis hafnaði ríkisskattstjóri á þeim forsendum að fasteignin L-gata geti ekki talist fyrnanleg eign í skilningi 33. gr. laga nr. 90/2003, sbr. skilyrði fyrir umkrafinni meðferð söluhagnaðar samkvæmt 14. gr. laganna. Þessu til stuðnings hefur ríkisskattstjóri einkum tilfært að í reikningsskilum kæranda fyrir rekstrarárin 2013, 2014 og 2015 sé farið með byggingarkostnað eignarinnar eins og um ræði verk í vinnslu. Nánar tiltekið beri ársreikningar með sér beitingu reikningsskilaaðferðar, svonefndrar verklokaaðferðar, sem almennt sé notuð af aðilum í byggingarstarfsemi. Hafi þessari aðferð m.a. verið beitt síðasta árið (rekstrarárið 2015) þótt legið hafi fyrir við gerð ársreiknings að eigin hefði þá verið seld. Eignin hafi fyrst verið færð í eignaskrá og talin fyrnanleg eign við gerð skattframtals kæranda árið 2016 vegna rekstrarársins 2015, sem ríkisskattstjóri telur augljóslega hafa verið gert í þeim tilgangi að geta farið fram á frestun á skattlagningu söluhagnaðarins. Þá skírskotar ríkisskattstjóri til þess að fasteignin hafi ekki verið notuð til öflunar tekna í atvinnurekstri kæranda, t.d. með útleigu eða undir aðra starfsemi kæranda. Gegn þessu hefur kærandi fært það fram, sbr. endurupptökubeiðni, dags. 26. apríl 2017, og kæru félagsins til yfirskattanefndar, að ætlunin með smíði L-götu hafi verið að hafa af eigninni tekjur með útleigu. Áður en að því hafi komið hafi kærandi hins vegar orðið að selja eignina vegna aðstæðna eiganda félagsins sem staðið hafi frammi fyrir nauðungarsölu íbúðarhúss síns að M-götu. Hefur kærandi lagt fram endurrit úr nauðungarsölubók um umrædda nauðungarsölu sem fram fór … júlí 2015. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum var M-gata lögheimili eiganda kæranda á umræddum tíma auk þess sem skráð heimilisfang kæranda var þar. Í hinum kærða úrskurði er ekki brugðist við þessum skýringum kæranda með öðru móti en því að vísa til þeirra forsendna sem fyrri úrskurður embættisins var byggður á og fyrr greinir, þ.e. að meðferð eignarinnar í reikningsskilum bendi til þess að öflun hennar hafi ekki verið með langtímaeignarhald í huga auk þess sem engar tekjur hafi verið af eigninni.
Fallast verður á það með ríkisskattstjóra að tilgreiningar í ársreikningum kæranda fyrir rekstrarárin 2013, 2014 og 2015 vegna L-götu bera frekast með sér að fasteign þessi hafi verið byggð til endursölu. Má ætla að byggingarkostnaður hefði að öðrum kosti verið færður í eignaskrá allt frá upphafi framkvæmda. Varhugavert þykir þó að láta þetta atriði ráða úrslitum í málinu, enda verður naumast talið að kærandi hafi með þessum hætti látið uppi bindandi afstöðu í skattskilum til álitaefnis máls þessa. Skattskil kæranda bera ekki heldur með sér að félagið hafi – hvorki á þeim árum sem málið tekur til né á umliðnum árum – haft með höndum byggingu og sölu fasteigna. Sú staðreynd að ekki hafi verið leigutekjur af umræddri eign þykir ekki hafa þýðingu þegar til þess er litið að eignin var seld áður en kom til nýtingar af neinu tagi.
Að framangreindu virtu og fram komnum skýringum kæranda að öðru leyti þykir ekki ástæða til að vefengja að bygging kæranda á umræddri fasteign við L-götu hafi verið gerð með það fyrir augum að nýta fasteignina til öflunar tekna í atvinnurekstri kæranda, sbr. einnig tilgang félagsins samkvæmt vottorði úr fyrirtækjaskrá. Verður samkvæmt þessu að telja að um hafi verið að ræða skattskyldan söluhagnað samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 90/2003. Var kæranda því heimil sú frestun skattlagningar söluhagnaðar sem kveðið er á um í 14. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt þessu verður krafa kæranda í máli þessu tekin til greina. Tekið skal fram að með þessari niðurstöðu er því ekki svarað hvort telja megi að kaup kæranda á fasteign að K-götu, sem vikið hefur verið að í málinu, feli í sér slíka endurfjárfestingu sem um ræðir í 14. gr. laga nr. 90/2003.
Af hálfu kæranda er gerð krafa um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Í ákvæði þessu kemur fram að falli úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, geti yfirskattanefnd úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi skattaðili haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur. Af hálfu kæranda hafa engin gögn verið lögð fram um útlagðan kostnað kæranda þrátt fyrir ábendingu þar að lútandi í bréfi yfirskattanefndar, dags. 16. ágúst 2017, þar sem móttaka kærunnar var staðfest. Með vísan til þess, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014, sem birtar eru á vef nefndarinnar, eru ekki skilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði. Verður því að hafna málskostnaðarkröfu kæranda.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Fallist er á kröfu kæranda um frestun á skattlagningu söluhagnaðar af fasteigninni L-götu um tvenn áramót frá söludegi. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.