Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Greiðsla vegna afsetningarréttar

Úrskurður nr. 237/2001

Gjaldár 1998

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 50. gr. A (brl. nr. 118/1997, 2. gr.)  

Kærandi færði til gjalda í landbúnaðarskýrslu greiðslu fyrir svonefndan afsetningarrétt frá X hf., en um var að ræða greiðslu sem framleiðendur kartaflna inntu af hendi fyrir aðgang að dreifingar- og sölukerfi X hf. Yfirskattanefnd taldi engan grundvöll til þess að líta á slíkt ígildi söluþóknunar sem kaup á ófyrnanlegum réttindum, eins og skattstjóri hélt fram. Var fallist á kröfu kæranda um gjaldfærslu greiðslunnar.

Málavextir eru þeir að með bréfi skattstjóra, dags. 11. janúar 1999, var kærandi krafinn um gögn til staðfestingar gjaldfærslu „afsetningarréttar“ frá X hf. að fjárhæð 280.000 kr. á landbúnaðarskýrslu sem fylgdi skattframtali kæranda árið 1998. Með svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 2. mars 1999, fylgdi reikningur frá X hf. vegna kaupa kæranda á afsetningarrétti í kartöflum fyrir 280.000 kr. Með bréfi, dags. 21. október 1999, óskaði skattstjóri eftir að kærandi færði rök fyrir umræddri gjaldfærslu þar sem litið væri svo á að um kaup á ófyrnanlegum réttindum væri að ræða, sbr. ákvæði í 50. gr. A laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem bæri að eignfæra. Vísaði skattstjóri til meðfylgjandi ljósrits af bréfi ríkisskattstjóra, dags. 3. september 1999, um meðferð afsetningarréttar í skattskilum. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 5. nóvember 1999, kom fram að ekki hefði verið um að ræða kaup á afsetningarrétti heldur „refsigreiðslu“. Kom fram að kærandi hefði átt 93 hluti hjá X hf. en hefði selt 58 hluti. Hlutirnir 35 sem eftir voru hefðu ekki nægt kæranda til afsetningar á kartöflum og því hefði kærandi selt kartöflur „fram hjá“ X hf. Þær reglur hefðu hins vegar verið í gildi hjá X hf. á þessum tíma að þeir sem það gerðu hefðu ekki fengið að nýta sína hluti og leggja inn kartöflur hjá félaginu. Samkomulag hefði þó orðið um að kærandi fengi að nýta afsetningarrétt sinn með þeim skilmálum að rétturinn yrði skertur um 20% og greiðsla kæmi til að fjárhæð 280.000 kr., eða 10.000 kr. á hlut. Eftir hefðu staðið 28 hlutir sem væri sá réttur sem um væri að tefla. Fór umboðsmaður kæranda fram á að hin umdeilda gjaldfærsla stæði óhögguð, enda ætti kærandi allan rétt á gjaldfærslu eðli málsins samkvæmt.

Með bréfi, dags. 10. janúar 2000, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárið 1998 þar sem fyrirhugað væri að fella niður gjaldfærslu afsetningarréttar 280.000 kr. og færa kaupverð réttindanna sem ófyrnanlega eign á efnahagsreikningi. Kvaðst skattstjóri ekki fallast á röksemdir umboðsmanns kæranda og tók fram að ef litið væri á umrædda greiðslu sem „refsigreiðslu“ væri ekki um frádráttarbærni að ræða samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981. Ítrekaði skattstjóri að um ófyrnanleg réttindi væri að ræða sem féllu undir 50. gr. A laga nr. 75/1981, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 3. september 1999. Af hálfu kæranda var boðunarbréfi skattstjóra ekki svarað og með úrskurði um endurákvörðun, dags. 28. apríl 2000, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd á þeim forsendum sem að framan greinir.

Með kæru, dags. 10. janúar 2000, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði ógiltur ásamt álagi. Kemur fram að af hálfu kæranda sé því mótmælt að hinum keypta afsetningarrétti sé líkt við framleiðslurétt sem byggður sé á lögum. Sé um að ræða kostnað sem fyrirtæki geri manni að greiða til þess að hann fái að leggja inn kartöflur til sölumeðferðar. Áður hafi X hf. verið búið að taka þennan rétt af kæranda sem hegningu fyrir að hafa selt öðru fyrirtæki kartöflur á ákveðnu tímabili. Sé þannig um að ræða beinan kostnað sem kæranda hafi verið gert að greiða til að geta haldið áfram að framleiða kartöflur og afsetja þær hjá fyrirtæki sem hann hafi átt hlut í. Mótmælir umboðsmaður kæranda því að skattalög heimili þá meðferð sem skattstjóri viðhafi og verði ekki séð að lagagreinar sem skattstjóri vísi til gefi tilefni til breytinga á skattframtali kæranda. Kæru umboðsmanns kæranda fylgir m.a. bréf stjórnar X hf. til kæranda, dags. 12. maí 1997, þar sem kæranda er tilkynnt um afgreiðslu stjórnarinnar á beiðni kæranda um „að afsetningarréttur verði gerður virkur“ á þeim bréfum sem kærandi hefði sótt um afsetningu á.

Með bréfi, dags. 29. september 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Eins og fram er komið færði kærandi til gjalda í landbúnaðarskýrslu með skattframtali sínu árið 1998 greiðslu fyrir svonefndan afsetningarrétt frá X hf. að fjárhæð 280.000 kr. Á fyrirliggjandi reikningi frá nefndu hlutafélagi vegna greiðslu þeirrar sem um ræðir kemur fram yfirskriftin „Endurv. afsetningarréttur“ og lýsing hins selda er „Afsetningar. í kartöflum“. Af hálfu kæranda hefur komið fram að honum hafi verið nauðsynlegt að inna af hendi greiðslu þessa til þess að hann héldi rétti til að leggja inn framleiðsluvöru sína til sölumeðferðar hjá X hf., þ.e. umræddum afsetningarrétti. Samkvæmt þeim reglum sem verið hefðu í gildi hjá X hf. á þessum tíma hefðu þeir sem seldu „fram hjá“ félaginu glatað rétti sínum til að fá afurðir sínar seldar á vegum félagsins. Samkomulag hefði orðið um að kærandi fengi að nýta afsetningarrétt sinn, þó með þeim skilmálum að réttur hans yrði skertur um 20%, þ.e. niður í 28 hluti, og að kærandi greiddi X hf. fé, 10.000 kr. á hlut, eða samtals 280.000 kr.

Ekki liggja fyrir í málinu frekari upplýsingar um efni þeirra skilmála eða samninga er almennt gilda um umræddan afsetningarrétt bundinn hlutareign í X hf., né um eðli hans, grundvöll eða takmarkanir, en að í „afsetningarrétti“ felist réttur til að leggja inn hjá X hf. ákveðið magn afurða úr tiltekinni framleiðslugrein, svo sem greinir í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 3. september 1999, sem vísað er til í úrskurði skattstjóra. Er samkvæmt því um að ræða greiðslu sem framleiðendur kartaflna inna af hendi fyrir aðgang að dreifingar- og sölukerfi nefnds hlutafélags. Enginn grundvöllur þykir til þess að líta á slíkt ígildi söluþóknunar sem kaup á réttindum af þeim toga sem um er fjallað í 50. gr. A laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. gr. laga nr. 118/1997, þótt greiðsla sé innt af hendi í einu lagi, enda verður það lagaákvæði ekki skýrt rýmra en felst í beinu orðalagi þess. Er þá m.a. horft til forsögu 50. gr. A, svo sem hún kemur fram í lögskýringargögnum.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 þykir bera að hnekkja hinni kærðu breytingu skattstjóra og taka kröfu kæranda til greina.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Krafa kæranda er tekin til greina.

 



 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja