Úrskurður yfirskattanefndar

  • Málskostnaður

Úrskurður nr. 240/2001

Gjaldár 2000

Lög nr. 30/1992, 8. gr. 2. mgr. (brl. nr. 96/1998, 4. gr.), 12. gr.  

Kæran í máli þessu, sem var studd nýjum gögnum, var send skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar. Samkvæmt þeim málsúrslitum og eins og málið bar að þóttu ekki vera lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði.

Málavextir eru þeir að í skattframtali sínu árið 2000 taldi kærandi sér til tekna sem launatekjur og aðrar starfstengdar greiðslur 3.465.891 kr., þar af launatekjur frá S hf. 1.766.561 kr. og V ehf. 1.644.250 kr. Til frádráttar umræddum tekjum færði kærandi 136.433 kr. sem iðgjald greitt í lífeyrissjóð í reit 162 í skattframtalinu.

Með bréfi, dags. 5. janúar 2001, krafði skattstjóri kæranda um skýringar á tilfærðum frádrætti lífeyrissjóðsiðgjalda 136.433 kr. og vísaði til þess að samkvæmt launamiðum hefði kærandi greitt 70.663 kr. í lífeyrissjóð á árinu 1999. Af hálfu kæranda var bréfi skattstjóra ekki svarað og með bréfi, dags. 24. janúar 2001, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárið 2000 vegna fyrirhugaðrar lækkunar á frádrætti lífeyrissjóðsiðgjalda í reit 162 úr 136.433 kr. í 70.633 kr. Af hálfu kæranda var boðunarbréfi skattstjóra ekki svarað og með úrskurði um endurákvörðun, dags. 19. febrúar 2001, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd.

Með kæru, dags. 6. mars 2001, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 19. febrúar 2001, og gert kröfu um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og frádráttur í reit 162 verði ákvarðaður 136.433 kr. Þá verði kæranda úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði. Kærunni fylgja ljósrit af launaseðlum kæranda fyrir árið 1999 annars vegar frá S hf. og hins vegar frá V ehf. Vísað er til þess að kærandi hafi á árinu 1999 haft launatekjur frá tveimur vinnuveitendum annars vegar frá S hf. 1.766.561 kr. og þar af hafi 70.663 kr. verið afdregnar í lífeyrissjóð, og hins vegar frá V ehf. 1.699.330 kr. og þar af hafi 65.770 kr. verið afdregnar í lífeyrissjóð.

Með bréfi, dags. 20. apríl 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þar sem kærandi hefur lagt fram ný gögn í máli þessu og með hliðsjón af þeim lagarökum er búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er þess krafist að kærunni verði vísað til skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.“

II.

Kæra í máli þessu er rökstudd með launamiða sem ekki hefur sætt efnisúrlausn hjá skattstjóra. Með vísan til þeirra lagaraka er búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er kæran send skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Samkvæmt úrslitum málsins og eins og málið ber að og er lagt fyrir þykja ekki vera til staðar lagaskilyrði til að ákvarða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998. Kröfu þessa efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kæran er send skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja