Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðahlunnindi
  • Væntingaregla
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 260/2001

Gjaldár 1998 og 1999

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul., 97. gr. 2. mgr., 116. gr.   Skattmat fyrir tekjuárin 1997 og 1998.  

Skattstjóri endurákvarðaði opinber gjöld kæranda gjaldárið 1996 og færði honum til tekna bifreiðahlunnindi vegna afnota af bifreið í eigu K ehf. eftir reglum um takmörkuð afnot. Síðar endurákvarðaði skattstjóri opinber gjöld kæranda gjaldárin 1998 og 1999 og færði honum til tekna bifreiðahlunnindi vegna afnota af sömu bifreið eftir reglum um full og ótakmörkuð afnot. Yfirskattanefnd taldi að breytt mat skattstjóra á bifreiðaafnotum kæranda hefði orðið að byggjast á því að atvik hefðu breyst frá því að sambærilegu úrlausnarefni var ráðið til lykta í fyrra sinn eða að breyting hefði orðið á réttarreglum á þessu sviði. Var hin kærða hækkun bifreiðahlunninda kæranda gjaldárin 1998 og 1999 felld úr gildi.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 25. september 2000, hefur kærandi mótmælt hækkun skattstjóra á tilfærðum bifreiðahlunnindum kæranda í skattframtali árið 1998 úr 27.780 kr. í 339.000 kr. eða um 314.220 kr. og í skattframtali árið 1999 úr 26.006 kr. í 335.250 kr. eða um 309.244 kr., sbr. úrskurð skattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 1998 og 1999, dags. 27. júní 2000.

II.

Málavextir eru þeir að í skattframtali sínu árið 1998 færði kærandi til tekna bifreiðahlunnindi að fjárhæð 24.780 kr. frá launagreiðanda sínum, K ehf., og í skattframtali sínu árið 1999 færði hann bifreiðahlunnindi að fjárhæð 26.006 kr. frá sama aðila.

Í bréfi, dags. 8. maí 2000, til K ehf. vísaði skattstjóri til innsendra bifreiðahlunnindamiða (RSK 2.035) vegna áranna 1997 og 1998 þar sem fram kæmi að kærandi, sem væri framkvæmdastjóri félagsins, hefði haft takmörkuð afnot umrædd ár af bifreiðinni N af gerðinni Mazda 626, árgerð 1993, sem væri í eigu félagsins. Hlunnindi, sem fælust í einkaafnotum launamanns af bifreið launagreiðanda, teldust til skattskyldra hlunninda samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og bæri ríkisskattstjóra að meta slík hlunnindi til tekna samkvæmt 116. gr. sömu laga. Vísaði skattstjóri til auglýsinga ríkisskattstjóra nr. 15/1997 og 16/1998 þar að lútandi sem birtar hefðu verið í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. einnig skattmatsreglur ríkisskattstjóra fyrir tekjuárin 1997 og 1998 sem birtar hefðu verið með auglýsingum nr. 18/1998 og 31/1999 í B-deild Stjórnartíðinda. Í skattmati ríkisskattstjóra væri gerður greinarmunur á því hvort launamaður hefði haft bifreið til fullra umráða eða hvort bifreiðin hefði staðið honum til takmarkaðra afnota. Hlunnindi skyldu metin samkvæmt reglum um takmörkuð afnot ef eingöngu væri um að ræða akstur á milli heimilis og vinnustaðar og tilfallandi og einstök afnot, en ef afnotin væru ekki bundin við framangreint skyldi meta launamanni hlunnindi miðað við full og ótakmörkuð afnot. Gögn um takmörkuð afnot skyldu vera greinilega færð og vera aðgengileg skattyfirvöldum hvort sem væri í bókhaldi launagreiðanda eða hjá launamanni. Krafði skattstjóri félagið um afrit af gögnum um takmörkuð afnot kæranda af umræddri bifreið á árunum 1997 og 1998. Koma þyrfti fram um hvers konar takmarkanir afnota hefði verið að ræða, hver hefði sett þær og hvernig þeim hefði verið fylgt eftir. Þá krafði skattstjóri félagið um afrit af samningi um takmörkuð afnot bifreiðarinnar ef hann væri fyrir hendi og upplýsingar um hve marga kílómetra kærandi hefði ekið henni í eigin þágu.

Af hálfu K ehf. var í bréfi, dags. 10. maí 2000, greint frá því að enginn formlegur samningur væri fyrir hendi um afnot kæranda af umræddri bifreið, enda væri kærandi eini starfsmaður félagsins og aðaleigandi. Bifreiðin væri eingöngu notuð til aksturs á vegum félagsins, enda ættu kærandi og maki hans einkabifreiðar sem þau notuðu í eigin þágu. Þá var gerð grein fyrir starfsemi félagsins og notkun bifreiðarinnar N í tengslum við hana. Kom m.a. fram að allur vörulager félagsins væri í bílskúr kæranda við heimili hans að V og til að spara akstur væri bifreiðin geymd þar á næturnar og hún hlaðin vörum að morgni til útkeyrslu yfir daginn. Vegna þessa væru kæranda reiknuð bifreiðahlunnindi miðað við þriggja kílómetra akstur á hverjum degi, en það væri fjarlægð á milli heimilis kæranda og starfsstöðvar félagsins.

Í framhaldi af þessum bréfaskriftum reit skattstjóri kæranda bréf, dags. 17. maí 2000, þar sem fram komu sömu atriði og í bréfi skattstjóra til K ehf., dags. 8. maí 2000. Krafði skattstjóri kæranda um afrit af gögnum um takmörkuð afnot af bifreiðinni N á árunum 1997 og 1998 og um sömu upplýsingar um afnot af henni og áður hefur verið getið í bréfi skattstjóra til launagreiðandans, en auk þess um nánari skýringar um gerð bifreiðarinnar.

Í bréfi til skattstjóra, dags. 26. maí 2000, áréttaði kærandi að enginn formlegur samningur væri til um afnot hans af bifreiðinni. Gaf hann samskonar skýringar og fram höfðu komið í bréfi K ehf. til skattstjóra, dags. 10. maí 2000. Einu gögnin um málið væru í aðalfundargerð félagsins frá 5. ágúst 1997 sem mætti eflaust líta á sem ígildi samnings milli framkvæmdastjóra og félagsins. Í bókun þessari segði orðrétt:

„Er löglegur endurskoðandi félagsins fór yfir ársreikninga með framkvæmdastjóra taldi hann rétt að honum yrðu reiknuð bifreiðahlunnindi á árinu 1997 vegna aksturs til og frá heimili þrátt fyrir fullgild rök framkvæmdastjóra fyrir því að ekki væri um nein einkanot að ræða. Var samþykkt á fundinum að þetta skyldi gert, en þá yrði honum greitt fyrir þau afnot sem væru af hans bifreið í íhlaupum.“

Þá lýsti kærandi nauðsyn þess að K ehf. hefði bifreið til umráða og jafnframt gat hann þess að ekki kæmi til greina að geyma bifreiðina við starfsstöð félagsins sökum hættu á skemmdarverkum sem tíðum hefðu verið unnin á bifreiðum við götuna. Þá ítrekaði kærandi að hann ætti sjálfur bifreiðar til einkaaksturs.

Með bréfi, dags. 29. maí 2000, boðaði skattstjóri kæranda hinar kærðu hækkanir á bifreiðahlunnindum gjaldárin 1998 og 1999 og endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda þau gjaldár sem af þessum breytingum leiddi. Rakti skattstjóri fyrri bréfaskriftir í málinu og tók fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum um afnot kæranda af greindri bifreið hefði engan veginn verið sýnt fram á að um takmörkuð afnot kæranda af bifreiðinni hefði verið að ræða. Með tilliti til stöðu kæranda sem eiganda að 91,67% hlutafjár í K ehf. og þess að kærandi gegndi stöðu framkvæmdastjóra félagsins yrði að telja að kærandi hefði sjálfur getað ákvarðað einkanot af bifreiðinni. Væri því fyrirhugað að reikna kæranda bifreiðahlunnindi miðað við full, ótakmörkuð og endurgjaldslaus afnot. Tók skattstjóri fram að raunverulegur akstur eða notkun launþega í eigin þágu væri ekki hið eiginlega inntak þeirra hlunninda sem um ræddi, heldur hin ótakmörkuðu endurgjaldslausu umráð hans. Kærandi hefði haft full og ótakmörkuð umráð bifreiðarinnar. Raunverulegur akstur hans eða notkun af bifreiðinni skipti ekki máli í því sambandi. Gerði skattstjóri grein fyrir kostnaðarverði bifreiðarinnar samkvæmt skattmati (bifreiðaskrá) ríkisskattstjóra vegna áranna 1997 og 1998 og útreikningi bifreiðahlunninda miðað við full, ótakmörkuð og endurgjaldslaus afnot fyrir umrædd ár. Samkvæmt skattmatsreglum ríkisskattstjóra yrði fjárhæð bifreiðahlunninda kæranda 339.000 kr. gjaldárið 1998 og 335.200 kr. gjaldárið 1999. Samkvæmt því væri fyrirhugað að hækka bifreiðahlunnindi kæranda um 314.220 kr. gjaldárið 1998 og um 309.244 (sic) kr. gjaldárið 1999 frá því sem kærandi hefði sjálfur tilfært í skattframtölunum.

Kærandi mótmælti boðuðum breytingum skattstjóra í bréfi, dags. 13. júní 2000. Vísaði hann til bréfaskipta við skattstjóra vegna bifreiðahlunninda gjaldárið 1996, en þá hefði verið fallist á rök kæranda um takmörkuð afnot af bifreiðinni, sbr. úrskurð skattstjóra, dags. 21. júlí 1997. Engar breytingar hefðu síðan orðið á notkun bifreiðarinnar svo að nefndur úrskurður væri því í fullu gildi.

Með úrskurði um endurákvörðun dags. 27. júní 2000, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði hrundið boðuðum breytingum í framkvæmd og endurákvarðað opinber gjöld kæranda gjaldárin 1998 og 1999 í samræmi við það. Ítrekaði skattstjóri fyrri röksemdir varðandi afnot kæranda af umræddri bifreið launagreiðanda hans. Að því er varðar viðbáru kæranda um ákvörðun skattstjóra um bifreiðahlunnindi kæranda gjaldárið 1996 sagði svo í úrskurði skattstjóra: „Sá úrskurður tekur til gjaldársins 1996, en þessi úrskurður tekur til gjaldáranna 1998 og 1999. Skattstjóri er ekki bundinn af fyrri úrskurði sínum.“

III.

Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 27. júní 2000, til yfirskattanefndar með kæru, dags. 25. september 2000. Gerir kærandi kröfu um að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi. Kærandi gerir grein fyrir notkun bifreiðarinnar í þágu K ehf. og vísar til greinargerðar um notkun bifreiðarinnar sem ávallt hafi fylgt skattframtali K ehf. Þá gerir hann grein fyrir bókun varðandi bifreiðaafnot í aðalfundargerð 5. ágúst 1997 og ákvörðun skattstjóra um bifreiðahlunnindi gjaldárið 1996. Telur kærandi furðulegt að skattstjóri skuli krefja hann um bifreiðasamning milli hans og launagreiðanda, eða eins og segir í kærunni „að ég gerði samning við sjálfan mig um ekki neitt“. Þá mótmælir kærandi því að ekki skipti máli hvort hann hafi notað bifreiðina í eigin þágu. Með því móti sé verið að skattleggja möguleikann til tekjuöflunar. Þá vísar kærandi til úrskurðar skattstjóra vegna gjaldársins 1996 þar sem bifreiðahlunnindi kæranda hefðu verið ákvörðuð miðað við takmörkuð afnot af bifreið í eigu launagreiðanda, en afnot kæranda hafi verið samskonar árin 1997 og 1998 og þau hafi verið á árinu 1995. Ef skattstjóri hefði talið að forsendur væru breyttar hefði honum borið að tilkynna kæranda það strax á árinu 1997. Vísar kærandi í þessu sambandi til 10., 13. og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá vefengir kærandi heimild ríkisskattstjóra til ákvörðunar bifreiðahlunninda með þeim hætti sem gert sé í skattmatsreglum, svo sem nánar er lýst, með vísan til 40. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, með síðari breytingum.

IV.

Með bréfi, dags. 10. nóvember 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Ríkisskattstjóri krefst þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans og eftirfarandi athugasemda.

Rétt er að taka fram að skattstjóri var bundinn af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um fyrirspurn og boðun sem og af 2. mgr. 97. gr. sömu laga um tímafresti. Skattstjóri sendi kæranda fyrirspurn og uppfyllti þannig skyldu sína til löglegrar málsmeðferðar. Mótmælt er því þeirri málsástæðu að um formgalla hafi verið að ræða.

Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Undir skattskyld hlunnindi launamanna samkvæmt ákvæði þessu falla endurgjaldslaus afnot launamanns af bifreið í eigu atvinnurekanda, svonefnd bifreiðahlunnindi. Af eðli hlunninda leiðir að meta verður þau til verðs. Er gert ráð fyrir því í 116. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að ríkisskattstjóri hafi slíkt mat með höndum. Að gefnu tilefni skal vísað hér til dóms Hæstaréttar í máli nr. 356/1999 er kveðinn var upp þann 10. febrúar síðastliðinn en þar kom fram að matsreglur ríkisskattstjóra væru málefnalegar og reistar á almennum efnislegum mælikvarða. Þá var talið að reglurnar væru einfaldar, hlutlægar og gegnsæjar og að skattstjóra hefði verið rétt að fara að reglunum varðandi skattmat bifreiðahlunninda.

Ekki verður annað séð en að kærandi hafi haft bifreiðina N til fullra umráða. Ekki hafa verið lögð fram gögn um hvernig afnot hans af framangreindri bifreið hafi verið takmörkuð við akstur milli heimilis og vinnustaðar og einstök og tilfallandi afnot. Ekki hefur því verið sýnt fram á að um afnotatakmörkun af framangreindri bifreið hafi verið að ræða. Verður því ekki séð að færð hafi verið gögn um takmörkuð afnot, sem aðgengileg eru skattyfirvöldum í samræmi við framangreint skattmat ríkisskattstjóra. Samkvæmt því og með skírskotun til reglna í skattmötum um ákvörðun bifreiðahlunninda, þar sem telja verður að takmörkuð afnot séu fremur undantekning, sé hlunnindum yfirleitt til að dreifa, þykir það bera undir kæranda að leiða í ljós með gögnum eða sýna skýrlega fram á með öðrum hætti að hann hafi ekki þau umráð yfir bifreiðum fyrirtækisins að þau verði metin honum til skattskyldra tekna eftir reglum um bifreiðahlunnindi miðað við full umráð. Eigin bifreiðaeign skiptir ekki máli. Þegar það er virt sem fram er komið í málinu um umráð kæranda af bifreiðinni verður ekki talið að kærandi hafi verið bundinn ákveðnum takmörkunum varðandi afnot af bifreiðunum utan vinnutíma, enda verður ekki annað ráðið en kærandi hafi sjálfur haft ákvörðunarvald um afnot sín af bifreiðinni í einstökum tilvikum.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 17. nóvember 2000, var kæranda sent afrit af kröfugerð ríkisskattstjóra og honum gefinn kostur á að leggja fram gögn til skýringar og að tjá sig um þau atriði í kröfugerðinni sem hann teldi ástæðu til. Í bréfi til yfirskattanefndar, dags. 6. desember 2000, segir kærandi m.a. að allar forsendur kæru sinnar standi óhaggaðar. Þá er ítrekað að með úrskurði skattstjóra frá árinu 1997 hafi komist á samkomulag eða samningur „um notkun bifreiðarinnar og er hann í fullu gildi eða þar til nýjar forsendur eru tilkynntar eða honum er sagt upp“. Kemur fram að kærandi hafi í góðri trú farið eftir þessum úrskurði í hvívetna og með uppkvaðningu nýs afturvirks úrskurðar sé vegið að réttaröryggi hans.

V.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 25. september 2000, eru gerðar athugasemdir við gildi skattmatsreglna ríkisskattstjóra varðandi bifreiðahlunnindi með tilliti til ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar með síðari breytingum. Meðal annars kemur fram að Alþingi geti falið ríkisskattstjóra að gefa út bifreiðaskrá vegna skattmats í staðgreiðslu, en hafi enga heimild til að fela honum alfarið ákvörðunarvald um það hvernig skattlagningu skuli háttað og um umfang hennar. Að því leyti sem athugasemdir þessar kunna að beinast að því að ákvæði 116. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, séu ekki samþýðanleg greindum ákvæðum stjórnarskrárinnar, sbr. 77. gr. hennar, skal tekið fram að yfirskattanefnd á ekki úrskurðarvald um það hvort einstök lagaákvæði kunni að brjóta í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar og er því ekki bær til umfjöllunar um málsástæður sem á slíku eru byggðar. Samkvæmt stjórnskipunarvenju er það regla íslensks réttar að dómstólar eiga úrlausn þess hvort lög verði samþýdd stjórnarskránni. Yfirskattanefnd er stjórnvald og hefur samkvæmt því ekki hliðstætt hlutverk hvorki samkvæmt réttarframkvæmd né á öðrum grundvelli. Að því er varðar athugasemdir kæranda við greind stjórnvaldsfyrirmæli (skattmatsreglur) að öðru leyti, þ. á m. lagagrundvöll þeirra, er vísað til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. júní 1999 í málinu nr. E-3852/1998 (Magnús Hreggviðsson gegn íslenska ríkinu) sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 356/1999 hinn 10. febrúar 2000 þar sem m.a. reyndi á það hvort reglur þessar hvíldu á viðhlítandi grundvelli og gildi þeirra að öðru leyti.

Samkvæmt framansögðu verður krafa kæranda ekki tekin til greina á þeim grundvelli að skattmatsreglur ríkisskattstjóra um bifreiðahlunnindi eigi sér ekki viðhlítandi lagastoð eða séu að öðru leyti ekki tækar.

Vegna athugasemda kæranda, sbr. og það sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra, skal tekið fram að ekki verður talið að ákvæði 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 um tímatakmörk endurákvörðunar hafi girt fyrir hina kærðu endurákvörðun vegna gjaldársins 1998.

Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og „fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“. Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi sem launamenn njóta í starfi. Undir skattskyld hlunnindi launamanna samkvæmt ákvæði þessu falla endurgjaldslaus afnot launamanns af bifreið í eigu atvinnurekanda, svonefnd bifreiðahlunnindi. Af eðli hlunninda leiðir að meta verður þau til verðs. Er gert ráð fyrir því í 116. gr. laga nr. 75/1981 að ríkisskattstjóri hafi slíkt mat með höndum. Þar segir: „Ríkisskattstjóri skal árlega gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr., og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögum þessum.“ Um útgáfu ríkisskattstjóra á matsreglum samkvæmt þessu ákvæði er fjallað m.a. í úrskurði yfirskattanefndar nr. 664/1997, sem birtur er í 2. hefti Skatta- og tollatíðinda 1997 (ST 1997:115) og vísast í þann úrskurð um almenn atriði varðandi grundvöll að ákvörðun bifreiðahlunninda.

Óumdeilt er í máli þessu að kærandi hafi haft bifreið launagreiðanda síns til umráða utan vinnutíma á umræddum árum. Ágreiningur er hins vegar um það hvort kærandi hafi haft bifreiðina til fullra umráða eða hún staðið honum til takmarkaðra afnota, sbr. orðalag í skattmötum ríkisskattstjóra í staðgreiðslu á umræddum árum, sem hér verða lögð til grundvallar, en matsreglur þessar voru birtar með auglýsingum nr. 15/1997 og 16/1998 í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. og lið 2.2.2 í almennu skattmati tekjuárið 1997 (framtalsárið 1998), sbr. auglýsingu nr. 18/1998, er birt var í B-deild Stjórnartíðinda, og lið 2.2.2 í almennu skattmati tekjuárið 1998 (framtalsárið 1999), sbr. auglýsingu nr. 31/1999, er birt var í B-deild Stjórnartíðinda. Skilja verður skattmatsreglur ríkisskattstjóra þannig að bifreiðaafnot skuli metin til tekna eftir reglum um takmörkuð afnot ef eingöngu er um að ræða akstur milli heimilis og vinnustaðar, svo og önnur tilfallandi og einstök afnot, en til fullra umráða ef afnotin eru ekki bundin við framangreint.

Eins og fram er komið byggir kærandi kröfu sína um niðurfellingu á hækkunum skattstjóra á fjárhæðum skattskyldra bifreiðahlunninda greind ár m.a. á því að skattstjóri hafi áður vegna gjaldársins 1996 með formlegum úrskurði talið að um takmörkuð afnot hafi verið að ræða. Telur kærandi að þessi ákvörðun bindi hendur skattstjóra, enda hafi atvik ekkert breyst.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum boðaði skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 5. júní 1997, í framhaldi af bréfaskriftum, tekjufærslu á bifreiðahlunnindum gjaldárið 1996 vegna afnota kæranda af bifreið í eigu K ehf. eftir reglum um takmörkuð afnot og hratt þeirri breytingu í framkvæmd með úrskurði um endurákvörðun, dags. 21. júlí 1997. Í úrskurði sínum um endurákvörðun, dags. 27. júní 2000, veitti skattstjóri greindri málsástæðu kæranda úrlausn og hafnaði henni með þeim rökum að úrskurðurinn frá 21. júlí 1997 varðaði gjaldárið 1996 og væri skattstjóri ekki bundinn af honum vegna ákvörðunar bifreiðahlunninda gjaldárin 1998 og 1999.

Af þessu tilefni skal tekið fram að greindur úrskurður skattstjóra um endurákvörðun frá 21. júlí 1997 hefur hvorki verið afturkallaður né verið hnekkt með úrskurði æðra stjórnvalds. Af hálfu skattstjóra var sú staðhæfing kæranda í bréfi, dags. 13. júní 2000, um að engin breyting hefði orðið á notkun bifreiðar frá því sem var á árinu 1995 á engan hátt vefengd og jafnframt hefur ríkisskattstjóri í kröfugerð sinni ekki andmælt þeirri staðhæfingu. Samkvæmt þessu verður að telja að hinar kærðu ákvarðanir skattstjóra hafi einvörðungu byggst á breyttu mati hans á bifreiðaafnotum kæranda. Eins og atvikum var háttað samkvæmt framansögðu verður hins vegar að telja að breytt mat skattstjóra að þessu leyti hafi orðið að byggjast á því að atvik hefðu með einhverjum hætti breyst frá því að sambærilegu úrlausnarefni var ráðið til lykta í fyrra sinn eða að breyting hafi orðið á réttarreglum á þessu sviði. Eins og fram er komið hefur skattstjóri ekki á neinn hátt byggt á slíku, heldur verður ekki annað séð en hann hafi alfarið talið sig hafa frjálsar hendur í þessum efnum. Á það er ekki fallist og eru hinar kærðu hækkanir skattstjóra á tekjufærðum bifreiðahlunnindum kæranda því felldar niður.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hinar kærðu breytingar skattstjóra eru felldar úr gildi.

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja