Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 370/1990

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 15. gr. 2. mgr. — 32. gr. — 44. gr. 1. mgr. 2. ml. — 53. gr. 5. mgr. — 91. gr. 1. mgr. — 100. gr.  

Verðbreytingarfærsla — Tekjufærsla vegna verðbreytingar — Niðurfelling tekjufærslu vegna verðbreytingar — Heildarskuldir — Heildareignir — Íbúðarhúsnæði — Íbúðarhúsnæði við ákvörðun niðurfellingar tekjufærslu vegna verðbreytingar — Fyrning — Fyrning, sérsök — Sérstök fyrning — Sérstök fyrning á móti tekjufærslu vegna verðbreytingar — Fyrnanleg eign — Skattframtal, ófullnægjandi — Skattframtal, tortryggilegt — Skattframtal, vefenging — Skattframtal, höfnun — Framfærslueyrir — Sölutap — Tap á sölu eigna utan atvinnurekstrar — Ársreikningur — Rekstrarreikningur — Endurupptaka máls — Endurupptaka úrskurðar ríkisskattanefndar — Meðalálagning

Kröfugerð umboðsmanns kærenda fyrir ríkisskattanefnd er svohljóðandi:

„1. Hjálagt fylgir rekstrarreikningur 1986 vegna reksturs A, en hann hefur vantað skv. upplýsingum skattstofu.

2. Skv. úrskurði skattstjóra telur hann heildareignir, aðrar en íbúðarhúsnæði, vera kr. 7.314.596, og skuldir aðrar en vegna íbúðarhúsnæðis vera kr. 4.350.688. Telur skattstjóri því sameiginlegar eignir vera kr. 2.963.908 hærri en skuldir og niðurfellingu verðbreytingartekna því ekki heimila.

Til eignar skv. 5. mgr. 53. gr. virðist skattstjóri telja eftirfarandi eignir í árslok 1986:

Eigið fé skv. efnahagsreikning B 2.191.596

Ógreiddar eftirstöðvar af söluverði C 5.100.000

Bifreið 23.000

7.314.596

Til skuldar í þessu sambandi telur skattstjóri eftirfarandi skuldir:

Eigið fé skv. efnahagsreikningi A 4.323.948

Skuld við gjaldheimtuna 26.740

4.350.668

Eignir umfram skuldir skv. 5. mgr. 53. gr. 2.963.908

Ekki er fallist á það álit skattstjóra að telja til eignar í þessu sambandi ógreiddar eftirstöðvar af söluverði íbúðar að C, Reykjavík kr. 5.100.000 enda verður að telja það mótsögn að telja þessa fjárhæð til eignar þegar ekki er talin til skuldar samsvarandi skuld vegna kaupa á íbúð að D, Reykjavík kr. 2.691.667. Jafnframt er bent á að skv. 5. mgr. 53. gr. ber ekki að telja til eignar einkabifreið að verðmæti allt að kr. 500.000, en skattstjóri virðist telja til eignar einkabifreið kr. 23.000.

Á skattframtali 1986 kemur fram að eignir að frádreginni íbúðareign og bifreið eru kr. 763.000 en skuldir aðrar en vegna íbúðarkaupa eru kr. 5.935.351. Skuldir umfram eignir eru því kr. 5.172.351.

Vegna mikilla skulda og verulegra greiðsluerfiðleika á árinu 1986 var tekin sú ákvörðun að selja íbúðina að C fyrir kr. 6.400.000 og kaupa aðra ódýrari að D, fyrir kr. 1.600.000.

Það virðist vera tilgangur 5. mgr. 53. gr. að reiknuð tekjufærsla vegna verðlagsbreytinga skuli ekki mynda skattstofn þegar skuldir eru hærri en eignir, aðrar en íbúðarhúsnæði, einkabifreið og skuldir tengdum þessum eignum. Verður að telja að það sé ekki í samræmi við tilgang þessa ákvæðis að telja ekki með eignum ógreitt söluverð íbúðarhúsnæðis.

Verður að telja eðlilegast og í samræmi við tilgang 5. mgr. 53. gr. skattalaganna að sömu ákvæði gildi um ógreiddar eftirstöðvar af söluverði íbúðar og gilda um skuldir vegna kaupa á íbúðarhúsnæði. Verða því heildareignir að frádregnu íbúðarhúsnæði, og ógreiddum eftirstöðvum af söluverði íbúðarhúsnæðis og bifreið eftirfarandi:

Hrein eign skv. efnahagsreikningi B 2.191.596

Heildarskuldir að frádregnum skuldum vegna íbúðarkaupa verða eftirfarandi:

Neikvætt eigið fé skv. efnahagsreikningi A 4.323.948

Skuld við gjaldheimtuna 26.740

4.350.668

Skuldir umfram eignir 2.159.092

Með vísan til framanritaðs er því gerð sú krafa að lækkun reiknaðrar tekjufærslu standi óbreytt. Til vara er gerð sú krafa að nýtt verði heimild í 1. mgr. 44. gr. til fyrningar á tekjufærslu vegna verðlagsbreytinga.

3. Eftirtaldar bifreiðar eru eignfærðar í efnahagsreikningi A:

Ford Escort station, árg. 1974 er ónothæf og talin ónýt. Hún hefur hins vegar ekki verið afskráð. B.M.W. 520, er eingöngu notuð af A að mestu leyti við þá starfsemi, sem hann hefur með höndum. Range Rover 1980 er eingöngu notaður við þá starfsemi, sem A hefur með höndum. Hún er notuð við flutninga og annað sem til fellur hjá A og starfsmanni hans.

Við gerð skattframtals 1986 voru ofangreindar bifreiðar eignfærðar og afskrifaðar. Við gerð skattframtals 1987 var sömu aðferð beitt enda voru ofangreindar bifreiðar að mestu leyti notaðar við reksturinn.

Til einkanota voru notaðar bifreiðarnar Ford Escort og Opel Cadett sem nánar verður gerð grein fyrir í tl. 5.

Bifreiðin Mazda, árg. 1976 var afskráð 1983. Er þessi bifreið ónýt.

4. Skv. úrskurði skattstjóra telur hann að brúttóálagning söluturns kærenda 21.37% sé of lág. Jafnframt telur skattstjóri að með tilliti til rekstrarafkomu undanfarin 3 ár geti rekstrarniðurstaða ekki staðist. Jafnframt telur skattstjóri að framlag eiganda, kr. 1.352.687 geti ekki staðist og að það hafi verið fjármagnað með lánsfé, sem ekki sé gerð grein fyrir á efnahagsreikning. Skv. upplýsingum Y, löggilts endurskoðanda, sem gerði ársreikning söluturnsins, var tóbakssala 39.6% af nettósölu 1986, en álagning á tóbak er skv. upplýsingum hans 12.96%. Hefur tóbakssala því veruleg áhrif á heildarálagningu til lækkunar. Er því mótmælt að efnahagsreikningur söluturnsins sé rangur eins og skattstjóri heldur fram.

5. Bifreiðin Ford Escort, árgerð 1976 var keypt 1984. Þessi bifreið var þann 24. september 1986 látin Z í té án greiðslu enda var hún talin verðlítil. Bifreiðin Opel Cadett árgerð 1985 var keypt af E sf. fyrir kr. 461.056 þann 22. febrúar 1985, sbr. meðfylgjandi ljósrit af reikningi. Þessi bifreið var síðan seld þann 15. maí 1986 F. Söluverð var kr. 340.000. Hefur fallið niður að gera grein fyrir þessum kaupum á skattframtali 1986. Ofangreindar bifreiðir voru eingöngu notaðar til einkanota og kemur því hagnaður, (tap) af sölu þeirra ekki til álita við ákvörðun skattstofns.

6. Greidd sölulaun v/íbúðar að C, voru kr. 64.000 þ.e. 1% og voru þau greidd H, fasteignasala. Með vísan til þess og söluverðs bifreiðar verður ekki annað séð en lífeyrir sé fullnægjandi.

Með vísan til framanritaðs er fari fram á að innsent skattframtal verði lagt til grundvallar álagningu án álags enda verður eigi annað séð en fullnægjandi skýringar hafi komið fram á öllum athugasemdum skattstjóra.“

Með bréfi, dags. 12. mars 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Í tilefni af kæru ofangreindra aðila til ríkisskattanefndar sem barst í kærufresti til hennar tekur ríkisskattstjóri fram eftirfarandi:

Athygli ríkisskattanefndar er vakin á því að áður en að úrskurður hennar nr. 269 frá 1. júní 1988 gekk, hafði áður boðaður rökstuðningur borist nefndinni. Var því kæru kærenda vísað frá á röngum forsendum.

Með hliðsjón af framangreindu telur ríkisskattstjóri að heimila beri upptöku greinds úrskurðar svo kæra kærenda hljóti efnislega úrlausn. Kröfugerð ríkisskattstjóra er svofarandi: a) Þess er krafist að kröfu kærenda um að reiknuð tekjufærsla vegna verðbreytinga verði hafnað. Eignir kærenda umfram skuldir eru 249.241 kr. (sic) og er því ekki fullnægt skilyrði 5. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981 fyrir niðurfellingu tekjufærslunnar. Heildareignir kærenda skv. 73. gr. laga 75/1981 eru 10.714.596 kr. (sic) og heildarskuldir skv. 76. gr. s.l. eru 7.042.355 kr. Til eigna í þessu sambandi teljast þó ekki verðmæti íbúðarhúsnæðis og einkabifreiðar allt að 4.242.941 kr., í tilviki kærenda er verðmæti íbúðarhúsnæðis og einkabifreiðar 3.423.000 kr., fallist er á varakröfu varðandi þennan lið kæru. b) Að öðru leyti en að framan greinir þykir, í ljósi framkominna skýringa og með hliðsjón af atvikum öllum, mega fallast á kröfur kærenda.“

Með vísan til 5. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981 er úrskurður skattstjóra staðfestur að því er varðar tekjufærslu vegna verðbreytinga í rekstraruppgöri kæranda, A.

Þá er hafnað varakröfu kæranda um fyrningu eigna með stoð í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 75/1981, þar eð ekki verður séð að fyrir hendi séu fyrnanlegar eignir í efnahagsreikningi hans.

Að öðru leyti en að framan greinir er fallist á kröfur kærenda í máli þessu, sbr. kröfugerð ríkisskattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja