Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðahlunnindi
  • Álag

Úrskurður nr. 305/2001

Gjaldár 1995-2000

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul., 106. gr. 2. mgr.  

Í kærumáli þessu vegna ákvörðunar bifreiðahlunninda var kröfu kæranda um niðurfellingu 25% álags hafnað. Voru viðbárur kæranda um að hann hefði verið í góðri trú um að afnot hans af bifreið í eigu vinnuveitanda teldust ekki til skattskyldra bifreiðahlunninda, þar sem lagagrundvöllur slíkrar skattskyldu hefði verið óskýr, ekki taldar eiga við rök að styðjast, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar Íslands 10. febrúar 2000 í málinu nr. 356/1999.

I.

Með kæru, dags. 12. mars 2001, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 12. desember 2000, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 1995, 1996, 1997, 1998, 1999 og 2000 vegna tekjufærslu á skattskyldum bifreiðahlunnindum umrædd ár vegna afnota af bifreið í eigu vinnuveitanda kæranda, K ehf., auk 25% álags á vantalda skattstofna samkvæmt 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Krafa umboðsmanns kæranda fyrir yfirskattanefnd er sú að álag það, sem skattstjóri bætti við skattstofna kæranda umrædd ár samkvæmt nefndri lagaheimild, verði fellt niður. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

II.

Málavextir eru þeir helstir að með bréfi, dags. 6. janúar 2000, krafði skattstjóri vinnuveitanda kæranda, K ehf., um rétt útfyllta bifreiðahlunnindamiða (RSK 2.035) fyrir bifreiðina N, Toyota Land Cruiser, sem var tekin í notkun árið 1994, vegna tekjuáranna 1997 og 1998, en bifreið þessi hefði verið í eigu félagsins frá 25. mars 1994 til 10. desember 1999. Félagið skilaði inn bifreiðahlunnindamiða fyrir tekjuárið 1998. Kom þar fram að engin afnot launamanns hefðu verið af bifreiðinni umrætt tekjuár og hefði geymslustaður hennar utan vinnutíma verið að T í Hafnarfirði, nema þegar bifreiðin hefði verið notuð í sölutúrum um land allt, en þá hafði hún verið staðsett á ýmsum stöðum.

Með bréfi til kæranda, dags. 1. september 2000, varðandi fyrirspurn um bifreiðahlunnindi gjaldárin 1998, 1999 og 2000 fylgdi skýrsla eftirlitsdeildar skattstjóra, dags. 22. maí 2000, þar sem kom fram að bifreiðin hefði verið vistuð við heimili kæranda að M í Hafnarfirði fimmtudaginn 15. maí 1997 kl. 00:18, fimmtudaginn 29. maí 1997 kl. 00:22, fimmtudaginn 5. júní 1997 kl. 23:05, miðvikudaginn 3. júní 1998 kl. 22:19 og mánudaginn 28. júní 1999 kl. 06:57. Í bréfinu gerði skattstjóri grein fyrir skattskyldu bifreiðahlunninda samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og skattmatsreglum ríkisskattstjóra greind ár, sem nánar voru raktar, sbr. 116. gr. laga nr. 75/1981. Lagði skattstjóri fyrir kæranda að gera grein fyrir einkaafnotum sínum af bifreiðinni N á árunum 1997, 1998 og 1999. Tók skattstjóri fram að ef um takmörkuð afnot hefði verið að ræða bæri kæranda að leggja fram ljósrit gagna um þau afnot. Koma þyrfti fram um hvers konar takmörk hefði verið að ræða, hver hefði sett þau og hvernig þeim hefði verið fylgt eftir, ásamt ljósriti af samningi um takmörkuð afnot væri slíkur samningur fyrir hendi. Koma þyrfti fram, sundurliðað eftir árum, hversu marga kílómetra kærandi hefði ekið bifreiðinni í eigin þágu ásamt rökstuddri greinargerð fyrir þeirri niðurstöðu. Þá var kæranda gert að gera grein fyrir gerð (undirtegund) bifreiðarinnar og aukabúnaði hennar samkvæmt nánari tilgreiningu.

Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 21. september 2000, kom fram að kærandi hefði alltaf haft takmörkuð afnot af umræddri bifreið, en svo virtist sem skattframkvæmd, sem staðfest hefði verið af dómstólum, væri á þá lund að aðaleigendur hlutafélaga, sem störfuðu við þau sem framkvæmdastjórar, gætu ekki haft takmörkuð einkaafnot af bifreiðum hlutafélaganna og nytu þannig ekki jafnræðis á við aðra starfsmenn sem hefðu fólksbifreiðar til afnota. Þjónaði því engum tilgangi að reyna að rökstyðja takmörkuð einkaafnot kæranda. Ennfremur var upplýst að bifreiðin væri af GX gerð og hefði engan þann aukabúnað sem tilgreindur hefði verið í bréfi skattstjóra, dags. 1. september 2000.

Með bréfi dags. 11. október 2000, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði í hyggju að endurákvarða opinber gjöld hans gjaldárin 1995, 1996, 1997, 1998, 1999 og 2000 vegna tekjufærslu á skattskyldum bifreiðahlunnindum, miðað við full, ótakmörkuð og endurgjaldslaus afnot kæranda af greindri bifreið í eigu vinnuveitanda hans, K ehf., vegna afnota kæranda af bifreiðinni tímabilið 25. mars 1994 til 10. desember 1999. Gerði skattstjóri grein fyrir skattmatsreglum ríkisskattstjóra varðandi bifreiðahlunnindi, bæði skattmati í staðgreiðslu og almennu skattmati, svo og útreikningi á bifreiðahlunnindum samkvæmt skattmatsreglunum. Skattstjóri tók fram að af hálfu kæranda hefði komið fram að ekki þjónaði neinum tilgangi að reyna að rökstyðja takmörkuð einkaafnot og því væri ákveðið að reikna hlunnindin miðað við full og ótakmörkuð endurgjaldslaus afnot. Skattstjóri gat þess að kærandi hefði ekki talið fram nein bifreiðahlunnindi umrædd gjaldár. Ráðgert væri að færa kæranda til tekna sem skattskyld bifreiðahlunnindi 588.233 kr. í skattframtali árið 1995, 796.800 kr. í skattframtali árið 1996, 890.800 kr. í skattframtali árið 1997, 665.100 kr. í skattframtali árið 1998, 665.100 kr. í skattframtali árið 1999 og 662.759 kr. í skattframtali árið 2000.

Í bréfi, dags. 27. nóvember 2000, tók umboðsmaður kæranda fram að kærandi hefði haft umrædda bifreið til takmarkaðra afnota umrædd gjaldár, þ.e. að bifreiðin hefði stundum verið notuð til aksturs milli heimilis og vinnustaðar, einkum ef vinnudegi hefði lokið seint þegar kærandi hefði verið að ljúka sölutúrum í þágu K ehf. Kærandi hefði því talið að slík tilfallandi afnot bifreiðarinnar teldust ekki til hlunninda. Ástæða þess, að sögn umboðsmanns kæranda, að ekki þótti þjóna neinum tilgangi að skýra frekar þessa notkun væri dómur Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 356/1999 sem fallið hefði þann 10. febrúar árið 2000, þar sem niðurstaðan hefði orðið sú að framkvæmdastjóri og aðalhluthafi í hlutafélagi hefði verið talinn hafa slíka stöðu innan félagsins að líkur væru fyrir meiri notkun þegar slík aðstaða væri fyrir hendi.

Taldi umboðsmaður kæranda að af bréfi skattstjóra, dags. 11. október 2000, yrði ekki ráðið að hann ætlaði að beita fyrir sig umræddum dómi, heldur væri látið að því liggja að þar sem kærandi hefði ekki rökstutt takmörkuð umráð sín á umræddri bifreið þá hefði skattstjóri í hyggju að reikna honum hlunnindi miðað við full og ótakmörkuð endurgjaldslaus umráð. Var áréttað að umráð kæranda yfir bifreiðinni hefðu verið mjög takmörkuð og því væru ekki forsendur fyrir álagsbeitingu, enda hefði kærandi verið í góðri trú við framtalsgerð. Að lokum var vitnað í ofangreindan dóm Hæstaréttar Íslands frá 10. febrúar 2000. Þar hefði verið beitt álagi, enda þótt sýnt að stefnanda hefðu verið kunnar reglur skattalaga um meðferð bifreiðahlunninda. Í dóminum segði m.a. svo:

„Af framtali áfrýjanda verður ekki annað ráðið en að honum hafi verið vel kunnar þær reglur sem giltu um skattalega meðferð bifreiðahlunninda enda voru þær ekki nýjar þegar hér var komið við sögu……. Hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að 3. mgr. 106. gr. laga um tekju- og eignarskatt geti átt við um aðstæður hans og að fella eigi niður álag samkvæmt þessu ákvæði .“

Taldi umboðsmaður kæranda að þessu væri þveröfugt farið í tilviki kæranda þannig að skilyrði væru fyrir því að falla frá beitingu álags samkvæmt 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Hinn 12. desember 2000 tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði hrundið hinum boðuðum breytingum í framkvæmd og endurákvarðað opinber gjöld hans gjaldárin 1995, 1996, 1997, 1998, 1999 og 2000 í samræmi við það. Gerði skattstjóri grein fyrir reglum um ákvörðun bifreiðahlunninda og útreikningi hlunninda þessara í tilviki kæranda. Vísaði skattstjóri til 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 og skattmatsreglna ríkisskattstjóra umrædd ár. Þá ítrekaði skattstjóri rök sín fyrir álagsbeitingu. Vísaði skattstjóri til upplýsinga í bréfi, dags. 27. nóvember 2000, um notkun kæranda á bifreiðinni og féllst ekki á að kærandi hefði verið í góðri trú varðandi það að ekki hefði verið um nein skattskyld bifreiðahlunnindi að ræða, sbr. skýrar reglur um það efni. Hefði kærandi ekki sýnt fram á að fyrir hendi væru þau atvik, sem greind væru í 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, þannig að fella bæri álagið niður.

III.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 12. desember 2000, til yfirskattanefndar með kæru, dags. 12. mars 2001. Er þess krafist að álag samkvæmt úrskurði skattstjóra verði fellt niður. Jafnframt er krafist málskostnaðar til greiðslu úr ríkissjóði. Gerð er grein fyrir ástæðum þess að ákvörðun skattstjóra að reikna og tekjufæra hjá kæranda bifreiðahlunnindi umrædd gjaldár miðað við full og ótakmörkuð afnot sé ekki kærð.

Áréttað er að bifreiðin N hafi fyrst og fremst verið notuð í þágu K ehf., en það hafi komið fyrir að kærandi hafi ekið bifreiðinni heim í lok vinnudags, einkum þegar vinnudegi hafi lokið seint þegar kærandi hafi lokið söluferðum í þágu fyrirtækisins. Slík afnot flokkist ekki undir bifreiðahlunnindi, enda sé bifreiðin að öðru leyti ekki notuð í þágu annarra en K ehf. og því hafi kærandi staðið í þeirri trú að framangreind afnot væru ekki framtalsskyld.

Í úrskurði skattstjóra sé ekki tekið trúanlegt að kærandi hafi verið í góðri trú við framtalsgerð hvað bifreiðahlunnindi varði, og með eftirfarandi rökum hafi kröfu kæranda um niðurfellingu álags verið hafnað: „Í bréfinu frá 27. nóvember sl. er haldið fram að þér hafið talið að slík tilfallandi afnot bifreiðarinnar teldust ekki til hlunninda og því verið í góðri trú við framtalsgerð. Á það er ekki hægt að fallast þar sem þær reglur sem giltu um skattalega meðferð bifreiðahlunninda voru einfaldar og skýrar. Í þeim kemur skýrt fram að akstur milli heimilis og vinnustaðar og tilfallandi og einstök afnot teljist til skattskyldra hlunninda.“

Telur umboðsmaður kæranda að með þessari ályktun skattstjóra um að reglurnar séu einfaldar og skýrar sé skattstjóri að vísa til þess sem segi í áðurnefndum dómi Hæstaréttar Íslands frá 10. febrúar 2000, sbr. framangreinda tilvitnun í dóminn í II. kafla hér að framan. Telur umboðsmaður kæranda að Hæstiréttur sé þarna að vísa til matsreglna ríkisskattstjóra varðandi hlutfall af verði bifreiðar sem miða beri við þegar gjaldstofn vegna afnota af bifreiðinni sé reiknaður, en ekki sé verið að vísa til einfaldleika eða skýrleika 7. gr. laga nr. 75/1981 eða annars ákvæðis. Í umræddum dómi hafi ekki verið fallist á að 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 ætti þar við þar sem stefnandi í málinu hafi talið fram þau hlunnindi sem fólust í afnotum bifreiðar í skattframtölum sínum sem takmörkuð afnot. Það sem sé einfalt og skýrt í reglum ríkisskattstjóra sé að þau afnot sem stefnandi hafði af bifreiðinni voru ekki takmörkuð.

Umboðsmaður kæranda fellst ekki á það með skattstjóra að lagagrundvöllur skattlagningar vegna bifreiðahlunninda sé einfaldur og skýr. Telur hann að við athugun á 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, megi sjá að afnot bifreiðar í eigu vinnuveitanda séu þar ekki upptalin. Séu því bein lagafyrirmæli ekki til staðar þess efnis að afnot bifreiðar í eigu vinnuveitanda beri að meta til skattskyldra hlunninda. Samkvæmt eldri lögum megi sjá að þau afnot, sem hér um ræðir, hafi verið felld úr upprunalegum lagatexta. Sé því eðlilegt að álykta að umrædd afnot séu ekki skattskyld. Með umræddum dómi Hæstaréttar Íslands telur umboðsmaður kæranda að öllum vafa um skattlagningu þeirra hlunninda, sem hér um ræði, sé eytt. Í 116. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sé ríkisskattstjóra veitt ákveðið venjuhelgað skattlagningarvald, en þar segi: „Ríkisskattstjóri skal árlega gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr., og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögum þessum.“ Umboðsmaður kæranda telur að þetta ákvæði beri að skýra þröngt þar sem hér sé um að ræða heimildarákvæði, en þrátt fyrir það hafi réttarframkvæmdin verið með þeim hætti að ríkisskattstjóri hafi ekki einungis verið talinn bær til þess að meta þau hlunnindi sem um sé rætt í 7. gr. laga nr. 75/1981, heldur einnig til að meta hvað megi flokka sem hlunnindi í skilningi skattalaga og sé þessi túlkun staðfest með ofangreindum hæstaréttardómi, þrátt fyrir að hún sé ekki í samræmi við það sem lesa megi út úr 116. gr. samkvæmt orðanna hljóðan. Telur umboðsmaður kæranda að til þess að sá skýrleiki, sem eðlilegt sé að krefjast af skattlagningarheimildum, sé til staðar sé algert lágmark að taka fram í 116. gr. að ríkisskattstjóri hafi einnig vald til að ákveða hvað teljist til hlunninda í skilningi skattalaga. Því hafi löggjafinn framselt til ríkisskattstjóra vald til að meta gjaldstofna þeirra hlunninda sem tiltekin séu í lögum nr. 75/1981, auk þess að ríkisskattstjóra sé í sjálfsvald sett, þrátt fyrir 77. gr. stjórnarskrárinnar, að meta hvað skuli teljast til hlunninda. Dómstólar hafi síðan fallist á umrætt framsal, t.a.m. í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands frá 10. febrúar 2000 í málinu nr. 356/1999. Með vísan til þessara raka telur umboðsmaður kæranda ljóst að sá lagagrundvöllur, sem liggi að baki umræddri skattlagningu, sé ekki með þeim skýra hætti sem skattstjóri haldi fram, þannig að þau rök skattstjóra fyrir umræddu álagi, að reglurnar séu einfaldar og skýrar, séu því einfaldlega röng, enda byggð á röngum forsendum. Í framangreindum dómi Hæstaréttar hafi þótt ástæða til að taka fram að framteljanda hefðu verið vel kunnar þær reglur, sem hér um ræðir, og því hefði ekki verið á það fallist að rétt væri að fella niður álag samkvæmt heimild í 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Hafi Hæstiréttur byggt þessa niðurstöðu sína á því að stefnandi í málinu hefði áður talið fram afnot bifreiðar sem hlunnindi og því verið kunnugt um þær reglur sem giltu í þessu efni. Kæranda í máli þessu hafi hins vegar ekki verið kunnugt um þau lagaákvæði sem heimiluðu skattlagningu vegna afnota starfsmanns af bifreiðum í eigu vinnuveitanda og því sé ekki óeðlilegt að almennum leikmanni líkt og kæranda sé ekki fullljóst að þau takmörkuðu afnot, sem hann hefði haft af bifreið í eigu K ehf., væru metin honum til tekna með jafn ríkum hætti og raun ber vitni.

IV.

Með bréfi, dags. 20. apríl 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Gerð er krafa um staðfestingu á álagsbeitingu skattstjóra. Ekki hefur verið sýnt fram á að tilvik kæranda sé þess eðlis að 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, geti átt við.“

V.

Eins og fram er komið endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárin 1995, 1996, 1997, 1998, 1999 og 2000 með úrskurði um endurákvörðun, dags. 12. desember 2000, vegna tekjufærslu á skattskyldum bifreiðahlunnindum kæranda vegna afnota hans af bifreiðinni N tímabilið 25. mars 1994 til 10. desember 1999, en bifreið þessi var í eigu vinnuveitanda kæranda, K ehf. Samkvæmt upplýsingum kæranda, sbr. bréf, dags. 21. september 2000, er hann aðaleigandi og framkvæmdastjóri þessa einkahlutafélags. Hér að framan er gerð grein fyrir fjárhæð bifreiðahlunnindanna, en þau voru miðuð við full umráð yfir greindri bifreið, sbr. skattmatsreglur þar um.

Af hálfu kæranda eru ekki gerðar athugasemdir við ákvörðun skattstjóra á bifreiðahlunnindunum og tekur krafa kæranda samkvæmt kæru til yfirskattanefndar, dags. 12. mars 2001, einvörðungu til niðurfellingar álags sem skattstjóri bætti við vantalda skattstofna umrædd gjaldár samkvæmt 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, auk þess sem krafist er greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði.

Með bréfi, dags. 11. október 2000, boðaði skattstjóri kæranda hina umdeildu álagsbeitingu á þær hækkanir skattstofna greind gjaldár sem leiddu af umræddum tekjuviðbótum vegna bifreiðahlunninda, sbr. 2. mgr. 106 gr. laga nr. 75/1981, sem skattstjóri vísaði til. Skattstjóri tók fram varðandi álagsbeitinguna að fram hefði komið í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 21. september 2000, að kærandi hefði alltaf haft takmörkuð afnot af bifreiðinni. Þrátt fyrir það hefði hann ekki talið fram til skatts nein skattskyld bifreiðahlunnindi greind gjaldár. Í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 27. nóvember 2000, var talið að ekki væru forsendur fyrir álagsbeitingu, enda hefði kærandi verið í góðri trú við framtalsgerð um það að takmörkuð afnot hans af bifreiðinni fælu ekki í sér skattskyld hlunnindi. Jafnframt var vísað til dóms Hæstaréttar Íslands frá 10. febrúar 2000 í málinu nr. 356/1999 og því haldið fram að tilviki kæranda væri þveröfugt farið en greindi í þeim dómi með tilliti til skilyrða fyrir álagsbeitingu. Skattstjóri tók þessi rök ekki til greina með úrskurði sínum um endurákvörðun, dags. 12. desember 2000, og féllst ekki á að kærandi hefði verið í góðri trú um að not hans af bifreiðinni fælu ekki í sér skattskyld hlunnindi. Ítrekaði skattstjóri fyrri rök sín fyrir beitingu álags og ákvarðaði álagið jafnframt tekjufærslu bifreiðahlunnindanna.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 12. mars 2000, byggir umboðsmaður kæranda kröfu sína um niðurfellingu álags einkum á því að lagagrundvöllur fyrir skattlagningu bifreiðahlunninda sé ekki skýr, gagnstætt því sem skattstjóri haldi fram, enda sé beinum lagafyrirmælum um skattlagningu afnota af bifreið vinnuveitanda ekki til að dreifa, eins og verið hafi í eldri lögum. Þá gerir umboðsmaðurinn athugasemdir við 116 gr. laga nr. 75/1981 og telur að ákvæðið feli í sér of víðtækt vald ríkisskattstjóra til að ákveða hvað teljist til hlunninda, sbr. 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 15. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, en dómstólar hafi síðan fallist á slíkt framsal valds, sbr. m.a. greindan dóm Hæstaréttar Íslands frá 10. febrúar 2000. Þá ítrekar umboðsmaðurinn að með tilliti til álagsbeitingar hafi atvik verið með öðrum hætti í dómi þessum en tilviki kæranda.

Vegna síðastgreindra málsástæðna umboðsmanns kæranda skal tekið fram að yfirskattanefnd á ekki úrskurðarvald um það hvort lagareglur kunni að fara í bága við einstök ákvæði stjórnarskrárinnar og er því ekki bær til umfjöllunar um málsástæður sem á slíku eru byggðar. Samkvæmt stjórnskipunarvenju er það regla íslensks réttar að dómstólar eiga úrlausn þess hvort lög verði samþýdd stjórnarskránni. Yfirskattanefnd er stjórnvald og hefur samkvæmt því ekki hliðstætt hlutverk hvorki samkvæmt réttarframkvæmd né á öðrum grundvelli. Að því athuguðu verður ekki frekar um þessar málsástæður fjallað. Raunar þykir þetta atriði ekki hafa neina sjálfstæða þýðingu í málinu, enda varðar það einvörðungu skilyrði fyrir álagsbeitingu. Allt að einu þykir rétt varðandi lagagrundvöll bifreiðahlunninda og skattmatsreglna um bifreiðahlunnindi, birtingu þeirra og tilgreinda efnisþætti að vísa til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. júní 1999 í málinu nr. E-3852/1998 (Magnús Hreggviðsson gegn íslenska ríkinu) sem staðfestur var með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands frá 10. febrúar 2000 í málinu nr. 356/1999.

Vegna málsástæðna umboðsmanns kæranda er tilefni til þess að fjalla frekar um lagagrundvöll skattlagningar bifreiðahlunninda.

Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og „fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“. Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi sem launamenn njóta í starfi. Undir skattskyld hlunnindi launamanna samkvæmt ákvæði þessu falla endurgjaldslaus afnot launamanns af bifreið í eigu atvinnurekanda, svonefnd bifreiðahlunnindi. Af eðli hlunninda leiðir að meta verður þau til verðs. Er gert ráð fyrir því í 116. gr. laga nr. 75/1981 að ríkisskattstjóri hafi slíkt mat með höndum. Þar segir: „Ríkisskattstjóri skal árlega gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr., og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögum þessum.“ Um útgáfu ríkisskattstjóra á matsreglum samkvæmt þessu ákvæði er fjallað m.a. í úrskurði yfirskattanefndar nr. 664/1997, sem birtur er í 2. hefti Skatta- og tollatíðinda 1997 (ST 1997:115) og vísast í þann úrskurð um almenn atriði varðandi grundvöll að ákvörðun bifreiðahlunninda.

Samkvæmt framansögðu falla bifreiðahlunnindi undir skattskyld hlunnindi samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Það er hins vegar rétt sem fram hefur komið af hálfu kæranda að í A-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, var sérstaklega tekið fram að „afnot bifreiða“ teldust til skattskyldra tekna. Þess er að geta að skattskyldu bifreiðahlunninda hefur um langt árabil verið slegið fastri í úrskurðaframkvæmd, sbr. m.a. úrskurði ríkisskattanefndar nr. 630/1986, 475/1989 og 618/1989 sem birtir eru á bls. 158-159, 448 og 509-510 í úrskurðasafni nefndarinnar fyrir árin 1986, 1987, 1988 og 1989. Þá hefur í skattframkvæmd verið gengið út frá skattskyldu bifreiðahlunninda. Varðandi þau gjaldár, sem um er að tefla í máli þessu, skal þess getið að í leiðbeiningum ríkisskattstjóra við útfyllingu á skattframtölum er sérstaklega tekið fram um skattskyldu bifreiðahlunninda og vísað til skattmatsreglna ríkisskattstjóra. Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, urðu naumast þau straumhvörf í þessum efnum með greindum dómi Hæstaréttar sem umboðsmaður kæranda álítur.

Eins og fram er komið er að finna reglur um bifreiðahlunnindi í skattmatsreglum ríkisskattstjóra greind ár, bæði skattmatsreglum í staðgreiðslu og almennum skattmötum. Skattmatsreglur í staðgreiðslu voru birtar í 3. tölublaði Lögbirtingablaðsins 1994 og með auglýsingum nr. 1/1995, 22/1996, 15/1997, 16/1998 og 23/1999 í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. og lið 2.2.1. í almennu skattmati tekjuárið 1994 (framtalsárið 1995), sbr. auglýsingu nr. 2/1995, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda, lið 2.2.2. í almennu skattmati tekjuárið 1996 (framtalsárið 1997), sbr. auglýsingu nr. 16/1997, er birt var í B-deild Stjórnartíðinda, lið 2.2.2. í almennu skattmati tekjuárið 1997 (framtalsárið 1998), sbr. auglýsingu nr. 18/1998, er birt var í B-deild Stjórnartíðinda, lið 2.2.2. í almennu skattmati tekjuárið 1998 (framtalsárið 1999), sbr. auglýsingu nr. 31/1999, er birt var í B-deild Stjórnartíðinda, og lið 2.2.2. í almennu skattmati tekjuárið 1999 (framtalsárið 2000), sbr. auglýsingu nr. 16/2000, er birt var í B-deild Stjórnartíðinda.

Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að viðbárur kæranda um að hann hafi verið í góðri trú um að afnot hans af umræddri bifreið í eigu vinnuveitanda, K ehf., teldust ekki skattskyld bifreiðahlunnindi, þar sem lagagrundvöllur slíkrar skattskyldu hafi verið óskýr, eigi við nein rök að styðjast, enda gengur reglusetning og langvarandi skatt- og úrskurðaframkvæmd, þ.m.t. leiðbeiningar skattyfirvalda, þvert gegn þessum staðhæfingum kæranda. Af þessu leiðir og að sá munur, sem kærandi telur vera á atvikum í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands frá 10. febrúar 2000 og tilviki hans, þykir ekki vera til staðar. Að svo vöxnu og þegar litið er til atvika málsins og með sérstakri skírskotun til greinds dóms Hæstaréttar Íslands þykja ekki vera efni til að falla frá álagsbeitingu í tilviki kæranda. Kröfu kæranda er því hafnað.

Umboðsmaður kæranda hefur krafist þess að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki til staðar lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað samkvæmt framangreindu lagaákvæði. Kröfu þess efnis er því hafnað. 

Ú r s k u r ð a r o r ð :       

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja