Úrskurður yfirskattanefndar

  • Launatekjur
  • Tekjutímabil
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda

Úrskurður nr. 77/1995

Gjaldár 1992

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul., 60. gr. 2. mgr.   Lög nr. 45/1987, 1. gr., 16. gr., 24. gr. 1. mgr. 1. tölul.  

Fallist var á kröfu kæranda um að fella niður tekjufærslu skattstjóra vegna launakröfu á hendur gjaldþrota vinnuveitanda, enda ætti við í þessu tilviki ákvæði um óvissar tekjur, sbr. niðurlag 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981. Jafnframt taldi yfirskattanefnd að leiðrétta bæri til samræmis staðgreiðslu, sem vinnuveitandi kæranda hafði gert grein fyrir, af hinum vangreiddu launum.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 29. júlí 1992, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til ákvæða 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá hefðu verið færðar á skattframtal hans 1.554.526 kr. vegna vantalinna launa frá X hf. Umboðsmaður kæranda mótmælti breytingu þessari með kæru til skattstjóra, dags. 10. ágúst 1992. Sagði í kærunni að X hf. hefði verið tekinn til gjaldþrotameðferðar á árinu 1991. Af þeim sökum hefði kærandi ekki fengið greidd laun frá félaginu að frátöldum launum fyrir janúarmánuð 1991. Laun fyrir febrúar-ágúst 1991 hefðu ekki fengist greidd. Í leiðbeiningum ríkisskattstjóra segði að ef fyrir lægi að laun fengjust ekki greidd vegna gjaldþrots launagreiðanda skyldi ekki færa hin ógreiddu laun til tekna sem laun, en gera skyldi grein fyrir þeim í athugasemdum framteljanda á 1. bls. framtals.

Skattstjóri hafnaði kröfum kæranda með kæruúrskurði, dags. 21. desember 1992, og taldi tilvitnaða reglu ekki eiga við þar sem staðgreiðsla hefði verið innt af hendi af þeim launum sem um ræddi. Með hliðsjón af því og þar sem eigi hefði verið sýnt fram á að um óvissar tekjur væri að ræða bæri að telja tekjurnar fram á tekjuárinu 1991.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 30. desember 1992. Krefst hann aðallega niðurfellingar hinnar kærðu breytingar en til vara að litið verði á staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð 441.446 kr. vegna launa frá X hf. samkvæmt staðgreiðsluskrá sem launatekjur kæranda frá félaginu.

Með bréfi, dags. 20. ágúst 1993, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Fallast verður á það með kæranda að laun frá X hf. séu töpuð eða a.m.k. mjög óviss krafa. Staðgreiðsla X hf. á sköttum kæranda er því fyrirframgreiðsla á sköttum vegna tekna sem ekki eru skattskyldar á tekjuárinu 1991. Aðalkröfu kæranda ber þó að hafna þar sem samþykki hennar hefði þær afleiðingar að greiðslur þær sem X hf. innti af hendi sem skattgreiðslur rynnu óskattlagðar til kæranda. Ríkisskattstjóri telur þó, með hliðsjón af framlögðum gögnum, skýringum og öðrum atvikum, að rétt sé að fallast á varakröfu kæranda og telja þær greiðslur X hf., sem ranglega runnu til ríkissjóðs í formi skattgreiðslna, til tekna hjá kæranda, þ.e. 441.446 kr.“

II.

Fram kemur í leiðbeiningum ríkisskattstjóra um útfyllingu skattframtals einstaklinga árið 1992 (RSK 8.01) að liggi það fyrir að laun fáist ekki greidd frá vinnuveitanda, t.d. vegna þess að hann sé orðinn gjaldþrota, skuli ekki færa hin ógreiddu laun til tekna sem laun frá honum, en gera þess í stað grein fyrir þeim með athugasemd á skattframtalinu. Slík laun teljist tekjur þess árs þegar þau fáist greidd. Þá segir að greiðsla frá ríkisféhirði samkvæmt lögum nr. 88/1990, um ríkisábyrgð á launum, teljist því tekjur á greiðsluárinu. Telur ríkisskattstjóri þannig að ákvæði um óvissar tekjur í niðurlagi 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eigi við þegar svo stendur á sem lýst er að framan. Fallast má á þetta sjónarmið. Verður því talið að kærandi geti borið nefnt ákvæði fyrir sig varðandi færslu launa frá X hf. á skattframtal 1992 og er þannig fallist á aðalkröfu kæranda. Lækka því launatekjur frá þessum vinnuveitanda, sem telja ber til skattskyldra tekna gjaldárið 1992, um 1.554.526 kr. og verða 229.994 kr.

Vegna þess þáttar í kröfugerð kæranda sem lýtur að staðgreiðslu opinberra gjalda skal tekið fram að samkvæmt 1. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, felst í staðgreiðslu opinberra gjalda bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts og útsvars launamanna á tekjuári af launatekjum, sbr. 5. gr. laganna, og eftir atvikum öðrum tekjum en launatekjum, sbr. 38. gr. fyrrnefndra laga. Í 16. gr. laganna kemur fram sú meginregla að afdráttur staðgreiðslu á hverju greiðslutímabili miðist við þau laun sem greidd séu fyrir það, enda fari útborgun fram eigi síðar en 14 dögum eftir lok þess. Dragist greiðsla lengur skal miða afdrátt við það tímabil þegar uppgjörið fer fram. Í tilviki kæranda fór uppgjör launa vegna febrúar til og með ágúst 1991 ekki að neinu leyti fram á tekjuárinu. Að þessu virtu og með vísan til eðlis staðgreiðslu, sbr. að framan, þykir ekki fá staðist að fjárhæð tilfærðrar staðgreiðslu af launum, sem eigi ber að tekjufæra á skattframtali vegna viðkomandi árs vegna þeirra atvika er að framan greinir, komi til frádráttar álögðum tekjuskatti og útsvari, sbr. 34.-36. gr. nefndra laga. Verður því talið að leiðrétta beri fjárhæð á skrá þeirri er um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 45/1987 til lækkunar um 441.446 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Tekjuskattsstofn lækkar um 1.554.526 kr. og afdregin staðgreiðsla lækkar um 441.446 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja