Úrskurður yfirskattanefndar

  • Fyrnanleg eign
  • Álag

Úrskurður nr. 86/1995

Gjaldár 1991 og 1992

Lög nr. 75/1981, 32. gr., 106. gr. 2. mgr.  

Yfirskattanefnd taldi að þegar litið væri til starfsemi kæranda, sem rak apótek, og þarfar slíks rekstrar almennt fyrir fólksbifreið yrði ekki fallist á það sjónarmið hans að um fyrnanlega eign væri að ræða. Álagsbeiting skattstjóra var felld niður.

I.

Málavextir eru þeir að í kjölfar bréfaskipta endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárin 1991 og 1992, sbr. tilkynningu þar um, dags. 20. apríl 1993. Skattstjóri felldi niður eða lækkaði tilgreinda gjaldaliði samkvæmt skattframtali um samtals 1.983.480 kr. vegna ársins 1990 og um 815.756 kr. vegna ársins 1991. Auk þess bætti skattstjóri 25% álagi á hækkun gjaldstofna, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í kæruúrskurði skattstjóra, dags. 30. nóvember 1993, féllst skattstjóri á að lækka viðbótartekjur um 18.377 kr. vegna ársins 1990 og um 190.089 kr. vegna ársins 1991. Breytingar skattstjóra á skattframtölum kæranda, sem mótmælt er í kæru til yfirskattanefndar, dags. 7. desember 1993, eru þessar:

Skattstjóri lækkaði gjaldaliðinn „afskriftir“ í rekstrarreikningi ársins 1990 úr 2.789.704 kr. í 1.463.363 kr. eða sem nam almennri fyrningu fólksbifreiðar, 349.996 kr., og sérstakri fyrningu sömu fólksbifreiðar á móti tekjufærslu fjárfestingarsjóðs, 976.345 kr. Skattstjóri féllst ekki á að umrædd fólksbifreið, sem var af gerðinni Pajero Long Super, væri eingöngu til nota í atvinnurekstri kæranda. Slík fyrning sem hér um ræddi teldist ekki vera rekstrarkostnaður í skilningi 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og leiðbeiningar sem kæmu fram á baksíðu eyðublaðsins (RSK 4.03). Varðandi sérstaka fyrningu vegna fjárfestingarsjóðs vísaði skattstjóri til ákvæða 55. gr. laga nr. 75/1981, en þar kæmu fram takmarkanir á sérstökum fyrningum vegna úttektar af fjárfestingarsjóði. Ekki yrði séð að kærandi hefði á árinu 1990 uppfyllt skilyrði sem þar kæmu fram. Jafnframt og af sömu ástæðum færði skattstjóri fyrningu á móti tekjufærðum söluhagnaði, sem kærandi hefði fært á fólksbifreið að fjárhæð 773.634 kr., á fasteign kæranda að L-götu. Þá eignfærði skattstjóri umrædda fólksbifreið í reit 10.5 á skattframtali kæranda árin 1991 og 1992 á kaupverði bifreiðarinnar, 2.333.305 kr. Varðandi kostnað af bifreiðinni í atvinnurekstri kæranda féllst skattstjóri á gjaldfærslu hans að fjárhæð 385.753 kr. árið 1990 og 457.281 kr. árið 1991. Af hálfu kæranda er því haldið fram að umrædd bifreið sé einungis notuð við atvinnurekstur sinn, rekstur apóteks. Kærandi eigi aðra bifreið sem hann noti í einkaerindum.

Í kæru sinni til yfirskattanefndar, dags. 7. desember 1993, fer kærandi fram á að ekki verði beitt álagi á þær breytingar sem gerðar hafi verið á skattframtölum hans. Varðandi álagsbeitingu vísaði skattstjóri til 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þar segði að væru annmarkar á skattframtali eða einstakir liðir ranglega fram taldir mætti skattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna. Nánar rökstuddi skattstjóri álagsbeitingu svo í kæruúrskurði:

„Rekstursreikningar með framtölum kæranda vegna áðurnefndra gjaldára eru haldnir þeim annmörkum að ekki verður á þeim byggð rétt álagning gjalda. Leiddu þeir til þess, að tekjur kæranda voru vantaldar, svo sem lýst er í áðurgreindri endurákvörðun skattstjóra. Við þessa vantöldu stofna var í hinni kærðu endurákvörðun bætt 25% álagi.

Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skal (aðeins) fella niður álag á gjaldstofna, ef skattaðili færir rök að því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða óviðráðanleg atvik hafi hamlað réttum skilum.

Ekki verður á það fallist að fyrrgreindir gallar á framtölum hafi verið kæranda óviðráðanlegir og var beiting álags því í fullu samræmi við tilvitnuð ákvæði.

Með vísan til framanritaðs er ekki fallist á að þær ástæður séu fyrir hendi að falla beri frá beitingu 25% álags á vantalda gjaldstofna sbr. tilvitnað ákvæði.“

Með bréfi, dags. 15. apríl 1994, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda gert þá kröfu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Um 1. tölul.: Þegar litið er til þeirrar starfsemi sem kærandi hefur með höndum og þarfar slíks rekstrar almennt fyrir slíkar bifreiðar, sem hér er um að ræða, verður að ætla að bifreið kæranda sé að töluverðu leyti notuð til einkaþarfa hans. Er því fallist á það með skattstjóra að eigi geti hér verið um fyrnanlega eign að ræða eftir 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með þessum athugasemdum þykir bera að staðfesta breytingar skattstjóra varðandi eignfærslu bifreiðar og niðurfellingu fyrninga í ársreikningi 1990 og 1991. Ekki hefur skattstjóri gert neinn reka að því að krefja kæranda um greinargerð um rekstur ökutækis (RSK 4.03), þar sem fram kæmi skipting aksturs í þágu atvinnurekstrar og í eigin þágu kæranda. Hefur skattstjóri látið allan rekstrarkostnað bifreiðarinnar RV-628 standa óhaggaðan á rekstrarreikningum viðkomandi ára, að fyrningum frátöldum, en fellt niður kostnað vegna annarra bifreiða. Eigi eru þessar ákvarðanir skattstjóra svo markvissar sem skyldi. Að virtum heildarbifreiðakostnaði kæranda gjaldárin 1991 og 1992, svo sem hann stendur eftir breytingar skattstjóra, verður þó látið við svo búið sitja.

Um 2. tölul.: Eftir atvikum þykir eigi tilefni til beitingar álags samkvæmt heimildarákvæðum 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Breyting skattstjóra varðandi eignfærslu og fyrningu bifreiðar er staðfest. Álag fellur niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja