Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Bifreiðakostnaður
  • Vinnustaður

Úrskurður nr. 95/1995

Gjaldár 1990 og 1991

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul.  

Kærandi, sem hafði með höndum sjálfstæða starfsemi við rafsuðu, vann aðallega fyrir hitaveitu nokkra við nýlagnir og viðgerðir hitaveitulagna. Fallist var á að kostnaður kæranda vegna aksturs milli heimilis hans og hinna ýmsu staða á starfssvæði hitaveitunnar, þar sem kærandi sinnti verkefnum sínum, væri frádráttarbær rekstrarkostnaður.

I.

Kærð er breyting skattstjóra að lækka gjaldfærðan bifreiðakostnað í rekstrarreikningi ársins 1989 úr 497.100 kr. í 370.100 kr. og í rekstrarreikningi ársins 1990 úr 469.511 kr. í 380.511 kr.

Málavextir eru þeir að kærandi starfar sem sjálfstæður verktaki við rafsuðu. Í ársreikningi ársins 1989 eignfærði hann bifreiðina ..., sem er af gerðinni Jeep Comanche Custom árgerð 1986, og fyrndi hana almennri fyrningu 45.154 kr. og sérstakri fyrningu 507.146 kr., en eftir stóð bókfært verð hennar í niðurlagsverði 73.640 kr. Þá færði hann í rekstrarreikningum þess árs og ársins 1990 fyrrgreindan bifreiðakostnað. Með bréfi, dags. 10. mars 1992, krafði skattstjóri kæranda m.a. um ítarlegar skýringar á akstri í þágu atvinnurekstrarins, svo sem um helstu aksturstilefni, tíðni akstursferða og vegalengdir á helstu akstursleiðum og skýringar á því hvers vegna kærandi reiknaði sér ekki einkaafnot af bifreiðinni. Benti skattstjóri kæranda á að allur akstur milli heimilis og vinnustaðar teldist til eigin nota og krafði hann um útreikning á slíkum akstri. Í bréfi, dags. 26. mars 1992, greindi kærandi frá því að hann hefði að langmestum hluta starfað sem verktaki við rafsuðu hjá hitaveitu X og væri vinnusvæði hans allar þær byggðir sem dreifikerfi hitaveitunnar næði til … og fælist vinna hans í rafsuðu á nýlögnum og viðgerðum. Þyrfti hann þar af leiðandi að fara á milli margra byggðakjarna sama daginn. Kvaðst hann engin einkanot hafa af bifreiðinni þar sem bifreiðageymsla sín væri notuð sem verkstæði, en þar geymdi hann öll tæki og verkfæri sem tilheyrðu rekstrinum. Kvaðst hann leggja af stað til vinnu frá verkstæði sínu en ekki heimili. Með bréfum, dags. 7. september 1992 og 1. febrúar 1993, boðaði skattstjóri kæranda m.a. lækkun gjaldfærslu bifreiðakostnaðar í rekstrarreikningum umrædd ár. Féllst hann ekki á að kærandi hefði engin einkanot af bifreiðinni. Kvað hann allan akstur til starfsstaða kæranda vera akstur í eigin þágu, jafnvel þótt staðirnir væru breytilegir hverju sinni og þótt bifreiðageymsla kæranda væri notuð að einhverju leyti í þágu rekstrarins vegna viðgerða eða sem geymsla. Umboðsmaður kæranda mótmælti boðuðum breytingum með bréfum, dags. 4. október 1992 og 12. febrúar 1993. Greindi hann frá því að kærandi ætti tvær bifreiðar, umrædda virðisaukaskattsbifreið sem væri jeppabifreið með yfirbyggðum palli og notaði hann hana einvörðungu vegna starfseminnar, en hann flytti í bifreiðinni rafsuðuvélar, gaskúta og önnur verkfæri. Hin bifreiðin væri fólksbifreið sem eiginkona kæranda notaði aðallega en hún stundaði vinnu í Reykjavík. Auk vinnu sinnar seldi kærandi út akstur bifreiðarinnar og væri allur akstur til og frá starfsstöð hans útseldur akstur og gæti því ekki talist vera í eigin þágu. Kvað umboðsmaðurinn kæranda myndu setja virðisaukaskattsnúmer á bifreiðina strax og þau númer yrðu tekin í notkun. Með bréfi, dags. 5. apríl 1993, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði hrundið í framkvæmd boðuðum breytingum og endurákvarðað opinber gjöld kæranda gjaldárin 1990 og 1991 í samræmi við það. Kvað hann engu breyta þó um útseldan akstur væri að ræða milli heimilis og starfsstaða. Slíkur akstur teldist samkvæmt eðli málsins í eigin þágu og væri ekki frádráttarbær. Í framhaldi af mótmælum umboðsmanns kæranda í kæru, dags. 14. apríl 1993, staðfesti skattstjóri ákvörðun sína með kæruúrskurði, dags. 16. ágúst 1993.        

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 10. september 1993. Eru áður framkomnar skýringar og röksemdir áréttaðar auk þess sem greint er frá því að vinnutíma kæranda ljúki ekki fyrr en hann hafi komið tækjum sínum fyrir í bifreiðageymslunni og oft á tíðum bíði hans þar verkefni við viðhald tækja og fleira. Telur umboðsmaðurinn ljóst að ekki hefði verið deilt um umræddan bifreiðakostnað hefði kærandi leigt aðstöðu undir reksturinn í bæjarfélagi sínu og gengið til og frá leiguhúsnæðinu í stað þess að hann hafi af hagkvæmnisástæðum nýtt eigin bifreiðageymslu undir reksturinn.

Með bréfi, dags. 17. desember 1993, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Hin kærða breyting er á því byggð að akstur milli þeirrar aðstöðu er kærandi kveðst hafa í bifreiðageymslu að L-götu fyrir verkstæði og til geymslu tækja og verkfæra og hinna ýmsu staða vegna rafsuðu á nýlögnum og viðgerðum fyrir hitaveitu X sé akstur milli heimils og starfsstaða, er teljist í eigin þágu kæranda. Með hliðsjón af vinnuaðstæðum kæranda verður ekki fallist á það með skattstjóra og ríkisskattstjóra að þessi akstur skuli ótvírætt teljast akstur í eigin þágu kæranda. Kærandi hefur í skattframtölum sínum 1990 og 1991 talið umrædda bifreið vera fyrnanlega atvinnurekstrareign og er það óvefengt að skattstjóra hálfu. Í málinu liggur fyrir staðfesting frá hitaveitu X um greiðslu fyrir akstursafnot nefndrar bifreiðar kæranda. Að því virtu sem að framan er rakið þykir bera að taka kröfu kæranda til greina.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja