Úrskurður yfirskattanefndar
- Frádráttur á móti ökutækjastyrk
Úrskurður nr. 113/1995
Gjaldár 1992
Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul. (brl. nr. 92/1987, 2. gr.) Skattmat fyrir tekjuárið 1991
Skattstjóri felldi að miklu leyti niður frádrátt á móti ökutækjastyrk í skattframtali kæranda árið 1992, en féllst þó á frádrátt vegna áætlaðs 2.000 km aksturs í þágu vinnuveitanda. Yfirskattanefnd féllst á það með kæranda að honum bæri frádráttur vegna aksturs á milli vinnustaða í þágu vinnuveitanda. Á hinn bóginn var talið að kærandi hefði ekki gert nægilega skilmerkilega grein fyrir akstri í þágu vinnuveitanda, svo sem skattstjóri krafði hann um, en kærandi hefði ekki lagt fram neinar tölulegar upplýsingar um einstakar akstursferðir og tíðni þeirra. Þótti kærandi ekki hafa sýnt fram á að honum bæri frádráttur vegna meiri aksturs en skattstjóri hefði þegar fallist á.
I.
Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 2. desember 1993, sbr. greinargerð, dags. 23. mars 1994, er kærð breyting skattstjóra að lækka frádrátt á móti jafnháum ökutækjastyrk úr 216.928 kr. í 40.376 kr. á skattframtali kæranda 1992.
Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 14. febrúar 1993, krafði skattstjóri kæranda, sem gegndi embætti prófessors við læknadeild Háskóla Íslands og starfi forstöðumanns á ... Landspítala ..., um gögn er lægju til grundvallar sundurliðun rekstrarkostnaðar bifreiðar samkvæmt ökutækjaskýrslu (RSK 3.04) er fylgdi skattframtali hans 1992, auk þess að kærandi legði fram tölulega og rökstudda greinargerð um akstur í þágu vinnuveitanda, um helstu aksturstilefni, tíðni akstursferða, hvort um reglubundinn akstur væri að ræða, vegalengdir á helstu akstursleiðum og annað er kærandi teldi skipta máli til staðfestingar tilgreindum frádrætti á móti ökutækjastyrk. Í framhaldi af því boðaði skattstjóri með bréfi, dags. 29. mars 1993, niðurfellingu frádráttarins á þeim forsendum að kærandi hefði ekki svarað fyrirspurn sinni. Með bréfi, dags. 5. maí 1993, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði hrundið í framkvæmd boðaðri breytingu og endurákvarðað opinber gjöld hans gjaldárið 1992 í samræmi við það. Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingum skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 31. maí 1993. Kvað umboðsmaðurinn mat fjármálaráðuneytisins og Læknafélagsins á akstursþörf í þágu Landspítalans fyrir utan akstur á milli heimilis og vinnustaðar nema 8.000 km á ári. Væri ökutækjastyrkurinn greiddur til þeirra sem gegndu reglulegum gæsluvöktum og einnig til þeirra sem ynnu á fleiri en einum stað hjá sama vinnuveitanda, svo og þeirra er sinntu sérstökum útköllum, enda þótt þeir væru ekki á bakvöktum. Gilti það sama um alla yfirlækna, þar sem útkallsskylda væri hluti af stjórnunarábyrgð þeirra. Ætti allt þetta við kæranda og væri greiðsla fyrir 8.000 km mjög varlega reiknuð. Með kæruúrskurði, dags. 3. nóvember 1993, kvað skattstjóri ljóst að einhver akstur félli til í þágu vinnuveitanda og féllst á að áætla kæranda sem svaraði 2.000 km akstri í þágu vinnuveitanda, eða sem svaraði 40.396 kr. til frádráttar. Kvað hann koma fram í bréfi umboðsmannsins að akstursþörf kæranda hefði verið grundvölluð á samningi fjármálaráðuneytis og Læknafélagsins. Vitnaði skattstjóri til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 68/1992, en samkvæmt honum teldist allur akstur vegna bakvakta og útkalla akstur milli heimilis og vinnustaðar og ekki skipti máli hvaðan væri lagt af stað né hvert væri ekið að vinnu lokinni. Akstur frá einum vinnustað til annars teldist jafnframt akstur í eigin þágu.
Með greinargerð umboðsmannsins til yfirskattanefndar, dags. 23. mars 1994, fylgir staðfesting starfsmannastjóra Ríkisspítalanna um akstur kæranda í þeirra þágu. Jafnframt fylgir greinargerð kæranda, dags. 23. mars 1994. ... Kveðst hann eiga tvær bifreiðar og hafi önnur þeirra verið notuð af eiginkonu sinni og fjölskyldu. Hefði Landspítalinn verið eini vinnustaðurinn væri fullvíst að ein bifreið hefði fullnægt þörfum sínum og annarra fjölskyldumeðlima. Hafi afnot sín af annarri bifreiðinni að langmestu leyti verið vegna starfsins sem hafi verið mjög víðtækt; stjórnun, kennsla, rannsóknir, nefndarstörf og ráðgjöf. Vinnustaðir hafi verið ákveðnir, beint eða óbeint, af vinnuveitanda, þ.e. Háskóla Íslands og Ríkisspítölunum og verið dreifðir víðsvegar um borgina. Er nánar greint frá þeim stöðum í greinargerðinni og í staðfestingu vinnuveitanda. Kveður kærandi ljóst að hann hafi þurft að hafa ótakmörkuð umráð yfir bifreið til að geta sinnt umræddum störfum. Kveður hann akstur sinn vegna þessara starfa hafa numið 10 til 12 þúsund km á ári. ... Þá hafi kærandi ekki unnið að lækningastörfum annarsstaðar, svo sem við eigin læknastofu.
Með bréfi, dags. 2. september 1994, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
II.
Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eru útgjöld að hámarki móttekinni fjárhæð ökutækjastyrkja frádráttarbær, enda sé sannað að um sé að ræða kostnað vegna ferða í þágu atvinnurekanda og að þau séu í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Breyting skattstjóra er staðfest að því er varðar frádrátt vegna aksturs milli heimilis og vinnustaðar, sbr. matsreglur ríkisskattstjóra sem birtar voru í 8. tbl. Lögbirtingarblaðs 1992. Fallist er á frádrátt kostnaðar við akstur milli vinnustaða í þágu ríkisspítala. Kærandi þykir ekki hafa gert nægilega skilmerkilega grein fyrir akstri í þágu vinnuveitanda svo sem skattstjóri krafði hann um, en engar tölulegar upplýsingar um einstakar akstursferðir og tíðni þeirra hafa verið lagðar fram af hálfu kæranda. Skattstjóri áætlaði kæranda frádrátt vegna 2.000 km aksturs. Að virtum fyrirliggjandi skýringum þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að honum beri frádráttur vegna meiri aksturs en skattstjóri hefur þegar fallist á. Er kröfu kæranda því hafnað. Rétt þykir að leiðrétta frádráttarfjárhæð miðað við 2.000 km og verður frádráttur í reit 32 53.340 kr.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda er hafnað. Frádráttur í reit 32 verður 53.340 kr.