Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Álag

Úrskurður nr. 125/1995

Gjaldár 1991 og 1992

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul., 52. gr. 1. tölul., 106. gr. 2. mgr.  

Talið var að félagsgjald til Félags löggiltra endurskoðenda gæti eftir gildandi reglum við álagningu opinberra gjalda gjaldárin 1991 og 1992 ekki talist til rekstrarkostnaðar í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Jafnframt var synjað gjaldfærslu félagsgjalds til Félags viðskipta- og hagfræðinga. Úrskurður skattstjóra var staðfestur um að kostnaður við jólagjafir til starfsmanna væri ekki frádráttarbær. Þá var ekki talið unnt að meta kostnað vegna afmælisgjafar til forstöðumanns viðskiptavinar kæranda til risnukostnaðar. Álag var fellt niður.

I.

Málavextir eru þeir að í framhaldi af fyrirspurn, dags. 7. desember 1992, og í kjölfar bréfaskipta, endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárin 1991 og 1992, sbr. tilkynningu, dags. 20. apríl 1993, og kæruúrskurð, dags. 8. nóvember 1993. Lutu breytingar skattstjóra að eftirfarandi atriðum:

1. Skattstjóri felldi gjaldaliðinn félagsgjöld að fjárhæð 38.500 kr. af rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1991, sem fylgdi skattframtali hans árið 1992. Sami gjaldaliður að fjárhæð 33.000 kr. var felldur af rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1990, sem fylgdi skattframtali kæranda árið 1991. Forsendur skattstjóra voru þær að umrædd gjöld væru ekki rekstrarkostnaður í skilningi 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem annars vegar væri um að ræða félagsgjöld til Félags löggiltra endurskoðenda (35.000 kr. gjaldárið 1992 og 33.000 kr. gjaldárið 1991) og hins vegar félagsgjöld til Félags viðskipta- og hagfræðinga (3.500 kr. gjaldárið 1992). Vísaði skattstjóri máli sínu til stuðnings til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 392/1986, að því er varðaði gjöld til Félags löggiltra endurskoðenda. Þá tók hann fram að ekki væri skylduaðild að félaginu og ekki væri um það að ræða félagið væri eingöngu atvinnurekendafélag. Að auki taldi skattstjóri það styðja niðurstöðu sína að þarna væri ekki um að ræða greiðslu á einu félagsgjaldi vegna kæranda, heldur mörg félagsgjöld vegna starfsmanna kæranda.

2. Skattstjóri lækkaði gjaldaliðinn fundakostnaður og risna 71.210 kr. í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1991 um 11.530 kr. Sami gjaldaliður í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1990 að fjárhæð 80.563 kr. var lækkaður um 10.306 kr. Forsendur skattstjóra voru þær að kærandi hefði ekki sýnt fram á að um væri að ræða réttmætan rekstrarkostnað, sbr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og h-lið 27. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Umræddir gjaldaliðir væru gjafir og hvort sem þær væru til viðskiptavina eða starfsmanna gætu þær ekki talist frádráttarbær rekstrarkostnaður, sbr. 1. tölul. 52. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

3. Beitt var 25% álagi á vantalda gjaldstofna, eða 23.334 kr., skv. heimild í 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Kærandi hefur mótmælt nefndum breytingum skattstjóra, sbr. kæru til yfirskattanefndar, dags. 16. nóvember 1993, og til skattstjóra, dags. 12. maí 1993. Gerir hann þá kröfu að úrskurði skattstjóra verði hnekkt. Af hálfu kæranda er eftirfarandi komið fram:

1. Varðandi gjaldaliðinn félagsgjöld vísar kærandi til fyrirliggjandi greinargerðar stjórnar Félags löggiltra endurskoðenda til stuðnings því að umræddan gjaldalið beri að telja frádráttarbæran rekstrarkostnað skv. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Telur kærandi upp fjölmörg atriði í starfsemi félagsins og kveður ljóst af þeirri upptalningu að félagið sinni margskonar þjónustu fyrir félagsmenn sem greitt sé fyrir með greiðslu félags- og þjónustugjalda.

2. Varðandi gjaldaliðinn fundakostnaður og risna bendir kærandi á að sá kostnaður sé til kominn annars vegar vegna víns og konfekts sem starfsmönnum hafi verið gefið í jólagjöf og hins vegar vegna afmælisgjafar á árinu 1991 að fjárhæð 3.990 kr. til forstöðumanns góðs viðskiptavinar í tilefni af stórafmæli hans. Kveður kærandi þennan kostnað vera eðlilegan hluta risnukostnaðar í atvinnurekstri. Verið sé að þakka starfsfólki fyrir vel unnin störf og að því er afmælisgjöfina varðar búi m.a. viðskiptaleg sjónarmið að baki, þ.e. að þakka viðkomandi fyrir gott samstarf.

3. Varðandi álagsbeitingu kveður kærandi skattstjóra ganga allt of langt í beitingu þess úrræðis þar sem 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sé heimildarákvæði en ekki skylduákvæði. Telur kærandi skattstjóra beita ákvæðinu eins og um skyldu sé að ræða.

Með bréfi, dags. 11. febrúar 1994, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda í málinu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsenda hans.

II.

Um 1. kærulið. Í greinargerð stjórnar Félags löggiltra endurskoðenda, dags. 13. apríl 1993, um frádráttarbærni félagsgjalda til félagsins, er liggur fyrir yfirskattanefnd, er m.a. gerð grein fyrir lögum nr. 67/1976, um löggilta endurskoðendur, samþykktum félagsins, og starfsemi þess að öðru leyti. Kemur þar einnig fram að Félag löggiltra endurskoðenda er félag allra löggiltra endurskoðenda, sjálfstætt starfandi sem annarra. Af greinargerð þessari eða öðrum málsgögnum verður ekki séð að félagið sinni sérstaklega hagsmunagæslu fyrir þá félagsmenn er hafa með höndum atvinnurekstur eða að það sinni sérstaklega öðrum sameiginlegum þörfum þeirra sem rekstraraðila. Kemur eigi annað fram en að allir félagsmenn greiði sama árgjald, hvort sem um er að ræða rekstraraðila eða launþega. Að þessu virtu verður að telja að umrædd félagsgjöld geti eftir gildandi reglum við álagningu opinberra gjalda gjaldárin 1991 og 1992 ekki talist til rekstrarkostnaðar í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. einnig niðurstöðu úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 392/1986 sem birtur var í úrskurðarhefti nefndarinnar fyrir árin 1986-1989. Kröfu kæranda er því synjað varðandi gjaldfærslu félagsgjalds til Félags löggiltra endurskoðenda.

Kærandi þykir eigi hafa sýnt fram á að umrædd félagsgjöld til Félags viðskipta- og hagfræðinga séu í þeim tengslum við sjálfstæða starfsemi hans eða honum nauðsynleg við tekjuöflun á þann hátt að þau geti talist rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er kröfu kæranda um þetta kæruatriði því synjað.

Um 2. kærulið: Úrskurður skattstjóra er staðfestur með vísan til 1. tölul. 52. gr. laga nr. 75/1981 varðandi gjafir til starfsmanna. Þá verður eigi talið að unnt sé að meta kostnað við afmælisgjöf, sem í málinu greinir, til risnukostnaðar. Kröfu kæranda er því hafnað um þetta kæruatriði.

Um 3. kærulið: Eftir atvikum þykir rétt að fella hið kærða álag niður.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda er hafnað að öðru leyti en því að álag fellur niður.

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja