Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðstöðugjald
  • Kæra sveitarfélags

Úrskurður nr. 136/1995

Gjaldár 1993

Lög nr. 73/1980, 37. gr., 40. gr.  

Sveitarfélag gerði kröfu um álagningu aðstöðugjalds á verktakafyrirtæki (A sf.) á þeim grundvelli að það hefði haft með höndum aðstöðugjaldsskylda starfsemi, þ.e. tiltekna mannvirkjagerð, í sveitarfélaginu á árinu 1992. Upplýst var að A sf. hefði hagað uppgjöri vegna framkvæmdanna í samræmi við verklokaaðferð og liti svo á að framkvæmdunum væri ekki lokið í árslok 1992. Í úrskurði yfirskattanefndar sagði að skattyfirvöld hefðu ekki gert ágreining um þetta við A sf. Þar sem kærandi hefði ekki sýnt fram á að A sf. hefði lokið umræddum framkvæmd á árinu 1992 þótti rétt að vísa kæru sveitarfélagsins frá yfirskattanefnd að svo stöddu.

I.

Málavextir eru þeir að við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1993 var A sf. ekki gert að greiða aðstöðugjald til E-bæjar. Með kæru til skattstjóra Austurlands, dags. 30. ágúst 1992, krafðist E-bær aðstöðugjalds m.a. vegna framkvæmda þessa gjaldanda við mannvirkið X á árinu 1992. Skattstjóri framsendi skattstjóranum í Reykjavík kæruna til afgreiðslu.

Þann 6. desember 1993 kvað skattstjórinn í Reykjavík upp kæruúrskurð í máli þessu og hafnaði kröfum kæranda. Voru forsendur hans þær að samkvæmt greinargerð A sf. um aðstöðugjaldsstofn hefði framkvæmdum félagsins við X verið ólokið í árslok 1992 og því ekki um aðstöðugjaldsskyldu að ræða vegna þeirra gjaldárið 1993.

Umboðsmaður E-bæjar hefur skotið kæruúrskurði þessum til yfirskattanefndar með kæru, dags. 5. janúar 1994. Rökstuðningur kærunnar barst með bréfi, dags. 5. maí 1994. Telur kærandi að A sf. hafi lokið verklegum framkvæmdum við X haustið 1992 og þá haldið á brott með búnað sinn. Engum verkþáttum hafi verið ólokið af hálfu A sf. í árslok 1992 og því ekki grundvöllur til að telja verki ólokið við aðstöðugjaldsuppgjör. Kveðst kærandi hafa óskað staðfestingar ríkisstofnunarinnar Y á verklokum A sf. og uppgjöri við félagið, en svar hafi ekki borist. Óskað er heimildar til að koma því svari að um leið og það berist. Ítrekuð er krafa um að kostnaður A sf. vegna X verði talinn mynda stofn til útreiknings aðstöðugjalds gjaldárið 1993 þar sem verkinu hafi í raun verið lokið.

II.

Með bréfi, dags. 18. nóvember 1994, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Forsendur skattstjóra eru þær að A sf. hafi í framtalsskilum sínum gengið út frá því að starfsemi félagsins við X verði ekki aðstöðugjaldsskyld fyrr en við lok framkvæmda, þ.e. notuð er svokölluð verklokaaðferð. Framkvæmdum við X hafi verið ólokið í árslok 1992 og því skuli ekki leggja aðstöðugjald á félagið álagningarárið 1993.

Kærandi byggir hins vegar á því að verkinu hafi verið lokið í árslok 1992 og því beri að leggja aðstöðugjald á félagið 1993 og þá á allan rekstrarkostnað vegna verksins, líka þann sem í raun hafi fallið til á fyrri árum en þá verið eignfærður í samræmi við verklokaaðferðina. Í bréfi sem móttekið var af yfirskattanefnd 5. maí 1994 í framhaldi af bráðabirgðakæru, er boðuð framlagning staðfestingar Y varðandi verklok A sf. Hjálagt fylgdi afrit af bréfi sem sent var Y þann 6. janúar 1994.

Að mati ríkisskattstjóra ræðst niðurstaða þessa máls af því hvort framkvæmdum hafi verið lokið í árslok 1992. Sama sjónarmið hefur komið fram bæði hjá skattstjóra og kæranda. Vegna þessa hafði ríkisskattstjóri símleiðis samband við lögmann kæranda þann 19. september 1994. Óskað var eftir því að lögð yrðu fram boðuð gögn varðandi verklokin. Tók umboðsmaðurinn vel í þessa ósk.

Samkvæmt bókum ríkisskattstjóra hafa ekki borist nein frekari gögn frá kæranda þrátt fyrir að sérstaklega hafi verið skorað á hann að leggja þetta fram. Að mati ríkisskattstjóra verður kærandi að bera af þessu hallann og verður því að telja að framkvæmdum A sf. við X hafi verið ólokið í árslok 1992 og framtalsskil félagsins því eðlileg.

Við skoðun á framtalsgögnum A sf. gjaldárið 1994 kemur í ljós að verkið mun hafa verið tekjufært á rekstrarreikningi 1993.

Gerð er krafa um að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

III.

Með bréfi, dags. 23. nóvember 1994, gaf yfirskattanefnd kæranda kost á að tjá sig um þau atriði í kröfugerð ríkisskattstjóra er hann teldi ástæðu til og leggja fram gögn til skýringar. Engin viðbótargögn eða -rökstuðningur hefur borist af því tilefni.

IV.

A sf. hefur miðað skattskil sín gjaldárið 1993 við að framkvæmdum við gerð X hafi ekki verið lokið í árslok 1992, sbr. það sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra. Skattyfirvöld hafa ekki gert ágreining um það og miðað álagningu opinberra gjalda við að svo hafi verið. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að A sf. hafi lokið framkvæmdum við umrætt verk á árinu 1992. Þykir rétt að vísa kæru þessari frá yfirskattanefnd að svo stöddu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd.

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja