Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 385/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða II   Reglugerð nr. 76/1988 — 2. gr.  

Húsnæðisbætur — Íbúðarhúsnæði — Íbúðareign — Fyrsta íbúðarhúsnæði — Fyrri íbúðareign — Arfur — Arfsráðstöfun — Lögskýring

Málavextir eru þeir, að kærandi sótti um húsnæðisbætur til skattstjóra árið 1988 og fékk synjun vegna eignarhalds á íbúð að X, Reykjavík. Ákvörðun skattstjóra var kærð til hans með kæru, dags. 24. ágúst 1988. Fram kom, að kærandi hefði fengið arf ásamt fjórum systkinum sínum. Festu þau kaup á 2ja herbergja íbúð fyrir andvirði arfsins árið 1978. Að sögn keyptu systkinin síðan hlut kæranda í íbúðinni árið 1985. Sama ár keypti hann íbúð með maka og er sú íbúð eign hans í dag. Með úrskurði, dags. 28. desember 1988, ítrekaði skattstjóri synjun sína um húsnæðisbætur til kæranda. Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 76/1988, með síðari breytingum, teldist maður hafa eignast sitt fyrsta húsnæði, ef hann hefði átt 10% hluta í því í tvö ár eða lengur á síðastliðnum 10 árum. Upplýst væri eftir framlögðum gögnum að kærandi hefði átt 1/5 hluta í íbúð frá 11. maí 1978 til 8. apríl 1987.

Úrskurði skattstjóra hefur verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 21. febrúar 1989. Að sögn kæranda kemur fram í úrskurði skattstjóra að svokölluð 10% regla sé látin gilda án þess að höfð sé hliðsjón af því, á hvern hátt eignarhlutur kæranda í greindri íbúð sé tilkominn. Vísar kærandi til framlagðra gagna máli sínu til stuðnings. Jafnframt megi ljóst vera, að fjárfesting í íbúð hafi á sínum tíma verið verndarráðstöfun á arfinum. Telja verði, að synjun skattstjóra sé ósanngjörn að virtum málsatvikum og þeirri þröngu túlkun viðkomandi reglugerðar sem viðhöfð sé.

Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 9. nóvember 1989, er á þá leið að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eins og sérstaklega stendur á í máli þessu þykir mega fallast á það með kæranda að honum beri réttur til húsnæðisbóta.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja