Úrskurður yfirskattanefndar

  • Stóðhestur
  • Fyrnanleg eign

Úrskurður nr. 141/1995

Gjaldár 1992

Lög nr. 75/1981, 32. gr. 4. tölul., 38. gr. 7. tölul., 73. gr.  

Talið var að samningur, sem eftir orðan sinni kvað á um kaup kærenda á einum hlut af sextíu í stóðhesti, fæli eingöngu í sér kaup á rétti til að halda einni hryssu á ári undir stóðhestinn. Þar sem fyrir lægi að þessi réttindi myndu nýtast kærendum til tekjuöflunar á fleiri árum en kaupári var talið að um fyrnanlega eign væri að ræða sem eignfæra bæri og fyrna í skattskilum kærenda.

I.

Málavextir eru þeir að á landbúnaðarskýrslu með skattframtali kærenda árið 1992 var eignarhluti í stóðhesti gjaldfærður með 100.000 kr. Samkvæmt greinargerð um eignabreytingar í búrekstri hafðu kærendur keypt 1/60 hluta úr tilgreindum stóðhesti fyrir 124.500 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Með bréfi, dags. 12. júní 1992, óskaði skattstjóri m.a. eftir rökstuðningi kærenda fyrir gjaldfærslu eignarhlutans þar sem keypt búfé bæri að færa á matsverði í uppgjöri. Í svarbréfi umboðsmanns kærenda, dags. 6. ágúst 1992, kom fram að kærendur hefðu keypt einn hlut af 60 í rekstrarfélagi um nefndan stóðhest. Um væri að ræða rétt til að halda einni hryssu undir hvert sumar. Ekki væri um eiginleg kaup að ræða á hestinum, t.d. myndu kærendur aldrei hafa hestinn í sinni umsjá eða annast fóðrun og hirðingu. Í raun mætti líta á kaup þessi sem folatoll greiddan einu sinni.

Með bréfi, dags. 21. október 1992, boðaði skattstjóri kærendum að fyrirhugað væri að fella úr rekstrargjöldum kaupverð á hluta stóðhests 100.000 kr. en færa í þess stað 1/60 hluta matsverðs 571 kr. og eignfæra sömu fjárhæð. Voru forsendur hans þær að lagaheimild brysti til að gjaldfæra búfé á kaupverði. Í bréfi, dags. 5. nóvember 1992, mótmælti umboðsmaður kærenda boðaðri breytingu með svohljóðandi rökstuðningi:

„Eins og fram kom í bréfi undirritaðs dags. 6. ágúst sl. keypti framteljandi 1 hlut af 60 í rekstrarfélagi um stóðhestinn X. Ekki var um að ræða eiginlega eign í hestinum heldur rétt til að setja til hans hryssur næstu ár. Hér er því um að ræða folatoll greiddan einu sinni. Í 2. mgr. 74. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt segir: „Búpening skal telja til eignar svo sem hann væri framgenginn að vori næst á eftir með verði sem ríkisskattstjóri ákveður til eins árs í senn.“ Á landbúnaðarframtali er gert ráð fyrir að framteljendur tilgreini fjölda gripa og í þessu tilfelli er fráleitt að eignfæra 1/60 hluta úr hesti á kr. 571 þegar fyrir liggur að rétturinn til að nota hestinn er keyptur á kr. 100.000 auk vsk. Væri þessi réttur framseldur öðrum aðila svo sem samþykktir „hestsins X“ mæla fyrir um, t.d. fyrir kr. 100.000, yrðu skattaleg áhrif framteljandans væntanlega þau að hann fengi tekjufærðan mismun á söluverði og matsverði á 1/60 hluta úr hesti. Með vísan til framanritaðs er þess hér með óskað að kaupverðið, kr. 100.000 standi óbreytt sem rekstrarkostnaður í landbúnaðarframtali.“

Skattstjóri hratt boðaðri breytingu í framkvæmd með bréfi, dags. 12. júlí 1993. Hafnaði hann rökum kærenda og vísaði í því sambandi til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 48 frá 18. febrúar 1991, en þar kæmi fram að gjaldfærsla á kaupverði búfjár væri ekki í samræmi við ákvæði 3. tölul. B-liðar 17. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, og því ekki lagaheimild fyrir slíkri færslu.

Umboðsmaður kærenda mótmælti gerðum breytingum með kæru til skattstjóra, dags. 12. ágúst 1993. Svo sem fram hefði komið í bréfi umboðsmanns, dags. 5. nóvember 1992, væri ekki um að ræða kaup á hluta stóðhestsins heldur á rétti til að setja til hans hryssur næstu ár. Því ætti eignfærsla á 1/60 hluta hestsins ekki við í þessu sambandi.

Skattstjóri hafnaði kröfum kærenda með kæruúrskurði dags. 27. september 1993. Voru forsendur hans að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum frá seljanda hestsins hefði verið um að ræða sölu á hesti. Hafnaði hann því að gjaldfæra mætti kaupverðið sem greiddan folatoll.

Með kæru til yfirskattanefndar hefur umboðsmaður kærenda farið fram á að litið verði á umþrætta greiðslu sem fyrirframgreiddan folatoll en ekki kaup á 1/60 hluta úr hesti.

Með bréfi, dags. 23. desember 1993, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

Meðal málsgagna er samningur um viðskipti þau sem í málinu greinir, dags. 30. apríl 1991. Kemur fram í honum að kærendur kaupi einn hlut af sextíu í stóðhestinum X. Er tekið fram að einn hlutur jafngildi rétti til að halda einni hryssu á ári undir hestinn. Kaupverð skal greiðast að 9/10 hlutum með skuldabréfi til þriggja og hálfs árs. Er það ákvæði í samningnum að standi kaupandi ekki í skilum með afborganir af bréfinu noti seljandi hestinn þar til greiðsla berist. Þá er tekið fram að drepist hesturinn fyrir 15. september 1993, falli síðustu tvær afborganir skuldabréfsins niður. Síðasta greiðsla falli niður drepist hesturinn fyrir 15. september 1994. Þegar þessi ákvæði eru virt verður fallist á það með kærendum að gerningur aðila felur ekki í sér samning um kaup á hestinum. Verður ekki annað séð en hið keypta felist eingöngu í rétti til að halda einni hryssu á ári undir stóðhestinn.

Fyrir liggur að réttindi þessi munu nýtast kærendum til tekjuöflunar á fleiri árum en kaupári. Verður því talið að færa beri þau til eignar í árslok 1991, sbr. 73. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá þykir bera að játa því að um fyrnanlega eign sé að ræða og verður hún eftir eðli sínu helst felld undir 4. tölul. 32. gr. laga nr. 75/1981. Til gjalda færist því 20% fyrning, sbr. 7. tölul. 38. gr. sömu laga.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Til gjalda á skattframtali 1992 færist 20% fyrning 20.000 kr. og til eignar 80.000 kr. eftirstöðvar fyrningarverðs.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja