Úrskurður yfirskattanefndar

  • Teknategund
  • Aukaverk presta
  • Rekstrarkostnaður

Úrskurður nr. 239/1995

Gjaldár 1994

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul. og B-liður, 30. gr. 2. mgr., 31. gr. 1. tölul.   Lög nr. 36/1931, 1. gr.  

Deilt var um heimild kæranda, sem var sóknarprestur, til að færa kostnað á móti tekjum af aukaverkum. Í úrskurði yfirskattanefndar var vísað til þess að kærandi hefði fengið greiddan embættiskostnað á grundvelli reglna þar um. Þegar litið væri til reglna þessara og laga sem þær byggðu á, svo og að því virtu að samkvæmt eðli sínu yrði að telja tekjur af aukaverkum standa næst launatekjum, yrði að álíta að kostnaði kæranda vegna embættisskrifstofu hans hefði verið mætt með umræddum greiðslum og að ekki kæmi til frádráttar kostnaður umfram það frá embættistekjum hans.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests gjaldárið 1994 og sætti því áætlun skattstjóra á gjaldstofnum við álagningu opinberra gjalda það ár. Skattframtal kæranda barst skattstjóra hinn 13. júlí 1994 og tók skattstjóri það sem kæru, sbr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtalinu fylgdi rekstraryfirlit þar sem taldar voru til tekna 79.300 kr. frá Kirkjugörðum Reykjavíkur, 125.000 kr. vegna ýmissa prestsstarfa og 7.365 kr. frá Vátryggingafélagi Íslands vegna vátryggingarsölu. Til gjalda voru færðar 213.168 kr., sundurliðað í bækur og tímarit, ritföng, tölvu- og hugbúnaðarkostnað, akstur, rekstur bifreiðar, síma og tryggingar. Með kæruúrskurði, dags. 15. ágúst 1994, féllst skattstjóri á að leggja framtalið til grundvallar álagningu með þeirri breytingu að hann færði aukatekjur vegna prestsstarfa 204.300 kr. til tekna í reit 21 á framtalinu þar sem aukatekjur prests teldust til tekna skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en ekki skv. B-lið sömu lagagreinar. Frá þessum tekjum leyfðist því ekki frádráttur, hvorki skv. 2. mgr. 30. gr. né 31. gr. laga nr. 75/1981. Endurgreiddur embættiskostnaður teldist ekki til tekna. Litið væri svo á að kostnaður á móti tekjum frá Vátryggingafélagi Íslands næmi sömu fjárhæð og tekjurnar og væri yfirfæranlegt rekstrartap því ekkert.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 14. september 1994. Mótmælir hann túlkun skattstjóra og telur eðlilegra að fella aukatekjur prests undir 4. tölul. B-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem aukastörf prests séu yfirleitt annars eðlis en hefðbundin störf þeirra. Þannig séu barnaskírnir, jarðarfarir og kistulagnir oft annars staðar en í viðkomandi sóknarkirkju. Beinn kostnaður sé við öflun þessara tekna svo sem rekstrarkostnaður bifreiðar, símakostnaður o.þ.h. Tekur umboðsmaðurinn fram að greiddur embættiskostnaður sé ekki talinn til tekna og að skattstjóri geri ekki athugasemd við þá framsetningu, enda líti kærandi svo á að sú greiðsla sé til að mæta kostnaði við skrifstofuhald á heimili, þ.e. endurgjald fyrir hlutdeild í orkukostnaði og viðhaldi húsgagna, enda sé sá kostnaður ekki færður til frádráttar.

Með bréfi, dags. 7. október 1994, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

Ágreiningur máls þessa snýst um það hvort kæranda sé heimill frádráttur þeirra gjaldaliða sem tilgreindir eru á rekstrarreikningi á móti greiðslum tekjufærðum á reikningnum. Greiðsla frá Vátryggingafélagi Íslands er sögð vera vegna sölu vátryggingar. Telja verður að til álita komi frádráttur beins kostnaðar á móti greiðslu þessari, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri hefur fallist á frádrátt vegna kostnaðar sem nemur sömu fjárhæð og tilgreindar tekjur og er ekki ágreiningur um það atriði.

Eftir stendur þá að taka afstöðu til þess hvort og þá að hve miklu leyti kærandi eigi rétt til frádráttar þeirra gjaldaliða sem hann færði á rekstrarreikning á móti þar greindum tekjum af prestverkum 204.300 kr. Samkvæmt launauppgjöf hefur kæranda verið greiddur úr ríkissjóði skrifstofukostnaður 84.187 kr., póstkostnaður 12.273 kr. og símakostnaður 20.053 kr. eða alls 116.513 kr. Þessar greiðslur hefur skattstjóri látið mæta rekstrargjöldum en synjað um frádrátt frekari kostnaðar. Í lögum nr. 36/1931, um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, er mælt fyrir um greiðslu ferða- og skrifstofukostnaðar sóknarpresta vegna embætta þeirra svo sem nánar greinir í lögunum. Með hliðsjón af lögum þessum hefur dóms- og kirkjumálaráðuneytið sett reglur um greiðslu embættiskostnaðar presta og prófasta. Þær reglur, sem giltu árið 1993, voru settar 15. júní 1989 og giltu frá 1. febrúar 1989 til fimm ára. Reglur þær, sem hér greinir, hafa verið settar í samráði við fjármálaráðuneytið, Biskup Íslands og Prestafélag Íslands. Reglurnar skilgreina og sundurliða embættiskostnað presta og prófasta og kveða á um greiðslufjárhæðir og greiðslutilhögun. Þegar litið er til reglna þessara og nefndra laga og það er virt að samkvæmt eðli sínu verður að telja tekjur af aukaverkum standa næst launatekjum, verður að álíta að kostnaði kæranda vegna embættisskrifstofu hans hafi verið mætt með þeim endurgreiðslum sem í málinu greinir og að ekki komi til frádráttar kostnaður umfram það frá embættistekjum hans.

Samkvæmt framansögðu er kröfum kæranda hafnað og koma umræddar tekjur að fjárhæð 204.300 kr. til skattlagningar að fullu í samræmi við úrskurð skattstjóra.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja