Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Skattskyld velta
  • Uppsláttarrit

Úrskurður nr. 470/1995

Virðisaukaskattur 1990, 1991, 1992 og 1993

Lög nr. 50/1988, 12. gr. 1. mgr. 10. tölul. (brl. nr. 119/1989, 6. gr.)  

Uppsláttarrit í bókarformi með upplýsingum, sem voru að langmestu leyti á íslenskri tungu, var talið „bók á íslenskri tungu“ í skilningi undanþáguákvæðis virðisaukaskattslaga, þótt texti ritsins væri ekki samfelldur í meginmáli.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi gefur út ritið X. Í framhaldi af bréfaskiptum tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 7. janúar 1994, um endurákvörðun virðisaukaskatts vegna allra uppgjörstímabila frá 1. september 1990 til 30. júní 1993. Kvað skattstjóri komið í ljós að kærandi hefði vantalið virðisaukaskattsskylda veltu sem nam lausasölu X. Ekki væri fallist á það sjónarmið kæranda að sala ritsins væri undanþegin skattskyldri veltu skv. 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Væri um undanþáguákvæði að ræða sem túlka bæri þröngt og í ljósi tilgangs ákvæðisins svo sem hann kæmi fram í lögskýringargögnum. Vitnaði skattstjóri í því sambandi til framsöguræðu fjármálaráðherra á Alþingi er hann mælti fyrir frumvarpi því er varð að lögum nr. 119/1989. Þá kæmi fram í leiðbeiningum ríkisskattstjóra að undanþáguákvæðið tæki ekki til rita sem væru að meginefni skrár eða listar en ekki samfelldur texti. Skattstjóri staðfesti ákvörðun sína með kæruúrskurði, dags. 10. mars 1994, að því frátöldu að hann ákvarðaði skattverð sem 80,32% af heildarendurgjaldi kæranda vegna sölu ritsins.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 16. mars 1994. Telur hann ótvírætt af orðalagi 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 að X falli undir ákvæðið. Er aðalkrafa hans að endurákvörðun skattstjóra verði hnekkt, en til vara að álag verði fellt niður.

Með bréfi, dags. 17. febrúar 1995, hefur ríkisskattstjóri f.h. gjaldkrefjanda gert þá kröfu í málinu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Samkvæmt 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. d-lið 6. gr. laga nr. 119/1989, var „sala bóka á íslenskri tungu jafnt frumsaminna sem þýddra“ undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu. Undanþáguákvæði þetta gilti frá 1. september 1990 og þar til skattlagning á sölu bóka á íslenskri tungu kom til framkvæmda 1. júlí 1993 með 14% skatthlutfalli, sbr. breytingar á lögum um virðisaukaskatt með VII. kafla laga nr. 111/1992, um breytingar í skattamálum. Ekki er í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 119/1989 að finna neinar skýringar varðandi efni þess undanþáguákvæðis sem varð að 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga. Fram kemur í ræðu fjármálaráðherra, er hann mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi, að tillaga um undanþágu þessa byggðist á menningarsjónarmiðum og væri ætlað að stuðla að varðveislu íslenskrar tungu. Virðist hér gerð grein fyrir ástæðu þess að undanþágan var einskorðuð við sölu bóka á íslenskri tungu en ekki látin taka til bóka á erlendum tungumálum. Nánari ákvæði um undanþáguákvæði í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 hafa ekki verið sett með reglugerð, sbr. heimild ráðherra þar að lútandi í 2. mgr. sömu lagagreinar. Verður að leggja orðalag og almennan málskilning til grundvallar við skýringu 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. og þykir í þeim efnum fyrst og fremst verða að líta til efnis viðkomandi rits og þess búnings sem því er gefinn af hálfu útgefanda.

Ritið X er uppsláttarrit í bókarformi um fyrirtæki, félög og stofnanir á Íslandi og hefur verið gefið út árlega um nokkurt skeið. Útgáfur áranna 1990, 1991, 1992 og 1993 liggja fyrir í máli þessu. Ritin hafa að meginefni að geyma ýmsar upplýsingar, að langmestu leyti á íslenskri tungu, um hérlend fyrirtæki, félög og stofnanir, flokkað með samræmdum hætti í nokkrar skrár, svo sem fyrirtækjaskrá, vöru- og þjónustuskrá, umboðaskrá og útflytjendaskrá. Að sönnu er texti ritsins ekki samfelldur í meginmáli, en það atriði virðist skattstjóri telja hafa úrslitaþýðingu við úrlausn um skýringu undanþáguákvæðis 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga að því er X varðar, og styðst í þeim efnum við túlkun ríkisskattstjóra sem fram kemur m.a. í bréfi til allra skattstjóra og fleiri aðila, dags. 11. júní 1991. Svo er ekki heldur um ýmis rit sem eftir þessum leiðbeiningum ríkisskattstjóra teljast til bóka samkvæmt nefndu ákvæði, svo sem landkynningarbækur, landabréfabækur og orðabækur. Ekki verður dregið í efa að ritið X telst „bók á íslenskri tungu“ í skilningi 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þótt áðurgreind ummæli í framsöguræðu fjármálaráðherra varðandi menningarsjónarmið að baki undanþáguákvæði 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 bendi til þrengingar á efnissviði ákvæðisins, miðað við hið víðtæka orðalag þess, þykir ekki unnt af þeirri ástæðu að skýra ákvæðið kæranda í óhag. Ekki verður heldur talið óyggjandi að með „frumsaminni bók“ sé átt við meiri eða annarskonar úrvinnslu en þá sem er á bók kæranda. Verður því að telja rit kæranda frumsamda bók á íslenskri tungu í skilningi ákvæðisins.

Með vísan til framanritaðs er aðalkrafa kæranda tekin til greina.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á aðalkröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja