Úrskurður yfirskattanefndar
- Skattsekt
- Skattrannsókn
- Áætlun tekna
Úrskurður nr. 500/1995
Gjaldár 1993
Virðisaukaskattur 1992 og 1993
Lög nr. 75/1981, 107. gr. 1. mgr. (brl. nr. 42/1995, 1. gr.) Lög nr. 50/1988, 40. gr. 1. mgr. (brl. nr. 42/1995, 3. gr.) Lög nr. 45/1987, 19. gr., 30. gr. (brl. nr. 42/1995, 2. gr.) Lög nr. 113/1990, 11. gr.
Í úrskurði yfirskattanefndar vegna kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins um ákvörðun skattsektar á hendur A kom fram að fullsannað þætti að A hefði m.a. vanrækt að telja fram tekjur á skattframtali sínu árið 1993 og vanrækt skil á virðisaukaskatti svo að refsiábyrgð varðaði samkvæmt skattalögum. Í úrskurðinum var fundið að því að ríkisskattstjóri hefði við endurákvarðanir sínar á opinberum gjöldum og virðisaukaskatti A ekki gætt samræmis í ákvörðunum sínum um tekjuviðbót á skattframtali og um endurákvörðun virðisaukaskatts. Við ákvörðun sektar A var m.a. tekið tillit til þess að skattákvarðanir ríkisskattstjóra hefðu verið með framangreindum hætti.
I.
Með bréfi, dags. 13. desember 1994, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A. Í því bréfi er svofelld greinargerð:
„Málavextir eru þeir að þann 12. maí 1993 hófst rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á bókhaldi, tekjuskráningu og virðisaukaskattsskilum skattaðila rekstrarárið 1992 og mánuðina janúar til og með ágúst rekstrarárið 1993, svo og á ársreikningi skattaðila vegna rekstrarársins 1992 og skattframtali hans gjaldárið 1993. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins lauk með skýrslu, dagsettri 12. nóvember 1993 og fylgir sú skýrsla með bréfi þessu.
Í meðfylgjandi skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins kemur m.a. fram að starfsemi skattaðila hafi á því rekstrartímabili sem skýrslan nær til falist í innflutningi og sölu raftækja, þ.e. sjónvarpa, hljómtækja, o.þ.h. undir firmanafninu X og kaupum og sölu á sjávarafurðum undir firmanafninu Y, óskráðu fyrirtæki.
Við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á starfsemi skattaðila framangreint rekstrartímabil hafi bókhaldsgögn vegna reksturs hans ekki fengist afhent nema að mjög litlum hluta. Ekkert fært bókhald eða bókhaldsgögn hafi verið afhent vegna reksturs skattaðila undir firmaheitinu Y og einungis bókhaldsfærslur og gögn að hluta vegna reksturs skattaðila undir firmaheitinu X. Vörslu bókhaldsgagna skattaðila vegna rekstrar hans hafi því verið verulega áfátt.
Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi leitt í ljós, að skráningu rekstrartekna skattaðila umrætt rekstrartímabil hafi verið stórlega áfátt, svo sem ítarlega er rakið í skýrslunni. Rekstrartekjur í ársreikningi skattaðila með skattframtali gjaldársins 1993, vegna rekstrarársins 1992 hafi verið tilgreindar kr. 5.083.737 og einungis vegna sölu frá X. Miðað við fyrirliggjandi sölugögn hefði skattskyld velta skattaðila numið kr. 6.860.181 rekstrarárið 1992, en ljóst væri að um mikla vöntun gagna væri að ræða vegna reksturs skattaðila undir firmaheitinu X, auk þess sem litlar upplýsingar lægju fyrir vegna reksturs skattaðila undir firmaheitinu Y og væri þess rekstrarþáttar að engu getið í ársreikning skattaðila vegna rekstrarársins 1992. Þá væru vörukaup skattaðila í ársreikningi hans með skattframtali gjaldársins 1993, vegna rekstrarársins 1992, verulega vantalin, en þau eru tilgreind kr. 4.726.348. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi leitt í ljós að vörukaup skattaðila vegna X rekstrarárið 1992 hefðu numið kr. 10.110.615 án virðisaukaskatts, en engin gögn lægju fyrir um vörukaup skattaðila vegna Y rekstrarárið 1992, utan einn reikningur frá þar tilgreindu fyrirtæki að fjárhæð kr. 183.015 með virðisaukaskatti. Engar vörutalningabækur hafi verið lagðar fram af hálfu skattaðila.
Þá kemur og fram í skýrslunni, að rannsókn á virðisaukaskattsskilum skattaðila vegna umrædds rekstrartímabils hafi leitt í ljós, að skattaðili hafi einungis staðið skil á einni virðisaukaskattsskýrslu sem tilgreindi skattskylda veltu vegna rekstrar hans, en það hafi verið virðisaukaskattsskýrsla fyrir uppgjörstímabilið júlí - ágúst 1992, þar sem skattskyld velta hafi verið tilgreind kr. 385.011 og útskattur kr. 94.328. Innskattur væri hins vegar tilgreindur á þeirri skýrslu að fjárhæð kr. 168.338. Mismuninn, kr. 74.010 hafi skattaðili fengið út greiddan. Skattaðili virðist ennfremur hafa staðið skil á tveimur virðisaukaskattsskýrslum til viðbótar, en það hafi verið virðisaukaskattsskýrslur fyrir uppgjörstímabilin mars - apríl og maí - júní 1992, en báðar þær skýrslur eru hins vegar svokallaðar „núllskýrslur“, þar sem skattskyld velta er tilgreind kr. 0. Skattstjórinn í Reykjavík hafi hins vegar áætlað skattaðila skattskylda veltu vegna uppgjörstímabilanna frá og með september 1992 til og með júní 1993. Miðað við fyrirliggjandi sölugögn hefði skattskyld velta skattaðila numið kr. 9.844.628 rekstrarárið 1992, en ljóst væri að um mikla vöntun gagna væri að ræða vegna reksturs skattaðila undir firmaheitinu X, auk þess sem litlar upplýsingar lægju fyrir vegna reksturs skattaðila undir firmaheitinu Y. Ljóst væri því að skattaðili hefði vantalið virðisaukaskattsskylda veltu sína og þar með útskatt verulega á því rekstrartímabili sem rannsókn skattrannsóknarstjóra næði til.
Loks kemur fram í skýrslunni, að skattaðili vanrækti að tilkynna sig á launagreiðendaskrá og stóð ekki skil á staðgreiðslu opinberra gjalda af launamönnum sínum þau greiðslutímabil sem rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins nær til, en um hafi verið að ræða sjö launamenn, fyrir utan skattaðila sjálfan. Engin þau gögn hefðu hins vegar legið fyrir við rannsóknina sem gætu staðreynt þær launafjárhæðir sem um hefði verið að ræða.
Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dagsettu 18. nóvember 1993, var skýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins send ríkisskattstjóra til endurákvörðunar skatta á grundvelli 6. mgr. 102. gr. A laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt og 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 19. og 57. gr. laga nr. 111/1992 um breytingar í skattamálum.
Með bréfi ríkisskattstjóra, dagsettu 16. desember 1993, var skýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins send skattaðila. Í bréfinu boðaði ríkisskattstjóri skattaðila endurskoðun skattskila hans fyrir þau rekstrartímabil sem skýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins nær til. Fyrirhugað væri að áætla skattaðila skattskylda veltu fyrir tekjuárið 1992 og mánuðina janúar til og með ágúst 1993 til viðbótar áður framtalinni veltu og hækka virðisaukaskatt til samræmis við þá áætlun að viðbættu álagi, sbr. 27. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með síðari breytingum. Jafnframt væri fyrirhugað að áætla skattaðila viðbótargjaldstofna opinberra gjalda gjaldársins 1992 (sic) og hækka áður álögð opinber gjöld fyrir það gjaldár í samræmi við þá áætlun að teknu tilliti til álags, sbr. 106. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum. Þá væri einnig fyrirhugað að ákvarða skattaðila reiknað endurgjald til skilaskyldrar staðgreiðslu og ákvarða vangreitt tryggingagjald í samræmi við athugasemdir sem fram kæmu í skýrslunni og að gera aðrar þær breytingar á álagningu sem þörf væri á vegna ársins 1992 og mánuðanna janúar til og með ágúst 1993. Skattaðila var gefinn kostur á að kynna sér efni skýrslunnar og gera við hana og fyrirhugaðar skattbreytingar skriflegar athugasemdir, teldi hann ástæðu til, og veittur frestur í 14 daga frá dagsetningu bréfs ríkisskattstjóra í því skyni.
Engar athugasemdir bárust frá skattaðilanum og var skýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins því óvéfengd. Var skýrslan lögð til grundvallar úrskurðum ríkisskattstjóra í málinu, uppkveðnum þann 9. mars 1994, þó þannig að ríkisskattstjóri áætlaði skattaðila hækkun tekna og skattskyldrar veltu sökum óreiðu á bókhaldi og tekjuskráningu. Úrskurðir ríkisskattstjóra í málinu eru eftirfarandi; mál nr. … að því er varðaði endurákvörðun opinberra gjalda skattaðila, mál nr. … að því er varðaði virðisaukaskatt, mál nr. … að því er varðaði endurákvörðun á tryggingagjaldi og mál nr. … að því er varðaði endurákvörðun á skilaskyldri staðgreiðslu opinberra gjalda skattaðila, ásamt álagi. Þar að auki tók ríkisskattstjóri til endurákvörðunar í tengslum við framangreint barnabótaauka ..., eiginkonu skattaðila, varðandi tekjuárið 1992, gjaldárið 1993, mál nr. ...
Hækkun tekna skattaðilans samkvæmt áætlun í úrskurði ríkisskattstjóra, máli nr. …, nam kr. 2.000.000 og að viðbættu við 25% álagi vegna vantalinna tekna, sbr. 106. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignaskatt, nam hækkun tekna skattaðila kr. 2.500.000. Hækkun tekjuskatts skattaðilans samkvæmt framangreindum úrskurði ríkisskattstjóra nam kr. 472.844 og hækkun útsvars kr. 167.500, eða samtals kr. 640.344. Skattaafsláttur til greiðslu útsvars skattaðila var lækkaður um kr. 14.400 og barnabótaauki lækkaður um kr. 123.996.
Skattaðila var ennfremur í úrskurði ríkisskattstjóra, máli nr. …, gert að sæta kr. 9.048.669 hækkun á virðisaukaskatti til greiðslu vegna rekstrarársins 1991. Auk þess var skattaðila ákvarðað 20% álag, samtals kr. 1.809.731. Hækkun virðisaukaskatts til greiðslu að meðtöldu álagi nam því samtals kr. 10.858.400.
Skattaðila var í úrskurði ríkisskattstjóra, máli nr. …, ákvarðað lágmarks reiknað endurgjald vegna tekjuársins 1992 í samræmi við flokk C1 í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra, kr. 1.360.476, en skattaðili hafði ekki ákvarðað sér reiknað endurgjald vegna tekjuársins 1992. Skattaðila var í samræmi við þann úrskurð ákvarðað tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald, kr. 84.122, í úrskurði ríkisskattstjóra, máli nr. ... Þá var skattaðila í þeim sama úrskurði áætlaður stofn til ákvörðunar tryggingagjalds vegna greiddra launa á því gjaldári, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald, kr. 5.000.000 og nam tryggingagjald af þeim stofni kr. 309.162. Samtals var skattaðila því gert að sæta kr. 393.284 hækkun á tryggingargjaldi.
Skattaðila var loks í úrskurði ríkisskattstjóra, máli nr. …, gert að sæta greiðslu álags á vangreidda skilaskylda staðgreiðslu opinberra gjalda af reiknuðu endurgjaldi ársins 1992, samkvæmt 1. og 2. tl. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, kr. 19.405.
Skattaðili undi þessum úrskurðum ríkisskattstjóra og kærði ekki álagðar breytingar. Skattendurákvörðunarþætti máls þessa er því lokið.
Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að skattaðili hefur ekki fært tilskyldar bókhaldsbækur vegna sjálfstæðrar starfsemi sinnar rekstrarárið 1992 og janúar til og ágúst rekstrarárið 1993 og að vörslu bókhaldsgagna hans vegna þess rekstrartímabils hefur verið verulega ábótavant. Þannig hafa við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á starfsemi skattaðila framangreint rekstrartímabil ekki fengist afhent bókhaldsgögn vegna reksturs skattaðila nema að mjög litlum hluta. Ekkert fært bókhald eða bókhaldsgögn hefur verið afhent vegna reksturs skattaðila undir firmaheitinu Y og einungis bókhaldsfærslur og gögn að hluta vegna reksturs skattaðila undir firmaheitinu X. Ljóst er að á skráningu tekna skattaðila hafa verið miklir annmarkar, svo sem ítarlega er rakið í meðfylgjandi skýrslu. Skattaðili hefur vantalið rekstrartekjur í ársreikningi vegna rekstrarársins 1992 og tekjur á skattframtali gjaldársins 1993 og á sama hátt vantalið virðisaukaskattsskylda veltu sína og virðisaukaskatt (útskatt). Hefur ríkisskattstjóri vegna þessa, á grundvelli skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins og þess sem þar er rakið um rannsókn málsins og eðli þess, áætlað skattaðilanum hækkun tekna um kr. 2.000.000 fyrir utan álag og virðisaukaskatt til greiðslu um kr. 9.048.669 fyrir utan álag. Hefur skattaðili og vantalið rekstrargjöld í ársreikningi vegna rekstrarársins 1992 með skattframtali gjaldársins 1993. Þá hefur skattaðili vanrækt að tilkynna sig á launagreiðendaskrá og stóð ekki skil á staðgreiðslu opinberra gjalda af launamönnum sínum þau greiðslutímabil sem framangreind skýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins nær til, en hjá skattaðila virðast hafa starfað á þeim tíma sjö launamenn, fyrir utan skattaðila sjálfan, en skattaðili reiknaði sjálfum sér heldur ekki endurgjald. Engin þau gögn lágu hins vegar fyrir við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins sem gátu staðreynt þær launafjárhæðir sem um var að ræða. Hefur ríkisskattstjóri vegna þessa, á grundvelli skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins og þess sem þar er rakið um rannsókn málsins og eðli þess, ákvarðað skattaðila lágmarks reiknað endurgjald vegna tekjuársins 1992 í samræmi við flokk C1 í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra, kr. 1.360.476, tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald, kr. 84.122, og áætlað skattaðila stofn til ákvörðunar tryggingagjalds vegna greiddra launa, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald, kr. 5.000.000. Nam tryggingagjald af þeim stofni kr. 309.162. Samtals var skattaðila því gert að sæta kr. 393.284 hækkun á tryggingargjaldi.
Telja verður háttsemi skattaðila brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 91. gr., sbr. B. lið 7. gr., 2. mgr. 29. gr. og 31. gr., og 92. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, 1. mgr. 15. gr., 1. mgr. 16. gr., 17. gr., 1. og 4. mgr. 18. gr., 1., 5., 6. og 7. mgr. 20. gr. og 1., 2. og 5. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 529/1989 um framtal og skil á virðisaukaskatti, 1. og 2. mgr. 1. gr., 2. gr., 1. mgr. 3. gr., 4. gr., 8. gr., 11. gr., 12. gr., 16. gr., 1. mgr. 17. gr., 20. gr., 3. mgr. 21. gr., 22. gr., 1. - 3. mgr. 23. gr., 1. mgr. 24. gr., 25. gr., 30. gr., 31. gr. og 32. gr. þágildandi reglugerðar nr. 501/1989 um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, 1. og 2. mgr. 1. gr., 2. gr., 1. mgr. 3. gr., 8. gr., 11. - 14. gr., 18. gr., 1. mgr. 19. gr., 1. mgr. 22. gr., 24. gr., 1. - 3. mgr. 25. gr. og 32. gr. reglugerðar nr. 50/1993 um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, 15. gr., 1. mgr. 16. gr., 1. mgr. 19. gr. og 1. og 2. mgr. 20. gr., sbr. 22. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, 1. gr., 2. gr., 3. gr., 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 183/1990 um skil á staðgreiðslu með áorðnum breytingum, 1. gr., 4. gr. og 5. gr. reglugerðar nr. 539/1987 um launabókhald í staðgreiðslu og 1. mgr. 1. gr., 2. mgr. 10. gr. og 1. - 3. mgr. 12. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald, allt með áorðnum breytingum. Telja verður háttsemi skattaðila varða hann sektum samkvæmt 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, 1. og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra, sbr. og 11. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald.
Með vísan til málavaxta í heild, þ.m.t. skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins og úrskurða ríkisskattstjóra, þykir skattrannsóknarstjóra ríkisins eðlilegt að skattaðila verði gert að sæta sekt fyrir brot sitt. Skattrannsóknarstjóri ríkisins gerir því þá kröfu að skattaðilanum verði gerð sekt samkvæmt áður tilvitnuðum ákvæðum 107. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, 1. og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. og 11. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald. Er þess hér með krafist að yfirskattanefnd taki mál þetta til úrskurðar samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt með áorðnum breytingum, 1. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með áorðnum breytingum, 1. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda með áorðnum breytingum, sbr. og 11. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald og 22. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. og 3. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd með áorðnum breytingum.
...“
II.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 28. desember 1994, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Var tekið fram í bréfi yfirskattanefndar að ef gjaldandi vildi eigi hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi málið, skyldi tilkynna nefndinni það skriflega í tilgreindum fresti. Engar athugasemdir hafa borist nefndinni.
III.
Krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um sektarákvörðun á hendur gjaldanda, A, er byggð á því að hann hafi vantalið tekjur á skattframtali sínu árið 1993, vantalið virðisaukaskattsskylda veltu á árunum 1992 og 1993 og eigi staðið skil skilaskyldri staðgreiðslu og tryggingagjaldi vegna sama tíma.
Rannsókn á vegum skattrannsóknarstjóra á skattskilum gjaldanda hófst hinn 12. maí 1993 og lauk með skýrslu, dags. 12. nóvember 1993. Vegna rannsóknarinnar var gjaldandi kvaddur til skýrslutöku 8. september 1993. Gjaldanda var send skýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 16. desember 1993, og var þar skorað á hann að kynna sér skýrsluna og gera athugasemdir við hana eftir því sem efni þættu til og fyrirhugaða endurákvörðun ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum hans og virðisaukaskatti auk þess að ákvarða reiknað endurgjald til skilaskyldrar staðgreiðslu og vangreitt tryggingagjald. Svar barst ekki frá gjaldanda. Þá var gjaldanda veitt færi á að koma að athugasemdum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra, en engin svör hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd, verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.
Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins var komist að þeirri niðurstöðu að gjaldandi hafi haft með höndum tvíþættan atvinnurekstur það tímabil sem skýrslan tók til. Skráningu rekstrartekna hafi verið stórlega áfátt þetta tímabil. Svo sem fram kemur í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 13. desember 1994, voru rekstrartekjur í ársreikningi skattaðila með skattframtali gjaldársins 1993, vegna rekstrarársins 1992 tilgreindar 5.083.737 kr. og einungis vegna annars rekstrarþáttarins. Vörukaup voru tilgreind 4.726.348 kr. Frásögn í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins til yfirskattanefndar, dags. 13. desember 1994, um rekstrartekjur gjaldanda á því tímabili sem mál þetta varðar ber ekki saman við niðurstöður í rannsóknarskýrslu sama embættis sem fylgdi bréfinu. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 12. nóvember 1993, er komist að þeirri niðurstöðu að virðisaukaskattsskyld velta gjaldanda rekstrarárið 1992 hafi numið 8.245.192 kr. miðað við fyrirliggjandi sölugögn og 1.599.436 kr. fyrstu átta mánuði ársins 1993, en í bréfi embættisins til yfirskattanefndar, dags. 13. desember 1994, eru fjárhæðirnar 6.860.181 kr. og 9.844.628 kr. báðar nefndar í þessu sambandi vegna rekstrarársins 1992. Framtalin velta á virðisaukaskattsskýrslum á því tímabili sem rannsókn skattrannsóknarstjóra tók til nam einungis 385.011 kr., þ.e. á skýrslu fyrir uppgjörstímabilið júlí-ágúst 1992. í skýrslunni er þess og getið að um mikla vöntun gagna væri að ræða vegna reksturs gjaldanda undir firmaheitinu X, auk þess sem litlar upplýsingar lægju fyrir vegna reksturs hans undir firmaheitinu Y og væri þess rekstrarþáttar að engu getið í ársreikningi skattaðila vegna rekstrarársins 1992. Þá væru vörukaup skattaðila í ársreikningi hans með skattframtali gjaldársins 1993, vegna rekstrarársins 1992, verulega vantalin. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hefði leitt í ljós að vörukaup gjaldanda vegna X rekstrarárið 1992 hefðu numið 10.110.615 kr. án virðisaukaskatts (12.604.632 kr. með virðisaukaskatti) og 2.221.183 kr. án virðisaukaskatts (2.712.678 kr. með virðisaukaskatti) fyrstu átta mánuði ársins 1993, hvorttveggja að mestu leyti vegna innflutnings rafvara, en engin gögn lægju fyrir um vörukaup hans vegna Y rekstrarárið 1992, utan einn reikningur frá þar tilgreindu fyrirtæki að fjárhæð 183.015 kr. með virðisaukaskatti. Það álit kemur fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra að þegar tekið sé tillit til vörukaupa vegna rafmagnsvara rekstrarárið 1992 og fyrstu átta mánuði ársins 1993 og reiknað með 100% álagningu, eins og gert sé á niðurfærslu- og samanburðarblaði með skattframtali 1993, gæti salan, án tillits til birgðabreytinga numið um 24.500.000 kr. bæði árin. Loks kemur fram í skýrslunni að gjaldandi hafi vanrækt að tilkynna sig á launagreiðendaskrá og hafi ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda af launamönnum sínum þau greiðslutímabil sem rannsóknin tók til, en um hafi verið að ræða sjö launamenn, fyrir utan gjaldanda sjálfan. Engin þau gögn hefðu hins vegar legið fyrir við rannsóknina sem gætu staðreynt þær launafjárhæðir sem um hefði verið að ræða.
Á grundvelli skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins ákvarðaði ríkisskattstjóri gjaldanda hinn 9. mars 1994 tekjuviðbót að fjárhæð 2.000.000 kr. á skattframtali 1993 að viðbættu 25% álagi skv. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og endurákvarðaði ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda til samræmis við það til hækkunar svo sem lýst er í kröfugerð skattrannsóknarstjóra. Þá ákvarðaði ríkisskattstjóri gjaldanda reiknað endurgjald vegna vinnu við eigin atvinnurekstur, en gjaldandi hafði ekki ákvarðað sér neitt endurgjald, svo og stofn til ákvörðunar tryggingagjalds vegna greiddra launa á árinu 1992, og tryggingagjald og álag vegna skilaskyldrar staðgreiðslu, svo sem lýst er í kröfugerðinni. Loks áætlaði ríkisskattstjóri gjaldanda viðbótarvirðisaukaskattsskylda veltu að fjárhæð 32.000.000 kr. rekstrarárið 1992 og 11.000.000 kr. vegna janúar-ágúst 1993. Hækkun virðisaukaskatts ársins 1992 nam 7.840.001 kr. og álag skv. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nam 1.567.999 kr. Hækkun virðisaukaskatts árið 1993 (janúar-ágúst) nam 1.208.668 kr. og álag 241.732 kr. Í endurákvörðun virðisaukaskatts lét ríkisskattstjóri innskatt gjaldanda standa óhaggaðan og tók því ekkert tillit til þess sem upplýst var í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um eigin innflutning og vörukaup gjaldanda á því tímabili sem málið varðaði og virðisaukaskatt af þeim aðföngum, sem gjaldandi greiddi að mestu leyti við tollafgreiðslu, þótt það sem upplýst var um þennan þátt málsins væri grundvöllur ályktunar um stórlega vantalda sölu á skattframtali og virðisaukaskattsskýrslum. Er ekki samræmi í ákvörðunum ríkisskattstjóra annars vegar um tekjuviðbót á skattframtali og hins vegar varðandi endurákvörðun virðisaukaskatts. Kærandi nýtti sér ekki kærurétt vegna endurákvarðana ríkisskattstjóra.
Fullsannað þykir með stoð í gögnum málsins að gjaldandi hafi vanrækt að telja fram tekjur á skattframtali sínu árið 1993 svo að refsiábyrgð varði skv. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 42/1995, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga, vanrækt skil á virðisaukaskatti árin 1992 og 1993 með þeim hætti að varði við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, vanrækt tilkynningarskyldu skv. 19. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, þannig að varði við 4. mgr. 30. gr. þeirra laga, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, vanrækt skil á staðgreiðslu opinberra gjalda á árunum 1992 og 1993 með þeim hætti að varði við 1. og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, og skil á tryggingagjaldi svo að varði við sömu lagaákvæði, sbr. 11. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Ber að ákvarða gjaldanda sekt samkvæmt þessum ákvæðum, þó þannig að gjaldanda verður ekki gerð þyngri refsing en samkvæmt gildandi lögum á þeim tíma er hann framdi brot sín, sbr. meginreglu 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun sektar ber að taka tillit til skatts af álagi skv. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, svo og álags skv. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, og 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Þá þykir bera að hafa í huga við sektarákvörðun að skattákvarðanir ríkisskattstjóra í máli gjaldanda byggjast að verulegu leyti á áætlun tekna og með þeim hætti sem að framan getur. Þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 1.300.000 kr. til ríkissjóðs og 150.000 til borgarsjóðs Reykjavíkur.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
A greiði sekt til ríkissjóðs að fjárhæð 1.300.000 kr. og 150.000 kr. til borgarsjóðs Reykjavíkur.