Úrskurður yfirskattanefndar

  • Dánarbú
  • Skattskylda

Úrskurður nr. 550/1995

Gjaldár 1994

Lög nr. 75/1981, 1. gr., 78. gr. (brl. nr. 8/1994 og nr. 117/1989), 84. gr. (brl. nr. 7/1984)   Lög nr. 83/1989, 3. gr. b-liður  

Kærandi, sem var dánarbú konu sem andaðist á árinu 1993, krafðist þess að álagður eignarskattur yrði felldur niður með vísan til þess að eignir dánarbúsins hefðu að mestu leyti verið spariskírteini ríkissjóðs sem væru eignarskattsfrjáls nema hjá aðilum í atvinnurekstri. Ekki hefði reynst unnt að ganga frá skiptum búsins fyrir áralok 1993 auk þess sem erfingjar hefðu ekki vitað af mikilvægi þess að ganga frá skiptum fyrir áramót. Í niðurstöðu yfirskattanefndar kom fram að skattskylda dánarbúsins hefði tekið við skattskyldu hinnar látnu við andlát hennar í desember 1993. Því hefði við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1994 borið að haga álagningu á dánarbúið eftir reglum sem giltu um lögaðila svo sem skattstjóri hefði gert. Var kröfu dánarbúsins því hafnað.

I.

Málavextir eru þeir að A lést 18. desember 1993. Af hálfu dánarbús hennar var talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1994. Á eignahlið framtalsins voru tilfærðar eignir að fjárhæð 3.868.443 kr. Við álagningu opinberra gjalda það ár var lagður eignarskattur á dánarbúið, 46.421 kr. Af hálfu kæranda var álagning eignarskatts kærð til skattstjóra með kæru, dags. 16. ágúst 1994, og þess krafist að álagður eignarskattur yrði felldur niður, en ekki hefði reynst unnt að ganga frá skiptum búsins fyrir áramót. Ennfremur hefðu erfingjar ekki haft vitneskju um að ganga hefði þurft frá skiptum fyrir þann tíma heldur aðeins að skiptum yrði að vera lokið innan árs. Þar sem skiptum væri lokið og tilskilin gjöld greidd var þess krafist að álagður eignarskattur yrði felldur niður. Með kæruúrskurði, dags. 11. október 1994, synjaði skattstjóri kærunni á þeirri forsendu að álagning opinberra gjalda hefði verið réttilega ákvörðuð í samræmi við ákvæði 5. tölul. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en skiptum dánarbúsins hefði ekki verið lokið fyrr en 13. apríl 1994 og því hefði það verið sjálfstæður skattaðili í árslok 1993.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 9. nóvember 1994. Eru áður framkomnar kröfur ítrekaðar. Er bent á að eignir dánarbúsins hafi að mestu leyti verið spariskírteini ríkissjóðs sem væru eignarskattsfrjáls nema hjá aðilum í atvinnurekstri, skiptaráðandi hefði veitt þær upplýsingar að skiptum búsins þyrfti aðeins að vera lokið innan árs og við skiptalok hefði erfðafjárskattur verið greiddur án nokkurs fyrirvara af hendi skiptaráðanda um eignarskattsskyldu dánarbúsins. Þá hefði verið ógerlegt að ganga frá skiptum fyrir áramót, þótt vitneskja um eignarskattsskyldu hefði legið fyrir, m.a. vegna dreifðrar búsetu erfingja.

Með bréfi, dags. 31. mars 1995, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

A lést 18. desember 1993. Við andlát lauk skattskyldu hennar og við tók skattskylda dánarbús og bar við álagningu opinberra gjalda 1994 að haga álagningu á það eftir reglum sem gilda um lögaðila, sbr. 1. og 84. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, og b-lið 3. gr. laga nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga. Í tilviki lögaðila gilda ekki ákvæði um frádrátt frá eignum vegna innstæðna í bönkum, ríkisbréfa o. fl., sbr. ákvæði 78. gr. laga nr. 75/1981. Við álagningu opinberra gjalda 1994 fylgdi skattstjóri framangreindum ákvæðum. Að svo vöxnu er kröfu kæranda hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja